Finnum gleðina flæða

Finnum gleðina flæða

Og svo tökum við á móti þessu augnabliki núna, þessum andardrætti sem er lífið sjálf og finnum gleðina flæða fram því við erum hér með Guði og hvert öðru, alls ekkert týnd heldur hólpin í trausti til elsku Guðs sem vakir yfir okkur og verndar.

Bæn dagsins af kirkjan.is:

Drottinn Jesús Kristur, þú gleðst yfir því týnda sem þú finnur aftur. Við tökum þátt í gleði þinni, og þiggjum boðið til veislu þinnar, nú og hér og að eilífu. Amen.                                                                                                                

Af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau.  Ef 2.8-10                                                                                                                                                                               

Jesús sagði þessa dæmisögu: „Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim sem týndur er þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem týndur var. Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við.                                                   
Eða kona sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“
Lúk 15.3-10

Kæru fermingardrengir og við öll. 

Lífið er Guðs gjöf. Það er ekki okkur að þakka að við lifum. Mamma og pabbi hafa eitthvað með það að gera, jú, jú, sei, sei. En það voru samt ekki þau sem gáfu okkur andardráttinn. Andardrátturinn er Guðs gjöf. Þess vegna er eiginlega hvert skipti sem við drögum andann bæn, bæn og þakklæti og gleði yfir að vera á lífi.

Í Efesusbréfinu er talað um að vera hólpin fyrir trú af náð. Náð þýðir að Guð elskar okkur. Trú þýðir að við treystum því að Guð elskar okkur og vill okkur allt það besta eins og góðir foreldrar börnum sínum. Trú er að taka á móti lífinu í þakklæti, hvern einasta dag. Og hvað er þá að vera hólpin? Jú, það er að vera komin í örugga höfn, að eiga sér öruggt skjól.

Svona venjulega erum við ekki mikið að hugsa um það. En stundum erum við týnd. Við týnum okkur sjálfum og þörfnumst þess að lífið finni okkur aftur, að Guð grípi í hönd okkar. Og þegar eitthvað gerist sem er erfitt þurfum við nauðsynlega á öruggu skjóli að halda. Þegar við gleymum þakklætinu og að lífið er gjöf þurfum við virkilega á því að halda að muna að Guð elska okkur og við getum treyst Guði í öllum aðstæðum lífsins.

Þess vegna erum við hér í dag til að játa trú okkar með þessum tveimur prýðispiltum sem hafa verið í fermingarfræðslu í heilan vetur. Við erum hér til að fagna lífinu og til að minna okkur á þakklætið og að Guð er alltaf með okkur.

Dæmisögur Jesú í guðspjalli dagsins segja okkur einmitt þetta. Guð er eins og bóndi sem á hundrað kindur. Þegar ein þeirra týnist fer bóndinn að leita. Hver og ein einasta kind er svo dýrmæt. Og mikil er gleðin þegar kindin finnst! Þannig er það líka með okkur. Við erum dýrmæt í augum Guðs. Ef við týnumst, villumst í burtu frá kærleikanum og lífinu, ef við gleymum Guði, gleymir Guð okkur samt ekki. Því Guð er eins og kona sem á tíu peninga og ef einn týnist leggur hún mikið á sig til að finna þann týnda. Og mikil er gleðin þegar týnda drakman finnst.

Guð er líf og Guð er kærleikur og Guð er bóndi og kona sem ber umhyggju fyrir öllu sínu. Við erum útvalin og dýrmæt, hvert og eitt, og ekki nóg með það: Guð hefur áætlun með líf okkar, áætlun til góðs, til heilla, því við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau, eins og segir í Efesusbréfinu.

Hugsið ykkur það. Guð hefur þegar í hyggju góða hluti fyrir líf okkar, góða hluti fyrir okkur sjálf og þá einnig aðra. Munum þetta alltaf þegar eitthvað neikvætt verður á vegi okkar, munum þá að Guð ætlar okkur góða hluti, Guð sem er með okkur alla daga, allt til enda veraldar.

Kæru mömmur og pabbar, ömmur og afar, kæru systkini fermingardrengjanna, vinir og ættingjar og safnaðarfólk. Það er stór stund þegar ungmennin játast Jesú, stór stund eins og þegar við bárum þau til skírnar svo agnarsmá yfirleitt. Við horfum til baka yfir árin sem liðin eru og getum svo sannarlega verið full þakklætis.

Hér eru þeir í dag, svona líka ljómandi fínir ungir menn. Allt sem er liðið gefum við Guði og allt sem framundan er felum við í Guðs hönd og biðjum þess að við og þeir mættum ganga inn í það góða sem Guð hefur falið okkur að annast og sinna og næra. Og svo tökum við á móti þessu augnabliki núna, þessum andardrætti sem er lífið sjálf og finnum gleðina flæða fram því við erum hér með Guði og hvert öðru, alls ekkert týnd heldur hólpin í trausti til elsku Guðs sem vakir yfir okkur og verndar.