Veröld sem var

Veröld sem var

Í bók sinni, Veröld sem var, segir rithöfundurinn Stefan Zweig frá því þegar hann varð vitni að því þar sem Karl síðasti keisari habsborgaraættarinnar settist upp í lest á leið sinni til Sviss.

Í bók sinni, Veröld sem var, segir rithöfundurinn Stefan Zweig frá því þegar hann varð vitni að því þar sem Karl síðasti keisari habsborgaraættarinnar settist upp í lest á leið sinni til Sviss.

Heimsendir

Þetta var í marsmánuði 1919 hálfu ári eftir að byssurnar hljóðnuðu á vígvöllum Evrópu. Það fór ekki mikið fyrir þessum atburði þótt heimssögulegur væri. Já, þarna lauk sögu þessarar ættar sem ríkt hafði í Evrópu í nærri þúsund ár. Höfundurinn lýsir því hvernig lögreglumenn og hermenn litu vandræðalega í hver á annan, í óvissu um það hvort þeim bæri að heilsa að votta hinum aðalborna en valdalausa farþega virðingu sína. Lýsingar Zweigs á lífinu í Vínarborg áður en ófriðurinn mikli skall á eru fullar af eftirsjá og trega. Þar var allt í föstum skorðum, listir og menning blómstruðu og samgangur á milli landa var greiður og óhindraður. Svo var allt þetta orðinn hluti af fortíð og nýr veruleiki tók við. Af yfirskrift ritsins að dæma var þetta endir á heilli veröld – heimsendir í einhverjum skilningi þess orðs.

Fólk hefur löngum velt fyrir sér því sem við köllum endalok. Stundum er það í endurskini minninganna eins og í tilviki Zweigs. Þótt brotthvarf keisarans hafi verið hljóðlátt verður ekki sama sagt um aðdraganda þess. Ógn og skelfing fylgja slíkum atburðum og við minntumst þess í síðustu viku að þá voru hundrað ár liðin frá því að skrifað var undir samninga um vopnahlé, 11. nóvember 1918. Í haust voru líka tíu ár frá hruninu sem Íslendingar eru farnir að nota sem ákveðinn upphafspunkt. Við tölum eins og ekkert sé um árin fyrir og eftir hrun eins og nágrannaþjóðir miða við styrjaldir.

Oft má þó lesa spádóma um yfirvofandi ógnir og framsýnt fólk hefur tíðum séð fyrir sér einhver slík endalok. Enginn hörgull er á slíkum röddum á okkar dögum og þarf ekki að undra. Ástand jarðar hefur vart verið verra frá því hinn viti borni maður steig fram á sjónarsviðið. Við getum þó huggað okkur við að hingað til hafa spár um heimsenda bersýnilega ekki ræst og vonum að þær haldi áfram að verða dæmi um óhóflega svartsýni. Slík skeið draga til sín miklu meira pláss á síðum sögubóka heldur en önnur tímabil sem eru tíðindaminni. Og það er ekki hættulaust að vera uppi á slíkum tímum.

Viðurstyggð eyðileggingarinnar

Um þetta leyti árs í kirkjunni rifjum við þó upp slíka spádóma og eins og aðrir textar í helgri bók, þá standa þeir berskjaldaðir fyrir túlkun af ýmsum toga. Já, hvað merkir endir heillar veraldar? Lýsingar Páls postula á því þegar básúnurnar óma bera með sér að sá tími muni renna upp að hinir réttlátu verði skildir að frá hinum ranglátu. Ein af þekktustu aríum í verkinu Messías, sem Kór Neskirkju flytur 2. desember næstkomandi er byggir á svipuðum spádómi postulans úr fyrra Kórintubréfi. Þarna eru orðin þó sett fram til huggunar og uppörvunar litlum og ráðvilltum söfnuði.

Í orðum Jesú í guðspjalli dagsins er á hinn bóginn vísað í orð Daníels spámanns og talað um „viðurstyggð eyðileggingarinnar“ og í hönd fer nöturleg lýsing á hlutskipti fólks sem þarf að þola ógn og skelfingu þar sem engu er eirt. Fræðimenn eru almennt þeirrar skoðunar að texti þessi vísi til eyðingar Jerúsalem, borgarinnar helgu, árið 70. Þá höfðu herir Rómverja setið um borgina og komið í veg fyrir að nokkur aðföng bærust þeim fjölda sem þar hafðist við. Borgarbúar stráféllu því úr hungri áður en óvinaherinn braust í gegnum borgarhliðið. Ráðin um að forða sér til fjalla eru í því sambandi áhugaverð því það jók einmitt á neyð borgarbúa að þeir skyldu fylla borgina í aðdraganda umsátursins.

Þessi heimsendir minnir um margt á lýsingar Stefans Zweig á endi þeirrar veraldar sem var. Þegar þúsund ára veldi leið formlega undir lok og hinn ættgöfgi keisari steig um borð í lestarvagninn á leið í sína útlegð. En textinn heldur áfram og lýsingin færist yfir í stærra samhengi. Sá lesendahópur sem Mattheusarguðspjall átti að höfða til voru gyðingar. Í þeirra augum Jerúsalem var jú engin venjuleg borg. Hún var helgur staður, miðpunktur alls og fall hennar markaði um leið endalok hins þekkta heims. Þegar sigurvegarnir vanhelguðu musterið og frömdu voðaverk á þeim fáu sem tórðu í borginni eftir umsátrið, markaði það að sama skapi mikil endalok. Kristur færir þessa atburði líka yfir á heiminn allann og minnir á að þar er ekkert öruggt. Dagurinn mikli kemur eins og þjófur að nóttu, og þetta er dómsdagur. Dagur þar sem dómur verður felldur yfir mannkyni.

Vér habsborgarar

Slíkur dómsdagur þarf þó ekki að fara fram með básúnublæstri og skykkjuþyt aðvífandi hersveita. Í Biblíunni erum við í sífellu mynt á þann dómsdag sem mætir okkur, hverju og einu í lífinu. Ákallið um að við stígum sjálfviljug skref til nýrra siða og breyttrar háttu verður æ meira aðkallandi. Þar skynjum við hvað hugmyndin um endalokin hefur í raun sterkan siðferðilegan boðskap. Já, dagur dómsins er í raun sú stund þar sem við leggjum líf okkar á vogarskálarnar. Hér forðum lifðu keisarar í slíkum vellystingum að það þurfti heila þjóð til að borga fyrir veisluhöld og prjál. Habsborgarar sýndu mátt sinn og veldi með íburði og prjáli, sem vakti athygli langt út fyrir mörk ríkisins. En við, hinir venjulegu íbúar í þróuðum ríkjum heimsins, stöndum þeim ekki langt að baki í munaðarlífi okkar.

Þegar kemur að þeim lífsgæðum sem útheimta takmarkaðar auðlindir heimsins, held ég að við séum jafnvel mun heimtufrekari. Enginn konungur gæti ferðast jafn skjótt, jafn langar vegalengdir – eins og okkur þykir sjálfsagt að gera. Enginn þeirra gæti notið slíkrar afþreyingar eins og við höfum aðgang að. Öll leikhús og óperuhallir Vínarborgar gætu ekki boðið upp á nema brot af þeirri skemmtun sem hvert og eitt okkar fær í gegnum skjáinn. Hráfnið í matinn okkar er af slíku úrvali og af slíku magni að færustu matareiðslumeistarar við hirðir þeirra hefuð ekki aðgang að nokkru slíku.

Þetta er vissulega öfundsvert hlutskipti – en þar sem þegnar landsins guldu skatta til að standa undir óhófi yfirvalda sinna, þá sækjum við auðinn á önnur mið. Því er nú ver og miður, þá nær plánetan okkar engan veginn að anna þessari eftirspurn og nú á dögunum bárust þau tíðindi að enginn krefðist jafn mikils úr þeirri áttinni en við Íslendingar.

Veröld sem var. Margur hefur rifjað upp þá sögu, nú þegar öld var liðin frá þeim hörmungum sem fyrra heimsstríð kallaði yfir Evrópu og fleiri hluta heimsins. Veröldin varð aldrei söm. Fórnirnar voru engu líkar sem fólk hafði áður þekkt enda var öllu til kostað í því skyni að útbúa öflugri vígvélar. Það lá jú mikið undir – sjálf tilvist þeirra ríkja sem bárust á banaspjótum.

Dómsdagur

Þegar Biblían talar um dómsdag þá felur það alltaf í sér ákveðið próf. En það er þó aldrei sett svo fram að vonin sé þar ekki alltaf nærri. Aldrei megum við missa vonina og ekki skulum við vanmeta það góða sem í hverju okkar býr. Í hjörtum okkar er ljós kærleika og réttlætis sem getur skinið skærar og þá batnar heimurinn. Vistkreppan kann að leiða til þess að ný tækifæri verði til. Mögulega færist sama kapp í hugveitur og tæknismiðjur heimsins eins og gerist á ófriðartímum – en nú verði það ekki gert til að styrkja eitt ríki á kostnað annars, heldur verði það allt unnið þágu móður jarðar og framtíðar mannkyns.

Við stöndum í tímamótum hins liðna og þess sem bíður. Allt lífið göngum við í gegnum slíkar krossgötur. Sumt af því sem mætir okkur er ekki á okkar valdi en annað er það sannarlega. Sjálf getum við túlkað og metið aðstæður, við ráðum því hvernig við breytum og hvaða fjársjóðir það eru í hjarta okkar sem við kjósum að varðveita. Framtíðin er hulin en ef við leggjum traust á Guð og fylgjum boðum hans mun okkur farnast vel.