Fáum við að gróa til einingar

Fáum við að gróa til einingar

Það er líka innan tengslanna sem við lærum og njótum að láta okkur aðra varða, finnum til ábyrgðar og lærum að biðjast velvirðingar á því sem fer á annan veg en ætlast var til. Allt að virðingu við það sem mestu vegur, tengslin. að tilheyra og vera í tengslum.
fullname - andlitsmynd Gunnar Rúnar Matthíasson
31. desember 2008
Flokkar

Nú ganga áramót í garð, nýtt ár heilsar og ártal þess gamla hverfur úr daglegri notkun. Árið 2008 víkur fyrir árinu 2009, nýr kafli hefst og við fikrum okkur áfram til þess sem ókomið er. Það er eins og um nýtt upphaf sé að ræða þó auðvitað séu áramót ekkert annað en framhald þess sem var, nýtt augnablik í samfelldri röð augnablika lífsins, enn eitt skref á okkar dýrmætu lífsgöngu. En þetta augnablik er dregið fram í samfélagi okkar og helgað virðingu fyrir breytingunni. “Kynslóðir koma, kynslóðir fara, allar sömu ævigöng...” Mannssálinni er nauðsyn að nema staðar og horfa yfir farinn veg þegar ferðbúist er til nýs áfanga, hver sem hann er. Við minnumst þess sem við höfum þegið, förum yfir hvernig við erum búin, skoðum hvernig við erum nestuð og hver munu ganga með okkur næsta spölinn. “Já hvers er að minnast og hvað er það þá, sem helst skal í minningu geyma...”

Kannski ert þú í hópi þeirra sem finnst allt vera á fljúgandi ferð liðið hjá. Og víst þekkjum við það sem hér erum, öll aðeins farin að finna til áranna, að tímavélin virðist snúast hraðar því eldri sem við verðum. Við komumst yfir minna en við vildum og finnst við ekki hafa tök sem skyldi til að nema staðar njóta þess sem er. Annríki hvers dags og umbúnaður fyrir allt sem í hönd fer vill ræna okkur því sem við áttum þegar við vorum börn, því að lifa stundina og njóta þess sem er, hvern dag sem lífið færir.

En hvað var það sem við áttum sem gerði það ekki aðeins kleift heldur eðlilegt að njóta og eiga langa annasama daga, hvern fyrir sig? Áhyggjuleysi er líkast til það sem flest nefna hvað fyrst er þau svara þessu og víst verður því ekki í móti mælt að ef bernskan er heil þá á að fylgja henni öryggi þess að búa í tryggu skjóli foreldra og fjölskyldu. En látum ekki villast í þessu svari því áhyggjuleysi, svo dýrmætt sem það er, er lýsing á líðan sem til verður í tengslum. Það eru tengslin, það að tilheyra, vera virtur hluti af einhverju stærra en maður sjálfur sem vekja öryggi og gefa rótfesti í ölduróti lífsins. Það er líka innan tengslanna sem við lærum og njótum að láta okkur aðra varða, finnum til ábyrgðar og lærum að biðjast velvirðingar á því sem fer á annan veg en ætlast var til. Allt að virðingu við það sem mestu vegur, tengslin. Að tilheyra og vera í tengslum.

Öldurót umliðinna mánaða hefur vakið mörum spurnir, og jafnvel undran á viðbrögðum fólks. Svo mikið hefur yfir okkur dunið og er enn að koma fram um skertan og jafnvel hverfandi hag einstaklinga og fjölskyldna að margir eru í miklum og þungum sárum. En takið eftir hvernig umræðan hefur verið, takið eftir þeim tón sem sleginn hefur verið, hvort sem talað er í reiði gagnvart því sem til þessa hefur leitt, eða óvissu um hvar við stöndum, þá hefur mér þótt sem einnig gæti ákveðins léttis og jafnvel vonar á vissu sviði samfélags okkar án þess að á nokkurn hátt sé lítið úr gert þeim efnahagsvanda sem við er að etja eða þeirri ógn sem hann er grundvallarstoðum samfélags okkar, heilbrigðis-, mennta-, félags- og atvinnustarfsemi allri.

Um skeið hefur framgangurinn ógnað samheldni þjóðarinnar, ógnað einingu fjölskyldna sem greinst hafa efnahagslega að, - starfa og möguleika sinna vegna - svo fólk, með sama uppruna, sama bakgrunn og sömu persónutengsl, hefur ekki fundið sig heyra lengur saman, eða geta átt samfélag. Allt þetta vegna ytri aðstöðumunar sem orðið hefur til á aðeins örfáum árum með óréttmætri sundrungu fjársældar og skýlausrar græðgi. Hagsmunatengsl og haggildi hafa orðið sem skurðgoð sem skyggt hafa á nauðsyn þess að vera í einlægum tengslum þar sem manneskjan skiptir máli og manngildið er skilið í samhengi náungakærleika og þess að bera skyldur til annarra. Við stöndum á sárum og viðkvæmum tímum en það er dýrmætt ef týndir synir og dætur fá tækifæri til að snúa heim. Til þess heima sem eitt getur verið heima, þar sem fólk skiptir hvað annar meira máli en tölur, arðsemi og hagsæld með tilheyrandi sjúkdómseinkennum í merkjum, gleri og stáli sem reisa veggi manna ái milli.

Já “Drottin. ó Drottinn vor ver þú oss veikum hjá og vernda þína arfleifð...”, Um það snýst trúin að vera í tengslum, við Guð og við aðra menn á þann veg að við látum um okkur muna öðrum til styrkingar. Hún snýst um það að hefja upp augun og horfa hvert í annars augu, meðvituð um að við erum jöfn frammi fyrir Guði, að ekkert mannlegt má rjúfa og greina að þó störf okkar og skyldur séu ólík. En störfin eru þjónusta, hlutverk í gangverki sem er stærra en hagur hvers og eins, gangverki sköpunarinnar sem stýrist af umhyggju og ást Guðs sem ekki dvín þó við þekkjum hana ekki eða höfnum. Hann man okkur, og heldur áfram að leita samfélags, tengsla við okkur þar sem við getum vaxið og dafnað í hlutverki því sem okkur er ætlað, að elska hvert annað, vera farvegur elsku Guðs og “leggja smyrsl á lífsins sár, lækna mein og þerra tár..”.

Við göngum vissulega til óvissuárs frá árinu 2008, en við göngum saman og undir vonarbjarma umhyggju sem upphefur hið gildi þess sem manninn varðar og gagnrýnir það allt sem þar ber skugga á, svo lengi sem við munum hver við erum og þiggjum að opna hjörtu okkar fyrir samfylgd með honum sem hjálpar okkur að vera vakandi í umhyggjunni. Með honum fáum við enn eitt ár, ár gefið til að bera ávöxt eins og sá sem gaf okkur lífið væntir af okkur.

Því hræðst þú ei þótt hér sé kalt og heimsins yndi stutt og valt og allt þitt ráð sem hverfult hjól, - - í hendi guðs er jörð og sól.

Gef þú oss, Drottinn enn gleðilegt ár og góðar og blessaðar tíðir.