Viðvörun

Viðvörun

Guðspjall: Matt. 7. 24 – 29 Lexia: Jes. 26. 1-7 Pistill: Pistill: 1. Jh. 4: 1-6

Gef Jesú orð og andi svo anda styrki minn að öll mín verk ég vandi og vilja gjöri þinn Ó, gef ég ætíð geti hér gengið sporin hans og kærleiks feril feti til fyrirheitna lands. Amen

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

,,Jón Davíðsson er kaupmaður í lítilli matvöruverslun. Hann hefur unun af starfi sínu og lítur á sig sem fagmann. Eitt fer þó mjög í taugarnar á honum en það er þegar foreldrar öskra á óþekk börn sín og láta þar við sitja í stað þess að kenna þeim góða hegðun.

Kvöld eitt var Jón að afgreiða viðskiptavin með troðfulla innkaupakerru. Jón var að skanna verðið á sardínudós þegar hann heyrði krakka öskra og fullorðinn karlmann svara krakkanum með því að öskra á móti “Leggstu niður!”.

Þvílíkur dóni, hugsaði Jón með sér, án þess að svo mikið sem líta upp. Hann hélt áfram að skanna matvöruna í rólegheitum. Krakkinn hélt áfram að öskra og aftur heyrði Jón fullorðinn karlmann kalla, ,,Leggstu niður!”. Ja, hérna. Sumir ráða nú ekki við foreldrahlutverkið, hugsaði Jón. Þetta er nú meiri hálfvitinn. Svo hélt hann áfram að renna matvörunni framhjá skannanum án þess að líta upp.

Eftir að hafa rennt síðasta hlutnum framhjá skannanum leit Jón loks upp og sagði: “Þetta verða þá 8.495 krónur.” En viðskiptavinurinn var horfinn. Þegar Jón leit í kringum sig sá hann hvar viðskiptavinurinn og allir aðrir sem voru í búðinni lágu grafkyrrir á gólfinu.

Hann leit við og sá hvar byssumaður hljóp út úr versluninni. Afgreiðslustúlka sem enn lá hreyfingarlaus á gólfinu sagði: “Jón, veistu að þegar hann hrópaði ,,Leggstu niður!” í seinna skiptið, þá miðaði hann byssunni að hnakkanum á þér?”

Við getum orðið svo ónæm fyrir hávaðanum í okkar eigin menningu og öllu áreitinu í þessum heimi að þegar við heyrum eitthvað sem virkilega skiptir máli þá afgreiðum við það sem eitthvað ómerkilegt. Hversu oft hafa foreldrar okkar, kennarar, og margs konar samtök fólks varað okkur við því að misnota eiturlyf og áfengi eða einhverju öðru sem getur eyðilagt líf þitt? Meðfram þjóðvegum landsins og fjölmiðlum má sjá rekinn áróður fyrir bættri umferðarmenningu þar sem reynt er fækka slysum.

,,Ertu á fleygiferð inn í eilífðina?” Ég tók eftir þessu skilti dag einn þegar ég var yfir leyfilegum hámarkshraða. Þá minnkaði ég hraðann um tíma en fyrr en varði var ég kominn á sama hraða og áður.

Við fáum svo margar viðvaranir að við látum skilaboðin oft sem vind um eyrun þjóta og gerum ráð fyrir að þau séu ætluð öðrum. Svo höldum við áfram að lifa lífinu sem fyrr á sama hraða og áður, jafnvel á fleygiferð inn í eilífðina. Dæmisagan sem er guðspjall dagsins er niðurlag Fjallræðunnar. Þessi dæmisaga er sú saga í guðspjöllunum sem flestir kannast við og hafa túlkað með söng og leikrænum tilburðum í barnastarfi kirkjunnar. Í þessari sögu sem Jesús segir er að finna viðvörun sem við skulum nú íhuga saman. Tveir menn byggja hús sem virðast við fyrstu skoðun nákvæmlega eins. En þá tekur að hvessa og rigna. Regnið verður brátt að steypiregni og golan að stormi. Annað húsið stendur af sér náttúruöflin. Hitt gerir það ekki og fellur til jarðar. Munurinn milli þessara tveggja húsa var grundvöllur þeirra. Annað húsið hafði verið byggt á sandi en hitt á bjargi.

Oft heyrir maður þá tilgátu nefnda að bjargið í dæmisögunni tákni Krist sjálfan og sandurinn þá allt annað en Krist. Það getur allt saman verið rétt en veitum því eftirtekt í dag að Jesús segir beinlínis að vitri maðurinn sem byggði hús sitt á bjargi sé maðurinn sem heyrir orð sín og breytir eftir þeim. Heimski maðurinn sem byggði hús sitt á sandi er því maðurinn sem Jesús segir að hafi heyrt orð sín en ekki breytt eftir þeim. Þess vegna geti bjargið táknað hlýðnina og sandurinn óhlýðnina.

Það hefur verið sagt að mesta þörf kristins fólks sé ekki að vita meira heldur að hlýða því sem það þegar veit. Að hlusta án þess að hlýða eru svik segir Jakob postuli þegar hann skrifar: “Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.

Andlegur þroski er meira en vitsmunalegt ferli. Andlegur þroski tengist einnig vilja manneskjunnar. Guðs orð verður því aðeins lesið og skilið með nokkrum árangri að sá sem les beygi sig undir kennivald þess og hlýði því. Því betur sem við verðum að okkur í orði Guðs því betur gerum við okkur grein fyrir hvað syndin er lævís og lipur og færir okkur fjær Guði þegar við drýgjum hana.

Við stríðum stöðugt gegn syndinni sem verður stundum til þess að við gerum ekki það sem við vitum að sé rétt. Jakob postuli bendir á þetta þegar hann segir: Hver sem því hefur vit á gott að gjöra en gjörir það ekki, hann drýgir synd”. (4.17)

Skilningur felur í sér ábyrgð. Sá sem gerir ranga hluti veit yfirleitt upp á sig skömmina því að allir hafa samvisku. Ef samviskan nagar þá er gott að losna við byrðina sem þjakar og þiggja fyrirgefningu og koma þannig á réttu sambandi við þann sem brotið var gegn. En það þarf góðan ásetning og góðan vilja til að koma á réttu sambandi aftur.

Sá sem gerir rétta hluti hefur hreina samvisku og líður vel af þeim sökum. Hann er í góðu jafnvægi. Jesús bendir hann okkur á í guðspjalli dagsins að það sé hlýðnin við orð Guðs og vilja hans sem sé grundvöllur öryggis okkar og stöðugleika, ekki síst í þessum heimi syndar, hávaða og áreitis. Það eru forréttindi að fá að vera barn Guðs og að ganga á hans vegum í gegnum lífið.

Spámaðurinn Jesaja leggur á það áherslu að við treystum Drottni því að hann er eilíft bjarg. Drottinn stuðlar að því með orði sínu að sérhver einstaklingur sem heyrir sitt orð og varðveitir það sé réttlátur, þ.e. geri rétta hluti, varðveiti friðinn og hafi stöðugt hugarfar. Áreitið og hávaðinn í þessum heimi gerir það að verkum að hjarta okkar er órótt og nær ekki að hvílast sem skyldi.

Hvar er sanna hvíld að finna? Stöldrum við og gefum gaum að því hvar hina sönnu hamingju er að finna. Postulinn Jóhannes segir í pistli dagsins að við eigum ekki að trúa sérhverjum anda heldur reyna andana hvort þeir séu frá Guði. Af þessu getum við þekkt anda Guðs: Sérhver andi sem játar að Jesús sé Kristur kominn í holdi er frá Guði. En sérhver andi sem ekki játar Jesú er ekki frá Guði.

Andi sannleikans sem býr í okkur skírðum kristnum einstaklingum er meiri og sterkari en andinn sem reynir allt hvað hann getur með ýmsum gylliboðum að leiða okkur burt frá Guði með því að fá okkur til að gera það sem samræmist ekki vilja Guðs. En við vitum nú hvað til okkar friðar heyrir og látum ekki ginnast.

Við vitum hvað er rétt og hvað er rangt vegna þess að Guð hefur gefið okkur góða samvisku. Samviska okkar er upplýst fyrir orð Guðs sem er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar og dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.

Gefum því jafnan gaum að orði Drottins Jesú Krists sem er grundvöllur lífs okkar kristinna manna. Í hávaðanum og áreitinu talar Kristur til okkar með sinni stilltu röddu. Við skulum leggja okkur fram um að hlusta á hana. Það getur gert gæfumuninn þegar upp verður staðið hvort hús okkar fellur eða ekki til jarðar þegar veðrabrigði verða í lífi okkar.

Við eigum stundum erfitt með að treysta Guði þegar við fylgjumst með fréttaflutningi af þessum stríðandi heimi sem við lifum og hrærumst í. Við spyrjum okkur stundum að því hvers vegna Guð grípi ekki inn í atburðarásina.

Einu sinni var maður að klífa bjarg. Þá vildi svo slysalega til að honum skrikaði fótur og hann rann af stað. Á seinasta andartaki náði hann taki á bergnibbu með höndunum en fæturnir dingluðu í lausu lofti. Mikill ótti greip manninn. Nú virtust allar bjargir bannaðar. Í hreinni örvæntingu hrópaði hann upp í himinninn: ,,Ef þú ert þarna Guð, þá hjálpaðu mér!” Og undrið gerðist: Rödd kom af himni sem sagði: ,,Slepptu takinu, ég mun grípa þig”. Maðurinn hugsaði sig um í nokkur þrúgandi augnablik. Þá hrópaði hann enn hærra: ,,Er einhver annar þarna uppi?”

Við þurfum að leggja okkur en frekar fram um að hlusta eftir röddu Guðs og taka á móti sérhverri hjálparhönd því að þar sem gott fólk er á ferð til hjálpar þar eru englar Guðs á ferð til bjargar og blessunar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.