Út úr sortanum kom Jesús

Út úr sortanum kom Jesús

Tóm ímyndun? Ný Biblíusaga? Nei, þetta er hvorugt. En samt meira en hugrenning um daginn og veginn. Sögur Biblíunnar tala til okkar á skýran hátt. Orð Drottins er sterkt. Það boðar framhald lífsins, vitnar um von, kærleika sem ber okkur í gegnum sortann og út úr sortanum. Ljós við enda svartnættisins.

Stúdíó í Mosfellsbæ. Við erum nokkur að vinna að gerð sunnudagaskólaefnis. Á stuttum tíma er fjölmörgum biblíusögum komið á stafrænt form. Að vinnudegi loknum kveðjumst við, ljósmyndarinn klappar á töskuna sína og segir: ,,Myndirnar eru vel geymdar hér. Ég gæti þess að ekkert komi fyrir þær.”

Þessi orð hans hverfa ekki úr huga mér, halda mér vakandi og hugur minn tekst á flug. Tvær myndir úr sögum Biblíunnar koma til mín, vilja ekki vera geymdar í tösku þar sem ,,ekkert kemur fyrir þær.” Önnur myndin er úr Biblíusögu þar sem Jesús kemur gangandi á vatninu til lærisveinanna. Hin myndin er úr frásögninni af því þegar Jesús stillir storminn.

Og myndirnar fá líf í huga mér og renna saman í eitt: Drungalegur himinn, það rignir allt að því eldi og brennisteini. Þrumurnar háværar, eldingarglamparnir lýsa upp angistarfull andlit lærisveinanna: Slíku óveðri höfðu þeir aldrei kynnst á meðan þeir voru sjómenn og héldu þeir þó að ekkert gæti komið þeim á óvart í þeim málum.

Seglið rifnar, mastrið brotnar, þeir hafa ekki undan að ausa. Báturinn er við það að liðast í sundur. Þeir vita ekkert í sinn haus, þeirra síðustu ráð löngu reynd. Engin framtíð, allt svart. Á ímyndaðri ljósmyndinni er þetta augnablik geymt. Svartnættið. Vonleysið.

,,Það verður að koma eitthvað fyrir þessa mynd” hugsa ég. Hún vill ekki vera innilokuð, geymd. Svona mynd þarf að fá líf, hreyfingu, framhald. Og í huga mér breyti ég þessari kyrrmynd í kvikmynd. Mitt í gegnum sortann skín ljós. Það er til von! Og í gegnum bjart gatið sem myndast í sortanum kemur Jesús gangandi á vatninu. Með útbreiddan arminn segir hann: ,,Barnið mitt, ekki gráta, ég er kominn. Gakktu með mér inn í framtíðina.”

Tóm ímyndun? Ný Biblíusaga? Nei, þetta er hvorugt. En samt meira en hugrenning um daginn og veginn. Sögur Biblíunnar tala til okkar á skýran hátt. Orð Drottins er sterkt. Það boðar framhald lífsins, vitnar um von, kærleika sem ber okkur í gegnum sortann og út úr sortanum. Ljós við enda svartnættisins.

Opnaðu Biblíuna þína. Biblían er bók sem vill vera hreyfð. Hún má slitna, síðurnar mega gulna því Orðið er lifandi og kröftugt. Ekki geyma sögur Biblíunnar þar sem ,,ekkert getur komið fyrir þær.”