Hvar eru lærimeistararnir?

Hvar eru lærimeistararnir?

Asi hversdagsins hindrar okkur í því að taka okkur tíma til samfélagsins við Drottinn og þar með rænum við sjálf okkur því tækifæri að koma fram fyrir hann sem skapaði okkur og gefur okkur lausn, með iðrun okkar og beiðni um fyrirgefningu.

Textar Lexía / Fyrri ritningarlestur: Köllun Samúels, Fyrri Samúelsbók, 3. kafli, vers 1 - 10 Pistill/ Síðari ritningarlestur: Eitt í Kristi, Galatabréfið, 3, 26-29 Guðspjall: Jesús birtist við Tíberíasvatn, Jóhannesarguðspjall, 21, 1-14.

Biðjum: Vertu Guð faðir ... Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þjónn þinn heyrir Hve mörg okkar hér inni eru tilbúin til að taka undir orð hins unga Samúels í musteri Drottins þar sem hann segir: ,,Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“ Hversu oft er það ekki að við höfum ekki tíma til að hlusta á Drottinn, spyrja hver vilji Drottins sé. Asi hversdagsins rænir okkur oftar en ekki tímanum sem við þyrftum á að halda fyrir samfélagið við Guð, skapara okkar. Sjálfsagt eru sum okkar alin upp við þennan asa og á sama hátt miðlum við þessum asa til unga fólksins. Og hér eigum við sameiginlegt með hinum unga Samúel að við skiljum ekki að það er rödd Drottins sem kallar á okkur. Samúel var heppinn. Hann gat treyst á handleiðslu lærimeistara síns sem skildi – þó ekki væri fyrr en í þriðja sinn – að hinn ungi einstaklingur þurfti á leiðsögn, hvatningu að halda. En hver er staða ungs fólks í dag? Á það sér lærimeistara sem skilja hvar þörf er á leiðsögn og hvatningu? Eru það lærimeistarar sem það getur treyst á? Og eru það einstaklingar sem taka sér tíma frammi fyrir Drottni með unga fólkinu og kenna því að staldra við, láta asa hversdagsins ekki ná yfirhöndinni heldur leggja líf og störf, það sem er framkvæmt og það sem er látið ógert, í Drottins hendur? Eru það lærimeistarar sem skilgreina sjálfa sig sem þjóna Drottins og eru sem slíkir unga fólkinu fyrirmynd?

Ein stór fjölskylda Ég var nýverið á ættarmóti. Á kvöldvökunni brugðu jafnt ungir sem eldri á leik, hver og einn á eigin forsendum. Þar sem ég sat og skemmti mér með fjölskyldunni varð mér ljóst að þær stundir eru sárafáar þar sem fjölskyldur koma saman og jafnt ungir sem aldnir, leikir sem lærðir, koma fram á jafningjagrunni. Við heyrðum hér áðan lesið úr Galatabréfinu, áminningu um að við erum öll ein stór fjölskylda: Þjóðerni á ekki að skipta máli, kyn á ekki að skipta máli, staða okkar í þjóðfélaginu á ekki að skipta máli. Orðin í Galatabréfinu eru skýr: Aðeins eitt skiptir máli, það að við sameinumst í trúnni á Jesúm Krist. Við fáum að vera Guðs börn, erfingjar þess sem Abraham var heitið. Þetta hlutverk er vandmeðfarið. Um leið og myndin er fögur af okkur sem einni fjölskyldu í Kristi þar sem allir fá að njóta sín, enginn er skilin útundan, hvað þá lagður í einelti verðum við að viðurkenna og átta okkur á því að myndin hefur einnig að geyma djúp sár, ör sem myndast hafa á tímum sorgar, ótta, hryllings. Við erum ekki flekklaus. Og við eigum í erfiðleikum með að takast á við þann vanda, leita fyrirgefninga og sátta og finna leiðir til betra lífs. Við reynum í eigin mætti að takast á við tilfinningarnar og áskoranirnar sem fylgja því að eiga samfélag við aðra. Og hér reynir á okkur sem teljum okkur fullorðin, skipum hóp þeirra sem ættu að vera öðrum fyrirmynd, lærimeistarar hvort heldur það er á vettvangi heimilisins eða úti á meðal fólksins.

Á sama báti Í guðsspjalli dagsins heyrðum við frásögn af því er Jesús birtist lærisveinunum við Tíberíasvatn eftir upprisuna. Í mínum augum voru þeir vonleysið uppmálað, lærisveinar sem vissu ekki sitt rjúkandi ráð þegar sú stund var runnin upp að þeim þótti sem Jesús Kristur hefði yfirgefið þá fyrir fullt og allt. Þeir sem höfðu áður verið hluti af þessari fjölskyldu sem safnaðist saman við borð Drottins töldu sig eina og yfirgefna. Því ákváðu þeir að snúa sér aftur að því sem þeir höfðu alist upp við og áttu að kunna best: Að veiða fisk. Þeir réru út að kveldi, lögðu út netin. Það var það sem feður þeirra og afar höfðu gert. Þeir þekktu vatnið, vissu um góðu veiðistaðina, kunnu réttu handtökin og voru þess fullvissir að ekkert gæti hindrað þá í því að framkvæma verkefnið sem hafði alltaf reynst þeim svo auðvelt: Að veiða fisk.

En þegar sorgin, óttinn, einmanaleikinn, efinn, reiðin innra með okkur tekur yfirhöndina verður hvert hversdagslegt viðvik jafnvel að óyfirstíganlegri áskorun. Þetta fengu lærisveinarnir að reyna þessa nótt. Þeir fengu engan fisk. Ekki eina bröndu. Samt börðust þeir alla nóttina, reyndu í eigin mætti. En netin voru tóm og þeir dauðþreyttir, búnir að vera. Samtakamátturinn var lítill, einbeitnin þverrandi. Lífið jafnvel tilgangslítið og engin von um að fá fisk því nóttin var liðin, sólin var tekin að skína á vatnið og jafnvel hinn óreyndasti fiskimaður vissi að þá færi fiskurinn dýpra niður í vatnið og væri því sem næst óveiðanlegur.

Það var þá sem kallið kom. Hann stóð á ströndinni og kallaði til þeirra. Slíkt kall hefði farið fram hjá mörgum. Ég veit ekki hvort ég hefði heyrt það. Held að það hefði farið fram hjá okkur mörgum því okkur skortir sem fyrr sagði þjálfunina í því að hlusta á Drottinn. Hann sagði þeim að kasta að nýju. Þeir tóku leiðsögninni, brugðust við röddinni sem þeir höfðu lært að fylgja. Árangurinn lét ekki bíða eftir sér: Nú var netið svo fullt af fiski að þeir gátu ekki dregið það um borð.

Samfélagið við Krist Þegar dagur var risinn var erfiðið að baki og þeir sem höfðu verið einir á báti, upplifað sjálfa sig yfirgefna fengu nú að reyna að samfélagið við Krist er alvöru samfélag. Hann beið þeirra á ströndinni með heitan morgunverð. Þeir voru þar samankomnir af því að þeir heyrðu kallið og hlýddu kallinu sem þjónar Drottins.

Bæn okkar hlýtur að vera sú að Jesús Kristur byggi upp þetta samfélag á meðal okkar, að hann kenni okkur að hlusta á orð sitt, sama hvort við erum ung eða eldri, Íslendingar eða útlendingar, konur eða karlar. Okkur hlýtur að þyrsta eftir þessu samfélagi við frelsara okkar og skapara. Ábyrgð okkar er fólgin í því að horfa til hægri og vinstri og átta okkur á því að fólki líður misvel í þessu samfélagi og að sumum þykir jafnvel sem að væru þau ekki velkomin. Ástæðurnar geta verið margar, ungum einstaklingi getur þótt sem messuform og orðaval í einni messunni tali ekki til sín, eldri einstaklingi getur þótt nóg um hávaðann frá trommunum í annarri messu. Við erum mis-messuvön og hvert og eitt okkar svolítið vön ,,sínu“ – svona eins og það er í kirkjunni heima. En það er ekki það sem veldur mér áhyggjum því við getum öll með virkri þátttöku fundið okkar stað og stund í kirkjunni.

Verkefni dagsins í dag Persónulega hef ég áhyggjur af þeim einstaklingum sem líður eins og í þeirri mynd sem ég dró upp af lærisveinunum um nóttina á bátnum á Tíberíasvatni. Þau upplifa sig ein og yfirgefin, jafnvel útskúfuð. Og oftar en ekki eru það við hin sem höfum sent þau í þessa útlegð. Með orðum okkar og gjörðum, eða með því sem við höfum ekki þorað að segja og látið ógert, höfum við sent þeim þau skilaboð að þau þurfi ekkert að koma að landi.

Asi hversdagsins hindrar okkur í því að taka okkur tíma til samfélagsins við Drottinn og þar með rænum við sjálf okkur því tækifæri að koma fram fyrir hann sem skapaði okkur og gefur okkur lausn, með iðrun okkar og beiðni um fyrirgefningu. Það er í gegnum hið persónulega samfélag við Jesú Krist sem við fáum kraftinn og öðlumst færnina til þess að sjá aðra með augum Krists og sjá Krist í augum annarra. Og þá getum við spurt okkur sjálf hvernig við viljum koma fram við þennan einstakling sem mætir okkur.

Í 25. Kafla Matteusarguðsspjalls, versi 40 lesum við um konung sem minnir á að ,,allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér“ en hann minnir líka á að ,,allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“ Við erum hvött til dáða. Göngum út í daginn, út í lífið héðan og spyrjum sjálf okkur hvernig við getum bætt okkur, gert meira af hinu góða, látið okkur manneskjuna skipta máli sama á hvaða aldri hún er, hver þjóðfélagsleg staða hennar er og hvar hún er fædd.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.