Jólin marka nýtt upphaf

Jólin marka nýtt upphaf

Á erfiðum tímum er gott að hafa Guð í hjarta sér. Gott að geta átt samverustund með honum, geta beðið til hans, létt af sér áhyggjum og meðtekið hugarró. Guð vill ganga með okkur daglega eins og hann gekk með Adam og Evu í aldingarðinum.
fullname - andlitsmynd Bryndís Svavarsdóttir
24. desember 2020
Flokkar

Guðsþjónusta, tekin upp í þremur kirkjum, á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal og deilt á netið

Ritningarlestrar: Míka 5.1-4a, 
Títusarbréf  2.11-14 og Lúk 2:1-14

Kæri söfnuður, fyrir ári síðan var kirkjan fullsetin, þið sátum áhyggjulaus og full tilhlökkunar því hátíð ljóss og friðar var að ganga í garð og nýtt ár á næsta leyti. Engan gat órað fyrir hinni miklu vá sem covid-veiran er síðan búin að valda um allan heim. Þó ekki séu nema 100 ár síðan spænska veikin geysaði þá höfum við almennt staðið í þeirri trú að tækni og vísindi nútímans gætu varið okkur fyrir flestum sjúkdómum.

EN nú hefur hver einasti maður þurft að endurmeta og forgangsraða í lífi sínu, gera breytingar, sýna þolinmæði, hlýðni, samstöðu og náungakærleik. En það er ekki sjálfsagt að allir hafi sömu þolinmæði og heldur ekki sjálfsagt að allir hafi sama skilning á alvarleikanum.

Þó maðurinn hafi þennan hæfileika að aðlagast aðstæðum og takast á við óvenjulegt ástand eins og nú… sem við vonumst til að gangi sem fyrst yfir… þá er ekki hægt að segja annað… en að það hafi reynt á alla, unga sem aldna. 

Á erfiðum tímum er gott að hafa Guð í hjarta sér. Gott að geta átt samverustund með honum, geta beðið til hans, létt af sér áhyggjum og meðtekið hugarró. Guð vill ganga með okkur daglega eins og hann gekk með Adam og Evu í aldingarðinum. Guð mætir okkur þar sem við erum og gengur með okkur þangað sem við förum. Guð hefur ekki yfirgefið okkur þó við komumst ekki í kirkju. Nei, Guð býr ekki í kirkjunni þó okkur finnist nálægðin við hann vera meiri þar… og við upplifum oft mesta friðinn og mestu nándina í hér… því hér erum við búin að fínstilla okkur eins og útvarp, inn á rás Guðs… Við gerum okkur móttækileg fyrir boðskapinn.

Nú eru jólin komin… á jólum upplifum við hámark hátíðleikans… Jólin marka nýtt upphaf… fæðing Jesú markar nýtt upphaf. Við fáum nýjar væntingar og tilhlökkun, því á aðventunni hefur kærleikurinn fengið að blómstra. Í jólaguðspjallinu heyrðum við að englar Drottins fóru ekki í ,,kirkjuna” eða konungshöllina til að tilkynna um fæðingu Jesú… nei það voru fjárhirðar úti í haga sem fengu fyrstir fréttirnar og fæðingin átti sér stað í fjárhúsi. Já Guð er ekki aðeins þar sem við höldum þ.e.a.s. á fínustu stöðunum, með fína fólkinu.

Engar aðstæður í lífi okkar eru svo ófullkomnar að Guð geti ekki mætt okkur þar… af þeirri einföldu ástæðu… að við mælum okkur ekki mót við Guð á einhverjum veraldlegum ,,stað”… heldur er sá staður í hjartanu… og hjá mörgum er það á þeirri stundu sem neyðin er mest. Guð er bara eina bæn í burtu en biðjir þú þessa einu bæn getur þú eignast einlægt og ævilangt samband við Guð…

Guð skapaði gott umhverfi úr fátæklegu fjárhúsi fyrir hina ungu fjölskyldu þegar Jesús fæddist. Englar himins sungu og barnið var heimsótt þar sem barnið var statt, þ.e. í fjárhúsinu og það var boðið velkomið… þetta segir okkur ekki bara að Jesús mæti okkur þar sem við erum… heldur þurfum við LÍKA að vera tilbúin að hitta Jesú þar sem hann er… það er í gegnum boðskap hans, lesa orð hans til að finna huggunarorð og hugarró, og fá fullvissu í hjörtum okkar að Guð er með okkur.

Biblían segir að við séum fullkomin sköpun og að líkaminn sé musteri sálarinnar… Þó við séum sterkalega byggð erum við samt sem áður brothættar og viðkvæmar sálir… við stöðugt álag kiknum við og musteri okkar/líkaminn hrörnar með árunum… Heimsfaraldurinn hefur haft þau áhrif að margir upplifa einsemd. Í litlum samfélögum eins og hér hef ég orðið vör við mikla samkennd og umhyggju fyrir náunganum. Það er notalegt að finna samstöðuna og viljann til að láta allt ganga upp. Fólk er samt farið að þreytast og þrá eðlileg samskipti, án takmarkana og án ótta á smiti. Við vonumst eftir nýjum og betri tímum.

Jólin marka nýtt upphaf í kirkjuárinu hjá kristnum mönnum, við skulum þakka Guði fyrir að allt góða og umhyggjusama fólk sem er í kringum okkur… biðja að þessi veirufaraldur gangi sem fyrst yfir svo við getum öllsömul, snúið aftur til venjulegs lífs… já, biðjum þess að jólin marki nýtt upphaf í orðsins fyllstu merkingu. Og með þessari bæn skulum við þakka Guði fyrir kærleika hans til okkar….

Drottinn Guð, skapari okkar og lausnari. Þakka þér fyrir að þú gafst okkur son þinn Jesú Krist og að fyrir trúna á hann verðum við börn þín. Við biðjum þig að leiða okkur á lífsgöngu okkar, víkja ekki frá okkur og að við megum tigna þig og tilbiðja að eilífu.  Amen.

Kæru systkini í Kristi, ég óska ykkur gleðilegra jóla!