Fimm atriði sem sorg og kettir eiga sameiginleg

Fimm atriði sem sorg og kettir eiga sameiginleg

Sorgin er eins og köttur því hún er sjálfstæð. Við eigum hana ekki þótt hún sé hluti af okkur. Við stjórnum henni ekki og getum ekki kallað hana fram þótt við finnum hana stundum nálgast. Smátt og smátt lærum við samt að þekkja aðstæðurnar þegar sorgin hellist yfir okkur.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
02. nóvember 2014
Flokkar

Ég var níu ára gamall. Það var laugardagur og ég hafði verið að leika við vin minn þennan morgun. Svo kom ég heim, laust eftir hádegið og mamma kallaði mig inn í eldhús. Hún benti. Á miðju eldhúsgólfinu, ofan á kolli, stóð bastkarfa. Í henni var teppi og oní körfuni ofaná teppinu lá pínulítil kisa. Kisan okkar. Sem uppfrá þessu verð hún fimmti meðlimur fjölskyldunnar og félagi í dagsins önn. Hún fylgdi mér í skólann í sex ár. Rölti með mér að skólalóðinni. En sagði ekkert. Sleppti svo takinu. Fór sína eigin leið. Eins og kettir gera. Kötturinn er nefnilega sjálfstætt dýr.

Nokkrum árum síðar var ég orðinn unglingur. Ég stóð í útidyrunum og flautaði, eins og við gerðum til að kalla kisu heim. En hún kom ekki. Og við fórum að leita og fundum hana loksins, slasaða. Mamma fór með kisu til dýralæknis og á meðan grét unglingspilturinn yfir kisunni sem kannski myndi deyja. Þarna birtist sorg - og kannski ótti - hins unga. Óttinn reyndist reyndar ekki á rökum reistur því kisa lifði af og lifði raunar töluvert lengur.

Rúmum áratug síðar, þegar ég var tuttugu og sex ára gamall flutti öldruð kisa að heiman. Þá fylgdi hún litla bróður mínum sem tók hana að sér eftir að foreldrar okkar þurftu að kveðja kisu. Þau voru sjálf orðin veik. Stuttu síðar dó mamma. Kisa lifði.

* * *

Kæri söfnuður. Þessi prédikun fjallar ekki um prédikarann þótt hún hefjist á persónusögu. Hún fjallar um sorgina því dagurinn í dag er einn af sorgardögunum í kirkjunni. Þetta er einn af dögunum sem við tökum frá til að rifja upp og minnast - til að hugsa um það sem er liðið og skipti okkur máli. Þetta er líka einn af sársaukadögum sorgarinnar þegar við stöldrum við og leyfum okkur að finna fyrir sársauka sorgarinnar og þetta er gleðidagur sorgarinnar þegar hlýja góðra minninga fær að ylja okkur.

En það er samt ákveðin ástæða fyrir því að prédikunin hefst á kisusögu.

Hún er þessi:

Sorgin er eins og köttur.

Ég skal útskýra hvað ég á við.

Sorgin er eins og köttur því hún kemur og fer eftir því sem henni sýnist.

Sorgin er eins og köttur því feldur hennar er mjúkur og þófarnir líka. Og þegar vel stendur á þá liggur hún malandi. Minningarnar geta verið mjúkar. En sorgin er líka með klær sem eru beittar og það svíður undan þegar við erum klóruð. Og hún er með tennur sem bíta. Fast.

Sorgin er eins og köttur því hún er sjálfstæð. Við eigum hana ekki þótt hún geti tilheyrt okkur og sé hluti af okkur. Við stjórnum henni ekki. Við getum ekki kallað hana fram þótt við finnum hana stundum nálgast. Smátt og smátt lærum við samt að þekkja aðstæðurnar þegar sorgin kemur til okkar. Hellist yfir. Minningarnar leita á okkur.

Sorgin er eins og köttur. En sum okkar hafa ofnæmi. Við höndlum hana ekki. Höndlum ekki minningarnar. Og það er allt í lagi. Því sum reynsla sem við höfum gengið í gegnum er einfaldlega þannig að það er ómögulegt að höndla hana. Sumir kettir eru líka villikettir. Maður vill ekkert endilega koma nálægt þeim.

Sorgin er eins og köttur.

En hún þroskast. Og fyrst er hún eins og kettlingur.

Það er leikur í kettlingum og þeir sjást ekki fyrir. Kettlingurinn ærslast og í leiknum getur hann líka bitið og klórað. Fyrirvaralaust. Þannig virka líka sorgin og minningarnar. Þær eru óútreiknanlegar í upphafi. Við sjáum ekki fyrir hvernig ákveðnar aðstæður sem minna á hann eða hana sem við höfum misst virka á okkur. Hvort við verðum ofsa glöð eða yfirkomin af depurð. Hvort við hlæjum eða grátum.

Hvort tveggja gerist. Og hvort tveggja er í góðu lagi. Hvort tveggja er eðlilegt. Og það er gott.

Kettlingar þroskast og sorgin líka. Smátt og smátt hættir hún að vera óútreiknanleg. Hún hættir jafnvel að bíta. Minningarnar sem fylgja henni verða kærar eins og kisa sem liggur upp við þig og malar. Stundum eru það einkum þær sem standa eftir.

Og þá erum við komin að kjarna málsins.

* * *

Ég skrifaði hluta af þessari prédikun á spjaldtölvuna mína - þetta litla tæki semég held á.

Þið sem hafið notað svona tæki vitið kannski að þau eru stundum full af hjálpsemi - og hjálpa til við skrif með því að leiðrétta klaufalegar villur í texta. Stundum kemur það reyndar fyrir að leiðréttingarnar eru síðri en það sem var til stóð.

Nema hvað. Ég var að skrifa prédikunina og skrifaði sorgin á spjaldtölvuna. Tækið leiðrétti það. Hvernig? Það breytti sorgin í ástin.

Sorgin varð að ást. Og þarna hitti græjan naglann á höfuðið. Því sorgin og ástin eru systur. Við syrgjum þau sem við elskum.

Þetta vitum við auðvitað, en stundum þarf að minna mann á tengingarnar.

Á endanum snýst þetta nefnilega um ástina. Um ástina sem við berum í brjósti til þeirra sem við höfum misst, hverjar svo sem aðstæðurnar voru þegar þau dóu. Um ástina sem nærir okkur enn í dag. Um ástina sem getur líka verið sár vegna þess að hann – hún – þau eru farin. Þau eru ekki hér og það er bara svo ferlega vont.

En.

Þau voru hér. Hann eða hún eða þau voru mín. Við vorum saman. Við áttum stundirnar. Og þær eru dýrmætar. Þrátt fyrir sársaukann. Þær eru dýrmætar og geta jafnvel gefið yl og næringu í lífið hér og nú.

* * *

Ást verður sorg verður ást. Þannig er þetta ferli. Ástarsaga lífsins. Sem er líka sorgar sagan.

Og hún er hvort tveggja í senn ósköp hversdagsleg. og ferlega falleg. Því þannig er lífið.

Guð blessi ykkur öll. Guð blessi minningu þeirra sem þið elskuðuð og elskið og saknið. Guð helgi sorgina ykkar og veri með ykkur, í dag og alla aðra daga. Amen.