Upprisan, vonin og vorið

Upprisan, vonin og vorið

Eins og Jesús birtist konunum við gröfina og lærisveinum sínum eftir upprisuna mun hann einnig birtast okkur. Hann birtist okkur í öðru fólki, fólki sem hjálpar og styður, fræðir og huggar. Hann birtist okkur í aðstæðum sem við köllum stundum tilviljanir.

Gleðilega páskahátíð, hátíð lífsins, hátíð sigurs, hátíð birtu og vonar. Eftir alvarlegar samræður og svik, pínu, niðurlægingu og dauða, var sigur unninn á þriðja degi. Með því að hlýða á eða lesa um atburði skírdags og föstudagsins langa í helgri bók, höfum við gengið veginn með Jesú og lærisveinunum úr loftsalnum þar sem síðasta kvöldmáltíðin fór fram, í Getsemanegarðinn þar sem Jesús baðst fyrir og alla leið að Golgatahæð þar sem hann var krossfestur á föstudaginn langa.

Það voru miklir atburðir sem áttu sér stað á fáum dögum en aðdragandinn var þó lengri. Hann má rekja til þess að barnið í jötunni varð fullorðið og hóf að prédika að Guðs ríki væri í nánd og hvatti fólk til að taka sinnaskiptum.

Það er ekki alltaf vinsælt hlutverk að benda öðrum á það sem betur má fara í lífi einstaklings eða samfélags. Meistarinn frá Nasaret fékk að kynnast því. Og það hafa margir fengið að kynnast því í aldanna rás. Jesús þoldi kvöl og aðkast og það hafa fleiri gert í gegnum tíðina. Hann beitti valdi kærleikans til að gera líf samborgara sinna ríkara að innihaldi og hamingju en var sjálfur beittur valdi illskunnar fyrir það. Fyrir orð lýðsins var hann handtekinn, festur á kross, hæddur og smáður uns yfir lauk. Ansi harkalegt finnst okkur en því miður gerist slíkt enn í dag. Víða um heiminn, en líka hér. Fréttir síðastliðinnar viku vitna um það sem gerðist fyrir 40 árum er saklaust fólk var dæmt til að eyða mörgum af sínum bestu árum bak við lás og slá. Hvers vegna gerðist það? Meðal annars vegna þess að lýðurinn hrópaði eins og í Jerúsalem forðum.

Almenningsálitið er sterkt afl. Það ræður oft meiru en æskilegt er. Á stundum virðist sem opinberar aðgerðir séu framkvæmdar til að friða lýðinn, svo notað sé orðalag guðspjallanna.

Jesús hvatti fólk til að taka sinnaskiptum. Hann stóð með þeim sem stóðu höllum fæti og þeim sem féllu ekki inn í samfélagið af einhverjum ástæðum. Við sem kristin erum eigum að leitast við að feta í fótsporin hans. Við eigum að sýna þeim skilning sem fylgja ekki fjöldanum. Það er löstur á samfélagi okkar að vilja steypa alla í sama mót. Minnihlutahópar hafa þurft að berjast fyrir réttindum sínum og því að fá að vera eins og þau eru. Oftar en ekki eru börn sem ekki fylgja fjöldanum lögð í einelti. Það á líka við í heimi hinna fullorðnu. Einelti litar líf þess er fyrir því verður, ekki bara meðan á því stendur heldur alltaf. Okkur mannfólkinu hættir til að vera of afskiptasöm þegar það á ekki við, en jafnvel ekki nógu athugul þegar það á við.

Einelti er alvarleg meinsemd í samfélagi okkar og hún verður ekki upprætt nema með sinnaskiptum. Við verðum að breyta hugsunarhætti til að ná árangri í þeim efnum. Við verðum að berjast gegn þessu samfélagsmeini sem einelti er, enda er það ofbeldi, andlegt eða líkamlegt sem og útilokun og niðurlæging.

Boðskapur páskanna færir okkur von um betri heim, því upprisa Krists var sigur yfir illsku og dauða. Á föstudeginum langa var sem dauðinn hefði sigrað, illu öflin hefðu sigrað, mannlegt vald hefði sigrað. Páskarnir boða lífið og kærleikann, réttlætið og friðinn. Ofbeldi og valdníðsla höfðu ekki síðasta orðið og mega aldrei gera. Því miður lifum við samt ekki í ofbeldislausum heimi. Dag hvern finnum við fyrir ofbeldi eða fáum fréttir af beitingu þess. Við megum ekki vera skeytingarlaus gagnvart því ástandi eða láta ótta stjórna aðgerðarleysi. Páskaboðskapurinn minnir okkur á að baráttan gegn hinu illa er aldrei til einskis. Fyrr eða síðar mun hið góða sigra og lífið verða baðað í páskasólinni.

Kristur greiddi lífinu leið, en galt hið krafða verð. Þetta er boðskapur páskanna. Það voru konur sem voru fyrstu vottar upprisunnar og fyrstu boðberar tíðindanna.

Morgunin eftir komu konurnar til þess að gráta við gröfina. Og sjá þær fundu gul blóm sem höfðu sprungið út um nóttina. Vorið var komið þrátt fyrir allt.

Yrkir Vilborg Dagbjartsdóttir í ljóði sínu Páskaliljur. Hún tengir upprisuna vorinu og víst er að á vorin er mynd upprisunnar hvað sterkust í náttúrinni. Þá er ljóst að fræið hefur í frostinu sofið og Drottins vald vakið það upp á ný.

Morguninn eftir komu konurnar til þess að gráta við gröfina segir í ljóðinu. Já, þær voru harmi slegnar eins og svo margir vinir Jesú þennan morgunn. Hann hafði ekki aðeins látið líf sitt á krossinum, heldur hafði hann einnig verið niðurlægður mjög. Þegar konurnar komu til grafar Jesú hinn fyrsta dag vikunnar háðu þær innri baráttu. Vonbrigði og ótti hafði læst sig í huga þeirra tveimur dögum áður þegar þær stóðu við krossinn hans. En frá gröfinni fóru þær reyndar líka óttaslegnar en glaðar. Barátta er hugtak sem við þekkjum. Við heyjum okkar baráttu í lífinu. Átakanlegt er t.d. að lesa um líf og örlög flóttamanna, sem bíða eftir valdsins dómi varðandi framtíð sína. Já, jafnvel á okkar ísa kalda landi.

Lífið er stöðug barátta milli ills og góðs og við ættum að sigra það illa með góðu. Þetta endurspeglar það sem gerðist á Golgata á föstudaginn langa og við gröfina á páskadagsmorgunn. Það átti sér stað heilmikil barátta þessa daga í Jerúsalem fyrir nærri 2000 árum. Það var veraldleg valdabarátta, það var andleg valdabarátta, það var innri barátta þeirra sem við sögu komu. Það var barátta Pílatusar, það var barátta Jesú, það var barátta fylgjenda hans. Og þó að svona sterkar tilfinningar séu ekki daglegt brauð hjá okkur, þá geta komið þau tímabil að við göngum í gegnum mikla baráttu í lífi okkar. Baráttu við okkur sjálf, við annað fólk, við sjúkdóma og við allt mögulegt sem ógnar lífi okkar.

Þess vegna er svo gott að minnast upprisunnar. Minnast þess að eftir krossfestinguna kemur upprisan. Eftir dauðann kemur lífið. Eftir vonleysið kemur vonin. Eftir veturinn kemur vorið. Við skyldum því aldrei gefast upp fyrir því sem miður fer, eða því sem ógnar okkur, hræðir okkur eða veldur okkur hverskonar sársauka, því upprisa Jesú boðar okkur nýja tíma og nýja von. Við þurfum ekki hvað síst á því að halda núna að treysta því að allt muni fara vel. Við megum ekki stöðva við krossinn í efnahagslegum þrenginum okkar sem þjóð, við skulum ganga að gröfinni, finna hana tóma, fyllast von á hið góða, á framtíðina, á lífið og vera vakandi fyrir því sem betur má fara í samfélagi okkar.

Það er ekki ásættanlegt að fólk hafi ekki í sig og á í landi okkar, sé matarlaust síðustu daga mánaðarins eins og lesa mátti í dagblaði fyrir páskana. Það verður ekki eingöngu lagað með efnahagslegum aðgerðum heldur einnig með breyttu hugarfari. Trúin á Krist hefur umskapandi áhrif í lífi okkur. Enginn verður samur, eftir að hafa mætt hinum upprisna Jesú í trúnni. Það gerðist eitt sinn á umræðufundi að fluttur hafði verið langur fyrirlestur, þar sem trúnni á Krist var algjörlega hafnað. Er fyrirlesarinn hafði lokið máli sínu, stóð upp prestur og spurði, hvort hann mætti segja fáein orð.

Já, var svarað, en þú mátt ekki tala lengur en fimm mínútur. Ég þarf ekki meir en fimm sekúndur, svaraði hann sneri sér að fundarmönnum og sagði: Kristur er upprisinn.

Þá risu fundarmenn úr sætum og svöruðu einum rómi: Kristur er sannarlega upprisinn. Þannig hefur kristin kirkja farið að frá upphafi vega. Hún boðar Krist, upprisinn og lifandi frelsara, svo að menn megi mæta honum sjálfum. Og það er boðskapur páskanna: Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. Kærleikurinn hefur sigrað, Jesús hefur sigrað vald illsku og dauða.

Eins og Jesús birtist konunum við gröfina og lærisveinum sínum eftir upprisuna mun hann einnig birtast okkur. Hann birtist okkur í öðru fólki, fólki sem hjálpar og styður, fræðir og huggar. Hann birtist okkur í aðstæðum sem við köllum stundum tilviljanir. Hann birtist okkur þegar við finnum að við eflumst og fáum þrek til að takast á við erfiðar aðstæður. Hann birtist okkur á stundum gleði og sorgar, á hversdögum sem og hátíðisdögum, því hann er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Gleðilega sigurhátíð í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen. Páskadagur 2013. Prédikun flutt í Dómkirkjunni. Jes. 25:6-9; 1. Kor. 15:1-8a; Matt. 28:1-8.