Móðir og barn - hirðir og hjörð

Móðir og barn - hirðir og hjörð

Já, gætum þeirra lamba sem okkur eru falin. Við mæður og feður höfum þetta hlutverk gagnvart börnunum okkar. Það er sjálfsagt – eða hvað? Stundum þurfum við að minna okkur á hvað er mikilvægast í lífinu. En við þurfum líka að minna okkur á að hlú að sauðunum „er engan hirði hafa“ (Matt 9.36).

Til hamingju með daginn, mæður.

Árið 1932 kom út bók um barnauppeldi eftir sænska móður í endursögn Guðrúnar Lárusdóttur og ber hún heitið „Móðir og barn“. Í formála segir:

Bókvitið eitt getur aldrei kennt oss að ala upp börn vor. Það verður hvergi lært annarsstaðar en frammi fyrir augliti Drottins í auðmjúkri bæn. En það sem aðrir hafa reynt og lært, oft fyrir margskonar þrengingar, mistök og yfirsjónir, í allra erfiðasta skólanum, skóla lífsins, getur stundum orðið óreyndum byrjöndum til hjálpar og leiðbeiningar, til þess að halda í rétta átt. En er vér villumst og steytum á skeri, þá ríður oss á engu meir en því, að afhenda Drottni stjórnvölinn. Hans er mátturinn, og hann stýrir í rétta átt!

Guðrún Lárusdóttir í Ási var fædd árið 1880 og eignaðist tíu börn. Þrjú þeirra dóu í æsku, tvær stúlkur og einn drengur, og tvær dætur hennar um tvítugt létust ásamt henni í bílslysi sex árum eftir að þessi tiltekna bók kom út. Hin systkinin fimm lifðu föður sinn sem náði tíræðisaldri. Aðeins helmingur barnahópsins í Ási náði sem sagt að verða virkir þátttakendur í samfélagi fullorðinna, búa í húsi Drottins langa ævi, svo vitnað sé í Davíðssálm 23. Þannig var hlutskipti margra íslenskra fjölskyldna hér áður fyrr, barnadauði mikill og iðulega annað foreldri látið fyrir aldur fram.

Þakklæti og ábyrgð Nú er öldin önnur, alla vega á Vesturlöndum. Dánartíðni barna hér á landi er með því allra lægsta sem gerist (sjá grein eftir Petrínu Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla í Fréttablaðinu 5. maí 2011) og mæður á Íslandi eiga hvað auðveldast með að sinna hlutverki sínu, eins og segir í tilkynningu frá Barnaheill (í sama blaði). Enn er þó barnadauði mikill og gríðarlegt verk eftir óunnið í að tryggja aðgengi að ljósmæðrum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum til verndar bæði móður og barni.

Heilbrigðisstarfsfólki verður að fjölga til að koma megi í veg fyrir þá hræðilegu staðreynd að barn deyr á fjögurra sekúndna fresti einhvers staðar í heiminum. Með einhverjum ráðum – ég hef ekki lausnina – verður einnig að stuðla að hærri meðalaldri kvenna í löndum sem glíma við sífelldan stríðsrekstur, löndum á borð við Afganistan. Þar eru lífslíkur kvenna aðeins 45 ár og leiða má líkum að því að barnsfæðingar eigi þar sinn þátt, þar sem fræðsla og aðhlynning verðandi mæðra er í lágmarki.

Þetta nefni ég hér í prédikunarstóli á mæðradeginum til að minna okkur á tvennt, þakklæti fyrir það góða hlutskipti sem okkar heimshluti nýtur og þá ábyrgð sem við sem höfum það bærilegt berum gagnvart þeim sem enn þjást af orsökum sem hægt er að koma í veg fyrir með aukinni fræðslu og umönnun mæðra og barna.

Kristniboð til manneskjunnar allrar Ég sagði í prédikun minni annars staðar hér í prófastsdæminu síðastliðinn sunnudag eitthvað á þá leið að það væri ekki höfuðmarkmið kristinnar trúar að búa til réttlátari heim hér á jörðu en það er svo sannarlega eðlileg afleiðing trúarinnar að vilja láta gott af sér leiða hvar sem því verður við komið. Þess vegna er mikilvægur þáttur í starfi kristniboða að hlú að manneskjunni allri, boða Guðs orð og frelsið í Kristi, en líka kenna lestur, fræða um heilbrigðismál og sinna ungbarna- og mæðravernd, svo nokkuð sé nefnt.

Fyrrgreind bók um móður og barn sameinar einmitt þetta tvennt. Byggt er á traustri trú á Guð sem blessar og styrkir hina ungu móður og til hans beðið að hún hljóti náð til þess að geta sagt þegar uppeldisstarfinu er lokið og hún hefur náð höfn á landi lifenda: „Sjá, hér er ég, og börnin, sem Guð gaf mér!“ (sbr. Heb. 2.13 og Jes 8.18). Meginmál bókarinnar er síðan hagnýt ráð, frá móður til móður, um mikilvægi móðurmjólkurinnar, kærleiksríkt uppeldi til hlýðni, mataræði, leikföng og hvernig venja má börnin á að fara með peninga, kennslu og kvöldbænir, svo nokkuð sé nefnt. Yfir vakir það hugarfar sem nefnt var í upphafi, að treysta Guði sem stýrir í rétta átt.

Hlutdeild í ástarjátningu Í guðspjalli dagsins mætum við aftur hinum upprisna Kristi þar sem hann dvelur á ströndinni með lærisveinum sínum og endurnýjar köllun þeirra með fiskidrætti og fagnaðarmáltíð (Jóh 21.15-19). Eftir matinn spyr hann Símon Pétur í þrígang: „Elskar þú mig?“. Jafnoft svarar Pétur játandi: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig“. Eftir hverja kærleiksjátningu Péturs sem eins og vegur upp þrefalda afneitun hans í garðinum rúmri viku áður felur Jesús honum hlutverk á hendur: „Gæt þú lamba minna“. „Ver hirðir sauða minna“. „Gæt þú sauða minna“. Og loks fær Pétur endurnýjaða hvatningu vinar síns og meistara: „Fylg þú mér“.

Hér játast Símon Pétur Jesú heilshugar og Jesús kallar hann til starfa. Trúarjátning er ástarjátning, ég elska þig og vil reynast þér trú, segjum við við maka okkar og börn í orði og verki. Og ósviknum ástarjátningum fylgir ábyrgð. Hér sjáum við samband Guðs og manns í verki þar sem Jesús mætir Pétri á ströndinni. Við skynjum elsku Guðs sem kallar og elsku mannsins sem svarar. Og með því að gangast undir ást Guðs verður manneskjan þátttakandi í fjölmennustu ástarjátningu veraldar og gengst undir samábyrgð með þeirri fjölskyldu.

Við fáum öll hlutdeild í köllun Péturs. Hans staða var að vera fremstur meðal jafningja, primus inter pares eins og það er kallað á latínu, en jafningjarnir – það erum við. Orð Jesú eru þess vegna orð til okkar, köllun inn í okkar líf að elska, elska Guð og annast um mennina með honum.

Fyrirmynd hjarðarinnar Í pistlinum (1Pét 5.1-4) eru öldungarnir minntir á að reynast hirðar þeirri hjörð sem Guð hefur falið þeim, að gæta hennar af fúsu geði og vera fyrirmynd en ekki drottna yfir henni. Þó þessum orðum sé sérstaklega beint til leiðtoga kristinna safnaða getum við væntanlega flest tekið þau til okkar í því samhengi sem við á. Verum öðrum fyrirmynd í hvívetna, ekki með hroka eða sjálfsupphafningu, heldur í fullu trausti til Guðs sem gefur þá gjöf að geta verið fyrirmynd. Þiggjum Jesú Krist að okkar fyrirmynd og lærum af honum.

Þetta gildir ekki síst í því leiðtogahlutverki sem foreldrar hafa gagnvart börnum sínum. Eitt besta ráð um farsælt uppeldi sem ég hef fengið er að finna hjá Páli postula í Efesusbréfinu (6.4): „Feður (og mæður), reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin“. Sú er reynsla mín að orð eða athæfi foreldra sem kveikir reiði barnsins geri ekkert gagn heldur valdi frekar hugarfari uppreisnar. Hitt er líka rétt að heilbrigður agi er nauðsynlegur til að mynda traustan grunn að sjálfsaga á fullorðinsárum. Minnumst þess að líf okkar hefur iðulega hærra en orð okkar. Ef við viljum ala börn okkar upp til að sýna bæði þakklæti og ábyrgð í verkum sínum hljótum við að fara á undan með góðu fordæmi.

Já, gætum þeirra lamba sem okkur eru falin. Við mæður og feður höfum þetta hlutverk gagnvart börnunum okkar. Það er sjálfsagt – eða hvað? Stundum þurfum við að minna okkur á hvað er mikilvægast í lífinu. En við þurfum líka að minna okkur á að hlú að sauðunum „er engan hirði hafa“ (Matt 9.36). Þess vegna tökum við í dag samskot til kristniboðsins, minnug þess að þeim fjármunum er vel varið, bæði til boðunar orðsins og til að byggja upp heilsugæslu og fræðslu til heilla fyrir mæður og börn og feður meðal þjóða sem búa við skort.

Gæt ú þeirra lamba sem umhverfis þig eru. Ver þú hirðir þeirra sauða sem Guð hefur sett þig hjá. Gæt þú sauðanna sem á vegi þínum verða. En fyrst og fremst: Fylg þú Kristi í fagnandi ást. Þannig ertu besta fyrirmyndin, börnum þínum og öðrum þeim sem um ræðir.

Hér er ég og börnin er Guð gaf mér.