Dagur kvenfélagskonunnar

Dagur kvenfélagskonunnar

Það fylgir því líka gleði að starfa í kvenfélagi, félagsskapurinn er skemmtilegur og verkefnin líka, að minnsta kosti verður erfið vinna, svo sem undirbúningur basars eða vorhátíðar skemmtileg í góðum félagsskap. Einkennandi fyrir starf kvenfélaga eru orð postulans: verið ávallt glöð í Drottni og ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum´ að minnsta kosti á það við um Kvenfélag Langholtssóknar.

Myndin sem við gerum okkur af Guði er mótuð af öllu því besta sem við þekkjum frá ástvinum okkar, feðrum, mæðrum, ömmum og öfum. Við heimfærum elsku þeirra og umhyggju á Guð sem við tilbiðjum og treystum að elski okkur. Við finnum fyrir náð Guðs sem reisir okkur upp eftir erfiðleika eða veikindi, oft fyrir orð eða verk manna sem Guð sendir okkur og á sama hátt getum við líka verið verkfæri Guðs til blessunar öðrum mönnum.

Orð Guðs - fagnaðarerindið – gerir kröfur til okkar sem játum kristna trú. Þær kröfur að sjá Jesú í hverjum manni sem við mætum og að vera Jesús hverjum þeim sem við mætum. Öll höfum við eitthvað að gefa og sem kristnum mönnum ber okkur að leggja okkar af mörkum til að búa til guðsríki hér á jörðu. Það gerum við með því að bæta nánasta samfélag okkar og taka upp hanskann fyrir þann sem hefur ekki burði til þess sjálfur. Okkur er boðið að starfa með Drottni í sköpuninni og efla aðra til þjónustu í kærleika. En við höfum ekki kraftinn til þess sjálf, hann þiggjum við frá Guði. Kraftinn sem réttir einnig okkur við þegar við erum máttvana.

Dagur kvenfélagskonunnar var í gær 1. febrúar en það er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands. Dagurinn var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar fyrir fjórum árum til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna um árabil. Þegar ég gekk í kvenfélagið hérna fyrir nokkrum árum hafði ég óljósa hugmynd um hvernig kvenfélag starfaði og það kom mér ánægjulega á óvart hvað það var gaman að vera í kvenfélagi. Þegar ég sagði öðrum frá að ég væri í kvenfélagi voru algeng viðbrögð á þessa leið: ,,Er það ekki bara fyrir gamlar konur sem hafa ekkert annað að gera?”, en eftir ég hafði sagt frá starfi kvenfélagsins hér breyttist viðhorfið í: ,,Nú og má hver sem er vera með?”

Það er líka mjög ánægjulegt að geta þess að síðustu ár hafa margar konur gengið til liðs við félagið og einnig hafa nokkur ný kvenfélög verið stofnuð hér á landi til að bæta mannlífið.

Sjálfri hefur mér þótt afskaplega gaman í starfi félagsins og hef fengið að njóta mín og fyrir það er ég þakklát. Mér þykir saga kvenfélagsins mjög áhugaverð og gerði hana að viðfangsefni í B.A. ritgerð í guðfræði.

Ég komst að því að margar kvennanna hér höfðu átt langa samleið með félaginu þótt þær sinntu fjölskyldu og vinnu og sinni enn ýmsu öðru, en finnst skemmtilegt og gefandi að taka þátt í starfi kvenfélagsins.

Tilgangur félagsins hefur alla tíð verið að styðja kristilegt safnaðarlíf, vinna að kirkju og hvers konar menningarmálum í sókninni og auka félagslíf kvenna á félagssvæðinu. Fundirnir hefjast alltaf á helgistund þar sem beðið er um að blessun fylgi starfi félagsins. Jesús er því um borð í bátnum eins og við heyrðum í guðspjallinu hér áðan.

Í mínum huga fylgjast að setningin: ,,til komi þitt ríki” og samfélag kvenfélagsins. Kvenfélagið speglar guðsríki þar sem allir eru jafnir og hafa sömu tækifæri til að blómstra og til að vinna að heill og hamingju, ekki aðeins innan kirkjunnar heldur í stærra samhengi og tengist samfélaginu öllu.

Fljótlega eftir stofnun félagsins 1953 voru stofnaðar nefndir til að annast fjáröflun, og bazar og merkjasala, kaffisala og happdrætti urðu bráðlega fastir þættir í starfsemi félagsins. Síðar fjölgaði verkefnum með tilkomu kirkjudags safnaðarins, ferðalögum, kvöldvökum og degi aldraðra og fatlaðra og að búa börn til fermingar en það er gert enn í dag. Barnastúka var stofnuð sem og áfengisvarnarnefnd með það markmið að bjóða börnum sem bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður í sumardvöl í sveit. Þannig náði starf kvenfélagsins langt út fyrir kirkjuna og inn í samfélagið þar sem þörfin var brýn. Sr. Árelíus Níelsson, fyrsti sóknarpresturinn hér, sá kvenfélagskonurnar ,,sem sanna presta, án allra prédikana, með öll fórnarstörfin og eldlegan áhuga sem allt virtist geta sigrað”.

Um tíma dróst starfið saman þvi opinberar stofnanir tóku að nokkru leyti við hlutverkum sem félagið hafði gegnt. En síðustu ár hefur félagið eflst að nýju. Bazar og vorhátíð eru helstu fjáröflunarleiðir og innkoman styrkir ekki aðeins innviði kirkjunnar, t.d. barnastarfið og viðhald hússins, heldur rennur hluti til líknarfélaga. Margir hópar eru starfandi innan félagsins, má þar nefna matgæðingahóp, skokkhóp, prjónakaffi, listahóp og nokkra fleiri. Hér hafa verið ótal ánægjustundir með kvenfélaginu og það er uppbyggjandi og gleðilegt þegar fram koma nýjar hugmyndir til eflingar mannlífi og þær framkvæmdar.

Í starfi kvenfélaga er leitast við að fylgja orðum Jesú um að elska náungann og kvenfélög hafa hlúð að minnimáttar bæði innan lands og utan. Fyrirmyndin er í Nýja testamentinu þar sem talað er um þjónustu yfir 100 sinnum. Kjarninn er í orðum Jesú þar sem hann segir: ,,[…]Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.”

Þetta viðhorf Jesú kemur einnig skýrt fram við síðustu páskamáltíð hans í Jerúsalem þar sem hann þvær fætur lærisveina sinna en allt bendir til að það hafi verið hlutverk kvenna eða ambátta og fjarri því karlmannsverk. Þannig lægir hann og auðmýkir sjálfan sig og þegar hann þvær fætur lærisveinanna horfir hann ekki á andlit þeirra og þekkir ekki hver á hvaða fætur. Þeir njóta allir hins sama af hans hendi. Hann kennir þeim á þann veg hvernig guðsríki sé, að þar þjóni hver öðrum og þannig getum einnig við þjónað hvert öðru.

Margar aðrar frásagnir um þjónustu þekkjum við vel eins og söguna um Mörtu og Maríu þegar Jesús heimsækir þær. Þar vill Marta bera allt það besta á borð fyrir gestinn og önnur frásaga er af Maríu þegar hún ákveður að nota dýr smyrsl til að bera á fætur Jesú og þerra með hári sínu.

Starf og þjónusta kvenfélaga hér á landi hefst 1869 þegar kvenfélag er stofnað að Ríp í Hegranesi í Skagafirði.

Stofnskráin tekur á hreinlæti á bæjum, vinnu barna og fræðslu kvenna og barna ásamt ýmsu öðru sem þykir sjálfsagt í dag. 25 árum síðar var stofnað Hið íslenska kvenfélag til að efla félagsskap og framfarir meðal kvenfólksins í landinu og hafin var fjársöfnun til styrktar innlendum háskóla. Segja má að kvenfélögin hafi þannig lagt línur fyrir samfélagsþróunina og stofnanir margs konar sem hafa tekið við ýmsum hlutverkum. Þó er enn brýn þörf fyrir kvenfélög og þau tengjast kirkjum og annarri starfsemi. Leiða má líkur að flestir þekki kvenfélagið Hringinn en aðalverkefni þess hefur verið uppbygging Barnaspítala Hringsins. Hlutverk kvenfélaga fyrir samfélagið er ómetanlegt. Kvenfélögin starfa í takt við boðorðið sem felur í sér öll boðorðin: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þar er kærleikurinn aðalsmerkið. Því safna kvenfélögin ekki valdi heldur dreifa því og færa von, reisa við og efla fólk.

En hvers vegna vilja konur taka þátt í starfi kvenfélaga og oft á tíðum leggja fram mikla vinnu án áþreifanlegrar umbunar. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Mörg teljum við okkur hafa notið blessunar Guðs og bænheyrslu í lífinu. ,,Guð veitir kraft hinum þreytta og þróttlausum eykur hann mátt.” Þjónustan er góður farvegur til að sýna þakklæti til Guðs í verki við náungann. Þannig getum við veitt öðrum von og orðið þeim til blessunar.

Það fylgir því líka gleði að starfa í kvenfélagi, félagsskapurinn er skemmtilegur og verkefnin líka, að minnsta kosti verður erfið vinna, svo sem undirbúningur basars eða vorhátíðar skemmtileg í góðum félagsskap. Einkennandi fyrir starf kvenfélaga eru orð postulans: verið ávallt glöð í Drottni og ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum´ að minnsta kosti á það við um Kvenfélag Langholtssóknar. Innan félagsins sitja allir við sama borð og geta komið sínum hugðarefnum á framfæri við að skapa guðsríki á jörð. Stjórnin leggur sig fram við að óska eftir frumkvæði og hugmyndum frá félagskonum um hvað sé hægt að gera til að efla starf félagsins svo það geti látið gott af sér leiða í þjónustu við fólk og samfélagið. --- Fagnaðarerindið gerir þær kröfur til okkar að sjá Jesú í hverjum manni sem við mætum og að vera Jesús hverjum þeim sem við mætum. Ég sé oft Jesú. Ég sé hann í starfi kvenfélagsins, ég sé hann að starfi í öllum sem sinna mannúðarmálum og starfa að réttlæti og jöfnuði, ég sé hann í blíðu brosi, hlýju faðmlagi og einlægri vináttu. Ég sé hann líka hér í dag í andliti þínu, sem ert hér til að biðja og lofa Guð og heyra orð hans. --- Samfylgd með Jesú þýðir að við erum aldrei ein á báti. Hann er ávallt í bátnum með okkur og lægir vindinn. Það er gott að leggja allt sitt í hendur Guðs, allar áhyggjur, sorg og vanmátt. Það leysir mann ekki undan ábyrgð en er svo óendanlega mikill léttir að vita að Guð er með manni í þjáningunni, þekkir hana, og ber byrðarnar með okkur. Upprisa Jesú þýðir að guðsríkið hefur brotist út hér á jörðu og umbreytt samfélögum. Guð gerir alla hluti nýja og Jesús býður þér að vera með sér að eilífu. --- Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.