Sigurför gegn dauðans valdi

Sigurför gegn dauðans valdi

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
31. mars 2002
Flokkar

Guðspjall: Matt. 28.1-8 Lexia: Jes. 25. 6-9 Pistill: 1. Kor. 15. 1-8a

Það er ekki hægt annað en að gleðjast yfir þessari fagnaðarríku hátíð, páskahátíðinni, þrátt fyrir að vofveiflegir atburðir eigi sér stað um þessar mundir fyrir botni Miðjarðarhafs í landinu helga. Þar skelfur jörð, að þessu sinni ekki fyrir tilstuðlan Drottins heldur af mannavöldum þegar jarðýturnar méla niður íbúðarhúsin og sprengjuregnið sundrar húsum og verður fólki að aldurtila, ekki síst saklausu fólki, konum og börnum. Þar ríkir skelfingarástand um þessar mundir þar sem illska krossins birtist geigvænleg og veldur saklausum borgurum ómældum þjáningum. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn virðist vera ríkjandi lögmál í mannlegum samskiptum þar austur frá þar sem menn eru tilbúnir að gera hvað sem er til þess að svala hefndarþorsta sínum, karlar sem konur ganga ínn á fjölmenna staði og sprengja sig í loft upp og taka fjölmarga saklausa borgara með sér í dauðann. Og nú eru ýmsir að spá því að ófriðurinn muni breiðast út til landanna umhverfis og þá skapast styrjaldarástand sem enginn sér fyrir endan á nema Drottinn sjálfur.

Mér finnst hörmulegt að mannkynið skuli aldrei læra af reynslunni og taka háttaskiptum hugarfarsins. Saga mannkynsins er blóði drifin allt frá dögum bræðranna Kains og Abels til þessa dags. Á þeirri vegferð eru holdsins verk augljós eins og frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt eins og postulinn Páll segir.

Er þá öllu lokið bræður og systur? Erum við ofurseld dauðans valdi eins og það birtist í þessum holdsins verkum? Eru syndir mannkynsins svo miklar að þær verða ekki fyrirgefnar?

Nei, bræður og systur í trúnni á frelsarann Jesú Krist. “Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf”. Fyrir syndir mannanna varð til hyldjúp gjá milli Guðs og manna. Andlegur sem líkamlegur dauði blasti við mannkyni vegna þess að það átti ekki kost á því að nálgast Guð. Mannkynið hafði kallað yfir sig reiði Guðs og dóm hans með þessum hætti og gat ekki með nokkrum hætti bætt fyrir það sem það hafði gert rangt gagnvart Guði.

Þrátt fyrir alla illskuna og hefndargirni mannanna þá ákvað Guð að bjarga manneskjunni og fyrirgefa henni, kórónu sköpunarverks síns sem hann hafði gefið hæfileika til að skapa, hugsa og álykta og ekki síst hjarta og hæfileika til að trúa á æðri mátt sem sig. Guð ákvað að afklæðast konungsskrúða sínum og koma til okkar í barninu Jesú frá Nazaret sem óx upp og kenndi eins og sá sem valdið hefur og gaf lærisveinum sínum og samferðafólki til kynna hvers eðlis guðsríkið væri sem hann var kominn til að kunngjöra. Hann sagði blátt áfram að þeir sem létu holdsins verk ráða hugsunum sínum og gjörðum myndu ekki erfa guðs ríkið. Þrátt fyrir allt hið góða, fagra og fullkomna sem Jesús sagði og gerði á sínu jarðneska tilveruskeiði þá virtist illskan ná yfirhöndinni því að hann var dæmdur til krossfestingar sem hver annar óbótamaður. Ilskan virtist hrósa sigri á Hausaskeljastað og lærisveinarnir flúðu skelfingu lostnir og örvæntingarfullir hver í sína áttina. Allt virtist tapað. En Guð var á annarri skoðun en skelfingu lostnir lærisveinarnir.

Hjálpræðisverk hans náði hámarki þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar en þá halda til grafarinnar konur í því skyni að smyrja líkama Jesú hinstu smurningu. Það sætir furðu að þær skyldu fara af stað til grafarinnar því að þær vissu að hennar var gætt og að hún var innsigluð. Enginn mátti nálgast líkið, allra síst lærisveinarnir, en sú saga gekk að þeir myndu freista þess að stela líkinu og segja að Jesú hefði risið upp frá dauðum. Þær sögðu sín á milli á göngu sinni: “Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?”. Þær spurðu ekki hvort einhver myndi velta steininum frá gröfinni heldur hver myndi gera það. Þær fengu hugboð frá Guði um að þeim væri óhætt að halda til grafarinnar sem þær og gerðu og urðu fyrstu vottarnir að upprisu Jesú frá dauðum. Þær stigu inn í opna gröfina og sáu engil sem kunngjörði þeim þessi fagnaðarríku tíðiindi og bað þær að fara og segja lærisveinunum frá þessu. Þær fóru frá gröfinni óttaslegnar og var þeim mikið niðri fyrir þegar þær skýrðu lærisveinunum frá því sem hafði gerst.

Jesús var upprisinn. Hann hafði sigrað dauðans vald. Hann hafði brotið þetta illa vald á bak aftur sem virtist hrósa sigri á krossinum. Konurnar og lærisveinarnir tóku gleði sína aftur, ekki síst eftir að Jesús kom til þeirra eftir upprisuna og talaði við þau og hjálpaði þeim að skilja hvað upprisa hans merkti fyrir þau er þau héldu á vít framtíðarinnar. Allt var orðið nýtt. Broddur dauðans hafði verið brotinn. Guð hafði með einstökum hætti gripið inn í sögu mannkyns með þessu einstaka hjálpræðisverki til þess að bjarga manneskjunni frá eilífum dauða. Dauði Jesú Krists og upprisa hans boðar að hann hefur bætt fyrir syndir mannanna og gefið þeim von sem hjálpar þeim að horfast í augu við þjáninguna og illskuna í heiminum því að Kristur er sérhverjum kristnum manni nálægur með sinn frið, hann gefur líkn með þraut og huggar þá sem syrgja og hafa orðið svartnættinu að bráð. Þeir sem feta í fótspor frelsarans standa frammi fyrir því verkefni að krossfesta holdið með ástríðum þess og girndum, þ.e.a.s að þurfa að láta af ýmsum ósóma sem fremur brýtur niður manneskjuna en byggir hana upp. Í þessum efnum er gott að njóta hjálpar frelsarans sem lyftir okinu af okkur og axlar byrðarnar með okkur. Kristnir menn lifa ekki fyrir lögmálið sem segir auga fyrir auga og tönn fyrir tönn heldur fyrir náð Guðs sem gaf okkur son sinn. Guð gefur gefið okkur frelsi til að þjóna hver öðrum í kærleika.

Postulinn Páll segir: Þér voruð bræður kallaðir til frelsis. Notið aðeins ekki frelsið til færist fyrir holdið heldur þjónið hver öðrum í kærleika. Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ein erfiðasta krafa Jesú í garð lærisveina sinna á öllum tímum var sú að þeir ættu að elska óvini sína og biðja fyrir þeim sem ofsækja sig. En með þeim hætti létu þeir leiðast af anda sínum og væruð ekki undir lögmáli Móse. Þeir sem láta leiðast af anda Krists bera andlegan ávöxt sem dylst engum sem hefur skilningarvitin í lagi. Þar má nefna kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og bindindi.

Upprisa Krists boðar sigur hins góða, fagra og fullkomna yfir hinu illa sem sundrar og eyðir öllu því sem prýðir manneskjuna, guðs góðu sköpun. Og kærleikurinn og fyrirgefningin er sterkara afl en illskan og fylgifiskar hennar. Þess vegna er að skylda sérhvers kristins manns að biðja um frið í landinu helga og vera sjálfur með einhverjum uppbyggilegum hætti verkfæri friðar í þessum heimshluta og reyndar hvar sem er í heiminum. Þetta getum við kristnir menn gert í því trausti að Jesús hefur sigrað heiminn. Það má vera að okkur finnst við litlu geta áorkað í friðarmálum í heiminum en minnumst þess þá að hlutverk okkar er að sá frækorninu en Guð mun sjá um að láta það vaxa. Og þegar vöxturinn hefst þá brýtur fræið af sér allt farg.

Hinn dýrlegi páskaboðskapur felur í sér að dauðinn er sigraður. Gröfin hélt ekki Kristi. Það sem gerðist við gröf hans verður aldrei skýrt af neinum, hvorki lærðum né leikum, hvorki raunvísindum eða hugvísindum, hvorki náttúrufræði, læknisfræði eða heimspeki. Ósjálfrátt hugsar maður sem svo að allar hinar svonefndu eðlilegu skýringar á upprisu Jesú Krists krefjist miklu meiri trúar en þeirrar sem birtist okkur í fagnaðarerindinu sjálfu.

Páskaboðskapurinn segir að dauðinn sé ekki endalokin því að Jesús sigraði dauðann. Leiðin til lífsins liggur um kross hans. Jesús segir: “Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig”.

Það hefði e.t.v. er nóg fyrir mig að segja ykkur eftirfarandi sögu á þessum páskadagsmorgni. Hún er e.t.v. besta páskaprédikunin í sínum einfaldleika! En hún er svohljóðandi:

“Sagt er að í kirkjugarði nokkrum í Hannover í Þýskalandi hafi verið merkileg gröf ríkrar greifafrúar. Hún trúði alls ekki á neitt framhaldslíf að loknu þessu. Hún sagði sjálf til um allan búnað grafar sinnar. Stór graníthella skyldi lögð yfir gröf hennar, ofan á hana og allt í kringu átti svo að setja enn aðra granítsteina nokkru minni. Síðan átti að tengja þetta saman með járnbindingu og steypa svo yfir allt. Þar ofan á skyldi setja plötu sem á væri letrað. Bannað að opna. Dag nokkurn þegar allt var svo friðsælt úti í þessum helga reit þá sveif lítið fræ til jarðar. Það náði að festast í örlítilli rifu í þessari steindys. Fræið skaut rótum og hélt áfram að vaxa eins og það vildi segja: Farið frá, ég þarf að komast að. Rætur þess gátu sprengt huta af járnbindingunni rétt eins og um hálmstrá eitt væri að ræða.

Loks kom að því að stóra graníthellan lyftist upp af vaxandi rótum fræsins sem einu sinni var. Nú stendur tréð á þessari gröf sakleysislegt í útliti. Við minnst vindblæ bærast græn blöð þess eins og fánar sem bornir eru fram til sigurs”. Amen.