Tvennir tímar

Tvennir tímar

Afleiðingar hrunsins sem við horfumst nú í augu við gera miklar kröfur til okkar og munu gera um ókomin ár. Þjóðin er látin axla þungar byrðar. En hér felast líka tækifæri til að endurmeta og hugsa upp á nýtt tilgang auðsins, hinna efnislegu gæða, að spyrja út í siðgæðið og forgangsröðunina sem mótar þjóðfélag okkar og menningu.

Guð gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt, og vit til að greina þar í milli. Amen

Náð sé með yður og friður frá honum sem er og var og kemur, hinum alvalda. Hann gefi oss öllum gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni!

Árið leið í aldanna skaut, örlagaár í lífi þjóðar. Nú er nýtt ár upp runnið. Og mörgum finnst sem nýir tímar blasi við.

Og þó er dagurinn í sjálfu sér líkur öðrum dögum og Ísland með sama svip og fyrr. Fjöllin eru á sínum stað, landið okkar góða og lífið í sínum skorðum. Það fæddust börn inn í þennan heim í nótt, börn sem horfa spyrjandi augum upp í ljósið og daginn. Fædd til ljóssins. Úr ljóssins heimi komin og til ljóssins heima stefnt, eins og öll börn í þessu landi, á vorri jörð.

Dagur rann úr skauti nætur með nýtt ártal, tvöþúsund og níu. Hvað merkir það? Það merkir að tvöþúsund og níu ár eru talin frá fæðingu frelsarans Jesú Krists! Hans sem sagði: „Ég er ljós heimsins!“ Og:„Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti og hinn lifandi.“ Í birtu hans er þetta nýja ártal skráð og við birtu hans fáum við að mæta því sem árið færir að höndum, sem einstaklingar og sem þjóð.

Við höfum lifað tímana tvenna.

Ég þekki ungan mann sem er hátt settur í fjármálageiranum eins og það kallast. Hann sagði við mig: „Oft óskaði ég þess þegar ég var yngri að ég væri uppi á áhugaverðum tímum. Nú sé ég eftir því að hafa óskað mér þess. Talandi um áhugaverða tíma!“ Á áramótum ber margur kvíðboga í brjósti, lítur rústir einar, vonleysi og sorta framundan. Aðrir sjá nýja tíma og tækifæri, vonarbjarma við sjónarrönd. Við skulum leitast við að koma auga á hann og stefna eftir honum! Börnin smáu, sem hér voru borin til skírnar áðan, eru vonartákn og nýrra tíma! Guð blessi þau, heimili þeirra og fjölskyldur. Já, Guð blessi öll börn í landi hér. Í hverju barni er Guð að brosa til þín og segja þér að lífið, heimurinn á sér framtíð.

En hvað gefum við þeim í vöggugjöf?

* * *

Ég var barn þegar hann pabbi minn kenndi mér þessa alkunnu, gömlu vísu:

„Margur girnist meir en þarf. Maður fór að veiða skarf, hafði fengið fjóra. Elti þann fimmta en í því hvarf ofan fyrir bjargið stóra.“

Einhverjir fóru framúr sjálfum sér, og ofan fyrir. Og við vorum dregin með sem þjóð. Ísland hefur verið á forsíðum virtustu dagblaða heimsins og því haldið fram að þjóðin hafi farið á neyslufyllerí. Nú gjöldum við dýru verði græðgi og hroka undangenginna ára, og berum þyngri skuldaklafa en nokkur önnur þjóð er bundin. Við vorum í hópi ríkustu þjóða heims og lifðum hátt. Öllu virtist vikið til hliðar nema nauðsynjum fjármagnsins, fátt virtist álitið heilagt nema rétturinn að græða.

Nú segja ýmsir þeir sem rýna í aðstæður undanfarinna missera að tveir þriðju hlutar þess fjármagns sem lánað var á heimsmarkaðnum á árinu 2007 hafi verið loftbólur einar. Loftbólur. Eða bara seld, lánuð, veðsett norðurljós? Einu sinni var hlegið að því að íslenskt skáld hefði selt útlendingum norðurljósin. Það var löngu fyrir útrásina, en þótti lýsa mikilli snilld. En þetta sama skáld, Einar Benediktsson, mælti þau heilræði sem aldrei má gleyma: „Gengið er valt, þar fé er falt, fagna skalt í hljóði. Hitt varð alltaf hundraðfalt, sem hjartað galt úr sjóði.“

Hver eru þau verðmæti sem hjartað geldur úr sjóði?

Afleiðingar hrunsins sem við horfumst nú í augu við gera miklar kröfur til okkar og munu gera um ókomin ár. Þjóðin er látin axla þungar byrðar. En hér felast líka tækifæri til að endurmeta og hugsa upp á nýtt tilgang auðsins, hinna efnislegu gæða, að spyrja út í siðgæðið og forgangsröðunina sem mótar þjóðfélag okkar og menningu. Ein mikilvægasta lexían gæti einmitt verið svarið við spurningunum: Hver var eiginlega tilgangur þessa gífurlega auðs sem við sáum vaxa án afláts og safnast á æ færri hendur? Og hvar er hugsýnin sem knýr okkur áfram nú?

Getum við sem þjóð og samfélag fundið framtíðarsýn aðra og víðari en þá að lágmarka skaðann af efnahagsfárinu? Eða verða engin sjónarmið tekin gild nema hagsmunir fjármagnsins, aflsmunir auðsins?

* * *

Svo er okkur líka mikilvægt að muna að við erum ekki ein í heiminum, Íslendingar. Við erum hluti alþjóðasamhengis, sem stundum er nefnt heimsþorpið. Ég þakka þeim mörgu sem þrátt fyrir áföll og erfiðleika hér heima hafa látið fé af hendi rakna til hjálparstarfs í fjarlægum löndum og þannig gera okkur kleyft að standa við skuldbindingar okkar gagnvart þróunarverkefnum og neyðaraðstoð meðal fólks sem býr við viðvarandi þrengingar, kreppu, óáran. Þeim megum við aldrei gleyma þó að kreppi hjá okkur um sinn. Neyð og hörmungar í fjarlægum löndum koma okkur við. Alþjóðasamfélagið stendur máttvana andspænis hörmungunum í Darfúr og Zimbabwe, sem virðast engan enda ætla að taka, þar sem lögleysið og harðýðgin vaða uppi. Sexþúsund börn eru neydd til hernaðar og ofbeldisverka í Darfúr! Og heimurinn horfir ráðþrota á. Hvers vegna fá ofbeldismennirnir einlægt að vaða uppi? Og nú tekur steininn úr með grimmdarverkunum á Gasasvæðinu, þeim skelfilega nornakatli haturs og hefnda. Við verðum öll að biðja, kalla og krefjast þess að vítahringur ofbeldisins rofni.

* * *

„Þar sem engar vitranir eru týnir fólk áttum,“ sagði Salómon konungur, gjarna talinn vitrastur allra valdhafa sögunnar. Orðskvið hans má líka þýða: „Þar sem engar hugsjónir eru glatast þjóðin.“ En svo bætir Salómon við:„En sá sem varðveitir lögmálið er sæll.“ (Orðsk. 29.18) Það er lögmálið sem Jesús dregur saman í kærleiksboðið: „Elska skaltu Drottinn, Guð þinn af öllu hjarta þínu, huga og mætti, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Og í gullnu regluna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.“ Án hugsjónar kærleikans, án umbreytandi afls umhyggjunnar, megnum við ekkert. Ef við höldum ekki í þá hugarsýn, viðmið og verðmæti hjartans, þá týnum við áttum og verðum stefnulaus reköld eigin hagsmuna, sjálflægni og sjálfsdýrkunar.

Við þurfum samstöðu, þjóðarsátt um endurreisn. Ekki Nýja Ísland hf ! Heldur endurheimt sjálfsvirðingar, sjálfsaga þjóðar er virðir og metur land sitt, sögu, tungu og menningu sem gerir okkur að þjóð meðal þjóða.

Við þurfum að endurheimta þá sameiginlegu samfélagssýn á Íslandi, sem byggir á umhyggju og þjónustu umfram allt, á virðingu og trausti, á ábyrgð og skyldu fremur en réttindum, á langtíma uppbygging samfélags fremur en skyndigróða til eigin hagsmuna fárra. Látum það móta viðhorf og stefnu, ekki síst gagnvart þeim öldruðu og sjúku, fötluðu og svo börnunum! Þau mega ekki verða fórnarlömb félagslegrar upplausnar vegna fjármálahrunsins. Láttu augu barnsins litla vera skriftaspegill þinn, spurning til þín hvað þú hefur lagt fram til góðs, til heilla öðrum, þeim sem í námunda við þig eru, samfélagi, framtíðinni.

Horfum ekki um öxl í reiði eða fram á veg með kvíða, heldur horfa í kringum okkur hér og nú í árvekni og umhyggju. Tökum öll höndum saman um að gera landið okkar betra, þjóðina sterkari til þjónustu við lífið og heiminn og jörðina, sem Guð gefur okkur.

* * *

Í einu ljóða sinna, sem út komu fyrir jól yrkir Þorsteinn frá Hamri um tímann:

„... Andvörpum ekki um tvenna tíma þótt unglingslegur umbrotaþeyr líði hjá –

því þá er það hann! í leit að nýjum, liðnum og verðandi fagnaðarfundum.“

* * *

Ég leyfi mér að deila með ykkur sögu sem ég heyrði í sumar um átjánda úlfaldann. Jú, það er saga af Bedúína nokkrum sem átti þrjá sonu og sautján úlfalda. Í erfðaskrá sinni ánafnaði hann helming úlfalda sinna elsta syninum, einn þriðja næstelsta syninum og einn níunda yngsta syninum. Svo dó faðirinn. Synirnir reyndu að fylgja fyrirmælum hans við að skipta úlföldunum milli sín. Þeir lentu í ógöngum, það er ekki auðvelt að skipta 17 úlföldum í helming, einn þriðja og einn níunda. Þeir fóru því og leituðu ráða hjá vitrum öldungi. Hann sagði: „Þetta er ekki flókið. Ég skal lána ykkur úlfaldann minn, hann verður átjándi úlfaldinn, og þá fáið þið hver um sig það sem faðir ykkar vildi.“ Og þannig varð það! Hvernig þá? Jú: Helmingurinn af 18 er 9. Þriðjungur er sex og níundi hlutinn er tveir, samtals 17. Svo tók öldungurinn úlfaldann sinn.

Vertu átjándi úlfaldinn! Það merkilega og mikilvæga við átjánda úlfaldann er að hann er boðinn fram af örlæti. Hann verður til þess að hnútar rakna og leysast, hann verður á einhvern hátt til þess að dæmi ganga upp. Heill samfélagsins snýst um annað og meir en hagfræði, arð, ávöxtun, hagvöxt. Það eru mikilvægari gildi og dýrmætari auðævi en þau sem reiknast í gengi og vísitölum, sem leggja þarf að mörkum samfélagsins ef vel á að vera.

* * *

Við fórum með æðruleysisbænina hér áðan. Æðruleysisbænina þekkja margir, hún er ótal mörgum haldreipi og leiðarsteinn í átökum við veikleika og ósigra. Bænin er mikilvægasta hlutverk kirkjunnar, hins kristna samfélags og kristinna einstaklinga. Bænin allt frá því móðirin felur barn sitt Guði í bæn þegar hún veit fyrst til þess í lífi sínu, já, og svo í öllum atvikum og aðstæðum lífsins. Bænin Faðir vor, er dýrmætust allra bæna, bænin af vörum frelsarans sjálfs, sem signir lífið allt og felur það þeim milda mætti sem birti sjálfan sig í Jesú Kristi. Bænin um daglegt brauð, um fyrirgefningu, um frelsun frá illu, um sigur hins góða vilja og valds í heiminum, samfélaginu, og hjarta sérhvers manns. Sú bæn er einingarband samfélagsins sem bærist eins á vörum barnsins og í hjarta gamalmennisins, og er hverjum manni traustur förunautur í önn og átökum dagsins.

Látum bæn, blessun og kærleika til Guðs og manna varða veginn til framtíðar! Í hverri sóknarkirkju um land allt er beðið fyrir landinu og landsins börnum öllum. Við umlykjum hvert annað bænarörmum fyrir augliti Guðs. Bænin er ómetanleg orkulind til góðs og blessunar á þessum alvarlegu reynslutímum. Þar er og beðið fyrir stjórnvöldum, fyrir forseta, ríkisstjórn, alþingi, dómstólum og sveitastjórnum. Í fyrirbæn fyrir grunnstofnunum samfélagsins er fólgin ásetningur, köllun að vinna því vel, og styðja þau sem kölluð eru til forystu í málum okkar með kærleika og gagnrýnni, heilli og hreinskiptinni samstöðu. Andspænis ósigri, óvissu og ranglæti skulum við ekki missa móðinn, heldur rísa upp og standa með því sem er rétt og satt, horfast í augu við framtíðina með hugrekki, friði og gleði, og takast á við vandkvæðin sem á vegi verða með þolgæði og þrautsegju og trú. Guð gefi okkur æðruleysi, kjark og vit til þess í frelsarans Jesú nafni.