Gerilsneydd orð í fernu

Gerilsneydd orð í fernu

Aðeins ég og fjallið, ég svo smár undir tæru himinhvolfinu að mér fannst ég vera boðflenna-því engin talaði við mig. Það tók mig nokkra tugi metra þegar halla fór undir fæti og huga varð að hverju skrefi upp í mót og andardráttur minn var það eina sem rauf kyrrðina að nema staðar.

Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Matt 28.18-20

Ögrandi þögnin

Núna í dag er vika síðan að ég var staddur einn míns liðs á fjalli í ekki svo mjög fjarlægu landi. Reyndar svo nærri að flestir landar mínir horfa í aðra átt þegar hugað er að því að skreppa út fyrir landsteinanna. Ég var staddur á Anmasalik eyju á fjalli sem vakir yfir þorpinu Tahasalick sem lúrir á austurströnd Grænlands. Þetta er 18 hundruð manna þorp með ekki mikið færri ýlfrandi sleðahundum sem forvitnir sperrtu eyrum og augu þegar þeir komu sáu þetta framandi fólk sem í barnaskap sínum gaf þeim að bita sem auðvitað mátti alls ekki en þeir voru ekkert að segja frá því heldur tóku því sem að þeim var rétt með undirgefnu þakklæti.

Ég tók mér ferð upp á fjallið sem í daglegu tali kallast “Sjómannsfjallið” Það er einir 700-800 metra hátt og gnæfði yfir sofandi þorpinu eins það gætti að ferðum strauma og eða íss og léti vita af ef hætta væri á ferðum. Komast að rótum þess var ekki eins auðvelt og það sýndist vera í fjarlægð – þegar upp var staðið var mesti tíminn sem fór í gönguna að fjallinu en ekki hlíðar þess-brattar. Ég hugsaði með mér þegar ég var komin upp einn ásinn og dalur lá á milli hans og fjallsins. “Í hvað hef ég komið mér. “ Þetta er meiri vitleysan. Ég verð aldrei komin að þessu fjalli” sem var farið að ögra mér. Ég hafði um tvo kosti að velja-halda ferð minni áfram niður dalinn og upp ásinn hinum megin án þess að hafa vissu fyrir að ég væri komin þá að rótum fjallsins þannig að hin eiginlegi tilgangur ferðarinnar gæti hafist að ganga á hólm við Sjómannsfjallið og eða hinn möguleikinn - snúið við og sagst hafa gefist upp. Ég stoppaði á ásnum og horfði niður hlíðina sem var ekkert annað en urð og grjót. Ég var ekki einn þarna því að ég uppgvötaði þar sem ég stóð að þögnin hafði slegist í för með mér. Systir hennar kyrrðin var að leik allt um kring eins og barn sem hefur fengið of mikin sykur. Kyrrðin var yfirþyrmandi og þögnin spilaði á strengi tilfinninga sem ekki er hægt að kalla fram á blað.

Hugfangin fylgdi ég þeim systrum þögninni og kyrrðinni eftir og stundum kom “Kári” vindur í afbrýðiskasti og blés snöggum blæstri á vanga eins og til þess að láta mig vita að það væri líka til eitthvað annað en þær systur að klífa fjallið. Ég tók honum Kára vel því að ég neita því ekki að mér stóð stuggur af kyrrðinni og þeirri ró sem smaug á milli urðar og grjóts ofan á jökulsorfnum steinhellum. Ég hóf upp raust mína til þess að athuga hvort ég fengi bergmál í fangið en fékk ekki og ég var einn ásamt hinum sem létu ekki sjá sig en voru þarna og það var gott og það var slæmt ég vissi ekki hvort það var. Ég átti erfitt með að gera upp við mig hvort það var. Vissi sem svo að ég þyrfti ekki að skila inn svari. Aðeins það að ég var á leiðinni upp fjallið hvort ég næði alla leið eins og hugurinn stefndi og augun námu hæsta tind, en ég var rétt að hefja gönguna upp við rætur fjallsins og dalurinn með kyrru vatni var að baki.

Aðeins ég og fjallið, ég svo smár undir tæru himinhvolfinu að mér fannst ég vera boðflenna-því engin talaði við mig. Það tók mig nokkra tugi metra þegar halla fór undir fæti og huga varð að hverju skrefi upp í mót og andardráttur minn var það eina sem rauf kyrrðina að nema staðar.

Ósegjanleg orð

Þá varð það sem eitthvað gerðist-eitthvað skall á bak mér og umvafði mig allan á svip stundu og það var sem augun opnuðust fyrir nýjum veruleika og eyrun námu nýjar víddir sem hvísluðu í vitund ósegjanleg orð. Það var sama hversu mjög ég reyndi að fanga þau í huga þau létu ekki ná sér heldur léku sér allt um kring frjáls, óháð öllu og öllum. Það var þá sem ég gerði mér grein fyrir að orðið verður alltaf frjálst og óháð og verður aldrei fangað og sett í klafa klifurbúnað til þess að mætti ná hæstu hæðum svo öruggt væri að hrapa ekki og deyja. Orðið deyr ekki og eða hruflar sig á hnjánum með því að stökkva á milli steina-kann að detta en rís upp að nýju og mér fannst ég eitt augnablik fá hlutdeild í þessari sýn þarna á fjallinu og mig langaði svo að fanga þau og setja í bakpokann minn þannig að ég gæti sýnt þau þegar niður kæmi aftur en ég fékk það ekki – því orðin eru ósegjanleg-orðin og tilfinningin sem léku um huga þarna á fjallinu eru þar ennþá fyrir þann næsta sem þangað stigur fæti.

Tilviljun?

Sá eða sú sem gengur á fjöll með sjálfum sér og eða með öðrum skynjar oftar en ekki þessa tilfinningu sem að framan greinir. Tilfinning sem borgarsamfélagið hefur að mestu gerilsneytt og sett í fernu. Við opnum hana og dreypum á henni aðeins og síðan súrnar hún og verður hent.

Það er kannski engin tilviljun að þegar Jesú hafði mikið að segja að vera með sjálfum sér og Guði og eða lærisveinum sínum fór hann á fjall með þeim. Á fjalli var hann með lærisveinum sínum þegar hann mælti þessi frægu orð sem lesin voru áðan frá altarinu-“Skirnarskipunina” Þegar hann sendir lærisveina sína út í hinn stóra heim að skíra hvern þann sem vildi kannast við hann. Lærisveinarnir voru skelfdir, taugaóstyrkrir og jafnvel vantrúaðir-Jesú hvatti þá til að halda áfram því starfið sem hann var byrjaður á. Í augum lærisveinana var þetta verk sem þeim var falið sem óklífanlegt fjall. Ekki aðeins óklífanlegt í huga þeirra heldur og allir þeir ásar og dalir sem þyrfti að fara um áður en komið væri að rótum “fjallsins” og klífa það. Þeir hefðu getað orðið eftir á fjallinu og eða farið aftur til sins heima og sinnt þeim störfum sem þeir höfðu sinnt. Þeir gerðu annað af þessu tvennu – þeir fóru af fjallinu og leituðu nýrra leiða til að fara á öll þau “fjöll” sem biðu þeirra-“fjöll erfiðleika” “fjöll vantrúar” “fjöll ofsókna” og dali og ása eigin hugsana sem oftar en ekki er erfitt að fara um og ganga frá svo mætti leiða til þess að nálgast það markmið sem skírnarskipunin kallar til.

Orð í fernu

Barnið sem skirt var hér áðan hefur komið langan veg fyrir tilstuðlan foreldra sinna eða alla leið frá Bandaríkjunum til þess að svara þessu kalli. “Boðskapurinn er ætlaður öllum mönnum óháð stöðu þeirra eða uppruna. Skírnin er ytra tákn breytingar sem á sér stað innra með manninum við það að taka við Kristi. Hún er mynd þess gerist þegar hið guðlega mætir hinu mannlega, sakramenti sem innsiglar trú okkar.“

Þannig var tilfinning mín þarna á Sjómannsfjallinu ekki aðeins það að sigurinn var sætur að standa skjálfandi fótum á hæsta tindi og horfa endalaust á fjarlæga tinda og ísbreiðu á hafi heldur og það að ég fann svo sterkt fyrir því að hið guðlega mætti hinu mannlega og þegar það gerist er fúlt að eiga ekki orð í huga. Eða svo fannst mér þar sem ég stóð á tindi alheimsins. Ég sætti mig við það þegar niður var komið og ég leit á tindinn sem ég stóð á nokkru áður að það er allt í lagi að eiga ekki alltaf orð til að mæla því að þögnin og kyrrðin systurnar tvær sannfærðu mig um það að stundum er gott að eiga stund með sjálfum sér í þögn. Í þögninni opnast víðátta alls sem bíður þess eins að eiga samtal við þig. Ég var þess aðnjótandi að eiga samtal við kyrrðina, umhverfið og allt það sem er okkur manneskjunni nauðsynlegt til lífs. Þetta samtal opnaði ég óaðvitandi fyrir viku síðan og ég ætla að gæta þess að það súrni og ekki og gleymist því að í mínum huga var þetta ógleymanlegt. Vitandi vits að nútíminn hefur ekki tíma fyrir það ógleymanlega og vill halda áfram. Auðvitað held ég áfram – lærisveinar Jesú gerðu það þótt að þeir eflaust hafi vilja að stundin á fjallinu varði lengur.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen