Upprisuhátíð í íbúðahverfi

Upprisuhátíð í íbúðahverfi

Kirkjan er í miðju íbúðahverfi. Hún er staðsett eins og hjartað í sókninni, þaðan sem streymir boðskapur kærleika og miskunnar, bæði í Orði og verki.

Gleðilega upprisuhátíð og til hamingju með kirkjuna ykkar, Hjallakirkju sem fagnar 20 ára vígsluafmæli í dag. Sóknarbörnin hafa greinilega haft hraðar hendur því aðeins voru þá liðin um sex ár síðan Hjallasókn var stofnuð með skiptingu Digranessóknar. Ég hitti Kópavogsbúa nýverið, sem lengi höfðu átt heima í Kópavoginum. Þau voru lengi í Kársnessókn, síðan í Digranessókn og nú hér í Hjallasókn þó þau hafi alltaf búið á sama stað. Þetta segir mikla sögu af fjölgun íbúa í sveitarfélagsinu, enda ku vera gott að búa í Kópavogi.

Kirkjan er í miðju íbúðahverfi. Hún er staðsett eins og hjartað í sókninni, þaðan sem streymir boðskapur kærleika og miskunnar, bæði í Orði og verki.

Við óskum hvert öðru gleðilegar hátíðar á páskum. Þetta eru tvö orð, en á bak við þau er löng saga. Saga sem hefst með fæðingu lítils drengs í fjarlægu landi. Saga sem reyndar má rekja til margra alda sögu þeirra þjóðar er hann taldist til og fæddist inn í. Fæðingar drengsins hafði ekki verið beðið í 9 mánuði eins og fæðingar annarra barna, heldur hafði fæðingar hans verið beðið um aldir. Þjóðin hans hafði beðið eftir því um aldir að yngismær skyldi son ala. Og nú var hann fæddur og kallaður sonur hins hæsta, sonur Guðs og sjálfur kallaði hann sig Mannssoninn á stundum.

Jesús Kristur, Guðs sonurinn, sá er prédikað hafði um Guðs ríkið, læknað sjúka, talað máli hinna smáðu og hrjáðu, hafði hangið á krossi, hæddur og smáður, aðskilinn frá Guði í dauðaheiminum, var nú risinn upp frá dauðum. Hann er ekki hér, hann er upprisinn, mælti engillinn við konurnar, sem komu að vitja grafarinnar hinn fyrsta dag vikunnar.

Það fylgir gleði páskaboðskapnum. Eftir þjáninguna og niðurlæginguna sem á undan gekk er upprisuboðskapurinn mikill gleðiboðskapur. Og þannig er það oft því lífið sigrar dauðann og illskuna. Það er fagnaðarboðskapurinn.

Að trúa á Jesú Krist er meðal annars að vilja feta í sporin hans. Vilja líkjast honum, sem birti okkur vilja Guðs. Það er lífsstíll að vera kristinnar trúar. Þórir Kr. Þórðarson, sem var prófessor í Gamla-testamentisfræðum í guðfræðideild Háskóla Íslands, sagði í grein sem hann skrifaði og nefndi „Í leit að lífsstíl“: „Það er nýjung í sögu kynstofnsins að þurfa að leita að lífsstíl. Andarunginn á Tjörninni lærir af mömmu sinni öll viðbrögð og hvernig hann á að bregðast við í vatninu. En hrynjandi viðbragðanna, „lífsstíllinn“ sem hann temur sér er að öðru leyti fastbundinn, prógrammeraður í erfðavísunum, genunum. Um sumt er atferli mannsins einnig bundið erfðum. En að öðru leyti er honum á annan veg farið.

Hrynjandi þjóðfélagslífsins hefur raskast í byltingu samtímans. Þess vegna er sú óvænta staða upp komin, að ungt fólk þarf að líta yfir alla mögulega lífsstíla eins og marglit leikföng í krambúðarhillu og velja sér lífsstíl“ segir doktor Þórir í greininni. Á öllum tímum hefur það verið ofarlega í huga fólks að komast af. Að hafa í sig og á. Að hafa húsaskjól. Í nútímanum bregður svo við að þó þessi atriði séu enn ofarlega í huga fólks þá er annað líka ofarlega í huga. Hvernig get ég lifað lífinu? var áður spurt. Nú er spurt hvernig vil ég lifa lífinu? Fátt er tekið sem sjálfgefið í nútímanum, þar á meðal er trúin. Nútímafólk veltir því margt hvert fyrir sér hvort það eigi að aðhyllast trú yfirleitt og þá hvaða trú? Þess vegna þarf Kirkjan að leggja sig fram um það ennþá meira en áður að koma boðskapnum skýrt til skila og höfða til sem flestra í nálgun sinni og boðun. Það gerir hún með aldursskiptu starfi, fjölbreyttara helgihaldi en áður var og faglegum vinnubrögðum.

Sá lífsstíll sem kristin trú boðar er vegur kærleikans. Vegna elsku Guðs til mannanna kom hann í heiminn sem lítið barn. Lét líf sitt á krossi, steig niður til heljar og reis upp á þriðja degi. Fyrir trú fáum við skynjað fórnardauða Krists. Fyrir yður gefinn sagði Jesús við lærisveinana við síðustu kvöldmáltíðina um leið og hann líkti brauðinu við líkama sinn og víninu við blóð sitt og vísaði þar til þess sem gerðist daginn eftir, á föstudaginn langa þegar hann lét líf sitt á krossi.

Páskarnir eru sigurhátíð kærleikans, þar sem sigur Krists yfir illsku, böli og dauða eru boðuð og böðuð í upprisuljósinu hans. Okkur hefur verið gefin hlutdeild í þeim mikla leyndardómi.

Að eiga hlutdeild í lífi Krists er ekki bara val okkar, heldur vorum við flest og sennilega öll, sem hér erum saman komin skírð til nafns hans og nafn okkar ritað í lífsins bók. Þannig var okkur gefin hlutdeild í lífi Krists, við vorum merkt krossins tákni og erum hans frá skírn og til eilífðar, hvort sem við lifum eða deyjum, þá erum við Krists, eins og Páll postuli orðar það í Rómverjabréfinu.

Dauðinn hefur ekki síðasta orðið. Dauði Jesú á krossi hafði ekki síðasta orðið, atburðir föstudagsins langa voru ekki endalok, heldur nýtt upphaf. “Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi”, segir Jesús. “Hann er ekki hér, hann er upprisinn” sagði engillinn við konurnar sem fyrstar vitjuðu grafarinnar árla hinn fyrsta dag vikunnar. Jesús sagðist líka vera vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hann sagði ekki ég er upprisinn, ég lifi, heldur ég er upprisan, ég er lífið. Hann er örlátur á sjálfan sig því hann gefur okkur hlutdeild í upprisu sinni og lífi sínu. Þess vegna getum við sagt að eilífa lífið sé ekki handan grafar og dauða, heldur hér og nú. Það líf sem lifað er í samfélaginu við Jesú Krist. Við erum Krists, bæði í lífi og í dauða.

Páskahátíðin minnir okkur á að lífið er sterkara en dauðinn og lifandi dæmi um það er vorið, þegar blómið kíkir upp úr moldinni og grasið grænkar án þess við eigum nokkurn þátt í því. Þegar náttúran vaknar af vetrardvala, þá sjáum við að dauðinn hefur ekki síðasta orðið. Þó að dauðinn virðist um stund aðeins hryggðarefni, hvílir í þessum myndum von þess að um síðir muni lífið rísa upp af dauða.

Og þessa skulum við einnig minnast í lífi okkar öllu. Þegar á móti blæs, þegar erfiðleikarnir ætla að buga okkur, þegar mótlætið virðist engan enda ætla að taka, þá skulum við minnast þess að krossfestingin og allt sem hún stendur fyrir, hafði ekki síðasta orðið. Upprisan varð og eins verður það í lífi okkar. Það kemur alltaf blessun á eftir bölvun og upprisa á eftir krossfestingu. Það kemur alltaf nýr dagur með birtu sína eftir dimmu næturinnar. Það kemur vor að vetri loknum. Sólin sín eða bíður bak við skýin. Hún fer ekkert, það megum við bóka.

Það er tiltekið í guðspjallinu að konurnar hafi komið mjög árla til grafarinnar. Þær voru þar við sólarupprás. Það var sól nýrrar birtu, upprisubirtu Krists. Það er sól sannrar gleði. Þar sem Guð er stærri en svo að orð okkar eða skilningur geti náð því, þurfum við að nota myndmál sem hjálpar okkur að vísa til þess hvað býr í Guði. Sólinni hefur gjarnan verið líkt við Guð. Allt líf nærist og þiggur il og ljós af sólu á sama hátt og sköpunin öll þiggur líf sitt af skaparanum. Birta býr ekki í tunglinu en samt endurkastar það birtu á jörðina. Birtan sem ljómar upp tunglið er ljósið sem það þiggur af sólinni. Á sama hátt er birtan í lífi okkar komin undir ljósinu frá Guði. Það ljós eigum við að láta berast áfram til sköpunarinnar.

Ljósið hefur yfirburði yfir myrkrið, því að hvar sem ljósið skín eyðist myrkrið. Jesús líkti sér við ljósið: „ Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins“ sagði hann. Jóh.8.12 Látum ljós páskasólarinnar lýsa okkur og leiða, gleðilega hátíð í Jesú nafni. Amen.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um alder alda. Amen. Prédikun flutt í Hjallakirkju páskadag 2013. Jes. 25:6-9; 1. Kor. 15:1-8a; Matt. 28:1-8.