Dæmið ekki og þér munið eigi verða dæmd

Dæmið ekki og þér munið eigi verða dæmd

Það er staðreynd að við erum voðalega fljót að fella dóma um menn og málefni án þess að vera búin að afla okkur vitneskju um það sem um er að ræða. Einhvern vegin finnst mér svo að í mannlegri tilveru okkar þá erum við sífellt að dæma.

Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur.

Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ Þá sagði Jesús þeim og líkingu: „Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri en hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Hvernig færð þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð ekki bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns. Lúk 6.36-42

I

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Í starfi mínu hér í Grafarvogskirkju með börnum og unglingum þá hef ég unnið mikið með þessi orð og sjálfur reynt að hafa þau að leiðarljósi í lífi mínu og starfi. Ég brýni fyrir unglingunum að vera opin hvert fyrir öðru, gefa hvort öðru tækifæri en um leið að velja sér vini af kostgæfni. Vera viss um það að vinirnir séu sannir vinir. Ég ætla að segja ykkur stutta sögu:

Tveir unglingspiltar, sem voru bestu vinir, voru eitt sinn í hellaskoðun er þeir tóku eftir stórum sporum sem þeir töldu vera bjarnarspor. Þeir voru þá staddir langt inni í djúpum og þröngum helli. Þar sem drengirnir óttuðust ekkert ákváðu þeir að halda för sinni áfram innar í hellinn en voru þó varir um sig ef björninn skyldi verða á vegi þeirra. Skyndilega birtist þeim stærsti og ófrýnilegasti björn sem þeir höfðu nokkurn tíma augum litið. Björninn barði sér á brjóst og öskraði eins og ljón og öskrin bergmáluðu í djúpum hellinum. Drengirnir urðu auðvitað lafhræddir og ákváðu að hlaupa eins og fætur toguðu. Þeir snéru sér við og ætluðu að hlaupa út úr hellinum. En þá kraup annar drengurinn niður, klæddi sig úr gönguskónum og skellti sér í hlaupaskó. Vinur hans kallaði á hann, „drífðu þig maður, komum okkur út! Til hvers ertu að skipta um skó? Við getum aldrei hlaupið björninn af okkur.“ Sá í hlaupaskónum stóð nú á fætur, hljóp af stað og kallaði til vinar síns, „ég þarf ekki að hlaupa hraðar en björninn. Ég þarf bara að hlaupa hraðar en þú.“

Það fylgdi reyndar ekki sögunni hvort þetta hafi verið ísbjörn, en ég geri reyndar ráð fyrir því að ef þetta hefði gerst norður í landi þá hefði hann líklegast verið skotinn!!! Í þessari sögu kemur það glöggt fram að vinurinn sem ekki var í hlaupaskónum hafði dæmt vin sinn ranglega. Hann hafði talið hann vera vin sinn. Hvað hefði sannur vinur gert? Sannir vinir hefðu hjálpast að við að komast úr þessari bráðu hættu. Í Jóhannesarguðspjalli, kafla 15 segir: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ Náunginn í hlaupaskónum hugsaði aðeins um sjálfan sig.

Málið um ísbjörninn sem skotinn var á Þverárfjalli fyrir skemmstu fékk mig aðeins til þess að hugsa. Um leið og fréttist af málinu var sem þjóðinni væri skipt í tvær fylkingar, þeir sem fordæmdu drápið og þeir sem réttlættu það. Samstundis og þetta hafði gerst felldi fólk sinn dóm, jafnvel án þess að hugsa málið til enda eða vita hverjar aðstæðurnar voru. Sjálfur var ég einn af þeim sem fannst það alger óþarfi að drepa björninn. En þegar mér hafði verið bent á að hann hafi verið aðeins 6km frá næsta bæ, og ekki nema 10km frá Sauðárkróki fór ég að hugsa. Hvítabirnir eru fráir á fæti og geta farið mjög hratt yfir. Í Þverárfjalli var þoka, hvað hefi gerst ef björnin hefði horfið upp í þokuna? Segjum svo að hægt hefði verið að svæfa dýruð, en hvað svo? Hvernig átti að flytja það á sínar heimaslóðir, og hefði það verið óhætt með tilliti til smitvarna o.þ.h.? Ég er alls enginn sérfræðingur í málefnum hvítabjarna en eftir að hafa hugsað um málið þá varð mér ljóst að ég hefði ekki viljað hafa barn á leikskóla í útjaðri Sauðárkróks vitandi af hungruðum ísbirni í minna en 10km fjarlægð frá.

II

Það er staðreynd að við erum voðalega fljót að fella dóma um menn og málefni án þess að vera búin að afla okkur vitneskju um það sem um er að ræða. Einhvern vegin finnst mér svo að í mannlegri tilveru okkar þá erum við sífellt að dæma. Við hittum manneskju í fyrsta sinni og við flokkum hana niður, teljum að hún sé svona eða hinsegin og setjum á hana stimpil. Jafnvel áður en hún opnar munninn og byrjar að tala. Á vissan hátt er þetta nauðsynlegt, það er nauðsynlegt að við vinnum úr og greinum það áreiti og þær manneskjur sem eru í kring um okkur og því flokkum við fólk niður í hópa. Hjá meðal Jóni þá er hann stöðugt að færa fólk til á milli hópa vegna þess að sumt fólk er e.t.v. ekki eins og hann hélt í fyrstu, sumir eru skemmtilegri og aðrir ekki eins skemmtilegir, sumir reynast vinir í raun á meðan aðrir bregast. - Það sem ég á við, er að við erum stöðugt að hengja einhverskonar merkimiða á aðra, en þessa merkimiða á að vera hægt að endurskoða og breyta.- Hinsvegar er það svo að það eru ekki alltaf allir tilbúnir til þess að endurskoða og breyta merkimiðunum. Jesús segir: „Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður“.

Það virðist stundum vera einhver lenska í okkar annars góða þjóðfélagi að vera að agnúast út í náungann. Og það hlakkar jafvel í sumum þegar náunginn lendir í vandræðum. Og þannig dreymir okkur iðulega um það að lækka rostann í náunganum. Okkur klæjar í fingurna að fá að draga flísina úr auga náungans. Út um allt land, í hverju horni sitja karlar og konur yfir kaffibolla og hneykslast á náunganum, klóra úr honum augun og rífa hann á hol og sjá á honum tóma vankanta og leiðindi. Saman við kaffiilminn renna svo gjarnan reynslusögur af eigin ágæti og hvernig hefði nú átt að leysa vandamálin.

Í útvarpinu er heill þáttur þar sem fólk getur fengið að hringja inn og leggja dóma á samferðafólk sitt og málefni líðandi stundar. Þessi þáttur heitir Þjóðarsálin.

Í hversu hrópandi ósamræmi er þetta ekki við orð Jesú Krists, sem mælti: "Dæmið ekki, og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður.“

Í raun hefur mannlífið í engu breyst frá því, sem var á tímum Íslendingasagna; hver sá sem miklar sjálfan sig á kostnað annara mun uppskera öfund og hatur. Og sá sem fer með deilur mun og kalla yfir sig enn frekari deilur og vandræði.

III

Texti dagsins er tekinn úr einni frægustu ræðu allra tíma; Fjallræðunni. Ræðunni sem hefst á orðunum: „Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki. Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða“. Ræðan þar sem Jesús kennir bæn bænanna, Faðir vorið. Texti dagsins er hluti af niðurlagi þessarar ræðu. Jesús hafði farið um alla Galíleu, kennt og prédikað um fagnaðarerindið og læknað sjúka. Orð fór af honum eins og eldur í sinu og fólk flykktist að til þess að heyra hann tala. Menn færðu til hans nánast á færibandi þá sem voru sjúkir og kvaldir, og hann læknaði þá. Og í Matteusarguðspjalli segir að mikill mannfjöldi hafi fylgt honum úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar. Þegar Jesús sá þennan gríðarlega fjölda fólks, fór hann upp á fjall til þess að sem flestir gætu heyrt til hans og þá flutti hann þessu mögnuðu ræðu sem er lengsti samfelldi texti eða ræða eftir Jesú sem við höfum. Það sem meira er, að í þessari ræðu er hann ekki endilega að tala um hvernig trúin er, hvernig guðsríki sé, heldur er hann einfaldlega að segja okkur hvernig við, sem kristnir trúaðir einstaklingar eigum að að hegða okkur.

Jesús hefur sett öllu trúuðu fólki fordæmi. Hann sem er fullkominn, kom í ófullkominn heiminn til þess að hjálpa okkur. Já, hann frelsar ófullkomnar manneskjur eins og mig og þig. Konungur konunganna fæddist ekki í stórbrotinni höll, heldur á lægsta stað. Hann bjó ekki um sig á meðal ríkra og valdamikla, hann miklaði ekki konunga heldu upphóf smælingja. Hann, sem var Guðs sonur, lifði á meðal syndara. Vinir hans og samfylgdarfólk voru undirmálsfólk í þjóðfélaginu, jafnvel úrhrök samfélagins. Ef Jesús kæmi til okkar í dag, myndi hann sjálfsagt starfa á Hlemmi og meðal hústökufólks. Aldrei var Kristur svo upptekinn við að boða lausn heimsins eða halda fjallræður að hann hefði ekki tíma til að sinna veikum eða þá að taka á móti litlu börnunum, sem mæðurnar færðu til hans. Jesús Kristur gerði sér ekki mannamun. Og hann dæmdi ekki heldur menn hart. Miklu oftar fyrirgaf hann. Þess vegna og þannig hefur Jesús sett okkur fordæmi.

„Gefið og yður mun gefið verða.“ Við eigum að gefa náunga okkar góðar gjafir. Allt baktal um náungann vinnur honum mein. Þess vegna eigum við, sem lærisveinar Krists, að reyna í lengstu lög að afsaka náungann, bera blak af honum þá honum verður eitthvað á. Það gildur einu hvort náunginn er biskup eða skósmiður, þingmaður, ísbjarnaskytta eða nágranninn í næsta húsi, allt eru þetta samferðamenn okkar. Og þeir þurfa á okkar umhyggju að halda. „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Og það merkilega er, ef þú gefur náunga þínum slíkar gjafir; að tala vel um hann, biðja fyrir honum og líka afsaka hann, þá muntu fá þetta allt endurgoldið og það með vöxtum. Því þeir, sem eru þannig, verða skjótt ástsælir. Ef þú elskar aðra þá munu þeir einnig elska þig. Sá sem elskar mikið er líka mikið fyrirgefið.

IV

Við lifum í ófullkomnum heimi og líf okkar er fullt af synd. Í kring um okkur gerast hroðalegir atburðir sem við oft á tíðum látum okkur engu varða, því þeir snerta okkur ekki beint, svo framarlega sem þeir snerta ekki budduna okkar. Heimurinn er ófullkominn og hann er fullur af erjum og deilum, erfiðleikum og vandræðum. En hann er einnig fullur af fegurð og gleði, hamingju og lífi. Það er oft svo misjafnt hvernig við sjáum hlutina. Hvort er glasið hálf tómt eða hálf fullt? Hvernig sjáum við umhverfi okkar? Því það verður eins og við sjáum það.

Christopher Wren teiknaði Pálskirkjuna í Lundúnum sem er meðal allra fallegustu byggingum í heimi. Hann sagði eitt sinn frá viðbrögðum nokkurra byggingaverkamanna þegar þeir voru spurðir hvað þeir væru að gera. Þeim ýmist leiddist eða voru þreyttir og svöruðu: „Ég er að hlaða múrsteinum“ eða „Ég er að bera steina“. Verkamaður einn, sem var að hræra steypu, var hins vegar kátur og ánægður með starf sitt. Þegar hann var spurður um iðju sína svaraði hann: „Ég er að byggja glæsilega dómkirkju“.

Hvernig byggjum við líf okkar? Byggjum við það á kærleika og umhyggjusemi, réttlæti og fögnuði. Eða snýst líf okkar um að baknaga náungann og hlakka yfir því þegar einhver annar á í erfiðleikum. Hefur þú hafið uppbyggingu að þínu eilífa lífi?

Guð er eilífur og er tilbúinn að gefa okkur von um eilíft líf í sér. Eilíft líf sem hefst hér og nú, láttu daginn í dag verða upphafið að þínu eilífa lífi í Guði. Hlustaðu á hann og farðu eftir boðum hans; „Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur“. Guð er tilbúinn að gefa okkur stórkostlegar gjafir, gjafir náðar, friðar, umhyggjusemi, hógværð og réttlæti. Opnum hjörtu okkar á móti Guði, játumst honum hér og nú. Biðjum Guð í einlægni um að koma inn í hjörtu okkar og taka sér bólstað þar og hjálpa okkur að feta veg réttlæstisins. Guð er eilífur og að trúa á hann er að eignast hlutdeild í eilífðinni. Þess vegna eigum við ekki að láta eyru okkar og augu blindast af jarðneskum deilum. Hugur okkar og hjarta á að stefna hærra en það. Deilur dagsins í dag eru hjóm eitt í samburði við þá himnesku von, sem við eigum í Jesú Kristi. Þar eigum við vonina um fyrirgefningu syndanna og eilíft líf, hvort svo sem við vorum sammála hvítabjarnar drápinu eða ekki.