Helsi eða frelsi?

Helsi eða frelsi?

Það hefur verið stórkostlegt að vera vitni að undangengnum gleðidögum hér á Skólavörðuholti. Það er ótrúlegt og um leið ánægjulegt að skynja allt það mikla starf sem fram fer í kirkjum landsins. Hitta allt þetta fólk sem er svo metnaðargjarnt, jákvætt og frjótt í hugsun og tilbúið að leggja á sig ómælda vinnu og fórna miklum tíma fyrir kirkjuna sína og samfélagið sitt.

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: Hvern segja menn Mannssoninn vera?

Þeir svöruðu: Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.

Hann spyr: En þér, hvern segið þér mig vera?

Símon Pétur svarar: Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.

Þá segir Jesús við hann: Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.

Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum, að hann væri Kristur.

Upp frá þessu tók Jesús að sýna lærisveinum sínum fram á, að hann ætti að fara til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi.

En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma.

Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.

Þá mælti Jesús við lærisveina sína: Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína? Matt. 16. 13-26

Við skulum sameinast í bæn:

Þakka þér, góði Guð, fyrir sól og blíðu og sumargleði. Og blessaðu líka sumardagana votu og köldu. Þakka þér, góði Guð fyrir sumarævintýri og sumarfríin löngu og góðu. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það hefur verið stórkostlegt að vera vitni að undangengnum gleðidögum hér á Skólavörðuholti. Það er ótrúlegt og um leið ánægjulegt að skynja allt það mikla starf sem fram fer í kirkjum landsins. Hitta allt þetta fólk sem er svo metnaðargjarnt, jákvætt og frjótt í hugsun og tilbúið að leggja á sig ómælda vinnu og fórna miklum tíma fyrir kirkjuna sína og samfélagið sitt. Það er vart hægt að gera sér í hugarlund öll þau mörgu handtök sem unnin eru af starfsfólki og sjálfboðaliðum kirkjunnar í nafni kristinnar trúar. Þá er ónefnd sú dýrmæta og mikilvæga samfélagsþjónusta sem kirkjukórarnir leggja til með sínu starfi. Þetta fjölbreytta starf og þetta kraftmikla fólk, sem að því stendur, er ómetanlegur styrkur fyrir Þjóðkirkjuna sem myndar þéttriðið net allt í kringum landið.

Enda þótt við séum hvert á sínum stað þá erum við samt eitt og að vinna að sameiginlegu markmiði; því að boða Krist krossfestan og upprisinn. Boða trú á Guð sem er skapari þessa lífs, frelsari og huggari.

Við stöndum stöðugt frammi fyrir því að þurfa að velja á milli tveggja eða fleiri kosta. Stundum er tilefnið lítilfjörlegt en öðru sinni veltur hins vegar heill og hamingja á réttu vali. Í lexíu dagsins talar Drottinn til Jeremía spámanns og býðst til að hjálpa honum að velja rétt: „Viljir þú snúa við sný ég þér svo að þú getir aftur þjónað mér.“

Jeremía, spámaðurinn, sem Guð hafði kallað til að boða orð hans, hafði misst móðinn; hann treysti sér ekki lengur til að ganga erindagjörða Guðs meðal fólks, sem vildi ekki heyra það sem hann hafði að flytja því, vegna þess að það var óþægilegt og kom við kauninn á því.

Það þarf sterk bein til að standa á móti stríðum straumi tíðarandans. Tíðarandinn í hinni helgu borg Jerúsalem og landinu Júda var á tíma Jeremía á þá leið, að í stað þess að leggja traust sitt á Drottinn lögðu íbúarnir lag sitt við útlenda guði og færðu fánýtum goðum fórnir.- Við getum íhugað hvort eitthvað hafi breyst að þessu leyti.

Það var athyglisvert erindi sem dr. Vilhjálmur Árnason prófessor í heimspeki hélt á prestastefnu í vikunni sem leið og hann nefndi „Frelsi í neyslusamfélagi“. Hann var m.a. að fjalla um, hvernig markaðssamfélagið elur á ófullnægju okkar og lætur í veðri vaka að frelsið snúist um það að losna undan hömlum og að fullnægja löngunum okkar. Dr. Vilhjálmur hélt því fram, að þessi skilningur á frelsinu ali af sér hömluleysi, tómhyggju og upplausn og það sem verra er, hann elur af sér andlegt tómarúm. Hvers vegna skyldi prófessorinn hafa verið fenginn til þess að fjalla um þetta?

Jú, vegna þess að yfirskrift prestastefnunnar var „helgihald og heimilið“ og n.k. vetur stendur til að leggja höfuðáerslu á heimilið og fjölskylduna í starfi kirkjunnar.

Það hafa margir lýst opinberlega yfir áhyggjum sínum af framtíð fjölskyldunnar og barnanna sem nú eru að alast upp. Það hefur farið fyrir brjóstið á mörgum konum að gefið er í skyn að upplausn heimilanna stafi af því að þær hafi skipt um starfsvettvang, hætt að helga heimilinu krafta sína, sótt sér menntun og farið út á vinnumarkaðinn og því fái börnin ekki þá samveru með fullorðnum ástvinum sínum sem æskilegt væri.

Við getum öll verið sammála um nauðsyn þess að halda áfram að berjast fyrir jafnrétti kynjanna. En víst er að frelsi karla og kvenna er ekki fólgið í því að gera það sem þeim sýnist, heldur að axla þá ábyrgð saman að koma börnunum til manns.

Dr. Vilhjálmur taldi meginverkefni uppeldisins vera það að leiðbeina ungmennum að umgangast frelsið og það gerum við ekki nema með því að vera börnum okkar góðar fyrirmyndir. Við getum ekki verið börnum okkar góðar fyrirmyndir nema við eigum við þau samfélag, þar sem tóm gefst til þess að skapa kærleiksríkt andrúmsloft og þar sem umhyggja og einlægur áhugi fyrir velferð hvers annars einkennir samskiptin.

Að vera frjáls manneskja byggist öðrum þræði á því að vita hver maður er, að hafa sterka og heilbrigða sjálfsmynd og frjáls manneskja ígrundar val sitt og hefur þroskað gildismat. Dr. Gunnar E. Finnbogason lektor við Kennaraháskóla Íslands benti ennfremur á það í sínu erindi á prestastefnunni að í nútímasamfélagi verða tengsl okkar við annað fólk sífellt yfirborðskenndari, hjá því verði ekki komist miðað við allt það fólk sem við umgöngumst, en einmitt af þeim sökum varðar svo miklu að rækta sérstaklega hin nánu tengsl innan fjölskyldunnar.

Hér leikur kirkjan stórt hlutverk í því að styðja við og uppörva foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Nútímasamfélagið gerir nýjar og flóknar kröfur til fjölskyldunnar, á því er enginn vafi. En við tökumst ekki á við vandann, sem við okkur blasir, á uppbyggilegan hátt með því að dásama það hvernig þetta var nú allt saman í gamla daga, heldur verðum við að líta raunsæjum augum á það hvernig aðstæðurnar eru núna og takast á við þær á jákvæðan hátt. Þegar vel tekst til er heimilið staður þar sem fjölskyldumeðlimir eiga skjól, þroskast, læra að tjá og takast á við tilfinningar sínar bæði jákvæðar og neikvæðar og samskiptin eru innileg og gefandi fyrir alla aðila.

* * *

Íbúar Júda skelltu skollaeyrum við ákalli Jeremía um að breyta um lífsstíl og ofsóttu hann. Mótlætið og hegðun landsmanna í trúarlegum efnum steyptu honum í örvinglan en einmitt í því ástandi upplifði hann að Drottinn veitti honum styrk og bauðst til að styðja hann. Á sama hátt á Kirkjan ekki og má ekki tapa hinni spámannlegu rödd sinni.

Enda þótt markaðssamfélagið segi: Allt er leyfilegt, ekkert skiptir máli nema það sem þig langar til og þú átt það svo sannarlega skilið, þá vitum við innst inni að það er helsi en ekki frelsi.

Krafan sem Jesús setur fram í guðspjalli dagsins til þeirra, sem vilja fylgja honum, er ekki lítil: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ Hér gætu einhverjir spurt sig: „Hvað merkir að afneita sjálfum sér?“

Það hefur ekkert með sjálfsfyrirlitningu eða sjálfsniðurlægingu að gera, heldur merkir í þessu samhengi: að láta eigin langanir lönd og leið. Jesús gerir kröfu til þess að fylgjendur hans setji vilja Guðs í forgang umfram sinn eigin.

Þegar Jesús kvaldist í örvæntingu og ótta frammi fyrir örlögum sínum sagði hann: „Faðir minn, ef vera má, þá fari þessi kaleikur frá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“

Hann afneitaði eigin löngunum en gekkst við vilja Guðs. Sú er og krafan sem Guð gerir til okkar.

Dragið upp í huganum mynd af foreldrum með börnunum sínum í innkaupaferð. Þau byrja að týna ofan í körfuna þær nauðsynjavörur sem fjölskyldan þarfnast. Þegar farið er fram hjá kexpökkunum byrja börnin að suða og suðið ágerist eftir því sem líður á. Loksins þegar komið er að búðarkassanum eru börnin annað hvort búin að fá vilja sínum framgengt og sitja með ísinn í fanginu og súkkulaði út á kinnar eða þau er öskrandi af reiði, ellegar þá að þau eru búin að gefast upp og geta ekki beðið eftir að komast heim að borða kvöldmatinn sinn.

Langanir okkar fullorðna fólksins snúast ekki endilega um sleikipinna og ís, heldur nýrri og stærri bíla, meira af dýrum fötum, frama, frægð eða upphefð.

Máltækið segir: Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Við getum ekki kennt börnunum okkar að sætta sig við að fá ekki allt sem þau vilja, ef við tökumst ekki á við okkar eigin langanir af yfirvegun og sjálfsstjórn. Sannleikurinn er sá að með því að láta eftir okkur allt sem okkur langar til, verðum við alls ekki eins ánægð og ætla mætti, heldur þvert á móti bæði óánægð og vanþakklát.

Frelsi hinnar kristnu manneskju snýst ekki um það að fá öllum löngunum sínum fullnægt, heldur um það að nota trúna til að vega og meta hvaða langanir eru góðar og æskilegar. Frelsi kristins manns snýst fyrst og fremst um það að vera góð og gegn manneskja.

Það er ástæða til að gleðjast yfir því að fá að játast kalli Krists, og fá að tilheyra söfnuði hans og geta glaðst yfir því góða samfélagi sem við eigum í kirkjunni. Það hafa dagarnir hér á Skólavörðuholti sýnt. Við getum ennfremur glaðst yfir því að njóta bjartra og fallegra sumardaga en líka þegar það er rigning og rok. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Flutt í Hallgrímskirkju, 26/6/2005