Sjö óskir

Sjö óskir

Mér er það heiður að tilheyra þjóðkirkjunni. Ég elska og dái það fólk sem þar starfar, ýmist í launuðu eða ólaunuðu starfi. Það eru forréttindi að fá að finna hvernig hjarta þessa hóps slær fyrir náungann. Einmitt þess vegna ber ég sjö óskir í brjósti. Óskir um þroskamerki.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
29. nóvember 2011

Biðukollur

Þjóðkirkjan er rík. Hún er rík vegna þess að innan hennar vébanda starfar mjög stór hópur sjálfboðaliða og starfsfólks. Þetta fólk er upp til hópa mjög hæfileikaríkt. Það leggur sig fram um að gera vel. Ég upplifi þennan hóp sem samfélag einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að hjarta þeirra slær fyrir náungann.

Ég tilheyri þessum hópi. Mér þykir það heiður að fá að tilheyra slíku samfélagi. Oftar en ekki lít ég á okkur sem eina fjölskyldu. Þegar vel gengur hjá samstarfsfólki í öðrum söfnuðum þá samgleðst ég þeim. Þeir dagar sem reynast samstarfsfólki í öðrum söfnuðum erfiðir, eru mér fyrirbænaefni, ég þrái að standa við hlið þeirra og styðja þau.

Síðustu daga hef ég spurt mig spurningarinnar sem ég spurði mig líka þegar ég var barn: „Hvað viltu verða þegar þú verður orðinn stór og fullorðinn?“ Ég hef leyft mér að spyrja þessarar spurningar fyrir hönd okkar allra. Í stórum systkinahópi er víst að sitt sýnist hverjum um hvort það sé við hæfi að spyrja sem svo fyrir hönd 1000 / 2000 ára gamallar kirkju. En ég leyfi mér að spyrja svona í barnaskap mínum.

Ástæða þess að ég fór að spyrja mig þessarar spurningar er sú að mér þótti sem við sem kirkja værum komin á einhverskonar mótþróaskeið. Ég er ekki frá því að mér hafi þótt við vera að vakna upp við það að við erum hluti af stærri umheimi. Við finnum þörf til þess að verja það sem er okkar. Það telst eðlilegt. En samtímis þykir mér sem ég sjái þess merki að við ætlum að fara að ala innra með okkur þrjósku og kergju. Af því hef ég áhyggjur.

Og ég spurði mig hvaða óskir ég bæri í brjósti til handa þessari kirkju. Og ég fann þær nokkrar:

Ég á mér þá ósk að við sem störfum í þjóðkirkjunni lærum að hætta að beita rökunum „af því að við erum í meirihluta þá...“ – Kannski ber ég þessa ósk í brjósti af því að hún Marta Zachraj sem starfaði í Glerárkirkju er í guðfræðinámi hjá Lúthersku kirkjunni í Póllandi. Þar er hennar kirkja, systurkirkjan okkar í Póllandi, í algjörum minnihluta. Þar fá konur ekki prestvígslu „af því að það er ekki leyft í stóru, kaþólsku kirkjunni.“ Ég trúi því að einn góðan veðurdag vígist hún sem prestur í Póllandi.

Ég á mér þá ósk að við sem störfum í þjóðkirkjunni lærum að halda okkur á málefnalegum nótum í stað þess að setja fram rangar fullyrðingar. - Kannski ber ég þessa ósk í brjósti af því að mér þykir svo sárt þegar röngum fullyrðingum er beitt til þess að sverta kirkju og kristni sem eru mér svo kær.

Ég á mér þá ósk að við sem störfum í þjóðkirkjunni lærum að leita samstarfs sem víðast í samfélaginu í stað þess að segja sífellt fleiri aðilum í þjóðfélaginu stríð á hendur. – Kannski ber ég þessa ósk í brjósti af því að ég dáist af þeirri góðu vinnu sem unnin er hjá hinum ýmsu félagasamtökum, góðgerðastofnunum, líknarfélögum, í nefndum, bæjar- og borgarstjórnum. Þarna leggur margur hönd á plóg til þess að byggja upp manneskjuvænt samfélag fyrir alla og mig langar að vera með.

Ég á mér þá ósk að við sem störfum í þjóðkirkjunni lærum að átta okkur á því að okkar trú eða trúfélag er á engan hátt merkilegra eða mikilvægara heldur en trú / trúfélög samborgara okkar. – Kannski ber ég þessa ósk í brjósti af því að ég hef fengið að sitja á bænastund innan um 15.000 karlmenn og drengi sem fluttu bæn til síns guðs. Þar voru einstaklingar sem tóku mig með inn í hópinn og sýndu því virðingu að mín trú var ekki þeirra trú, þeirra bæn var ekki mín bæn, en vináttan var sönn, því hún byggði á virðingu.

Ég á mér þá ósk að við sem störfum í þjóðkirkjunni lærum að skilja muninn á „fræðslu um trú“ og fræðslu í trú“ og þar með að allt sem er hluti skólastarfs er fræðsla um trú. – Kannski ber ég þessa ósk í brjósti vegna þess að ég hef fengið að upplifa mikið þakklæti síðustu fimm árin í Glerárkirkju þar sem ég starfa, en þessi ár höfum við vandað okkur við skólaheimsóknirnar og gætt þess að þær séu á forsendum skólans. Þakklætið kom frá börnum og foreldrum sem skynjuðu að okkur liggur fræðslan á hjarta, svo að einstaklingurinn geti tekið upplýsta ákvörðun.

Ég á mér þá ósk að við sem störfum í þjóðkirkjunni lærum að þjóna betur því fólki sem vill fá einbeittari fræðslu frá kirkjunni með því að stofna okkar eigin skóla og leikskóla. – Kannski ber ég þessa ósk í brjósti vegna þess að mér þykir mikilvægt að fólk hafi val. Ég kynntist því í Þýskalandi hve mikilvægt sumum foreldrum þótti að börnin sín hefðu tök á því að sækja um skemmri eða lengri tíma skóla þar sem að fræðsla í trú var eitt af grunnstefum skólastarfsins. Slíkir skólar væru innlegg í fjölbreytta flóru skólastarfs, kannski einn á höfuðborgarsvæðinu, einn úti á landi?

Ég á mér þá ósk að við sem störfum í þjóðkirkjunni lærum að virða rétt þeirra sem kjósa að standa utan trúfélaga til sjálfsákvörðunarréttar. – Kannski ber ég þessa ósk í brjósti einfaldlega vegna þess að ég á frænda sem mér þykir vænt um og ég vil að hans líf geti verið á öllum sviðum jafn (ó)háð ákvörðunum annarra eins og mitt líf er, þrátt fyrir (eða einmitt vegna þess að) hann kennir sig við trúleysi.

Kannski eru svona óskir bara barnaskapur. En ég hugga mig þá við það að Jesús Kristur sagði sjálfur: „Leyfið börnunum að koma til mín ...“