Hjartsláttur

Hjartsláttur

Í þessum hjartslætti er ekki bara fortíð okkar – svo langt sem hún nær. Nei í honum býr líf okkar og framtíð.

„Nóttin var sú ágæt ein“ – þessi orð eru yfirskrift jólanæturinnar hér í Keflavíkurkirkju. Falleg eru þau orð og tala til okkar einhvers staðar úr djúpi sögunni. Þau voru fyrst flutt á 16. öld þegar séra Einar Sigurðsson austur í Heydölum orti, Kvæðið af stallinu Kristí – þar sem hann hugleiðir jötu Jesúbarnsins. „Með vísnasöng ég vögguna þína hræri“ segir í viðlaginu. Já, við syngjum þetta í lok hvers erindis og þótt þau séu aðeins fjögur sem hér eru sungin orti Einar fjöldann allan af versum í þessum sálmi. Hvert þeirra endar með þessum orðum.

Viðlagið

Þessi endurtekning er einkenni jólanna, ekki satt? Í sálminum syngjum við sömu hendinguna aftur og aftur og það gerum við líka á helgum jólum. Margir þeir sem eru samankomnir í helgidómnum hafa sótt hér helgistund á jólnóttina ár eftir ár. Sumir hafa komið sjaldnar. Ég heyrði af góðu fólki sem sagði mér frá því að í fyrra hefðu þau komið í fyrsta skiptið til þessarar stundar og ákveðið að þaðan í frá yrði það hefð hjá fjölskyldunni að koma hingað á þessari helgu nóttu. Gleður það mjög að heyra slík orð.

Hefðin er merkilegt fyrirbæri. Hún er eins og hjartsláttur á mannsævinni. Með reglubundnum takti endurtökum við einhverja athöfn þar til hún öðlast fastan sess í lífi okkar. Stundum talar fólk um að það þurfi frelsi til þess að brjótast undan hefðinni og vissulega er það rétt að sumar hefðir geta gengið of langt og bundið fólk í klafa. En í hefðum getur líka búið mikið frelsi. Þær geta verið eins og burðargrind um líf okkar. Allar óvæntu uppákomurnar, allt það sem við gerum í eitt skiptið og endurtökum aldrei skilur sjaldan mikið eftir sig. Já dagarnir koma og fara og hverfa svo rækilega í gleymsku að við gætum ekki rifjað þá upp þótt við glöð vildum.

Allt þetta fær skyndilega festu þegar við segjum: „nú er komin hefð“ – eða, sem er algengara, við áttum okkur á því að hún er orðin að veruleika. Rétt eins og ólík vers í sama sálminum fá einhvern samhljóm þegar við endurtökum viðlagið á milli þess sem versin eru sungin: „Með vísnasöng ég vögguna þína hræri“. Þá fær kveðskapurinn sterkara svipmót, greinilegri einkenni – ekki fer á milli mála hvert ljóðið er. Viðlagið sér til þess.

Aftur og aftur

Og þegar við syngjum þetta viðlag er eins og við ruggum okkur til og frá. Það er jú sungið um það þegar vöggu barnsins er vaggað, í taktfastri hrynjandi, fram og aftur og yfir öllu hvílir mikill kærleikur og mikil ró. Hjartsláttur, er orð sem kemur upp í hugann. Skáldið yrkir í raun um hjartað í okkur. Hann segir á einum stað að vaggan sé ekki gerð úr grjóti eða tré – „Vil ég mitt hjarta vaggan sé“ segir hann „vertu nú hér minn kæri“. Þetta er sjálfur lífstakturinn sem sleginn er.

Hefðin sem lifir með okkur frá því við mótumst í móðurkviðið og allt til þess að andardráttur okkar stöðvast. „Með vísnasöng ég vögguna þína hræri“. Hjartað er helgað Jesúbarninu sem mætir okkur á hinum fyrstu jólum í þeirri kyrrð sem yfir öllu hvílir. Aðeins heyrist í hjartanu.

Hjartslátturinn í lífi okkar, sem við köllum fram þegar við upplifum að nýju sömu atburðina skerpir með sama hætti á einkennum okkar sjálfra. Og sem slíkur heftir hann ekki frelsi okkar, hann er nauðsynlegur til þess að við getum haldið hópinn, sagt til um það hver við erum. Við erum hluti af samfélagi og þetta samfélag á sér ákveðið svipmót sem við getum kallað menningu en við getum líka talað um hefðir. Já, þar er margt fyrirsjáanlegt.

Í myrkri

„Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós“. Milli þess sem sönghópurinn hefur sungið sálmana hér í kvöld hefur texti þessi verið lesinn. Þetta er einn af þessum magnþrungnum ritningartextum. Þegar Handel samdi ódauðlega óratoríu sína – Messías – byrjaði hann á orðum Jesaja úr sama bálki: „Huggið huggið lýð minn!“ Og litlu síðar í verkinu eru þau orð sungin sem hér hafa verið lesin: „Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós“.

Þessi þjóð sem spámaðurinn talar um er hópur af útlögum. Þetta fólk á ekkert land og það býr ekki við frelsi því það laut í lægra haldi fyrir öflugum nágranna og þjóðin var numin á brott, flutt í land sigurvegaranna. Þess vegna ganga þau í myrkri. Allar góðu stundirnar eru nú bara til í minningunni. Framtíðin er óviss, hættan leynist við hvert fótmál, já og frelsið er ekkert. Þjóðin gengur í myrkri.

Það er svo merkilegt að lesa sögu þessarar þjóðar sem þarna er talað til. Þetta var Ísraelsþjóð og hún samanstóð eins og aðrar þjóðir af breysku fólki sem tók stundum rangar ákvarðanir. Það sem gaf henni samstöðuna og gerði henni um síðir kleift að brjótast undan okinu var meðal annars það að hún lagði sérstaka alúð við þann hjartslátt sem hélt henni gangandi. Já, hún gætti þess mjög að tapa ekki niður hefðunum sem með henni höfðu þróast. Sjöundi dagur vikunnar varð hvíldardagur, föstur voru viðhafðar og maður minn – þótt öll sund virtust lokuð þá kunni hópurinn að halda hátíð. Hátíðir voru haldnar þegar sólin var lægst á lofti og því fagnað að dagurinn færi að lengjast að nýju. Páskarnir höfðu að sama skapi sterkan sess þegar fjólkið fagnaði því að forfeður þess brutust út úr þrælahúsinu í Egyptalandi.

Hjartsláttur

Hefðirnar reyndust til þess fallnar að skapa samkennd og efla með fólkinu vitundina fyrir því hvert það var og hvert það stefndi. Síðar komu tímar þegar „öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur“ urðu eldsmatur. Friðartímar gengu í garð, ljósið tók við af myrkinu. Þá var hópurinn samstilltur og samstíga. Hann átti sér ríka köllun, leiðarljós og hann vissi hver hann var. Þökk sé hefðunum, sögunum, vitundinni sem fólkið átti sameiginlega.

Hér erum við komin saman til stundar í kirkjunni sem hefur gamla yfirskrift. Við vísum í rúmlega 4ra alda kveðskap og köllum stundina, „Nóttin var sú ágæt ein“. Hugleiðum það, kæru vinir hvað við erum rík að eiga þesa samfellu í lífi okkar. Hugsum um það þegar skipbrot verður og það er eins og samfélagsgerðin riði til falls. Hugleiðum það mitt í vonbrigðunum þegar væntingar reynast á sandi byggðar. Þá stendur þetta eftir – við erum hluti af merkilegu samfélagi. Þjóðin okkar kann að ganga í myrkri en hún á mikið ljós og vonandi sér hún það.

Hjarta okkar hrærist vonandi á helgri hátíð. Það hrærist eins og vaggan sem Jesúsbarnið hvílir í. „Með vísnasöng ég vögguna þína hræri“. Í þessum hjartslætti er ekki bara fortíð okkar – svo langt sem hún nær. Nei í honum býr líf okkar og framtíð.

Guð blessi okkur öll á helgri jólahátíð. Amen.