Hið sýnilega í því ósýnilega

Hið sýnilega í því ósýnilega

Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.

Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: Hvað er hann að segja við oss: Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins? Þeir spurðu: Hvað merkir þetta: Innan skamms? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara.

Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður. Jóh. 16.16-23

Jubilate, jubilate Deo. Fagnið. Lofsyngið Guði er hvatning þessa Drottins dags, hins þriðja eftir páska enda gleðidagar í lífi þess trúarsamfélags og kirkju, sem sækir nærandi afl og drifkraft í páskaundur og upprisu hins krossfesta Jesú Krists. Vor og páskar fylgjast að og votta sigrandi elsku Guðs. Vorinu er í senn auðvelt og erfitt að lýsa. Veðurfræðingar gera grein fyrir auknu hitastigi og breytingum á loftþrýstingi, hægari vindum með hækkandi sól, þegar möndulhalli jarðar snýr við henni. En undrum vors er einnig lýst með öðrum mælikvörðum, eins og ljóðum, sem segja frá fuglum er fljúga yfir auðn, og einnig skjálfandi nývöktu og viðkvæmu lífi í flöktandi ljósi, og fölleitum börnum á hrjóstrugri strönd, sem hvísla í feiminni undrun, Vor, vor, svo líkt sé eftir orðfæri Steins Steinars eða Tómasar Guðmundssonar, sem tengir vorið við ástina er hann segir:

"Og vorið kom í Maí eins og vorin komu forðum með vængjaþyt og sólskin og næturkyrrð og angan. Og kvöld eitt niðri á bryggju hún kyssti mig á vangann. Það kvöld gekk lítið hjarta í fyrsta sinn úr skorðum."

Ástin auðsærð og viðkvæm er farvegur Guðs sköpunar eins og vorgróandinn: "Þú gafst mér jörðina og grasið, og Guð á himnum að vin", "Ég fæddist til ljóssins og lífsins, er lærði ég að unna þér’" segir enda í því ástarljóði Sigurðar Nordal, sem við heyrðum unglingakórinn syngja svo fallega áðan við hrífandi lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar.

Hvert iðandi líf kveikt af ástarþrá fæðist þó inn í ógn og óvissu sýnilegs heims og dapurt er að horfa á visinn lífssprota eða dauðan fugl sem fyrir stuttu flaug yfir haf. Hver fæðing er háskaleg og sársaukafull. En líknandi hendur, sem taka á móti nýfæddu lambi eða mannveru vitna um blessun og kærleika.

Lífið er ekki ofurselt voða og vetrarfrera, drepi og dauða segja páskarnir. Gleðidagar þeirra vísa til þess tímaskeiðs, þegar Jesús birtist fylgjendum sínum upprisinn þar til að hann er upphafinn og binst á ný kjarna tilverunnar í elsku Guðs og nánd og er þá jafnframt ásjóna hans og mynd, samslungin lífríki og mannlífi í sársauka þess og gleði. Það er sem Altaristafla Skálholtskirkju dragi þennan hulda trúarveruleika fram, mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur, sem í ótöldum marglitum brotum framkallar mynd hins upprisna með sármerki á höndum inn í litrof íslensks landslags.

Það eru samt ekki upprisufrásagnirnar sérstæðu, sem kirkjan íhugar á þessum gleðidögum þó að þær séu ávallt í sjónmáli heldur orð Jesú við lærisveina sína á skírdagskveldi áður en hann heldur til móts við krossinn sem bíður hans: „Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,“ segir hann. Orð hans voru torskilin en þau fengu vægi sem ógleymanleg kveðjuorð, er vörpuðu upplýsandi ljósi á samleið þeirra einkum lokastundirnar innihaldsríku. Þá hafði meistarinn hnykkt á ýmsu því sem hann hafði minnst á fyrr og dregið það fram í orðum og gjörningum. -Innan skamms. Það gerðist svo æði margt innan þess tiltekna tímaskeiðs: Getsemane, Golgata, kvölin og krossinn, grátur og kvein.

Svo mikið reyndar að áhrif þess hafa breiðst yfir alla sögu, mótað stundirnar fyrr og síðar og umbreytt þeim, einkum erfiðu stundunum og myrku þegar kvöl mannlegs lífs var mest og erfiðast að lifa í þessum heimi.

Innan skamms. Það er sem Jesús setji kvöl sína og alla þjáningu lífsins inn í þessi orð sín og þá er sem óvissan ljúkist upp um það, hvort það er sorgin eða gleðin, sem þungvægari sé og endanlegri. Myrkrið varir aðeins skamma hríð, en birtan sem yfirvinnur það er varanleg og eilíf. Líkingin sem dregur það fram er sláandi og grípandi í senn, líkingin af konunni, sem fæðir barn í heiminn. Það gerir hún ekki erfiðis- og sársaukalaust. Hún er í nauð, þegar stund hennar er komin, en fái hún fagnað hinu nýfædda lífi er sá fögnuður svo mikill og yfirgnæfandi, að þrautin sem á undan fór víkur algjörlega fyrir honum. Myndlíking Jesú hefur upplokist vinum hans, þegar þeir höfðu séð upprisuundrið og fyllst andanum helga og það opinberast þeim, að í kvöl sinni og krossfórn elur Jesús af sér nýjan lífsveruleika og heim.

Innan skamms. Flestir sem komnir eru til vits og ára hafa reynt einhverjar þær stundir og andartök, sem verða ákvarðandi fyrir framtíð og sögu, líðan og hag: "Hún var að kafna en ég að krókna." Þannig hljóðaði fyrirsögn í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Þar var því lýst þegar ungur sjómaður ætlaði í landi af skipi til að vera viðstaddur fæðingu barns síns en féll vanbúinn í sjóinn, er gúmmíbát hvolfdi sem verið var að hífa niður af skipinu. Honum var bjargað og félögum hans. Og þegar búið var að taka úr honum hrollinn og fá í hann hitann, sem reyndi mjög á konuna hans, gat hann fylgst með og fagnað fæðingu sonar þeirra. Það hve vel tókst hér til bæði að bjarga lífi og taka á móti lífi hefur eflaust orðið varanlegt þakkar- og gleðiefni.

Slík atburðarrás gæti hentað vel sem kvikmyndaefni, en píslarsaga Jesú verður ekki kvikmynduð svo vel sé jafnvel þótt fylgt sé náið lýsingum Guðspjallanna á framvindu viðburða, því að hann er ekki aðeins kvalinn á Golgata á þeirri stundu sögunnar, þegar sólin myrkvaðist forðum daga í Palestínu, heldur hvarvetna þar sem níðst er á lífi og lífríki með grimmd og miskunnarleysi, hernaði og hermdarverkum. Það er þó sem Ólafi Jóhanni Sigurðssyni takist að nokkru að draga fram umfang og víðfeðmi lausnar- og friðþægingarverks frelsarans í ljóði sínu "Andvarpið" með magnaðri lýsingu þess:

"Úr fjarlægum álfum, úr frumskógum sem borgum, af brennheitum vígvelli, af blásnum hungurlendum berst oss að hlustum í blóðlitu mistri tímanna hvern dag, hverja nótt, án afláts af öldungs vörum sem barns andvarpið hinsta úr ómælisdjúpi þjáninganna, orðin fornhelgu: Það er fullkomnað."

Hér er því lýst, að Jesús Kristur sé samtengdur þjáningu heimsins og mæli orðin sín "Það er fullkomnað" inn í hverja þraut og harm, sem undanfara endurlausnar og upprisu. Og þá verður trúar- og lífsgleðin dýpst, þegar hún reynir og greinir það.

En hversu vítt skynjum við, sjáum og greinum? "Nútímalistin hefur áttað sig á því, hve samhengið skiptir miklu máli." Þetta segir fjöllistamaðurinn, Ólafur Elíasson, sem vakið hefur athygli víða um heim fyrir áleitnar listsmíðar sínar. Það er sem hann geri áhorfendur að þátttakendum í listaverkunum líkt og vel kom fram á nýlokinni sýningu hans í Listastafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu, sem hann nefndi: „Frost activity“, frostvirkni eða leysingar. Hann notfærir sér spegla og margvíslegar sjónhverfingar, svo að hægt er, þegar gengið er inn í listheim hans, að sjá sjálfan sig bæði neðan og ofan frá og fá á tilfinninguna að líf og umhverfi sé allt mun margslungnara en við gerum okkur grein fyrir alla jafnan og líf hvers og eins sé öðrum tengt í margþættu samhengi: "Hið sýnilega í því ósýnilega", svo nefnir Guðbergur Bergsson sögubrotin sérstæðu, sem hann flutti við afhendingu bókmenntaverðlauna Norðurlanda fyrir skömmu. Það er sem hann gefi þar líka til kynna, að rammi viðburða sé stærri en hann sýnist og endurspegli í þessum frásögnum bæði þá tortryggni, spennu og óvissu, sem hlotist hafa af þeim átökum og ógnum sem móta nú vettvang samskipta og umræðu í veröldinni, og hann afhjúpi einnig rof og fráhvarf frá fyrri viðmiðunum og gildum hér á landi.

Það er enda komið í berlega í ljós, að ástæður innrásar og hernaðaraðgerða í Írak voru ýktar og falsaðar. Og heróp lýðræðis og frelsis hefur þar drukknað og kafnað í blóði og kvalastunum þúsunda fórnarlamba stríðsins. En hergagnaframleiðendur hafa enn einu sinni sýnt fram á gildi nýjustu afurða sinna og horfa nú til þess fagnandi að fá loksins að vígvæða himingeiminn. Rowan Williams, hinn welski erkibiskup af Kantaraborg, varaði við og andmælti fyrirhugaðri herför og feigðarflani, svo sem fjöldi annarra kristinna leiðtoga og samtaka. Hann segir í nýlegri prédikun, sem hann flutti í Cambridge, að herförin hafi dregið úr heilindum í stjórnmálum og rýrt siðferðileg gildi og viðmiðanir. Nýafstaðin Prestastefna Íslands tekur í sama streng og "hvetur stjórnvöld til þess að hætta stuðningi sínum við stríðsreksturinn í Írak og styðja aldrei stríð gegn annarri þjóð eða annan órétt, minnug orða Jesú: "Slíðra sverð þitt; Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla." Fyrri forystumenn þjóðarinnar lýstu því yfir, að Íslendingar myndu aldrei fara með vopnavaldi gegn annarri þjóð. En þessi fyrrum afstaða, hefð og sæmd íslensku þjóðarinnar hefur nú beðið hnekki. Ástand heimsmála ber þess vott, að sú hugmyndafræði, sem beitt er um þessar mundir er gjaldþrota og tryggir ekki frið en viðheldur óvissu og eykur glundroða."

Meginefni og yfirskrift prestastefnunnar var þó „Samfélag í trú og gleði“ og horft þar til þess að kirkjan er trúarsamfélag, sem veitir skjól og næringu trúar, vonar og kærleika. Trúarvitund og gleði, sem fær farveg gegnum og tengist lifandi samfélagi, hlýtur að andmæla ranglæti og yfirgangi og tillitslausri ásælni og græðgi er tendrar styrjaldarbál og mengar umhverfi og spillir siðum. Því ber að vara við slíku framferði í boðun og prédikun. Aukin misskipting nægta og skorts er af sömu illu rótinni sprottin. Hún rýfur samhengi lífsins og vanvirðir það. Við finnum þegar fyrir því í okkar þjóðfélagi, þar sem fáeinir menn geta rakað til sín óheyrilegum auði jafnframt því sem öryrkjar eru margir á vonarvöl, bjargarlausir og örmagna. Íslenskar glæpasögur, sem mið taka af aðstæðum og tilvikum hér á landi, eru nú orðnar gjaldgengar erlendis og seljast þar grimmt. Misskipting sundrar og spillir og er gróðrarstía glæpa, því samkenndin rofnar í kjölfari hennar enda leitað allra leiða til þess að afla fjár og jafnvel ekki skirrst þá við að eitra fyrir uppvaxandi lífi í siðblindri gróðavon.

Samfélag kirkjunnar í trú og gleði leitast við að gefa sýn á samhengi lífsins og margþættar víddir þess samkvæmt kristnum vitnisburði, og glæða skilning á því að sýnilegur heimur takmarkar ekki veruleikann. Lífið er ekki aðeins til á ytra borði efnis og ásýndar, því það er gætt innri sál og anda. Öllu er fyrirgert, ef sálin glatast, vitund og mennska. Auður, afl og áhrif, sem nýtast af eigingirni og vaxa af illu, fá leitt til þeirrar niðurstöðu þó að ekki sé gerð grein fyrir henni í bókhaldinu. Sú einsýni, sem miðar hag sinn við hlutabréfaveltu og gengistölur hverju sinni og lítur sinnulaust fram hjá döprum myndum fátæktar, ranglætis, sára og harms sniðgengur frelsarann og fer á mis við verðmætin sönnu. Þau verða til við það að þjóna honum og miðla til gagns og gleði af nægtum og aflafé, svo lífið þrífist og andinn eflist og innra líf. Kvíði, vaxandi streita, þunglyndi og þensla votta skort á gleði og traustum lífsgildum, ef til vill þó allra helst vöntun á nærandi yl og tryggri vináttu, samfélagi í lífstrú og gleði.

Innan skamms gerist svo æði margt. Gróðurhúsáhrif kunna að vaxa til muna og breyta veðurlagi og loftslagi til hins verra. Hryðjuverk geta enn breiðst út, alnæmis-og sjúkdómsplágur orðið enn illviðráðanlegri og upplausn og samfélagsrof aukist, öryggisleysi og glæpatíðni. Innan skamms, ef ekkert breytist og fer sem horfir. En það geta líka orðið umskipti til batnaðar, ef skilningur glæðist fyrir æðri lífsvíddum og þeirra gætir til heilla, og "Kronos", tíminn á vanalegu spori sínu breytist í "Kæros"’ náðartíma, svo notuð séu grísk orð og hugtök, þannig að tímamót verða, umskipti til blessunar. Byr gefst og lag til lendingar, hjörtu slá í takt, og tekið er saman höndum til heilla, því Guðs andi fær framrás og lindir gróanda og fagnandi lífs streyma fram.

"Þú kveiktir von um veröld betri, mín von hún óx með þér. Og myrkrið svarta vék úr huga mér um stund, loks fann ég frið með sjálfum mér. Það er svo undarlegt að elska, að finna aftur til ... Mér finnst þú munir fæða allan heiminn alveg upp á nýtt."

Þannig er gleðinni yfir nýfæddu barni lýst í þekktu ljóði og björtum söng. Það er sem kostur gefist á betri veröld í undri sköpunar og fæðingar, því blik og bjarmi Guðs sést í nýfæddum augum, sem tendrað fær ljós í sálu og gefið frið, en þeim loga þarf að viðhalda og glæða með bænrækni, trú og lofgjörð sem sýnir sig í þökk, kærleika og samkennd með öllum farnaði lífsins.

"Ilmurinn af nýfæddri dóttur minni mun aldrei hverfa frá mér", segir Kári Sólmundarson, byggingarmeistarinn, alzheimer- og minnissjúki, í leikritinu "Græna landið" sem er eftir sama höfund og fyrrgreint ljóð, Ólaf Hauk Símonarson. Kári hefur lokað sig af frá umheiminum í gróðurhúsi enda lofað eiginkonu sinni heitinni að vökva blómin, en þau er öll dauð og flest grátt og dapurlegt í kringum hann, þó að hann líti öðru hverju á litskyggnur af eiginkonu sinni og dóttur. Hann hefur samt einnig misst samband við hana, verið of upptekinn við að byggja háhýsi með nýrri byggingartækni sinni til að sinna henni, svo að hann er einn í einstæðingsskap sínum, þar til að Lilja heimilishjálpin hans sem frelsandi engill hristir upp í honum. Hún fær hann jafnvel til að líta Pál dótturson sinn nýjum augum, sem hann hefur vísað fra sér þrátt fyrir nána vináttu þeirra fyrrum, vegna þess að Páll hefur lent á villigötum vímuefnaneyslunnar. Það verða þáttaskil, þegar Kára tekst að sýna honum skilning og elsku og treysta honum fyrir verðmætum. Og þegar ljóst er að Kári er alveg að hverfa inn í græna land minnisleysisins, er sem blómin séu að lifna kringum hann. Leikritið hefur víða skírskotun. Það vísar til þýðingar fjölskyldu-og vinatengsla, sem þarfnist vökvunar og ræktunar og mega ekki líða fyrir hóflausan metnað og framsækni. Það bendir á gildi þess að gera upp við samvisku sína og leita sátta og friðar. En er ekki sem leikverkið minni jafnframt á vöntun á vökvun og umönnun lífs í víðara samhengi, sljóleikann, ábyrgðar- og tillitsleysið gagnvart raunsannri velferð mannlífs og jarðar, og líka á tækifærið til róttækra umskipta áður en það verður alveg um seinan?

-Til þess að þær umbreytingar verði þarf að greina hið "sýnilega í því ósýnilega" og sigrast á minnisleysinu, ná aftur áttum og sambandi við fjölþættar lífsvíddir og höndlast af nærandi lindum vors og páska. Þá verður að vakna til vitundar og skilnings á dásemdum og undrum ástar og lífs en líka sársauka þess og fjötrum, finna elsku Guðs í hjartslætti hverjum og geta í ljósi hans og kærleika raðað saman myndbrotum tilverunnar þannig að mynd hins sármerkta, krossfesta og upprisna frelsara sjáist þar. Að geta það er gleði kristins manns og fá horft til þess dags, þegar sú "sköpun, sem stynur og hefur fæðingarhríðir allt til þessa", (Róm 8.22.)hefur í sigrandi kærleikskrafti Krists alið af sér nýjan heim og upprisudag, þar sem bænirnar allar, þrár og vonir hafa uppfyllst og ræst, sem beðnar eru í Jesú nafni.

"Blessaður kærleikskraftur sem Kristur gefur jörð ber með sér blómgun aftur er breiðist vor um svörð. Upprisu undrið hans bjarta upplífgar kalin börð. Kærleikur hans í hjarta heldur um lífið vörð. Verk sem hans viðmót bera vetrarbönd leysa hörð, svo lifnar fegurð úr frera og flytur þakkargjörð." (G.Þ.I.)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum Anda um aldir alda. Amen.

Gunnþór Þ. Ingason er sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju. Þessi prédikun var flutt við útvarpsguðsþjónustu á 3. sunnudegi eftir páska, 2. maí 2004.