Fella eða gefa séns?

Fella eða gefa séns?

Egóismi í bland við fjársókn er skelfileg blanda. Afleiðingin hefur orðið samfélag í álögum, í vef blekkingar. Lygi leiðir alltaf til hruns, blekkingin elur aðeins dauða og lygavefur veldur eyðingu. Á að fella eða gefa séns?
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
31. desember 2008
Flokkar

Hvernig bregstu við lífsreynslu? Áföll verða eyðandi böl ef ekkert er lært af þeim. Framfarir verða ekki án mistaka. Góð vísindi verða til í kjölfar mistaka og vegna heiðarleika fólks sem viðkurkennir þau. Mestu hugmyndir manna eru grundvallaðar á baráttu, blóði, já vitleysum og tárum - en líka raunsæi þeirra sem gerðu sér grein fyrir og viðurkenndu að eitthvað hafði farið úrskeiðis. Hringur eða spírall Líf manna hefur tilhneigingu til hringferða. Við förum frá einhverjum punkti í fjölskyldusögu, uppeldi, innrætingu eða stað og þeysumst um einhverjar lendur menntunar, menningar og vinnu en komum síðan gjarnan til baka í einhverjum skilningi til að vitja róta og upphafs. Þegar við lendum í áföllum köstumst við oft á upphafsreit.

Alltof margir fara bara hringferðir í lífinu, læra of lítið og ná því ekki að feta sig upp spíral þroskans. Of margir eru aðeins uppteknir af sjálfum sér og eigin fáfengileika, elta bara skott eigin heimsku og læra þar með ekkert. Svo eru önnur, sem koma úr sinni hringferð með visku og þroska, megna snúa áfalli til góðs og meiri visku. Hlutverk okkar er að lifa í spíral fremur en í hring.

Líf beri ávöxt Texti gamlársdags er uppgjörstexti við skil tíða. Jesús segir kennslusögu. Hvað á að gera við tré, sem ekki ber ávöxt? Bændur veraldar fella slík tré. Í Jesúsögunni er tréð nytjajurt en ekkert skrauttré. Grænfingraðir vita að sjúkdómar hrjá líf og farsóttir geisa í ávaxtagörðum veraldar, mannfélaginu líka. Tvö geld ár er hægt að umbera en ekki þrjú. Ræktunarmenn vita að þá er næsta vel reynt. Eigandinn vill því höggva, en garðyrkjustjórinn vill þó veita enn einn séns. Lengi skal tré reyna rétt eins og menn.

Jesúmeiningin er, að Guð er langlyndur umfram rétt og mannlega kvarða. En líka að öllu lífi er ætlað að bera ávöxt - skila sínu láni. Það sem ekki skilar og ber ekki ávöxt verður höggvið. Í því er hin djúpa alvara fólgin. Íslendingabýsnir Við þessi áramót verður ekki hjá komist að staldra við þjóðaráfall Íslendinga. Það er átakanlegt að horfa á fréttaklippur ársins af mörgum stjórnmálamönnum þjóðarinnar, sem reglulega og ítrekað neituðu að hæft væri í viðvörunum um vanda íslenska fjármálakerfsins, um bylgjuna sem væri að dynja á þjóðinni. Þeir neituðu að hamfarirnar væru á leiðinni. Þeir skelltu skollaeyrum við ítrekuðum váboðum. Þeir lugu að okkur – það vitum við núna. Ef þeir lugu að okkur vísvitandi eru þeir siðblindir og engin þjóð, okkar ekki heldur, þolir lygara við stjórn og í embættum. Ef þeir lugu að okkur í gáleysi eiga þeir að horfast í augu við axarsköft sín og skeytingarleysi sitt.

Áfall samfélagsins er svo víðtækt og flókið, að ljóst er að fjöldi embættismanna og starfsmanna í stofnunum samfélagsins hefur brugðist herfilega. Þá er fjöldi fólks utan hins opinbera geira, sem ber ábyrgð, stjórnendur fyrirtækja, efnamenn sem tóku þátt í blekkingarleiknum til að sannfæra okkur um að gagnrýnisraddirnar væru ekkert annað en hljóð öfundsjúkra hælbíta með annarlegar hvatir. Fjölmiðlar okkar brugðust gagnrýnishlutverki, eftirlitshlutverki, sem við megum ætlast til að þeir sinni.

Margir hafa vissulega rýnt til gagns, margir hafa sagt satt og talað skýrt um eðli máls, en hefur verið skákað til hliðar út í horn samfélagsins þar sem raddir þeirra hafa ekki heyrst skírt og vel.

Álög - blekkingarvefur Þegar tjaldið hefur verið dregið frá sést að hið íslenska samfélag hefur verið undir álögum. Þeim var viðhaldið af íslenskum stjórnmálamönnum, mörgum embættismönnum og stofnunum.

Ég hef verið hugsi yfir þessu hrapalega, víðtæka og háðuglega hruni okkar. Er kreppan aðeins lélegum bankamönnum og makráðum stjórnmálamönnum að kenna eða lá meira undir?

Af hverju þessi einhæfa samkeppnisáhersla, sem svo margir hafa trúað á? Af hverju vaxtartrúin, sem var kennd svo hart að enginn mátti efast um? Af hverju svona einföld trú á að markaðurinn leiðrétti mistök og ekki þyrfti grunnreglur og skýr mörk? Af hverju svona einfeldnisleg mannhyggja, þunnur mannskilningur og vélræn skoðun á samfélagskröftum?

Mannástin rýrnað Hvenær hófst þetta allt? Byrjaði hrunið 29. september, þegar milljarðaflekinn losnaði og flæddi síðan niður fjárhlíðina og á haf út með skelfilegum afleiðingum? Nei, hrunið hófst mun fyrr, og raunar fyrir mörgum árum. Að stjórnmálamönnum var liðið að ljúga, embættismönnum að taka þátt í ruglinu, fjölmiðlum að bregðast hlutverki sínu og stofnunum að forsóma gagnrýnishlutverk sitt á sér skýringar í þróun eða því sem ég tel trosnun menningar okkar.

Hvað er menning. Menning er uppistaða og vefur mikilvægra þátta og atriða, sem samfélag þarfnast til að lifa og þroskast, t.d. viðmiða, hugmynda, sagna, sögutúlkunar, fyrimynda, hetja og skúrka, óvina og vina, mikilvægra hátíða, trúar- og sið-gilda. Þegar vefurinn er skaddaður, gildin fara á flot og leikreglur verða óljósar - er illt í efni. Þá er hætta á ferð. Eitt af því sem hefur ruglast er sjálfsskilningur í samfélagi okkar. Ein hlið þess er að mannúð, mannást, það sem kallað hefur verið kærleikur, hefur rýrnað og jafnvel horfið.

Um aldir hafa Íslendingar samsinnt, að einstaklingurinn væri ekki aðeins til fyrir sjálfan sig, heldur tenglsavera sem ber skyldur í samfélagi. Hlutverk mannsins er ekki að strjúka eigin nafla, þjóna sjálfum sér og treysta aðeins eigin hag heldur að tryggja að fé, eignir og gæði verði samfélagi, mannfélagi, já öllum til góðs. Lestu bestu bókmenntir okkar, fagurbókmenntir, postillur Íslendinga – heyrðu réttlætisstef alþýðukveðskaparins. Sjálfsástin er óvinur fólks. Þegar fjármunir hafa orðið markmið í stað þess að verða tæki hefur samfélagsvefurinn hrunið.

Íslenskt samfélag hefur líklega í marga áratugi verið að rotna innan frá, hefur sýkst í grunninn, verið að tapa áttum og gildum, glata mannást sinni, samfélagsást, mannsýn sinni. Í staðin hefur komið sjálfægni, sjálfshyggja, sjálfsupphafing, sjálfsást.

Egóismi í bland við fjársókn er skelfileg blanda og er sá hamur, sem hefur verið lagður yfir Ísland. Afleiðingin hefur orðið samfélag í álögum, undir vef blekkingar. Lygin leiðir alltaf til hruns, blekkingin elur aðeins dauða og lygavefur veldur eyðingu. Þetta er það sem við höfum verið að brjótast um í og munum áfram.

Náðarár og traúariðkun Þrjú ár án ávaxta. Er ekki tími til kominn að högva eða á að gefa enn einn séns? Eigandinn leyfir geldingnum að standa enn um stund til að gefa hinu ávaxtalausa tré tækifæri. Nú er komið að skilum. Hvað viljum við með samfélag okkar? Kristin kirkja getur ekki liðið, að gildagrunnur samfélagsins sé rústaður. Við eigum að gera kröfur til stjórnmálamanna, embættismanna, fjölmiðlafólks, hins akademíska samfélags - og okkar sjálfra.

Í því upplausnarástandi sem nú ríkir geta kristnir menn ekki setið hjá. Guðfræðin, hin hugsandi trú, hefur mikið að segja um eðli manna og samfélags. Guðfræðingar hafa safnað um aldir þekkingu á þáttum sem nú koma að gagni. Kirkjan hefur hlúð að fólki í allt haust og nú er komin tími til opinberrar orðræðu og uppgjörs. Krafa til starfa varðar trúfélög ekki síður en aðrar stofnanir samfélagsins, ekki síst þjóðkirkjuna. Trúmenn umlíða gjarnan en kristnin hefur ríkulegu spádómshlutverki að gegna. Nú er komið að því að við eflum samfélagsrýni okkar, verðum rödd viskunnar - til að tréð deyji ekki heldur lifi.

Sannleiksleitendur ættu að efna til samræðu um gildi og grunn samfélags og vefs þjóðfélagsins. Við prestar heyrum harmahróp fólks, sem hefur orðið ómaklega fyrir barðinu á vitleysum skammsýnna manna. Þið, sem heyrið, þið sem lesið, þið sem elskið fólk, megið gjarnan gegna kallinu einnig og leggja lið nýrri sókn til gæða íslenskrar þjóðar.

Ég hvet guðfræðinga og trúmenn til starfa í þessum garði þjóðfélagsræktar. Ég hvet guðfræðinga til opinnnar gagnrýni. Ég hvet þennan söfnuð til umræðu um hvers konar samfélag við viljum. Ég kalla þig til starfa. Við eigum þjóðfélagið saman, við berum sameiginlega ábyrgð sem enginn axlar fyrir okkur. Við þurfum að ræða saman.

Ræktunarstarf Endurbygging Íslands er ekki verk eins árs heldur ára – já, áratuga. Stjórnmál á Íslandi þarf að endurnýja algerlega og sömuleiðis embættiskerfi þjóðarinnar. Raunveruleg þrískipting ríkisvaldsins er nauðsyn. Fjölmiðla Íslands þarf að efla, en ávöxtur samfélagsins verður enginn ef ekki verður unnið með grunn gildanna, snúið frá þessari flatneskjulegu og óhuganlegu sjáflhverfingu og síngirni, sem hefur valdið gildahruni og þar með fjárhruni Íslands.

Ber samfélagstréð einhvern ávöxt eða verður tréð fellt? Nú er okkar garðyrkjumanna Íslands að hlúa að til að koma hinu veiklaða tré til grósku og ávaxta. Þeir sem ekki gangast við ábyrgð sinni koma til dóms, segir hin helga bók. Þar er “dírektív” eilífðar.

Hrunið er afleiðing heimsku. Góðærið var ekki ávöxtur grósku heldur blekkingarávextir úr annarra garði. Álögin eru fallin og nú er okkar að vinna að björgunaraðgerðum. Hið mikilvæga er að okkur er gefin tími, náðarár, til að ná áttum.

Við eigum ekkert og áttum ekkert og við. Allt okkur er að láni til að ávaxta. En okkar er ábyrgðin að fara vel með – með hvert annað –  með lífið – með stofnanir – með ríkið - með náunga okkar – með lánsfé - með náttúruna – með lífstré okkar.

Amen

Íhugun í Neskirkju á gamlárskvöldi 2008

Lexía:  Slm 90.1-4, 12 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“ Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Pistill:  Róm 8.32a-39 Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Það er eins og ritað er: Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn og við metin sem sláturfé. Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall:  Lúk 13.6-9 Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“