Nú gjaldi Guði þökk 39 árum eftir Heimaeyjargosið

Nú gjaldi Guði þökk 39 árum eftir Heimaeyjargosið

Vandinn við það að trúa á eitthvað annað en sjálfan sig, er að þurfa að viðurkenna æðri mátt. Þá þarf að lúta æðri hugsun sem skapað hefur það líf sem við lifum.

„Verði þinn vilji,“ er líklega ein erfiðasta bænin í bæn Drottins, Faðir vor. Maðurinn á erfitt með að hneigja sig frammi fyrir valdi sem hann á ekki stóran þátt í að móta.

Ég var einmitt á spjalli, bara í gær, við mann sem lýsti sínu trúarkerfi einmitt á þann veg að hann teldi nánst að guð væri í manninum sjálfum, sér og mér og öllum hinum, en aðallega þó í honum sjálfum og nánast þannig að hann væri sinn guð. Þannig var hans guð en samt sagðist hann vera í kirkjunni og kristinnar trúar. Konan hans, sem kunni varla við hvernig maðurinn hennar ræddi við blessaðan prestinn, var greinilega annarar skoðunar í kristni sinni. Bað hún okkur að afsaka sig þótt við værum í eldhúsinu þeirra.

Ég tók því auðvitað vel að maðurinn lýsti trúarkerfi sínu á svo hreinskilin hátt, en var hugsi yfir því sem ég tel að einkenni kirkjuna á okkar tímum í okkar eigin landi. Í öruggu umhverfi góðrar dagvinnu og stjórn á frítíma, á lygnum sjó í lífinu og með börnin uppkomin, þá er ekki undarlegt að menn færi höfund grunvallarreglunnar niður í eigin hugsun og eigið sjálf. Vandinn við það að trúa á eitthvað annað en sjálfan sig, er að þurfa að viðurkenna æðri mátt. Þá þarf að lúta æðri hugsun sem skapað hefur það líf sem við lifum. Það er að vísu mjög gott að hafa trú á sjálfum sér því það er vitnisburður um sterka sjálfsmynd og stjórn á daglegu lífi. Það eykur líkur á því að menn lifi lífi við ákjósanlegar aðstæður og nái markmiðum sínum í lífinu, sem þeim finnst sjálfum vert að keppa að. Það minnkar líkur á að sogast inn undir óskilgreint sjálf annarra einsog þekkt er í mjög brotnum fjölskyldum, t.d. vegna alkóhólisma eða ofbeldis. Það minnkar líkur á því að við sogumst inní illar félagslegar atburðarrásir, svo sem einelti eða sefjun. Sterkt sjálf er forsenda þess að einstaklingurinn fái að njóta sín og nái að sýna hvað í honum býr. Og ég hygg að ef við skoðum samskipti Jesú við aðra menn í frásögnum guðspjallanna sjáum við að hann metur það mikils sem í hverjum manni býr. Í fari Jesú er að sjá mikla virðingu fyrir manngildinu og hann hlustar vel eftir því sem hver maður hefur að segja. Jesús er oft talinn hafa búið yfir eina sterkasta sjálfi og talinn ein þroskaðasta sál sem komið hefur fram í sögu mannkyns. Samt gátu allir rætt við hann. Samt talaði hann við alla menn sem hann hitti á ferðum sínum. Og hann náði sambandi við þá og þeir við hann.

Vald Í texta dagsins (Matteus 8.1-13) er það hundraðshöfðingi sem var bæði fær um að taka við skipunum og gefa þær (enda ætti enginn að gefa skipanir sem ekki kann að hlýða). Hann var bæði vanur að hlýða fyrirmælum háttsettari manna og ekki vanur öðru en að undirmenn hans færu í einu og öllu eftir boðum hans. Nú ræddi hann við Jesú af því að veikindi sonar hans voru utanvið valdsvið hans og líka þeirra sem yfir honum réðu í Rómverska heimsveldinu. Því fór hann enn hærra og leitaði þess er hann vissi í trú sinni að sækti mátt sinn frá Guði almáttugum. Hann trúði því að æðri máttur, sem hann núna þurfti svo tilfinnanlega að leita til, væri óskiljanlega mikill í samanburði við mannlegan mátt og megin. Svo mikil var þessi trú að hann taldi alveg óþarft að Jesús, þessi heilagi maður, kæmi inn undir þak hans. Nóg að hann segði lausnarorðið.

Slys, veikindi, skaði Oft erum við í þeim aðstæðum að finna til algjörs vanmáttar. Veikindi eru eitt og þá ekki síst veikindi þeirra sem við elskum. Það er erfitt að horfa uppá ástvini glíma við alvarleg veikindi og þarf ekki að líta langt. Samfélagið allt stynur þegar einn er fársjúkur og lækningar mannanna virðast lítið duga. Samfélagið stynur þegar alvarleg slys henda einn mann eða þegar saklaust barn er skaðað. Við þurfum stundum að horfast í augun við það slæma en það er nær útilokað annað en maðurinn sjálfur finni til vanmáttar síns af og til.  Sumir segja að það sé rangt að leita bara til Guðs í viðlögum en ég tel það þó merki um trú að hinn trúaði veit af Guði þegar máttur hans sjálfs er kominn útyfir þolmörk mannlegrar getu. Við vitum að setningin „Bænin má aldrei bresta þig“ á við um það endanlega traust sem við eigum í Guði. En hún gæti líka þýtt að við eigum ekki að sýna þá bresti að gleyma að biðja nokkurn einasta dag. Freistingar mannsins eru meiri og fleirri en svo að hægt sé að safna því upp í eina bæn af og til. Sálin er berskjölduð þess á milli og þá jafnvel mitt í dagsins önn, en vont að láta marga daga líða án þess að biðja um sverð og skjöld til varnar því sem á dynur. „Lát ekkert óhreint komast að þessari saklausu sál,“ segjum við í bæn foreldra fyrir nýfæddu barni og við skírnir. Þá heldur ættum við að biðja um þessa vernd þegar áreitið verður miklu meira og óhreinindum jafnvel ausið á bæði borð yfir manninn á fullorðins aldri. „Frelsa oss frá illu,“ eru lokaorð upprunalegustu útgáfunnar af bæn Drottins, Faðir vor. Þar í er líka bæn fyrir bata og bæn um að ekkert illt hendi okkur, að við sjálf gerum öðrum ekkert illt og enginn okkur, við sjálf lendum ekki í alvarlegum veikindum né heldur að við verðum leidd að sjúkrabeði þess sem við elskum. Enginn getur tekið sársaukann frá ástvinum eða sorgina yfir veikindastríði og missi, því ef taka ætti svo sterkar tilfinningar burt yrði líka að má út ástina sem við berum til þess er þjáist. Því biðjum við þess að ekkert óhreint eða illt komi að þeim sem við unnum, en von okkar um lausn er frá Guði (Róm. 12.16-21).

Á Heimaey fyrir 39 árum Við höfum án efa öll verið í hálfgerðu móki þegar við fyrst heyrðum fréttirnar af rýmingu Heimaeyjar fyrir 39 árum. Og Eyjamenn því meir sem þeir stóðu nær ógninni. Það var mikill atburður þegar jarðeldarnir brutust út og þá má segja að við eigum enn nokkuð í land með að vinna úr því að fullu. Áhyggjur voru miklar um afdrif náungans og í sumum tilfellum meðlima fjölskyldunnar. Æðruleysið einkenndi að vísu það andrúmsloft sem ég hef heyrt lýsingar af héðan úr Eyjum og einnig frá föður mínum sem stóð vaktir í Þorlákshöfn og víðar þar sem skip og bátar komu að með íbúana og líka seinna heilu og hálfu búslóðirnar. Slíkir ógnarkraftar sem leystir voru úr viðjum jarðar fá alla menn til að þagna og íhuga stöðu sína alveg uppá nýtt. Kraftar náttúrunnar eru miklir og meiri en mannlegur máttur. Það kennir okkur að vissulega er til æðri máttur sem maðurinn verður að beygja sig fyrir. Í þeim tilfellum hefur hann oft ekki mikið ráðrúm til að velta því fyrir sér í rólegheitum yfir eldhúsborðinu hvort guð, sem í honum sjálfum býr, gæti kannski verið hið æðsta afl í heiminum. Við sem höfum staðið frammi fyrir ógnarafli náttúrunnar og líka fundið hvernig ómæliskraftur Drottins er okkur hliðhollur þegar mest á reynir, hljótum að velta því fyrir okkur hvort ekki væri betra að leita handleiðslu hans frá degi til dags, alla daga, í stað þeirra daga einna sem veröldin hvolfir öllu af stalli sem áður var. Gleymum aldrei að þakka, sérstaklega núna þegar Eyjamönnum fjölgar sem fæddir eru eftir gos.

Þess vegna syngjum við á eftir „Nú gjaldi Guði þökk,“ því ekki má það gleymast eitt einasta ár, að við þökkum þeim sem bjargar og þökkum þeim Guði sem leiðir. Umfram allt þurfum við að þakka þeim góða Guði sem getur hjálpað.

„Ekki snefill af sjóveðri“ Ég hef aðeins minnst á áföll og strand í lífinu og þegar gefur á bátinn. Þetta þekkjum við hér við Eyjar því bara síðast fyrir nokkrum dögum var svo illt veður og sjólag hér við Eyjar að ég get ekki nefnt bræluna réttu nafni í prédikun án þess að valda hneykslan, en það var þó hægt að segja að „ekki var snefill af sjóveðri“. Þetta sögðu skipstjórarnir hér áður fyrr þegar vomur voru á þeim að leggja á miðin og djúp.

Blind sker og leið til lífs Í einu svona spjalli var einnig verið að ræða strandið mikla við eyjar Ítalíu, sem líklega er dýrasta strand sögunnar í krónum talið. Þá hafði einn í hópnum eftir reyndum skipstjóra, sem spurður hafði verið af einum áhyggjufullum um borð, hvort hann þekkti ekki örugglega öll skerin þar, sem þeir sigldu. Skipstjórinn sagðist ekki þekkja skerin mjög vel og vildi helst ekki kynnast þeim, en það væri ekkert að óttast af því að hann þekkti leiðina vel á milli þessarar skerja. Það er betra að þekkja leiðina í gegn heldur en allt sem getur stoppað okkur. Í þessum hópi var líka læknir, en hann varð að viðurkenna að skipstjórinn hefði betur, því hann hefði verið lengi í háskóla að læra allt um sjúkdóma, en ekkert um heilbrigt líf. Leggjum því allt kapp á það að læra að þekkja leiðina til hjálpræðis, leiðina til björgunar, leiðina til lífs, en hana vísar Drottinn svo sannarlega. Hann er sá sem farið hefur um alla sjói og öll höf, alla heima, og fundið leiðina til að sigra að eilífu. Þennan sigur lífsins hefur hann þegar gefið okkur hlutdeild í og það er mikil synd ef við lærum ekki að segja fram þessa bæn: „Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni“ – og líka í lífinu mínu. Við byrjum allavega á því að færa honum þakkargjörð fyrir lífið og syngjum öll saman þennan sálm á eftir, sem sunginn hefur verið þennan kirkjudag í 39 ár. Með þökk til Guðs játum við trú á þann Drottinn sem ríkir um eilífið, æðri en allt, en samt svo nærri okkur, sem við höfum reynslu af, því hann er Guð guðanna og Drottinn drottnanna (5. Mós. 10.17-21). Með trú á hann, sigrum við allt illt með góðu einu og fáum enn meira tilefni til þakkargjörðar, sem hann fær að ráða meiru í okkar lífi í framtíðinni. Fyrir það sé Guði dýrð, svo sem var í upphafi, er núna og verður alla tíð.