Umbúðalaus

Umbúðalaus

Sagan af fíkjutrénu sem á sér tvísýna tilvist á því ekki heima í handbók um trjárækt, heldur vísar hún áfram og flytur erindi um tímann og tækifærin, vöxt og stöðnun, líf og dauða. Þetta er saga um afdrif mannanna.

Lúkas 13. 6-9.

En hann sagði þeim þessa dæmisögu: “Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki.  Hann sagði þá við víngarðsmanninn:  Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið.  Högg það upp.  Hví á það að spilla jörðinni ?  En hann svaraði honum:  Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.”

Enn erum við í þessum sporum, stödd í helgidóminum við lok árs.  Fáeinar stundir lifa af árinu sem er að líða, það hverfur brátt í aldanna skaut. Það er Jesús frá Nasaret sem sem segir söguna um um fíkjutréð er guðspjall dagsins geymir.  Tré sem ekki hefur borið ávöxt líkt og til var ætlast; tré sem á að upphöggvast og hverfa af jörðu.  Gefðu því eitt ár enn, segir víngarðsmaðurinn, og biður því vægðar; enn er von.   Það er ekki erfitt að skilja þessa sögu bókstaflega.  Allir trjáræktarmenn gera það að minnsta kosti.  Hvert tré sem upp kemst á Íslandi, jafnvel kræklað og snúið,  er mikils virði  og það er eitur í beinum okkar að fella tré sem þurfa mikla alúð og umhyggju svo þau fái lifað og gert jörðina betri. 

En þetta er dæmisaga.  Dæmisaga er saga sem tekur atvik úr daglegu lífi og reynslu okkar – notar efni sem er afar venjulegt og öllum auðskilið, til að flytja erindi, boðskap, hugmynd eða lífsskoðun.  Sagan af fíkjutrénu sem á sér tvísýna tilvist á því ekki heima í handbók um trjárækt, heldur vísar hún áfram og flytur erindi um tímann og tækifærin, vöxt og stöðnun, líf og dauða. Þetta er saga um afdrif mannanna.

Undarlegt ár senn að baki.  Meiri breytingar á efnahagsumhverfi er við höfum áður séð. Mikið góðæri snérist í harðindatíma.  Það verður okkur öllum eftirminnilegt hversu íslenskt samfélag var skekið í undirstöðum sínum nú á haustmánuðum.  Framundan er mikil óvissa. Meðal okkar allra bærist uggur og ótti, því við vitum ekki hversu djúp lægðin verður, hvar botninn verður.

Það er í raun merkilegt, stórundarlegt að þetta skuli hafa gerst, því varnaðarorðin voru mörg, ekki síst erlendis frá. Íslenskir fjölmiðlar greindu frá gagnrýnni umfjöllun um íslenskt efnahagslíf annað slagið, svo var eins og því væri bara ýtt út af borðinu með orðavaðli forystumanna fjármálaútrásarinnar og því miður íslenskra ráðamanna. Illa innréttaðir og öfundsjúkir útlendingar sem höfðu ekkert fyrir sér í rógi og illmælgi um íslenskar peningahetjur – þannig var umfjöllunin afgreidd og ekki erfitt að láta Íslendinga trúa því.

Þeir sem á hinn bóginn fylgdust með erlendum fjölmiðlumog höfðu annað val en máttlausa  íslenska fjölmiðla til að leita sér upplýsingar, gátu  séð að umfjöllunin hélt áfram – áfram var talað um að íslenskt efnahagslíf væri líkt húsi sem byggt er á sandi og myndi brátt falla.  Á það var ekki hlustað og stærstu bankar landsins reknir, sem aldrei fyrr, eins og spilavíti með velþóknun æðstu ráðamanna sem töluðu á stundum eins og þeir væru í vinnu hjá gulldrengjunum – áróðurs- og spunamenn þeirra.    Fyrirtæki koma og fara – sumum vegnar vel, önnur fara í þrot. Þannig er gangur atvinnulífsins; en að einkafyrirtæki geti hrunið með þeim afleiðingum að efnahagslíf heillar þjóðar fari i uppnám, ævisparnaður ráðdeildarfólks hverfi, ungt fólk fái á sig ófyrirséða skuldaklafa, og þjóðin verði skuldsett um langan tíma, vegna fjárhættuspilamennsku  í útlöndum – það er eitthvað alveg nýtt. Ábyrgð þeirra sem leiddu þetta feigðarflan er stór – einnig ábyrgð stjórnvalda sem reyndust ekki vandanum vaxin og brugðust trausti.

Og stjórnmálamenn mega nú hugsa sinn gang vandlega – sjá fyrir sér söguna af fíkjutrénu. Hvernig ætla þeir að horfast í augu við verk sín og verkleysi ?

Á sínum tíma einkvæddu þeir bankana í hendur vina sinna, er fengu helstu fjármálastofnanir landsins, sameign þjóðarinnar,  á gjafverði. Þeir hófust síðan handa við útrás, gumuðu sig af afrekum sínum, sem fólust í því einu að þeir höfðu aðgang að lánsfé sem hægt var að braska með, þenja út bóluna í ógagnsæjum viðskiptum, búa til platverðmæti, og hjúpa allt blekkingar- og lygavef.  Þeir  tóku sér óheyrilegar fjárhæðir í þóknun, fyrir ekki neitt; alla vega var það ekki arður hinna vinnandi handa. Og svo var allt keyrt í þrot og ríkisvaldið varð að taka yfir rústirnar.

Ofurlaunin, lúxuslífið, flottræfilshátturinn, hinn súrrealístíski lífsstíll peningafólksins – allt þetta horfðum við venjulegt fólk á í mikilli undrun. Og vitaskuld hafði þetta líka  áhrif á dómgreind okkar; hún sljóvgaðist og það að eiga og spenna og eignast varð markmið í sjálfu sér. Nú súpa margir af þvi seyðið, því miður að hafa farið fram úr sjálfum sér. En það er svo auðvelt þegar vel gengur að gleyma sér í eftirsókn eftir vindi og trúa því að efnisgæðin séu eini hamingjugjafinn

  Á sama tíma og allt þetta gerist og þjóðinni er talið trú um að hún fari  sæl og glöð um gnægtarlendur og stefni á enn meiri velsæld, veikjast stofnanir samfélagsins sem eiga að tryggja velferð og jöfnuð meðal okkar.  Heilbrigðisstofnanir, skóla- og menntakerfið. Tryggingakerfið.  Allt þetta varð út undan í þenslu og góðæri.  Við vorum ekki samstíga í góðærinu; margir voru skildir eftir, ójöfnuður jókst, bilið milli ríkra og fátækra stækkaði.

Það er ekki undarlegt að reiðin kraumi víða, jafnvel heift og hatur.  Saklaus fórnarlömb reyna ugg og ótta og vita ekki um efnaleg afdrif sín og barna sinna. Óvissan, hræðslan við mögulegt þrot nagar og eyðileggur sálarfrið.

Í þenslu og góðæri hurfu öll skynsamleg mörk og viðmið. Gróðafíknin gróf um sig með sérgæsku og hver hugsaði um sig.  Siðræn viðhorf, kristin gildi áttu ekki upp á pallborðið, þóttu heldur ófín í samanburði við þá blessun sem  markaðslögmálin áttu að  færa.

Þessi stefna hefur beðið skipbrot. Það sér hver maður. Óheft markaðshyggja er bölvun hverju samfélagi og andstyggð kristnum sjónarmiðum og gildum.

Nú er kominn tími endurmats. Við stöndum frammi fyrir stóru prófi. Trúverðug rannsókn á ferlum þessa hildarleiks er brýn og það er sanngjörn krafa að allt fái að sjá dagsins ljós, og  að skuldadagar komi yfir þá sem það með réttu verðskulda. Mikið hvílir því á stjórnvöldum að sjá til þess. Reiðin er vondur vegvísir og dómstóll götunnar dæmir aldrei rétt.

Við þurfum að reyna stund sannleikans til að skapa frið í samfélaginu, annars verðum við sundruð þjóð. Friður og réttlæti verða að fara saman.

Nú kalla margir eftir nýjum gildum, nýjum hugmyndum sem geti orðið undirstaða í samfélagi okkar.  Við þurfum ekki að leita langt. Við getum hlustað í alvöru á þann boðskap sem fluttur hefur verið á Íslandi um aldir, linnulaust, en oft  fyrir lokuðum eyrum, því miður, líkt og dæmin sanna nú.

Kristin kirkja hefur frá öndverðu boðað jöfnuð og réttvísi. Borið fram hugsjón um jafnan rétt allra manna. Hún hefur spyrnt fótum við ofríki valdsmanna og auðmagns. Hún hefur minnt á, að það er  mælikvarði á heilbrigði  hvers samfélags, hvern hug fólk ber hvert til annars – þegar á reynir.  Einkennismerki frumkirkjunnar, hinna fyrstu kristnu safnaða, var umhyggja og samstaða og þjónusta við hina veiku og fátæku og gestrisni; að sýna veglyndi og rausn þeim sem ekkert eiga og hafa hefur alltaf þótt kristin dyggð. Náunginn er ekki til þess að græða á honum. Hann stendur andspænis okkur svo við fáum þjónað, gefið og uppörvað.

En víða eru óveðrsský á himni.  Vítt um heiminn eru fórnarlömb stríðsátaka, misréttis og kúgunar sem biðja um lausn undan oki sínu.

Eina ferðina enn er ráðist á palestínsku þjóðina. Ísraelsmenn, sem hafa hernumið land hennar í liðlega fjörtíu ár, láta enn kné fylgja kviði. Heiftarlegar árásir dynja nú á Gasa ströndinni. Þar búa liðlega ein og hálf milljón manns,varnarlaust fólk, á svæði sem er að flatarmáli svipað og landið milli Langár og Hítarár á Mýrum; eitt þéttbýlasta svæði veraldar. Í grimmd sinni svífst glæparíkið Ísrael einskis, og murkar lífið miskunnarlaust úr saklausu fólki. Þessi stríðsrekstur og reyndar öll framganga ísraelsmanna gagnvart palestínuþjóðinni er brot á öllum alþjóðareglum og sáttmálum - en þeir fara sínu fram, fyrir augum heimsins, dyggilega studdir af bandarískum stjórnvöldum, sem hafa reyndar sýnt sig síðustu árin vera mestu ógn við heimsfrið og mannréttindi sem nú er uppi.   Það er eðlileg krafa að íslensk stjórnvöld slíti stjórnmálasamstarfi við Ísraelsríki og taki sér skýra stöðu með palestínsku þjóðinni og krefjist þess að þessu þjóðarmorði linni.

Allt hefur sinn tíma.  Og við áramót er tími til að staðnæmast og hlusta og hugsa.

 Jólabarnið mætir okkur.  Jesús sem María fæðir í heiminn á Betlehemsvöllum er  lifandi Drottinn, sem kemur og spyr. Hann spyr spurninga er ganga inn að kviku, inn að hjartarót.  Hver ert þú og hvernig hefur þú farið með það allt sem þér var gefið?  Hvernig eru orð þín og verk? Hver er ávöxtur iðju þinnar?  Hefur þú notað daga þína til að færa birtu og yl inn í líf annarra, eða hefur þú blásið yfir myrkri og kvöl ? 

Hvernig eru dagar þínir og ár? Þessum spurningum þurfum við að svara – ekki á torgum, – heldur með því  segja satt. Birta okkur umbúðalaus fyrir drottni, í allri fátækt okkar svo að drottinn Jesús  fái auðgað líf okkar og við verðum ekki ofurseld mistökum okkar og afbrotum.

Sagan um fíkjutréð segir okkur,  að enn er tími, enn er miskunn Guðs rík. Misjöfn erum við sannarlega - og misjafnir eru dagar okkar. En við erum líkt og fíkjutréð, þurfum aðhlynningu og næringu, svo við fáum lifað og borið góðan ávöxt og horft vonglöð fram á veg.

 Í bæn, er við leitum drottins í hugsun okkar og orðum, í ákalli,  í nauðum, í lofsöng og í gleði,  þiggjum við það sem hann vill gefa, það sem hagvöxtur heimsins getur ekki gefið og engin gengisfelling mannlegra verðmæta getur frá okkur tekið.

Við megum þakka af hjarta fyrir að á nýju ári fáum við enn tíma, einn dag í einu.

 Biðjum um vit og dómgreind til að fara vel með það sem er á okkar valdi, svo að dagar okkar verði góðir og færi öðrum blessun.  Æðruleysi til að sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt og djörfung til að vera það sem við teljum réttast.

Guði sé lof fyrir nýtt ár sem hann gefur.  Guð gefi að við getum  unnið  ljóssins verk meðan dagur er.