Fold og himnar, menn og englar, barn í jötu

Fold og himnar, menn og englar, barn í jötu

Margslunginn og viðkvæmur er sá guðvefur lífsins sem við erum öll ofin í, menn og dýr um lög og láð, já, lífið allt. Móðir jörð er gjafmild, full af gæðum. Það er helst skortur á fólki sem sér út yfir eigin stundarhagsmuni, það er skortur á fólki sem lætur umhyggju, trú og von stýra skrefum sínum, viðbrögðum, huga og hönd.

Guð gefi þér gleðileg jól! Hans náð og friður sé með þér og þínum.

Jólin enduróma fréttina, sem engillinn flutti hirðunum: „Verið óhræddir! Yður er í dag frelsari fæddur!“ Fjárhirðunum, sem heyrðu þessa frétt fyrstir allra, var gefið tákn um hvar þetta barn sem er frelsarinn, Kristur Drottinn, væri að finna: „ungbarn liggjandi í jötu.“ - Nýfætt barn í jötu, liggjandi í heyi og hálmi jötunnar, sem naut og asni stóðu væntanlega bundin við. Það er táknið. Guðspjallamanninum Lúkasi er svo í mun að undirstrika það, að hann nefnir jötuna þrisvar sinnum í sinni stuttu og gagnorðu frásögn.

Hugsa sér - næst honum Jósef þá voru það blessuð dýrin sem tóku á móti Jesúbarninu, og léðu því jötuna sína!

Hvers vegna fæddist Jesús í fjárhúsi? Prestur spurði sunnudagaskólabörnin þessarar spurningar og lítil stúlka svaraði: „Af því að mamma hans var þar.“ Já, auðvitað, hvað annað! Og hún var þar af því að það var ekkert pláss í gistihúsinu í Betlehem. Við þekkjum orðtakið: Þar sem hjartarúm er þar er og húsrúm. Það virðist hafa vantað hjartarúmið hjá fólkinu í Betlehem. Og sú er gjarna raunin, jafnvel hér hjá okkur. Þessvegna varð fátæk kona, langt að komin, komin á steypinn, að láta fyrirberast í fjárhúsi. Og þar fæddist jólabarnið innan um jarmandi lömb, kumrandi hrúta og baulandi nautgripi. En jólaguðspjallið heldur því fram að á bak við þessa atburði sé vilji Guðs og áform.

Uxinn og asninn eru sýnd við jötuna á fjölmörgum jólamyndum.

Mér þykir alltaf sérstaklega vænt um að sjá þá þar. Þeir varpa ljósi á staðreynd sem jólaguðspjallið afhjúpar. Jesaja spámaður hafði sagt um það endur fyrir löngu. Hann sagði: „Uxinn þekkir eiganda sinn og asninn jötu húsbónda síns, en Ísrael þekkir ekki, mitt fólk skilur ekki.“ Jólamyndirnar benda á þessa sorglegu staðreynd. Jesús kom í þennan heim og það var ekkert rúm fyrir hann í bústöðum manna, þess vegna var jatan fyrsta hæli hans. Og hinsta hæli hans á jörð var krossinn og klettagröfin kalda. „Það er nú heimsins þrautarmein að þekkja hann ei sem bæri.“ segir í jólasálminum, vögguljóðinu gamla, sem hér var sungið áðan. Skynlaus skepnan - eins og það er gjarna orðað, hún sér og þekkir, en maðurinn, manneskjan með alla sína vitsmuni og yfirburði er einatt blind á það sem máli skiptir, hún veður yfir allt með yfirgangi og skeytingarleysi og hroka, úthýsir smælingjunum, hafnar kærleikanum, afneitar miskunnseminni og fyrirgefningunni, svíkur og krossfestir Guðs son. En – segir fagnaðarerindið: Guð elskar heiminn, lætur sig varða líf og heill þessa heims: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Guð ber umhyggju fyrir, ekki aðeins anda manns og sál, göfgi manns og dyggðum, hugsjónum og visku, hann elskar heiminn, hold og blóð, mold og sjó, gróður og dýr, já, og allan hag og ráð heimsins alls. Guð elskar þennan heim, og harmar synd, sundrung, sjúkleik og svívirðu okkar særðu jarðar, og allt það sem ógnar lífi hennar og heill. Og hann kallar okkur til slíkrar elsku, umhyggju um lífið og heiminn. Guð, sem er kærleikur, hefur trú á þessum heimi þrátt fyrir allt, hann á sér von um framtíð þessarar jarðar og lífsins á jörð, og hann vill laða okkur til þeirrar trúar, vonar og kærleika. Til eru helgisögur af því að uxanum og asnanum hafi runnið til rifja umkomuleysi þessa hvítvoðungs sem var lagður í jötuna þeirra á kaldri vetrar nóttu.

Ekkert ungviði er eiginlega umkomulausara og eins ósjálfbjarga og nýfætt barn. Er það ekki merkilegt? Lambið og kálfurinn brölta strax á fætur. En barnið ekki. Reyndar er það merking orðsins barn, að það er borið. Barnið lifir ekki nema það sé borið örmum, fái umhyggju og ást. Án þess þrífst það ekki, það bara deyr.

Jesús leggur mikla áherslu á börnin í boðskap sínum, og á skyldu okkar sem eldri erum að bregðast þeim aldrei. „Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér,“ segir hann, og: „Englar þeirra á himnum njóta jafnan návistar míns himneska föður,“ segir hann. Og þegar Jesús sagði að við ættum að vera eins og börn, þá á hann meðal annars við þetta, að við leyfum Guði að bera okkur á örmum sínum, eilífu, sterku, góðu örmunum sínum. Og dvelja örugg í þeim örmum.

Nú segir helgisagan að uxinn og asninn hafi fundið til með þessu titrandi, ósjálfbjarga reifabarni sem lá og ambraði í jötunni þeirra. Og þeir fóru að blása á það, anda hlýjum andardrætti sínum á barnið til að verma það. Það var þeirra tilbeiðsla, þeir höfðu léð barninu jötuna sína, heyið sitt, nú gáfu þeir því hlýjan andardráttinn sinn.

Mér kom þessi saga í hug þegar ég heyrði vitnað í gamlan Indjána. Umhverfismálin voru til umræðu, og sú hætta sem stafar að lífríkinu meðal annars vegna lífshátta okkar mannanna: „Höfum ekki áhyggjur af jörðinni,“ sagði indjáninn, „hún mun bjarga sér. Við skulum hafa áhyggjur af mönnunum, okkur sjálfum.“ Svo bætti hann við: „Maðurinn hefur týnt sjálfum sér. Hann þekkir ekki sjálfan sig. Hann telur sig hafa allt á sínu valdi, en hrokast upp í sjálfbirgingsskap sínum og oftrausti. Maðurinn hefur gleymt því að þrátt fyrir allt er hann veikastur allrar skepnu. Hann getur ekki einu sinni haldið á sér hita án hjálpar dýranna.“ - svo mörg voru þau orð.

Margslunginn og viðkvæmur er sá guðvefur lífsins sem við erum öll ofin í, menn og dýr um lög og láð, já, lífið allt. Móðir jörð er gjafmild, full af gæðum. Það er helst skortur á fólki sem sér út yfir eigin stundarhagsmuni, það er skortur á fólki sem lætur umhyggju, trú og von stýra skrefum sínum, viðbrögðum, huga og hönd. Jólaguðspjallið minnir okkur á þetta og vill kalla okkur, eða öllu heldur laða okkur til að verða þess konar fólk, sem gengur fram af virðingu og hógværð trúar, vonar og elsku til Guðs og náungans.

Hér á eftir verður sungið lag eftir ungt tónskáld, Þóru Marteinsdóttur við jólakvæði séra Jóns Þorsteinssonar, píslarvotts, sem Tyrkir myrtu í Vestmannaeyjum. Þar segir: „Fold og himnar, menn og englar saman ræða. Guð vor allra, barn í stalli, lét sig fæða, - hinn mesti, mesti, minnstan allra gjörði sig, leysti mig.“

Taktu eftir: „Guð vor allra,“ þannig lætur skáldið fold og himna, menn og engla játa Guð, „Guð vor allra, barn í stalli, lét sig fæða, - hinn mesti, mesti, minnstan allra gjörði sig, leysti mig.“ Hann er frelsari heimsins, frelsari þinn.

Er þessi heimur á heljarþröm? Allt er hverfult og forgengilegt í heimi hér, og syndin og dauðinn vinna hervirki sín. EN, segja jólin. Guð elskar þennan heim og gaf son sinn, Jesú Krist. Hann er að leita að hinu týnda til að frelsa það. Leyfðu honum að finna þig! Trúðu á hann, treystu honum og leiðsögn hans! Sköpunarverkið ber honum vitni. Kyrrð og friður helgrar nætur vitnar um að lífið er í sínum föstu skorðum, þrátt fyrir allt. Uxi og asni standa við stall, þekkja eiganda sinn og jötu húsbónda síns, trúfesti þeirra, þolgæði og tryggð er áminning til okkar. Á sinn hljóðláta hátt heldur náttúran áfram að bera vitni um elsku Guðs, dýrð og frið, lausn og líf.

En í jólaguðspjallinu talar sjálfur Guð! Sagan af barninu sem lagt var í jötu, af söng englanna og hlýðni hirðanna, mun óma um heimsbyggðina alla í nótt, í orðum og tónum, ljóði og söng. Þar er Guð að tala og benda á það sem lækna má og frelsa líf þitt og heim. Hlustaðu eftir þessu öllu í von og trú! Og þiggðu þá gjöf sem þar er rétt til þín. Leitastu við að lifa í meðvitund um og trausti á að þú ert umvafin ást og náð, umhyggju og kærleika Guðs allar stundir. Horfðu með þeim augum á jólaljósin, og taktu utan um þau sem þér eru næst, og hlustaðu eftir orðum engilsins: „Verið óhræddir! Ég boða yður mikinn fögnuð: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn!“

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

Gleðileg jól!