Hinn nýi Adam

Hinn nýi Adam

María stendur á þröskuldi nýs tíma, nýs upphafs. Með hlýðni sinni gerðist hún það verkfæri sem Guð notaði til að greiða nýjum Adam veg í heiminn. Með því greiddi hún fyrir lausn á þeim vanda sem óhlýðni okkar veldur. Með hlýðni hennar gat Guð skapað upphaf nýrrar sögu fyrir mig og fyrir þig.

Og María sagði: Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum. Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja. Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert og heilagt er nafn hans. Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns. Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara. Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn, eins og hann hét feðrum vorum, Abraham og niðjum hans, eilíflega. En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín. Lúk 1.46-56

Og þú, sem átt á öllu ráð, send anda þinn með kraft og náð að lífga, hreinsa hug og sál og helga tungu, söng og mál. Amen. (SE)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Í dag höfum við heyrt lofsöngva tveggja kvenna. Um þúsund ár aðgreina þær í tíma. Önnur var uppi á 11. öld fyrir Krist. Hin lifði um þúsund árum síðar, við upphaf nýrrar aldar, nýs tímabils í sögu mannkyns. Önnur laut örlögum Adamsættar. Hin sá ný örlög ætluð Adamsætt. Önnur laut örlögum Evu. Hin átti þátt í að móta mannkyni ný örlög sem ný Eva. Önnur var Hanna, móðir Samúels. Hin var María, móðir Jesú Krists, móðir Drottins vors, móðir Guðs.

Það er boðunardagur Maríu í dag, dagurinn sem Vídalín nefndi „blómstur allra hátíða“.

Lofsöngvar kvennanna tveggja, þeirra Hönnu og Maríu, voru af hliðstæðu tilefni. Jafnframt var hlutskipti þeirra ólíkt.

Hanna var óbyrja sem hafði beðið Drottin ákaft um að opna móðurlíf sitt að hún mætti fæða barn. Drottinn heyrði bæn hennar. Hanna fæddi sveininn Samúel og í þakklæti fyrir þá gjöf söng hún Drottni lofsöng sinn. María hafði ekki beðið um barn. Lofsöngur hennar var að því tilefni að Guð lét kunngjöra henni að í henni vildi hann gefa mannkyni barn.

Í lofsöngvum sínum dásama báðar mikilfengleik Guðs sem öllu ræður og öllu stýrir til góðs. Guð einn er voldugur. Og þær horfa til framtíðar í fullvissu og von um að ráð Drottins muni sigra að lokum sérhverja ráðabreytni manna.

Og Hanna gaf son sinn Drottni að þjóni, að hann yrði Guði verkfæri. María þáði son sem Guð gaf mannkyni að þjóni og verkfæri. Sonur Hönnu, Samúel, stýrði Ísrael á miklum örlagatímum.

Stjórntæki hans í lífi og athöfnum var bænin: Tala þú, Drottinn, þjónn þinn heyrir. Vilja sinn og athöfn alla vildi Samúel láta stjórnast af vilja Guðs.

Og Samúel varð verkfæri Drottins við að útvelja og smyrja Davíð til konungs og við það hófst ætt hans til virðingar og konungstignar.

Davíð varð fyrirmynd allra konunga og löngu síðar, þegar Ísraelslýður leið nauð í útlegð undir hrammi framandi stórveldis, boðaði spámaður að Drottinn mundi senda lýð Guðs nýjan konung og frelsara af ætt Davíðs.

Og spámaðurinn ítrekaði að þetta fyrirheit væri ætlað öllu mannkyni.

María var fyrst allra manna til að heyra að þetta fyrirheit væri að rætast. Það hljómaði henni í boðskap sendiboðans himneska:

Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða. (Lúk 1.31-33)

Þannig lét Guð kunngjöra Maríu að hann hefði heyrt, ekki hennar bæn um barn, heldur bæn mannkynsins um frelsun, lausn úr fjötrum syndar og dauða.

Þess vegna syngjum við í messunni söng englanna á jólanótt eftir miskunnarbæninni að Guð hefur heyrt hróp mannkynsins á miskunn og veitt mannkyni lausn.

María trúði orðum engilsins og beygði sig í hlýðni undir hlutskipti sitt. Fyrir hlýðni hennar segja allar kynslóðir hana sæla.

Í Biblíunni og kristinni hefð er vont ástand mannkyns rakið til óhlýðni hinna fyrstu fulltrúa manna í heiminum sem nefnd eru Adam og Eva.

Sagan af Adam og Evu er táknsaga. Adam og Eva eru fulltrúar fyrir mannkyn allt á öllum öldum, tákn og fulltrúar okkar.

Saga þeirra er saga mín og saga þín. María stendur á þröskuldi nýs tíma, nýs upphafs. Með hlýðni sinni gerðist hún það verkfæri sem Guð notaði til að greiða nýjum Adam veg í heiminn. Með því greiddi hún fyrir lausn á þeim vanda sem óhlýðni okkar veldur. Með hlýðni hennar gat Guð skapað upphaf nýrrar sögu fyrir mig og fyrir þig.

Í lofsöng sínum lofar María þann Guð sem horfir á hið smáa og kennir okkur að það sem stenst í heiminum er ekki máttur valdsmanna, ekki hroki, ekki dramb, ekki græðgi eða neins konar niðurrifsafl annað. Það sem stenst er máttur miskunnar og elsku því að höfundur tilverunnar er kærleikur, einskær miskunn. Grundvallarlögmál lífsins er þess vegna lögmál kærleikans. Að lifa í kærleika kostar baráttu.

Það fékk María strax að reyna og fyrir það mátti hún líða. Boðskapur sá sem henni var fluttur var ekki beinlínis til að fara með á torg. Köllun sína þurfti hún að bera í hljóði.

Og þegar barnið var fætt mætti það strax ógn og voða og mátti sæta ofsókn. Lífsferill sonarins var krossferill. Móðirin fylgdi krossferli sonar síns alla leið upp á Golgata.

En einnig þar treysti hún því að hroki mannanna mundi ekki sigra heldur sá sem lægður var og deyddur, sonurinn.

Henni varð að trú sinni. Sonurinn sigraði á Golgata, ekki Pílatus, ekki Heródes. Gildin sem Jesús stóð fyrir urðu ofan á, ekki verðmætamat böðla hans. Og við treystum því að það er ekkert sem getur gert okkur viðskila við kærleika hans eins og postulinn áréttar í pistli dagsins.

Í Jesú sem María fæddi hafði Guð sjálfur hulið mikilfengleik sinn og mátt eins og segir í jólasálminum forna (Sálmabók 86) sem við syngjum í lokin:

Móðurfaðmurinn felur hann, fela veröld sem öll ei kann. Hann er nú orðinn ungur sveinn öllum sem hlutum ræður einn. Sé Drottni dýrð.

Fátækt hans er auðlegð okkar: Snauður kom hann í heiminn hér hans að miskunnar nytum vér, auðguðumst fyrir fátækt hans, fögnuðum arfleifð himnaranns.

Í honum lýsir ljósið eilífa sem gerir okkur að börnum ljóssins.

Þótt Heródesar og Pílatusar allra tíma reyni sífellt að kæfa það ljós, tekst þeim það ekki. Jesús er ljósið eilífa sem aldrei slokknar.

Það ljós bar María í heiminn og frá öndverðu sögu sinnar hefur kristin kirkja talið Maríu helstu fyrirmynd kristins fólks í trú og breytni. Hún varð snemma táknmynd kirkjunnar og Hallgrímur játast því þegar hann segir í einum Passíusálmanna: „María, Drottins móðir kær, merkir Guðs kristni sanna.“ Kirkjan er móðirin sem fæðir okkur í skírninni til að verða börn Guðs á sama hátt og María fæddi Guðs son í heim.

Til þess lífs var hann Friðrik litli Ólafur vígður í dag og honum var tendrað ljós sem tákn um ljósið sem Kristur tendraði í sálu hans.

Við samgleðjumst Friðrik Ólafi og fjölskyldu hans. Við biðjum Jesú að halda ljósi sínu lifandi í honum.

Um leið biðjum við Jesú að lífga ljósið sem hann tendraði í hjörtum okkar þegar við vorum skírð svo að við megum bera ljós Jesú í umhverfi okkar.

Hjá honum finnum við þau varanlegu auðæfi sem hvorki mölur né ryð fær grandað. Þau auðæfi eru fólgin í lítillæti, trú og miskunnsemi eða þeim ávexti sem andi Guðs skapar í lífi fólks: „Kærleiki, gleði friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð, sjálfssagi.“

Er við á eftir krjúpum við altarið biðjum við Jesú að taka burt hið gamla sem saurgar okkur og setja í staðinn líf sitt og lífskraftinn sinn okkur til hreinsunar, að við förum út í lífið til að þjóna Drottni með gleði í heiminum sem Guð hefur skapað.

Um það biðjum við með orðum Valdimars Briem í sálminum sem við syngjum á eftir (Sálmabók 573):

Lát kraft þinn, Jesús, Jesús minn, mig jafnan yfirskyggja og lát þitt orð og anda þinn mér æ í hjarta byggja, svo ég sé þinn og þú sért minn og þinn æ minn sé vilji og ekkert okkur skilji. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.