Fórnarlömbin

Fórnarlömbin

Er það mögulega saga Kains í yfirfærðri mynd? Er hann ekki fórnar-lambið sem í sjálfsvorkunn sinni telur sig hafa rétt á því að drepa bróður sinn? Leiðir það ekki hugann að þjóðarmorðum sem framin voru í krafti þeirrar sannfæringar að böðlarnir hefðu sjálfir orðið fyrir einhverjum órétti? Nazistarnir hefndu ófara fyrra stríðs á gyðingum og ólu á tortryggni í þeirra garð.

Prestar og aðrir fræðarar verða alltaf hálf miður sín þegar einhver úr hópi fermingarbarna þekkir ekki söguna um Miskunnsama Samverjann.


Ólán heimsins

 

Einu sinni kvartaði reyndar stúlka í fræðslunni yfir því við mig að við værum alltaf með þessa sögu á vörunum. „Eigið þið engar aðrar sögur að segja?“ spurði hún og ég sagði vissulega svo vera en það væri bara eitthvað við þessa sögu sem gerði hana þess virði að segja hana oftar en einu sinni.

 

Samverjinn hefur orðið að samheiti yfir fólk sem leggur sig fram um að veita öðrum lið. Já, stígur út úr skeytingarleysinu til að hjálpa, styðja, bjarga jafnvel mannslífum. Hitt er auðvitað miklu auðveldara, að horfa í aðra átt, láta eins og allt sé með felldu þótt neyðin blasi við.

 

Þetta erindi úr ljóði Tómasar Guðmundssonar, Gesturinn, er á sama hátt áminning um að sitja ekki hjá þegar heimurinn hrópar á aðstoð okkar og nauðstaddir þurfa liðstyrk:

 

Og vitund þín mun öðlast sjálfa sig

er sérðu heiminn farast kringum þig

og elfur blóðs um borgarstrætin renna.

Því meðan til er böl sem bætt þú gast,

og barist var á meðan hjá þú sast

er ólán heimsins einnig þér að kenna.

 

Já, illmenni sögunnar eru ekki eingöngu hrottarnir sem gengur í skrokk á vesalings manninum. Það eru ekki síður þessir tveir sem komu honum ekki til hjálpar, þeir eru fulltrúar þeirra sem skáldið Tómas talar um og sátu hjá þegar þau hefðu getað bætt böl heimsins.

 

Er einhverju við þetta að bæta? Skýrir sagan sig ekki sjálf? Er hún ekki svo einföld og skýr að við ættum jafnvel að geta sett punkt hér og látið predikuninni lokið?


Gagnrýni á ríkjandi sið

 

Því er til að svara að hún leynir á sér. Fyrir mér, prestinum, miðlar hún ekki aðeins siðferðilegum boðskap, hún er ekki síður innlegg í sístæða umfjöllun Biblíunnar sem við getum kallað gagnrýni á ríkjandi trúarsiði. Sögupersónurnar eru jú lykilpersónur í helgihaldinu, prestur og levíti, svo kallaður.

 

Helgihaldið í hinu forna Ísrael snerist um sömu þætti og í svo mörgum öðrum trúarbrögðum, nefnilega að færa fórnir til æðri máttarvalda í þeirri von að það muni leiða til farsældar og velmegunar. Í þeim efnum var gæðunum misskipt eins og svo oft. Þau sem mest máttu sín lögðu mest fram af því sem brennt var á fórnaraltarinu. Þau máttu því eiga von á góðu ef allt væri gert samkvæmt ströngum reglum ritúalsins.

 

Hluti af þeim helgisiðum fólust í hreinsunarsiðum þar sem prestar og samstarfsmenn þeirra lauguðu hendur og klæði eftir kúnstarinnar reglum. Svo nákvæmar voru reglurnar að líkja má við áráttukennda hegðun. Í engu mátti víkja frá forskriftinni, allt skyldi vera upp á tíu. Já, það er ekki að undra að seinni tíma fræðimenn sem rýna í hegðun fólks út frá sjónarmiðum þróunar tali um að þarna megi greina einhvers konar þráhyggju sem varð viðurkennd og hluti af átrúnaðnum.

 

Fyrir vikið er kannski ekki að undra að maðurinn sem lá þarna blóðugur í moldinni hafi ekki notið aðhlynningar þeirra tveggja sem fyrstir gengur framhjá. Þeir hafa einmitt haft þennan vandasama starfa með höndum og tryggja að almættið yrði nú fullsátt við matvælin sem þeir myndu tilreiða eftir kúnstarinnar reglum í helgidómnum.


Fórn Kains

 

Hér sjáum við jú tengingu við hina þekktu sögu sem lesin var hér í upphafi, af fórn Kains og Abels. Þar fylgir ekki sögunni hvað það var við þær fórnir sem féllu Guði svo misjafnlega í geð. Hvað gerði Kain vitlaust? hvað var það sem Abel skynjaði að var rétt?

 

Og aftur getum við spurt – hversu fjarlægt er það okkur að velta fyrir okkur fórnum í gamla daga. Það er jú ein arfleifð kristinnar trúar, sem greinir hana frá öðrum trúarbrögðum að fórnarathafnir heyra sögunni til. Við lítum á krossinn sem hina einu algeru fórn sem sættir manninn við Guð, þjáningin sem Kristur tók út var okkur til handa sem tilheyrum hans hópi.

 

Þó erum við alltaf að færa fórnir eða hvað? Er það ekki í eðli okkar sem getu horft til framtíðar að leggja fram einhver gæði í von um að öðlast eitthvað annað og meira þegar fram líða stundir? Námsmenn sitja inni niðursokknir við lestur meðan sólin skín og svo margt annað mætti gera skemmtilegra. Kona gengur í gegnum miklar þrautir til að geta alið barn í heiminn og samfélagið allt leggur til mikil gæði svo komandi kynslóðum geti vegnað vel.

 

Sum okkar eru nú um þessar mundir að uppskera vel, sækja ofan í moldina bústin jarðepli í miklu magni, já útsæðið er ein tegund fórnarinnar. Í stað þess að borða það að vori er því stungið ofan í moldina. Í stað þess að slátra undaneldisgripum fá þeir að lifa og ala af sér afkvæmi.

 

Fórnir eru sammannleg fyrirbæri og sennilega eig þær sér ekki hliðstæðu í ríki náttúrunnar í svo ríkulegum mæli eins og hjá okkur. Einhvers staðar sá ég skondna rannsókn sem hópur sálfræðinga vann. Fimm ára börn fengu einn mola af sætindum með þeim skilaboðum að ef þau gætu látið eiga sig að borða hann fengju þau þrjá aðra eftir einhvern biðtíma. Myndavélarnar sýndu andlit þeirra og það fór ekki á milli mála að það reyndi á að fórna andartaksánægju fyrir enn meiri sælu seinna um daginn! Sum stóðust prófið en önnur gáfust upp og hámuðu í sig molann. Hann samsvarar auðvitað útsæðinu sem á að margfaldast, eða inniverunni sem á að skila sér í góðum einkunnum! 


Fórnarlömbin

 

Allt eru þetta fórnir. Þær birtast okkur svo í æsilegri mynd þegar þjóðir senda syni sína og dætur út á vígvöllinn í þeirri von að öðlast rými, námur og akra sem muni nýtast til framtíðar.

 

Hvað gerist þegar einkunnir námsmanns standa ekki undir væntingum? Þegar uppskeran bregst? þegar stríðsátök enda með hörmungum og enn meiri fórnum?

 

Er það mögulega saga Kains í yfirfærðri mynd? Er hann ekki fórnar-lambið sem í sjálfsvorkunn sinni telur sig hafa rétt á því að drepa bróður sinn? Leiðir það ekki hugann að þjóðarmorðum sem framin voru í krafti þeirrar sannfæringar að böðlarnir hefðu sjálfir orðið fyrir einhverjum órétti? Nazistarnir hefndu ófara fyrra stríðs á gyðingum og ólu á tortryggni í þeirra garð.

 

Þá flæddi „elfur blóðs um borgarstrætin“, svo vitnað sé í ljóðið hans Tómasar. Réttlætingin byggði á því að fórnin ógurlega, heil kynslóð ungra manna, kallaði á einhvers konar uppgjör. Og þá skipti ekki máli hvað var rétt og hvað var rangt.

 

Þegar saklaust fólk var myrt svo milljónum skipti, túlkuðu eftirlifendur það sem fórn: Holocaust merkir „heilfórn“ eða „eldfórn“. Hvað bjó að baki þeirri túlkun? Var mögulega verið gefa hryllingnum tilgang og merkingu? Var eftir allt hægt að öðlast eitthvað í staðinn – umhyggju, þekkingu, viðleitni til að láta slíkt nokkuð aldrei endurtaka sig? Sú spurning sækir að okkur nú þegar við horfum á hörmungarnar á Gaza.

 

Já, við getum skoðað þessa áhrifamiklu frásögn í ljósi atburða sem áttu sér stað löngu síðar. Af hverju? jú vegna þess að hún lykilsaga, lýsir mannlegu eðli.


Samverjinn

 

Og það gerir sagan um prestinn og levítann sem gengur framhjá líka. Íslendingar voru í þeim hópi sem meinaði fólki að setjast hér að fólki sem var á örvæntingarfullum flótta undan morðingjunum.

 

Samverjinn var ólíkur fyrri vegfarendum að því leyti að hann hafði ekki þetta vandasama hlutverk með höndum að brenna einhver matvæli á altarinu í musterinu. Hann var að sama skapi fulltrúi fólks sem fyrstu áheyrendur þessarar sögu litu hornauga. Samverjar voru fleinn í holdi gyðingaþjóðarinnar.

 

Þeir numu land sem kallaðist Samaría þar sem þau höfðu búið sem höfð verið tekin herskildi og flutt til lands Babýlóníumanna mörgum öldum fyrr. Samverjar voru í raun nokkur þjóðarbrot og stunduð aðra siði en gyðingarnir. Rómverjar leituðu í raðir þeirra að málaliðum til að halda röð og reglu í Júdeu. Sennilega hafa hermennirnir sem festu Jesú á krossinn því komið úr þeirra röðum.

 

Já, við getum sagt að stef þessa sunnudags í kirkjunni sé einmitt fórnin. Því Jesús segir frá því á nokkuð ýtarlegan hátt hvað samverji þessi lagði fram til þess að hinn ókunnugi maður mætti komast til bata: „Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.“

 

Hér ber að sama brunni. Hvað viljum við fá fyrir fórnir okkar? Mökum við eigin krók? höldum við að Guð launi okkur margfaldlega til baka er við færum honum af takmörkuðum gæðum. Sögurnar benda ekki til þess að við getum gengið að þeim málum vísum. Nei, það er miklu fremur umhyggjan sem er hin æðsta fórn. Í henni er tilgangurinn fólginn og mest reynir á hann þegar við „sjáum heiminn farast í kringum“ okkur. Við þær aðstæður er köllun okkar brýnust og verkefnið stærst.