Við staðfestum Lögmálið

Við staðfestum Lögmálið

Sérhver predikun hefur þann tilgang í Guði að uppbyggja hinn kristna mann, hugga hann og hjálpa honum að skilja stöðu sína í og andspænis heiminum, í ljósi gleðitíðinda lífsins um frelsarann, drottin Jesúm Krist.

En Jesús fór til Olíufjallsins. Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“ Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“ Jóh. 8.1-11

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Kæru Krists vinir, góð systkin. Sérhver predikun hefur þann tilgang í Guði að uppbyggja hinn kristna mann, hugga hann og hjálpa honum að skilja stöðu sína í og andspænis heiminum, í ljósi gleðitíðinda lífsins um frelsarann, drottin Jesúm Krist. Í hvert sinn sem predikarinn stígur í stól er þetta verkefni hans allar götur. Áhöld hans eru hið talaða orð og boðskapurinn sem sækir inntak sitt jafnan til heilagrar Ritningar og þess sem þar er ritað um tvo sáttmála Guðs við mennina, hinn fyrri og hinn síðari, þ.e. Gamla testmentið og hið Nýja sem uppfyllir hið Gamla í Jesú Kristi. Hann, verk hans, orð og andi eru inntak þessa alls hvað okkur varðar kristna menn. Án hans erum við sem hirðislausir sauðir á berangri hinna og þessara hugmynda, eins og skipshöfn í hafsnauð hvar enginn er skortur villuljósa sem veifað er að okkur í myrkrinu. Guðspjall þessa helgidags er því ljós, sem sérhvert mannsbarn þakkar þegar það skilur það og áttar sig á að þetta er ekki bara snotur saga heldur vitnar hún af djúpri alvöru um hjálpræðisverk Jesú Krists og er okkur þess vegna tilefni gleði. Þar koma fyrir sáttmálarnir báðir ef að er gáð, musterið, mennirnir og líf konu sem bjargað er úr dauðans háska.

Guðspjallstextinn getur um konu þessa sem ber var orðin að hórdómi eða framhjáhaldi í hjónabandi og hafði með því fyrirgert lífi sínu, samkvæmt lagabókstaf Lögmálsins, hins forna lagasafns gyðinga. Lögmálið sem órjúfanlega er tengt nafni spámannsins Móse var inntakið í sáttmála Guðs við hinn forna Ísrael sem Móse hafði milligöngu um. Þó að lögmálið allt sé okkur flestum framandi, kannast flestir við kjarna þess sem við þekkjum sem boðorðin 10 en að öðru leyti er það margvíslegar reglur um breytni manna og líferni ásamt viðurlögum við brotum á ákvæðum þess. Lögmálið varðar ekki aðeins samskipti manna heldur jafnframt samfélag Guðs og manna. Til þessa lágu góðar og gildar ástæður af Guðs hendi, sú þó helst að lífið sjálft og réttlætið geta ekki hvort án hins verið. Lögmálinu var þess vegna ætlað að stuðla að réttlæti manna á sviði jarðar. Það átti helst að gera þá réttláta og lífinu þjónandi með Guði, sjálfum sér og öðru fólki til gagns og blessunar. Frá öndverðu menntuðu gyðingar sig í lögmálinu og lærðir menn kenndu það og útlögðu kynslóð af kynslóð. Lögmálið og efni þess var eiginlega guðfræði þeirra og til voru orðnir miklir bálkar alls konar flókinna erfikenninga sem haldið var að fólki um hin og þessi efni.

Einn þeirra sem við þessa kennslu fékkst, ef svo má að orði komast, er í eigin persónu ástæða þess að við erum hér í dag. Hann var um fátt líkur fyrirrennurum sínum enda verða fræðimenn og farísear seint kallaðir kollegar hans með réttu. Það var einnig hann og orð hans sem urðu tilefni mikils léttis fyrir konu nokkra sem færð var til hans nauðug einn morgun þar sem hann sat í musterinu í Jerúsalem og kenndi. Frásagan um hórseku konuna er ein hinna kunnari úr ritsafninu sem við Nýja testamentið er kennt. Tilsvar Jesú: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini í hana,“ er alþekkt, jafnvel út fyrir raðir kristinna manna. Sagan er stundum túlkuð á þá leið að þarna hafi farið fram einhvers konar réttarhald hvar Jesús með snjöllu tilsvari sínu hafi sýknað konuna. Það er sönnu nær en þó varðar saga þessi sýknu eða náðun þeirra sem játast Kristi og eignast trú á Guð lífsins eina og eilífa í hans nafni.

Í huga þeirra virðingarmanna sem drógu konuna til Jesú var hann ekki dómari í sakarefninu, enda voru þeir sjálfir vissir um sekt hennar. Þeir tilheyrðu hópi þeirra manna sem álitnir voru þekkja réttlætisvegu Guðs, fræðimenn, farísear og öldungar úr æðstaráði gyðinga. Þessir virtu menn voru því ekki komnir með konuna í musterið til að fá grænt ljós á aftöku hennar hjá Jesú. Þess þurftu þeir ekki, enda voru þeir þarna komnir sem andstæðingar hans og vonuðu að hann, innan um alla sem hlýddu á kennslu hans, svaraði þvert á Lögmálið svo unnt yrði að ákæra hann fyrir guðlast í vitna viðurvist. Á lögmálsbroti konunnar lék enginn vafi. Samkvæmt bókstaf Lögmálsins skyldi hún grýtt til bana. Á því var raunar einn hængur - sem var sá að keisarinn í Róm hafði gert Landið helga að skattlandi og þar giltu því að mestu rómversk lög hvað varðaði rétt og órétt manna. Gyðingum var samkvæmt þeim alls ekki heimilt að taka fólk af lífi. En þótt Rómverjar gerðu hvað þeir gátu til að hafa sínar skefjar á lýðnum, tókst ekki ávallt að hindra slíkt og þvílíkt. Konan gat því, ofan á skömm sína, verið í bráðri lífshættu, í ljósi þess í hverra hendur hún var fallin.

Það sem okkur kann að þykja erfiðast að kyngja í samhengi þessarar frásagnar er, að um bókstaf Lögmálsins var Jesús, efnislega ekki ósammála mönnunum sem drógu konuna til hans. Jesús hefði aldrei sagt við þá að Lögmálið væri ranglátt. Við skulum, að þessu sögðu, hafa hugfast að það gerir lög ekki ranglát að menn brjóta þau. Jesús sagði enda við annað tækifæri að ekki myndi minnsti stafkrókur Lögmálsins úr gildi falla - hann væri ekki kominn til að afnema það heldur uppfylla. En hvers vegna varð niðurstaða hans þá önnur en þeirra vísu manna sem grýta vildu konuna og uppfylla þannig Lögmálið? Hvernig myndi það uppfylla Lögmálið að dauðasek konan yrði náðuð? Guðspjallstexti Jóhannesar geymir sjálfur svarið við þeirri spurn og það svar er eindregið, skýrt og hreint. Frásögn hans geymir leyndardóm sem vísar ekki aðeins til þess að Jesús var kennari í efnum Lögmálsins, heldur umfram allt til þess hver hann var, er og verður í samhengi þess og Guðs ríkis - Guð með okkur, vegurinn, sannleikurinn og lífið. Saga hjálpræðisins býr í þessum orðknappa texta og dýpri merking býr að baki því að Jesús laut tvívegis niður og ritaði með fingri sínum á jörðina.

Orðalag Ritningarinnar er á þá leið að Guð hafi með eigin fingri ritað boðorð sín á töflur sáttmálans á Sínaífjalli sem eru eins og áður sagði kjarni Lögmáls Móse. Jesús laut tvisvar niður og ritaði með fingri sínum á jörðina. Við lesum úr því tilvísun í tvo sáttmála. Í hið fyrra sinnið hins Gamla testamentis og í síðara sinnið hins Nýja testamentis um fyrirgefningu syndanna, líf og sáluhjálp. Orðið testamenti merkir sáttmáli. Í fyrra sinnið ritaði hann með fingri sínum á jörðina, reisti sig upp og sagði: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Það er sem hann segi við þá; Lögmálið hefur ekki gert mennina réttláta og þó það sé í sjálfu sér réttlátt og gott, þá er enginn ykkar syndlaus hvað það varðar - ekki frekar en þessi kona. Í annað sinn laut hann niður og ritaði með fingri sínum og vísaði þar með til nýs sáttmála sem Guð myndi koma til leiðar í hans eigin líkama og hans eigin persónu. Sá nýi sáttmáli sem ritsafn hins Nýja testamentis er kennt við fullkomnaðist, ekki löngu síðar, á Golgatha þar sem Jesús sjálfur greiddi með eigin lífi syndagjöld konunnar - syndagjöld mín og þín. Í anda hins Nýja sáttmála talaði hann síðan friðarorð við konuna og áminnti um að syndga ekki framar.

Í kirkjunni á Ökrum á Mýrum, þar sem við erum nokkur upp alin, er altaristafla sem hefur að geyma inntak hins síðara sinnis er Jesús ritaði með fingri sínum á jörðina. Á töflunni er mynd af manni er stendur við kross Jesú á Golgatha. Sá heldur höndum sínum um fót krossins þar sem blóðtaumarnir renna niður og horfir upp á Krist Jesú dáinn eða deyjandi. Undir myndinni standa orðin úr Fyrsta bréfi Jóhannesar: „Blóð Jesú Guðs sonar hreinsar oss af allri synd.“ Synd er trúarhugtak, tilheyrir því orðfæri sem um lífsháska er haft á vegi trúarinnar og varðar það að maðurinn er lifandi sál og hneigist til ranglætis. Hinn vantrúaði leggur enga raunverulega merkingu í orðið synd, það er honum í sjálfu sér bábilja ein eða því sem næst. Hinum trúaða vísar það hins vegar á glötun þess sem syndin á alls kostar við. Nauðsyn þess að ganga í ljósinu blasir við honum, þ.e. nauðsyn þess að hreinsast af synd sinni, hreinsun er bara annað orð yfir endurlausnina þar sem syndaskuldinni er líkt við óhreinindi sem lífsblóð Jesú þvær af. Til þess gerðist Guð maður sem dó á krossi að við ættum kost þeirrar hreinsunar og yrðum ekki framar þrælar syndarinnar.

Bæði heilög skírn og máltíð altarisins sækja merkingu til Golgatha, hvar okkar gamli maður dó með því að skuld okkar var greidd og okkur því bjargað. Í djúpi lífsandans bendir skírn Silju Theodoru hér áðan beint á hvernig björgun hennar fór þar fram, rétt eins og skírnin þín og skírnin mín, hvað okkur hin varðar. Í djúpi lífsins anda er atburðurinn á Golgatha ekki aðeins fyrirmyndin skírnarinnar, heldur er táknrænt inntak hennar krossfesting, dauði og greftrun þess sem skírn tekur, að okkar gamli maður deyr þar með Kristi. Postuli Krists, heilagur Páll, minnti sitt fólk á að öll þau sem skírn hefðu tekið væru skírð til dauða Jesú Krists. Við erum því dáin og greftruð með Kristi Jesú í skírninni. Þetta kann að hljóma hræðilega í eyrum rétt eins og hér værum við að deyða lítið barn, en þá er eitt ósagt - og það er hið mikilvæga - að eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eigum við fyrir skírnina framvegis að lifa nýju lífi eins og Kristur reis upp frá dauðum. Skírnin er okkur til lífs, hún er bæn um góða samvisku og á okkur er hún innsigli hins Nýja sáttmála sem inniber dauða hins gamla manns sem annars þrælaði undir oki syndaskuldar sinnar í angist og lífsháska. Skírnin kemur dauða hans þó ekki í kring heldur innsiglar hann á vegi trúarinnar. Kristin trú er því ekki boðskapur um syndleysi kristinna manna, heldur veruleiki réttlætingar syndarans sem veit að þó lögmál og vond samviska dæmi hann og alla menn seka, þá á hann árnaðarmann í Jesú sem leysir líf hans með sínu. Þennan árnaðarmann vil ég umfram allt að lítil dóttir mín eigi - sem og við öll.

Það merkir að þó við syndgum, hrösum, föllum þá erum við ekki þar með dæmd til að þræla undir oki Lögmálsins, hvorki í dauðans angist kvalinnar samvisku né afsökunum sjálfsréttlætingarinnar. Réttlætið helst í hendur við lífið eina og eilífa - hvort tveggja lífið og réttlætið eru í raun og sann eigindir Guðs sem hann ætlar okkur fyrir trúna á vegi hins Nýja sáttmála. Hann hefur gefið okkur líf til ávöxtunar sem er í sjálfu sér þakkarefni - og í Kristi Jesú séð okkur fyrir lausn þess úr greipum dauðans. Hann hefur þannig leyst okkur eins og hórseku konuna forðum.

Kæru kristnu systkin. Guðspjall þessa helgidags er ljós, sem sérhvert mannsbarn þakkar þegar það skilur það og áttar sig á að þetta er ekki bara snotur saga, heldur vitnar hún af djúpri alvöru um hjálpræðisverk Jesú Krists og er okkur þess vegna tilefni huggunar og gleði.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.