Að bindast kærleikanum

Að bindast kærleikanum

Um leið og við sleppum þeirri hugsun að vilja eignast alla skapaða hluti, deila og drottna, þá öðlumst við það sem við höfum alla tíð átt – hinn einfalda sanna kærleika, sem er það einasta sem getur veitt okkur lífshamingju.

Matt. : 5.43-48 Jes.: 58:6-12 1.Kor. 13:1-7

Ég var stödd í bakaríi um daginn, sem væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi enda ósköp hversdagslegur atburður. Þar afgreiddi mig ung stúlka sem var, að því er virtist, að taka sín fyrstu skref innan við búðarborðið. Óörugg en einbeitt og undir handleiðslu samverkakonu sinnar náði hún að ýta á réttu staðina á skjá tölvunnar, svo viðeigandi upplýsingar um varninginn sem ég var að kaupa lentu á viðeigandi stöðum. Þetta var um miðjan dag og því fáir viðskiptavinir í bakaríinu og af þeim sökum gott næði til þess að æfa sig, tóm til þess að vera byrjandi og takast á við allt það óöryggi sem þeirri stöðu fylgir. Á okkar tímum er krafan um hraða og það að hafa jafnframt fulla stjórn á hlutunum svo yfirgnæfandi að það getur verið erfitt að fá tóm til þess sem byrjandi að æfa sig, og rými til þess að gera sín klaufalegu mistök sem eru eðlilegur og óhjákvæmilegur hluti þeirrar þjálfunar sem þarf til þess að ná réttum tökum á nýju starfi. Það gaf hinni stuttu dvöl minni í bakaríinu ferskleika og líf að vera þjónað af þessum unga nýliða atvinnulífsins sem vandaði sig og gaf sér tíma til þess að inna hlutverk sitt samviskusamlega af hendi. Þessi einfaldi atburður kemur upp í huga mér hér í byrjun hausts, þegar ég hugsa til allra þeirra mörgu sem standa í svipuðum sporum og unga stúlkan þessa dagana, og að takast á við eitthvert nýtt úrlausnarefni eða hlutverk í lífinu. Haustið, er oft og á margan hátt umbrotatími í lífi fólks. Um leið og allt er farið af stað á ný, — eins og við erum vön að segja og eigum þá við að skólahald og vinna séu hafin að loknu sumarleyfi, — þá stíga margir sín fyrstu spor á nýjum vettvangi í lífinu. Ný fyrirheit fylla hugann, hugmyndir og plön um aðgerðir og framkvæmdir sem væntanlega eiga eftir að sjá dagsins ljós. Með endurnýjaðan þrótt og kannski nýja sýn á ýmiss málefni eftir hvíldina sem sumarleyfið veitti, vakna væntingar um komandi tíma. Á einn eða annan hátt stöndum við með sumarforðann í sál og líkama, endurnýjaða krafta, sem við vonum að muni nýtast okkur vel á komandi vetri. Þannig er því vonandi farið með flesta hvernig sem lífi hvers og eins er háttað á þessari stundu. Tökum með okkur, það sem Guð gaf, það sem nærði og veitti styrk á umliðnu sumri og höfum hugrekki til að veita því inn í þau verkefni sem við erum kölluð til að leysa í daglegu lífi.

Störf okkar og verkefni eru mörg og margvísleg og ekkert þeirra er æðra eða merkilegra en annað. Hver sem þjóðfélagsstaða okkar er, aldur eða kyn, þjóðerni, kynhneigð, litarháttur, heilsufarsástand eða trú, þá erum við öll kölluð til þess sama mikilvæga verkefnis sem er öllu æðra og undirstaða alls: Að bera kærleikanum vitni í lífi okkar, í samskiptum okkar við hvert annað í leik og starfi, í gleði og raun, á hátíðarstundum jafnt sem í gráum hversdagsleikanum, á öllum sviðum mannlegrar tilveru borin uppi af náð Guðs.

Jesús talar um það í guðspjalli dagsins að við eigum að elska óvin okkar. Það hljómar næstum eins og ofurkrafa, einhverjir myndu segja eins og brandari. Það er ekkert mál að elska vin sinn, segir hann eða þann sem manni líkar vel við. Hann gerir sér fyllilega grein fyrir því að það gegnir öðru máli með afstöðu okkar til óvinarins. Andstaða elsku er hatur og óvild. Við þekkjum það flest að slíkar tilfinningar fjötra okkur, gera okkur ófrjáls, við hugsum ekki um annað og heimurinn minnkar og minnkar, við verðum heltekin af hatri okkar. Með orðum sínum er Jesús að boða okkur að breyta um stefnu í lífinu, sleppa takinu og láta kærleikann ráða gerðum okkar. Allir menn hafa í hjarta sér vitneskjuna um kærleikann, um þetta afl sem gefur líf, sem brýtur niður alla veggi fjötra og einangrunar, það afl sem læknar sár, sem reisir við hið bogna bak, skapar tengsl og veitir frið. Þetta afl býr innra með hverjum manni, er á milli manna og allt um kring. Svo máttugt er það og mikið að það lætur sig aldrei fyllileg skilgreina í kennisetningum manna, verður aldrei mælt eða vegið á veraldlegum skala og það opinberar sig þegar við minnst eigum von á því. Guð er þetta afl. Jesús kom til okkar mannanna til að boða okkur Guð kærleikans. Þegar við hlustum á orð Jesú Krists, þá á ég við, þegar við hlustum með eyrunum og hjartanu fáum við að kynnast enn betur Guði. Með því að leiða þau kynni út í líf okkar treystum við þau kynni. Þetta er eins og með hver önnur heilbrigð kynni sem við stofnum til. Þau þróast eitthvað á þessa leið svona í grófum dráttum: Þegar tveir einstaklingar hittast, og það verður auðvitað að eiga sér stað, þá er það eitthvað í fari hins sem vekur áhuga við þessi allra fyrstu kynni. Ef það gerist ekki þá verður ekkert úr frekari kunningsskap. Kvikni hins vegar áhugi á því að vita meira um hvert annað þá finnur maður í sameiningu möguleika á að hittast, skiptumst á símanúmerum, sendum sms, bloggum, förum í bíó eða á kaffihús, hittumst í umhverfi þar sem aðrir eru einnig til staðar. Við skiptumst á almennum upplýsingum, segjum hvort öðru frá hver við erum, hvar við búum, hve mörg börn eða systkini við eigum, um starf okkar o.fl. Við komumst þá kannski að því að við eigum eitthvað sameiginlegt. Ef einhver spyrði mann á þessu stigi um það hvort maður þekkti viðkomandi, þá yrði svarið: “Já, ég kannast við hann, við erum kunningjar”. Ef áhugi og löngun vaknar til frekari kynna, þá finnum við tíma og stað til að hittast oftar, upplifa eitthvað saman, kynnast enn betur. Við förum að deila með hvert öðru einhverju úr reynsluheimi okkar sem er ekki bara yfirborðskenndar upplýsingar heldur persónulegar, t.d. um markmið okkar og drauma, vonir og ótta. Þegar kynnin fara þannig að dýpka þróast þau úr því að vera kunningsskapur yfir í það að verða að vinátta. Ef einhver spyrði þegar þar er komið hvort við þekkjum viðkomandi, þá mundum við svara glaðlega: – Já, hann þekki ég svo sannarlega, hann er vinur minn. Vinirnir fara að taka þátt í lífi hvors annars í gleði og sorg, að styðja hvor annan þar sem þess er þörf og gleðjast hvor með öðrum á góðum dögum. Gagnkvæmt traust skapast, vináttan er orðin enn nánar og dýpri og maður fer að finna að samveran þarf ekki alltaf að hafa neitt sérstakt innihald eða tilgang, nærveran, bara það að vera saman veitir gleði. Eitthvað á þennan hátt þróast samband okkar einnig við Guð. Fyrstu kynni okkar af Guði var faðmur foreldra okkar sem umvöfðu okkur nýfædd hlýju og alúð og augu þeirra sem ljómuðu af gleði og ást sögðu allt sem umkomulaust barn hafði þörf á að skynja: “Þú ert elskuð.” Við vorum borin til heilagrar skírnarlaugar þar sem Guð tók okkur að sér sem sitt barn og einnig þar er ómálga barni tjáð: “Þú ert elskuð, ég yfirgef þig aldrei”. Á uppvaxtarárum okkar fáum við margvíslega vitneskju um Guð, mikilvægasti vettvangur þeirrar fræðslu er heimilið, fjölskyldan og það fólk sem við tengjumst nánum böndum, skólinn og kirkjan. Þar mótast sá grunnur, tengsl okkar við Guð, sem við byggjum á, bætum, endurskoðum, höfum möguleika á að endurnýja, efla og dýpka á lífsgöngu okkar. Orð Guðs, leiðsögn og fyrirmyndir sem einkennast af lífgefandi krafti og góðu fordæmi, kenna okkur, veita okkur vitneskju um hver Guð er og um nærveru hans. Það hjálpar okkur að læra að þekkja kærleikann og að treysta og að greina á milli þess sem er Guðs og þess sem ekki er hans. Það veitir okkur skilning og þekkingu á því hvað Jesús á við með því að við eigum að elska óvin okkar og biðja fyrir þeim sem ásækja okkur, eins og hann boðar okkur í Guðspjalli dagsins. Jesús á með orðum sínum ekki við það að við eigum að sætta okkur við það að aðrir níðist á okkur eða geri okkur mein. Við eigum ekki að leggja okkur að fótum þeirra sem koma fram við okkur af óvirðingu eða meiða okkur með einhverjum hætti. Nei og aftur nei. Það er ekki elska í garð óvinarins, það er ekki elska í garð okkar eða Guðs. Að elska er að bindast kærleikanum, að treysta því að Guð elskar okkur réttláta og óréttláta og að hann vill að við eigum líf þar sem birta og friður ríkir, en ekki ófriður, þjáning, óvild eða vanvirðing. Hann “lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða”. Þegar við játumst kærleikanum missir óttinn tak sitt á okkur og andinn blæs okkur hugrekki í brjóst til að gera það sem þarf, gera það sem okkur ber. Hver er hann annars þessi óvinur sem við erum að tala um. Kannski er þér ljóst hver hann er eða kannski er hann ekki til í þínum huga. Oft viljum við mennirnir leita að óvini okkar í hinu ytra umhverfi okkar, í því hvernig aðrir koma fram við okkur, í viðhorfum ráðamanna til mála er varða land og þjóð t.d. í þeim tilvikum þar sem hagsmunir hinna sterku eru tryggðir á kostnað þeirra sem minna mega sín, stundum sjáum við óvin okkar í einhverju óskilgreindu afli í heiminum og þannig getur það verið í raun. En hugum einnig að því sem bærist innra með okkur sjálfum, að okkar eigin viðhorfum og gildum. Er hugsanlegt að þar geti einnig leynst óvinur? Hugum að því hvað við veljum sem æðstu gildi í lífinu, hvað við teljum sjálf að þurfi til þess að við öðlumst lífshamingju. Skoðum það sem hindrar okkur í að nálgast Guð, að játast honum, að kynnast honum enn betur, að rækta vináttuna við hann og treysta á leiðsögn hans. Stærsti óvinur okkar sem setur mark sitt á allt okkar líf getur verið löngun okkar og þrá til að breyta öðrum, að hafa vald yfir öðrum og ráðskast með þá, að sækjast eftir viðurkenningu annarra, að setja eigin frama og frægð sem hið æðsta markmið, að setja eigið öryggi ofar öllu, að eiga og eiga meir, að hafa völd og drottna. Við teljum okkur trú um að það sé þetta sem veitir okkur lífshamingju og allt í kringum okkur í hinum ytri heimi, í samfélaginu, vill halda okkur föstum í þeirri blekkingu. Um leið og við sleppum þeirri hugsun að vilja eignast alla skapaða hluti, deila og drottna, þá öðlumst við það sem við höfum alla tíð átt – hinn einfalda sanna kærleika, sem er það einasta sem getur veitt okkur lífshamingju. Þá getum við horft á það sem hindrar vináttu okkar við Guð með augum kærleikans, fullviss um að ekkert fær skilið okkur frá kærleika hans. Það er jafn erfitt að breyta stefnu í lífinu og fara eftir því þegar Jesús segir okkur að elska óvin okkar. Þar erum við aldrei ein að verki og við getum aldrei fyllilega skilið eða þekkt hvernig heilagur andi starfar í heiminum.

Páll postuli segir:

Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.”
Þess vegna er það okkur mikilvægt að ganga á fund Guðs, styrkja tengslin við hann, staldra við og tala við hann í bæn, hlusta á hann í þögninni, heyra orð hans í guðsþjónustunni, fræðast um hann og deila þekkingu okkar með öðrum, styðja komandi kynslóðir á þeim vegi. Öll þjónusta og safnaðarstarf kirkjunnar er svar hennar við kalli Guðs til okkar. Hann réttir út sína kærleikshönd og vill eiga við okkur náin tengsl og að þau megi leiða okkur gegnum lífið og bera honum vitni.

“Allt er að fara af stað” – já, í öllum kirkjum landsins er vetrarstarf safnaðanna að hefjast barna- og æskulýðsstarfið, foreldramorgnar, kærleiksþjónustan, fermingarfræðslan, fullorðinsfræðsla, biblíuleshópar, kórstarfið, kyrrðar- og bænastundir og margt fleira sem væri of langt mál upp að telja af fjölbreyttri flóru safnaðarstarfsins. Okkur öllum gefast möguleikar á að auka við þekkingu okkar og reynslu, að dýpka vináttu okkar við Guð, að svara hans kalli. Verum kærleiksþjónar hans.