Þrumur og eldingar eru ekki hversdagsleg fyrirbæri og hér á Íslandi heyrir það til undantekninga að slík sýning berist af himnum ofan.
Elding í kirkjuturn
Við feðgar sátum í stofunni heima þar sem við búum skammt frá Hallgrímskirkju og ég taldi sekúndurnar á milli blossanna og hávaðans sem fylgir. Það óþægilega stutt þar á milli og reiðilegar drunur bárust í gegnum vindinn og beljandi regnið. Svo sáum við myndir af því sem var að gerast. Já, turninn á Hallgrímskirkju dró til sín þessa rafhleðslu sem lýsti hann upp eitt andartak. Svo var ekkert meira.
Þessar myndir verða örugglega sýndar næstu áramót þegar við rifjum upp atburði liðins árs. Þetta var eins og listaverk og við sem búum í öryggi nútímans, gerum okkur grein fyrir því hvað er á ferðinni þegar svona læti dynja yfir, fáum auðvitað það besta úr báðum heimum. Getum talað um þetta og deilt fréttum, óhult fyrir skaðanum og laus undan öllum þeim hugmyndum sem fyrri kynslóðir gerðu sér um slík þrumuveður. Við eigum meira að segja orðatiltækið „að gera veður yfir“ einhverju, ef mál er gert úr einhverju af litlu tilefni.
Já, turninn á Hallgrímskirkju stendur enn og er óskaddaður. Á miðöldum vissi fólk ekkert hvað var í gangi í slíkum veðrum sem geta jú verið miklu svæsnari en þetta sem dundi á okkur þarna um daginn. Þá tíðkaðist sú hefð að senda einhvern kjarkmikinn upp í næsta kirkjuturn og hringja bjöllunum í ofboði. Þið getið nú ímyndað ykkur hversu góð hugmynd það var fyrir daga eldingavara sem eiga að leiða orkuna á öruggan stað.
Í Skálholti stóð á miðöldum mikil dómkirkja kennd við Klæng biskup. Það urðu einmitt örlög hennar að brenna til ösku í slíku eldingaveðri árið 1309. Vel má vera að hringjaranum hafi verið falið að fæla burtu ímyndaða óvætti með klukknahljómi á sama tíma og eldingunni laust niður. Og sennilega hefur það verið síðasta embættisverk hans.
Marteinn Lúther, siðbótarmaðurinn, mun hafa verið skelfingu lostinn þar sem hann villtist um í skógi þegar dundi á með slíku veðri. Hann hét á heilaga Önnu að ganga í klaustur ef hann kæmist lífs úr þessum hremmingum. Sú varð raunin með afdrifaríkum afleiðingum.
En síðar átti hann eftir að amast yfir þessum sið að hringja bjöllum í þrumuveðri. Þetta hét á þýsku Wetterläuten, eða veðrahringing. Eins og svo víða í skrifum sínum greindi Lúther á milli þeirrar viðleitni að hafa áhrif á náttúruöflin með slíkum hætti og svo hins að fólk nýtti ýmsar aðferðir til að tjá trú sína. Siðbótarmenn settu jafnvel lög sem áttu að banna slíkt háttarlag en siðurinn hafði djúpar rætur meðal almennings og aumingja hringjarnir voru áfram ræstir út til að fæla í burtu fjandana með klukknahljómi.
Já, guðspjallstexti dagsins gerist uppi á fjalli og þar eru reyndar ekki eldingar á ferð, heldur annars konar himneskur ljómi. Þetta er örsaga, þar sem stórbrotnum atburðum er lýst í fáeinum málsgreinum en vísar er í ýmsar áttir. Pétur býðst til að gera þeim tjaldbúð – þar erum við komin með slóð á aðra staði í Biblíunni, nefnilega aðra Mósebók þar sem Ísraelsmenn gerðu slíka tjaldbúð utan um sáttmálsörkina með boðorðunum. Það mannvirki skiptist í minni hólf, hið allra heilaga þar sem örkin var og svo smám saman vék helgin fyrir hinu almenna. Það er í raun svipað og þessi helgidómur hér. Kristnar kirkjur hafa sótt fyrirmynd í hina fornu tjaldbúð.
Móse og Elía koma þar fram, þessir tveir af mestu leiðtogum Ísraelsmanna, Móse leiddi þjóðina úr þrælabúðunum í Egyptalandi og Elía, kraftaverkaspámaðurinn var sagður hafa haldið á brott úr þessum heimi í logandi eldvagni. Þessi ummyndun sem frásögnin dregur heiti sitt af vísar til þeirra fornu sagna að klæði Móse hafi lýst, þá er hann steig niður af Sínaífjalli með steintöflurnar er geymdu boðorðin tíu. Það er líka stef í öðrum bókum Gamla testamtentins að himneskar verur hafi haft á sér glóandi klæði og sú tilvísun er einnig í Opinberunarbókinni, síðustu bók Biblíunnar.
Þá er þetta í annað sinn í guðspjalli Mattheusar þar sem Drottinn talar. Í báðum tilvikum er greint frá björtu skýi sem í hinu biblíulega samhengi var tákn um guðlega nærveru. Og orðin eru þau sömu og óma í sögunni af því þegar Jesús var skírður í ánni Jórdan. Þar sem talað er um elskaðan son Guðs, er enn rifjað upp sígilt stef. Sonur Guðs er í raun eins konar umbjóðandi Guðs. Konungar voru stöku sinnum sæmdir þessari nafnbót eða einkar spakir menn. Í kristnum skilningi birtir Jesús okkur það hvernig Guð starfar, sem fórnar sjálfum sér í skilyrðislausum kærleika til mannanna.
Þetta er að sönnu litrík frásögn, við gætum kallað hana leiðslusögu sem er á mörkum tveggja heima. Hún hefur þar að auki að geyma hugtök og orð sem tengjast hugmyndum okkar um gott og illt. Hún vísar sannarlega aftur fyrir sig með fjölmörgum skírskotunum í Gamla testamentið. En undir þessu glampandi yfirborði leynist forspá um hina komandi tíma sem biðu þess sem þarna var hafinn upp til skýjanna með hinum æðstu. Hlutskipti þess sem þarna var sagður vera sonur Guðs áttu síður en svo eftir að verða þrautarlaust. Hans átti eftir að bíða svik og einsemd, miskunnarlaust ofbeldi og niðurlæging sem birtist okkur hvað skýrast á krossinum.
Lamaðir af ótta
Sú hugsun snýr að vanmætti okkar gagnvart þeim öflum sem við höfum ekki stjórn á, rétt eins og þegar eldingum sló niður hér forðum daga og fólk gerði sér í hugarlund hvað þar væri á ferð. Rétt eins og þegar Jesús var festur á krossinn þá misstu lærisveinar hans alla von og allan mátt. Með sama hætti verða þeir máttvana í þessari frásögn. Þeim leggjast á jörðina og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Það er ekki fyrir en Jesús snertir þá sem þeir komast aftur til sjálfs sín.
Þetta hafa glöggir lesendur þessarar frásagnar einmitt talið vera tilvísun í það þegar Jesús reis upp frá dauðum og birtist fylgjendum sínum. Þá fengu þeir þróttinn að nýju, fylltust krafti og mætti, óttinn vék fyrir óbilandi sannfæringu sem gerði þeim kleift að boða fagnaðarerindið með þeim undraverða árangri sem raun ber vitni. Já þessi frásögn vísar í ýmsar áttir, til fortíðar og framtíðar. Hún varðar afstöðu okkar til þeirra afla sem eru meiri og stærri en svo að við fáum ráðið við þau. Og þeir halda ekki kyrru fyrir þarna uppi á fjallinu heldur fara af stað niður til fólksins.
Þegar við rýnum í það flókna kerfi sem mannsálin er, þá sjáum við hvernig hún birtist okkur í sögum og helgisögnum sem flókin, dularfull, mótsagnarkennd og full af togstreitu. Mikið af því er svo kölluð trúarleg reynsla þar sem atburðir eiga sér stað sem breyta lífi fólks og færa það frá einum stað til annars.
Tilvera okkar líkist ferðalagi þar sem við leitum sannleikans. Þegar við göngum heil inn í þá leit, getum við slegist í hóp með fyrri kynslóðum sem leggja okkur mikið til. Biblíutextarnir eru innblásnir af þeirri viðleitni. Þeir verða ekki túlkaðir með réttu án þess að ýmis sjónarmið séu tekin með þegar við rýnum í þá og leitum skýringa. Það megum við nútímamenn vita, hvernig sem skilgreiningin á okkur kann svo sem að hljóma. Og saga kristninnar lýsir þeirri sístæðu viðleitni að leggja mat á slíka reynslu, greina hvaðan hugmyndirnar spretta.
Ég var til dæmis inntur eftir því í heita pottinum í vikunni hvaða skilaboð almættið hefði verið að senda okkur þegar eldingunni laust niður í turn Hallgrímskirkju. Ég svaraði því til í sömu glettni að þarna væri verið að amast yfir túrismanum sem tröllríður öllu í miðbænum! Hér forðum hefði þetta ekki verið sett fram í gríni. En trúin mótast með tímanum. Siðbótarmenn börðust gegn ýmsum hugmyndum sem þeir kenndu við hjátrú og bentu á að hina sönnu kirkju gætum við fundið í hjarta hverrar kristinnar manneskju. Þar talar texti dagsins til okkar. Hann lýsir sterkum tilfinningum, undrun, ótta, máttleysi og svo hugrekki, von og trú, já þeirri upprisu sem síðar átti eftir að sigra heiminn.