Föstutíð

Föstutíð

Upplýsingum er stýrt og nú blasir við okkur að fjöldinn hefur valið sér til forystu fólk sem maður hefði ætlað að myndi ekki komast til áhrifa lengur. Hávaðasöm tíð elur af sér hávaðafólk og heimurinn þarf svo sannarlega á öðru að halda en einmitt því.

Fastan er merkilegur tími. Við heilsum henni á þeirri viku sem framundan er með stórkostlegum hátíðum þar sem við kveðjum hverja lystisemd tilverunnar á fætur annarri. Á bolludeginum er það rjóminn og á sprengidegi, ketið og loks á öskudegi er það galsinn. Allt er þetta til marks um að í hönd fari tími sem á að einkennast af meinlæti og alvöru. Fastan er í uppáhaldi hjá mér ef svo má segja. Ég held að fyrirbærið sé með því gagnlegra sem við getum tekið okkur fyrir hendur – og þá á ég ekki við alla hátíðsdagana þar sem við belgjum okkur út af sætindum og salti, heldur meinlætið.

Hollt og rétt

Rannsóknir sýna að það er heilsunni gott að vera stöku sinnum svangur. Líkami nútímannsins segja fræðin er hreint ekki tilbúinn að meðtaka öll þau ókjör sem við látum í okkur. Aldrei áður í sögu þessarar lífveru hafa önnur eins býsn verið í boði af matvælum og nú, fyrir þann hóp jarðarbúa sem nýtur mestra gæða. Fyrir vikið verða verða ýmis mein á borð við sykursýki tvö svo algeng að það jaðrar við faraldur. Nýverið greindi miðillinn BBC frá því að reglubundnar föstur gætu snúið við slíku óheillaferli og gefið endurnýjaðan þrótt og heilbrigði. Nú eru læknar farnir að gefa þessu gaum og hvetja sjúklinga til að neita sér um fæðu í ákveðinn tíma í hverjum mánuði. Það að fasta hefur líka siðferðilegan tilgang þegar stöðugt hallar undan fæti í ríki náttúrunnar. Auðlindir ganga til þurrðar og vistsporin okkar eru stór og kámug á móður jörð.

Hið sama má vísast segja um önnur sætindi tilverunnar. Afþreyingin er kafli út af fyrir sig. Endalaus síbylja sem dynur í eyrum og ber fyrir augun svo að stundum læðist að manni sá grunur að markvisst sé unnið gegn því að fá okkur til að rýna á heiminn í kringum okkur og það starf sem bíður okkar þar. Veröldin tekur æ meir á sig svip dystópíunnar þar sem við lifum í blekkingu. Upplýsingum er stýrt og nú blasir við okkur að fjöldinn hefur valið sér til forystu fólk sem maður hefði ætlað að myndi ekki komast til áhrifa lengur. Hávaðasöm tíð elur af sér hávaðafólk og heimurinn þarf svo sannarlega á öðru að halda en einmitt því.

Fastan er nokkurs konar áminning til okkar um þessi mál en það er í anda okkar tíma að nútímamaðurinn lætur sér vel líka hátíðardagana að undangenginni föstutíð og svo auðvitað sætindin á páskum – en lætur meinlætið liggja milli hluta. Það er eitthvað óheiðarlegt við þá afstöðu og líklega óheilbrigt að sama skapi. Kristin trú er rík að ýmsum hefðum og takti. Þessi taktur er í raun samspil meinlætis og hátíðar. Að undangengnum hátíðum, þá neitum við okkur um sitthvað og áður en fastan gengur í garð kveðjum við munaðinn eins og við gerum um þessa tið.

Föstupredikun

Og í aðdraganda föstunnar, á sunnudegi í föstuinngang, þá leyfir presturinn sér þennan reiðilestur. Föstupredikanir eru þekkt fyrirbæri í sögu kirkjunnar – þar sem klerkum er uppálagt að minna söfnuðinn á lögmálið, breyskleikann og syndir mannsins. Svo kemur upprisuhátíðin sjálf, páskarnir þegar við göngum inn í ljós fagnaðarerindisins. Þá gerum við okkur glaðan dag og frá fornu stundaði fólk páskahlátur á þeim tíma, nokkuð sem viðhaft er hér í Neskirkju. En framundan er tíminn sem ættum að gefa gaum hinum hliðum tilverunnar. Kynslóðir íslendinga hafa á föstunni hugleitt orð Hallgríms Péturssonar í Passíusálmunum en lestur þeirra er hafinn í útvarpinu. Í þeim fyrsta segir:

Innra mig loksins angrið sker, æ, hvað er lítil rækt í mér, Jesús er kvalinn í minn stað, of sjaldan hef ég minnst á það.

Þessi orð ramma vel inn þá föstuhefð sem myndast hefur á okkar menningarsvæði, þar sem manneskjan horfir inn á við og hugleiðir stöðu sína gagnvart Guði, samvisku sinni og náunganum.

Styrkur í auðmýkt

Textar þessa sunnudags í föstuinngangi lýsa því sem við getum sagt að sé einn af þýðingarmestu þáttum í hjálpræðissögunni. Um leið er það þverstæðan stóra sem Páll postuli sagði vera heiðingjunum heimska og gyðingunum hneyksli, nefnilega krossdauði Jesú frá Nazaret. Þarna snýst allt á hvolf í augum þess sem lítur á Guð sem ógnarsterkt afl sem heldur öllu í föstum skorðum.

Hér undirbýr Jesús það sem framundan er, þjáningar hans og krossdauða sem átti eftir að skekja allt það samfélag sem hafði myndast í kringum hann. Hvers virði var boðskapur hans og hvaðan kom máttur hans ef hann þurfti að þola slíka smán og varnarleysi. Það er ein af þverstæðunum sem hópurinn stóð fyrir og svo þegar þeir kunngjörðu boðskapinn hvernig krossinn, þetta tákn ofbeldis og kúgunar gat snúist upp í andhverfu sína.

Postulinn orðar það svo að krossinn sé:

Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku en okkur sem Guð hefur kallað, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.

Hér stendur það eftir að auðmýktin er í raun eiginileiki þess sem býr að sönnum styrk. Kærleikurinn birtist okkur stundum með óvenjulegum hætti, jafnvel svo að hann virðist vera heimska eða hneykslar. En að endingu er það kærleikurinn sem sigrar. Þetta er erindi kirkjunnar til okkar á föstutímanum, þegar við lítum inn á við, hugleiðum stöðu okkar í lífinu, ákvarðanir og gjörðir. Fer vel á því að kanna hvað það er sem við leggjum okkur til munns, hvernig við verjum tíma okkar, hvað nýtur forgangs í lífinu. Hófsemi og jafnvel svolítið hungur eftir ýmsum gæðum, bæði agar hugann og herðir líkamann.

Föstunám

Hér í Neskirkju gefum við þessum tíma sérstakan gaum. Næstu sunnudaga klæðumst við fjólubláu – það er litur föstunnar. Hann er settur saman úr rauðu, sem táknar blóð og heilagan anda, bláu sem táknar íhugun og djúpið sjálft og svo svörtum sem er litur sorgar. Við lesum úr Passíusálmum í messum og þetta vorið verður samstarfskona mín, sr. Steinunn Arnþrúður með föstunámskeið þar sem hún leitast við að fanga inntak þessa skeiðs á kirkjuárinu.

Já, þar verður ekki aðeins hugleitt hvernig við getum okkur til gagns, neitað okkur um þá fæðu sem við fáum ofgnótt af aðra daga. Hún gefur líka gaum að því sem er í kjarna boðskapar Jesú Krists: nefnilega umhyggjuna fyrir náunganum. Fastan hefur frá öndverðu tengst þeim styrk sem við getum veitt bágstöddum og að þessu sinni fá þau að njóta sem ekki búa við sömu gæði og við. Hjálparstarf og matarsóun verður hluti af þessu verkefni þar sem við kynnumst verkefnum á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Er ég viss um að enginn verður svikinn að þessu. Hér gefst þvert á móti kostur á að taka föstuna föstum tökum ef svo má segja.

Nýtum þennan tíma sem framundan er og gleðjumst á komandi dögum þegar við kveðjum sitthvað af því sem við getum svo vel komist af án en gerir lífið að sönnu skemmtilegra. Þá hefur fastan að sönnu þjónað sínum tilgangi og svo fögnum við í birtu upprisunnar að henni lokinni þegar páskar ganga í garð.