Ástarsaga Jósefs

Ástarsaga Jósefs

Allt var tilbúið. En svo kom þetta boð frá keisaranum, um skrásetninguna. María var að því komin að eiga. Hún var með bjúg og grindargliðnun og átti erfitt með að ganga langar vegalengdir. Hann hafði gert sitt til þess að létta undir með henni, þó hann gæti ekki gert allt. Hann þurfti líka að sinna sínu starfi.

 

Fæðingasögur Flest höfum við heyrt fæðingarsögu. Mörg höfum við sagt fæðingarsögu.  

Jólaguðspjallið er fæðingarsaga.  

Fæðingarsaga er saga af því þegar kraftaverk verður og nýtt líf fæðist. Yfirleitt er þetta saga foreldranna sem upplifa þetta undur.  

Yfirleitt enda fæðingarsögur gleðilega nú til dags, þótt fæðingar geti oft verið afar erfiðar. Þannig er það þó ekki alltaf. En við heyrum sjaldan þessar sorglegu, nema að við séum í innsta hring. Þær sögur eru ekki sagðar eins hátt. Kannski viljum við heldur ekki heyra þær sögur.  

Besta leiðin til þess að vinna úr áföllum er að segja frá því sem gerðist, í smáatriðum. Helst aftur og aftur.  

Þannig eru oft fæðingasögurnar. Þær eru sagðar í smáatriðum. Þær eru sagðar oft, ef einhver vill hlusta. Stundum eru þær reyndar sagðar án þess að nokkur vilji hlusta.  

Ég hef sagt fæðingasögur, örugglega einhvern tíma fyrir daufum eyrum. Ég hef líka heyrt fæðingasögur, hlustað af áhuga og án áhuga.  

Allar fæðingasögur eru kraftaverkasögur!  

Jólaguðspjallið er fæðingarsaga því það er saga af fæðingu barns.  

En saga hvers er það?  

Það er ekki saga Maríu. Það er ég alveg viss um. Hún hefði áræðalega kippt okkur aðeins niður á jörðina og sagt frá sársauka, blóði og ótta.  

Kannski er þetta saga Jósefs. föðurins sem upplifir stærsta kraftaverk sem nokkurn tíma hefur orðið.  

Hann vissi líka, eins og móðirin, að barnið var sérstakt.  

Fæðingarsaga Jósefs Þetta ár hafði verið það erfiðasta í lífi Jósefs. Hann var alltaf jafn ástfanginn af Maríu og hann vissi að hún elskaði hann en það var þetta með barnið. Engill Guðs hafði birst honum í draumi og sagt honum að barnið væri sonur Guðs, getið af heilögum anda. Og María hafði einnig vitrun engils.  

Þetta var náttúrulega skömm. Konan sem hann var heitbundin átti von á barni og hann var ekki faðirinn.  

Jæja, en það þýddi svo sem ekki að svekkja sig á þessu. Þau voru búin að ræða þetta og hann hafði valið að verða maðurinn hennar, þrátt fyrir allt og ganga barninu í föðurstað.  

Hann þurfti ekki að gera það.  

Hann kenndi í brjósti um hana. Hann elskaði hana.  

Og nú voru þau hingað komin. Til Nasaret. Í fjárhús, af öllum stöðum. Og hann var orðinn faðir! Hann hefði aldrei, að óreyndu, trúað því að það gæti verið svona stórkostlegt að verða faðir. Hann var faðir barnsins, hvað sem öll líffræði segði. Hann hafði staðið við hlið Maríu síðan hún varð með barni. Hann hafði verið viðstaddur fæðinguna. Já, hann hafði meira að segja tekið á móti barninu. Það voru nú ekki margir feður sem gátu sagt það sama.  

Hann var sá fyrsti sem Jesús litli hafði horft í augun á þegar hann kom í heiminn.  

Hann sá strax að drengurinn var greindarlegur. Og fallegur. Og gáfulegur. Og óvenju fagur. Það var reyndar eitthvað alveg sérstakt við hann.  

Undirbúningurinn Jósef hafði undirbúið komu drengsins vel. Hann hafði smíðað rekkju fyrir hann. Hann hafði notað besta viðinn sem hann gat fengið og í hann hafði hann skorið fallegt mynstur.  

Allt var tilbúið.  

En svo kom þetta boð frá keisaranum, um skrásetninguna. María var að því komin að eiga. Hún var með bjúg og grindargliðnun og átti erfitt með að ganga langar vegalengdir. Hann hafði gert sitt til þess að létta undir með henni, þó hann gæti ekki gert allt. Hann þurfti líka að sinna sínu starfi.  

En svo kom þetta boð frá keisaranum. Hann reyndi allt til þess að fá undanþágu. Ekkert gekk. Hann mætti aðeins hörku og ósveigjanleika hjá starfsfólki keisarans.  

Að lokum sáu þau bæði að þau gætu ekki komist undan þessu. Þau urðu að halda til Betlehem.  

Þau fengu lánaðan asna því María hefði aldrei getað gengið þessa löngu leið. Hann vonaði bara og bað að þau myndu í það minnsta ná á leiðarenda áður en barnið fæddist.  

Óvæntir hlutir gerast Ekkert varð eins og Jósef hafði gert ráð fyrir og undirbúið.  

Hann hafði ekki gert ráð fyrir ferðalagi með konu sinni, komna á steypinn.  

Hann hafði ekki gert ráð fyrir því að frumburður hans myndi fæðast í útihúsi.  

Hann hafði ekki gert ráð fyrir því að þurfa að taka á móti barninu sjálfur.  

Hann hafði reyndar alls ekki gert ráð fyrir því að eignast barn svo fljótt.  

Og Jósef var maður sem vildi gjarnan skipuleggja hlutina.  

Hversdagsleg saga Þessi saga sem sögð er í jólaguðspjallinu er að mörgu leyti hversdagsleg.  

Það að láta skrá sig til þess að geta greitt skatt, er mjög hversdagslegt.  

Fæðing er mjög hversdagsleg.  

Ferðalög eru hversdagsleg.  

Þegar ég segi hversdagsleg þá á ég við að hún fjallar um hluti sem við, venjulegt fólk um allan heim, könnumst við og getum samsamað okkur með.  

Um leið og þetta er sagan af mesta kraftaverki og undri sem nokkru sinni hefur gerst þá er hún svo venjuleg. Og það er gott.  

Reyndar er ekkert venjulegt eða hversdagslegt við stjörnu á himni beint fyrir ofan jötu barnsins, eða englana sem sungu og fluttu fagnaðarboðskapinn. Nei, þetta eru hlutirnir sem gera söguna ævintýralega og heillandi. Þetta eru þau atriði sem gera söguna að helgisögu.  

Um leið og þetta er saga af því þegar karl og kona eignast barn undir erfiðum kringumstæðum, þá er þetta sagan af því þegar Guð varð manneskja. Það sem er svo ótrúlegt en um leið kannski einmitt það sem gerir söguna trúverðuga, eru hinar hversdagslegu kringumstæður. Ef þær væru ekki til staðar þá gætum við ekki sett okkur í þessi spor. Þá talaði þessi saga ekki inn í líf okkar á sama hátt og hún gerir.  

Því þótt Jesús hafi verið Guð þá var hann líka manneskja. Jesús var jafn mikil manneskja og hann var Guð. Hann átti pabba og mömmu sem höfðu áhyggjur af honum. Hann átti foreldra sem þurftu að vera hagsýn til þess að geta séð fyrir honum.  

Þessar aðstæður valdi Guð, þegar Guð ákveður að gerast manneskja.  

Guð velur að verða lítið, varnarlaust barn sem ekki á nokkra möguleika á því að lifa af í þessum heimi, frekar en nokkurt annað barn, án verndar og kærleika fullorðinna.  

Þetta er það sem gerir Guð stórkostlegan!  

Guð veit hvernig það er að vera manneskja vegna þess að Guð hefur verið manneskja. Guð veit hvernig það er að elska og hvernig það er að öfunda. Guð veit hvernig það er að þjást og hvernig það er að vera hamingjusöm.  

Guð er hið stóra í hinu smáa.  

Guð er kærleikurinn í miskunnarleysinu.  

Segjum fæðingasögur Við getum lært margt af Jósef.  

Við vitum lítið um það hvernig manngerð hann var. En við getum næstum því gert ráð fyrir því að líf hans varð ekki eins og hann hafði gert ráð fyrir. Óvæntir hlutir voru alltaf að gerast.  

Við vitum ekki hvernig Jósef leið þegar hið óvænta gerðist en við vitum að hann tókst á við það. Hann skoraðist ekki undan kröfum lífsins. Hann lifði lífinu eins og það birtist honum.  

Jósef var góður maður. Guðspjöllin vitna um það.  

Ég get ímyndað mér að Jósef hafi oft haft áhyggjur af drengnum litla. Áhyggjurnar fylgja foreldrahlutverkinu. Og lítið vissi Jósef um framtíð drengsins þegar hann horfði í augu hans í fyrsta sinn.  

Þetta litla barn, fær mig í kvöld til þess að hugsa um fæðingasögur og hversu mikilvægar þær eru.  

Höldum áfram að segja fæðingasögur. Það eru sögur um kraftaverk sem ekki væru til staðar án æðri máttar, án Guðs. Látum jólaguðspjallið verða okkur innblástur til sagnanna sem fjalla um hið óvænta, um kraftaverkin og um lífið sjálft. Amen.