Grýla lærir um ljúflyndi

Grýla lærir um ljúflyndi

Krakkarnir eru glaðir og spenntir og lifa sig jafnt inn í sögur af tröllum sem koma af fjöllum og jólasögum frá Betlehem. Þegar ég gekk fram hjá leikskólanum Geislabaugi um í vikunni, hlupu þrír litlir drengir fagnandi á móti prestinum og hrópuðu: “Grýýýla!” Þegar ég hrökklaðist í burtu undan kveðjunni, þá kölluðu þeir á eftir mér; “Grýla, ekki fara!”

Þessi er vitnisburður Jóhannesar, þegar Gyðingar sendu til hans presta og levíta frá Jerúsalem að spyrja hann: Hver ert þú?

Hann svaraði ótvírætt og játaði: Ekki er ég Kristur. Þeir spurðu hann: Hvað þá? Ertu Elía? Hann svarar: Ekki er ég hann. Ertu spámaðurinn? Hann kvað nei við.

Þá sögðu þeir við hann: Hver ertu? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig?

Hann sagði: Ég er rödd hrópanda í eyðimörk: Gjörið beinan veg Drottins, eins og Jesaja spámaður segir. Sendir voru menn af flokki farísea. Þeir spurðu hann: Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?

Jóhannes svaraði: Ég skíri með vatni. Mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki, hann, sem kemur eftir mig, og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa.

Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.

I.

Í austurhluta Pennsylvaníufylki í Bandaríkjunum kúrir borgin Betlehem. Hún var stofnsett af þýskum Móravíumönnum á átjándu öld, en þeir eru að mörgu leyti eru líkir okkur lútherönunum í guðfræði og siðvenjum. Þéttbýlið í kringum hina vesturheimsku Betlehem byggðist að miklu leyti upp í kringum stóriðju og má muna fífil sinn fegri, en nafnið er fallegt. Eitt sinn átti ég erindi í þessa borg. Ég keyrði eftir endalausri Hraðbraut 78 í vesturátt og leitaði að réttu afreininni. Kom ég þá auga á blátt, beyglað skilti með stórri stjörnu. Fyrir ofan stjörnuna stóð stórum stöfum: Leiðin til Betlehem…Fylgið stjörnunni! Eftir það var ekkert annað að gera en að halla sér aftur í sætinu, leita að fleiri bláum, beygluðum og stjörnuprýddum skiltum, fylgja stjörnunni allar götur til Betlehem.

Stundum, þegar annirnar eru miklar á heimili og í vinnu, stundum þegar jólaandinn er í sögulegu lágmarki, þegar ég er gjörsamlega búin að tapa áttum, þegar ég er órafjarri gleðinni og friðnum sem aðventan á að kalla fram, þá hugsa ég til þessarar ferðar til Betlehem, Pennsylvaníu, þar sem vegaskiltin báru þessi vonarríku boð: “Leiðin til Betlehem…Fylgið stjörnunni.” Ekki veit ég um ykkur, en mér finnst ég oft hafa villst langa vegu frá Betlehem. Það væri gott að hafa uppi blá skilti til að vísa sér veginn, úr myrkrinu og sortanum, stressinu, tilgangsleysinu og vegleysunni. Og ef til vill eru textar fjórða sunnudags í aðventu einmitt sendir okkur í dag eins og blá vegaskilti, sendir okkur sem einhverra hluta vegna rötuðum í kirkju í dag, eða kveiktum fyrir rælni á útvarpinu.

Hvers vegna gengur stundum erfiðlega að finna Betlehem? Hvers vegna líður mörgum svo illa á aðventunni? Hvers vegna eru ekki allir glaðir?

Ég hef átt þeirri gleði að fagna að tala við langflesta krakka í Grafarholtinu síðustu daga. Krakkarnir eru glaðir og spenntir og lifa sig jafnt inn í sögur af tröllum sem koma af fjöllum og jólasögum frá Betlehem. Þegar ég gekk fram hjá leikskólanum Geislabaugi um í vikunni, hlupu þrír litlir drengir fagnandi á móti prestinum og hrópuðu: “Grýýýla!” Þegar ég hrökklaðist í burtu undan kveðjunni, þá kölluðu þeir á eftir mér; “Grýla, ekki fara!” Börnin í Sæmundarseli sýndu skólafélögum og foreldrum helgileik á föstudaginn. Þau hafa gyllta borða um ennið og klæðast hvítum kyrtlum og einhvern veginn fyllast öll rými af gleði jólanna þegar börnin syngja af hjartans lyst, ganga inn í hlutverkin í Betlehem og krjúpa við jötuna lágu. Þau hafa sjálf búið til fjárhúsið úr pappa og málningu, límt englana á vegginn, þrætt jólaseríur í loftið og hengt upp stjörnuna skæru.

Ég spurði krakkana í 3. og 4. bekk í Ingunnarskóla að því um daginn hvers vegna það væru ekki glaðir á aðventunni. Þá rétti lítil stúlka upp höndina og sagði að fullorðnir gleddust minna á jólunum en börn. Hún sagði að jólagleðin færi af manni með árunum. Ég vildi nú ekki alveg samþykkja þetta, sagðist vera orðin fertug og hlakkaði samt til jólanna. En þetta tilsvar hefur setið í mér síðustu vikuna, því að mörgu leyti var það rétt sem þessi níu ára gamla stúlka var að segja. Það eru margir og þá sérstaklega fullorðnir sem að keyra framhjá Betlehemafleggjarnanum, eða gleyma því hvar gleði jólanna er að finna. Stundum eru það utanaðkomandi ástæður sem valda því að við komumst ekki til Betlehem, ástvinamissir, veikindi og fátækt. Stundum er eitthvað stíflað í okkur sjálfum. Við leggjum rangar áherslur, eyðum í ranga hluti, leitum á röngum stöðum eftir æðstu gildum hjarta okkar, gleði, frið, fyrirgefningu, næringu og virðingu.

Í dag er fjórði sunnudagur í aðventu og öll fjögur kertin glóa á kransinum góða. Aðventan byrjaði snemma og ef áreitið og erillinn hefur verið mikill fyrir þessi jól, þá er hann kominn á yfirsnúning núna. Það er togað úr öllum áttum og alls staðar að berast okkur tilboð um hina sönnu jólagleði. Jólalest Kóka kóla hefur keyrt um höfuðborgarsvæðið og fyllt börn og fullorðna af þeim hátíðarblæ, sem að aðeins bensíntrukkur með ljósum, jólasveini og gosflöskum getur vakið. Pepsí hefur svarað fyrir sitt leyti, með hálfberum sveinka sem kyssir mömmu í gríð og erg og hefur alla möguleika á að koma af stað nýrri hefð af íslenskum batsjelorum. Bíllyklar og tölvur falla í faðm jólasveinanna og jólasálmarnir öðlast nýtt yfirbragð í meðförum blómabúðanna: “Glatt er yfir Garðheimum, glitrar jólastjarna…”

Hvar ertu, Betlehem?

II.

Textar fjórða sunnudags í aðventu bera vitni þessari nánd við fæðingarhátíð frelsarans. Við erum minnt á að Drottinn er í nánd. Þessa tilfinningu um nærveru Krists undirstrikaði hin eldforna kollektubæn, sem sungin var hér áðan. Í kollektu fjórða sunnudags í aðventu, er Drottinn Kristur ávarpaður og beðinn um að koma. Kom í krafti þínum er ákall bænarinnar og enn sterkar er kveðið að orði í latneska textanum þar sem Drottinn er beðinn um að ýfga krafta sína, rétt eins og tryllt öldurót við sjávarkambinn.

Lexían höfðar til heyrnarinnar og biður okkur að leggja hlustir við fótataki fagnaðarboðans, hlusta eftir því þegar sá eða sú kemur, sem boðar okkur friðinn. Og síðan er okkur ætlað að æpa upp af gleði, sem söfnuðurinn mun þó vonandi neita sér um að þessu sinni, af tillitssemi við útvarpshlustendur. Gleðin er einnig inntak pistilsins okkar úr Filippíbréfi. “Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur, verið glöð, segir Páll postuli við Filippímenn. Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt.”

Þetta er eina boðorðið sem okkur er gefið á fjórða sunnudag í aðventu. Stutt og laggott. Verið glöð. Ekki: vinnið á ykkur gat. Ekki: toppið jólagjafirnar frá því í fyrra. Það er ekki þrifnaður ykkar og skreytingar sem á að vera öllum kunnur um jólin. “Verið ekki hugsjúk um neitt.” Biðjið, segið hinu heilaga frá því sem hugann þyngir. Verið glöð og sýnið ljúflyndi, frekar en harðlyndi öllum mönnum á aðventunni. Oddur Gottskálksson notaði orðið “umgengni” í stað ljúflyndis í fyrstu þýðingu Nýja testamentisins. Merking upphaflega orðsins er miklu víðari en þessi tvö íslensku orð, því að auk mýktar og elsku í framgöngu við náungann, er í frumtextanum líka kveðið á um að við eigum að vera gjöful. Það er nefnilega gott að gefa. Það byggir okkur upp að gefa öðrum af sjálfum okkur. Grafarholtssöfnuður hefur alveg sérstaka ástæðu til að leggja eyrun við þessu með ljúflyndið. Því er nefnilega þannig háttað í okkar söfnuði að nærfellt allt kirkjustarfið lifir og nærist á gjafmildi og vináttu fólksins í kringum okkur. Við erum húsnæðislaus söfnuður, sem hefur fengið aðstöðu í húsi eldri borgara í Grafarholti. Og fólkið hér hefur sýnt okkur einstaka vináttu og dekrað við okkur á alla lund. Skólarnir hafa opnað fyrir okkur allar gáttir og leikskólanir líka. Altarið okkar sem við brjótum brauðið við og biðjum við kemur frá Ísafirði og er frá frá þeim tíma þegar Ísfirðingar sóttu messugjörðir í menntaskólann. Núna um daginn bárust okkur 37 fermingarkyrtlar frá Flateyri og Hólmavík sem söfnuðirnir voru hættir að nota. Það var þessum góðu söfnuðum fyrir vestan að þakka að krakkarnir í Sæmundarseli gátu skartað glæsilegum fermingarkyrtlum í helgileiknum. Þau sveipuðu sig hvítum kyrtlum, sem önnur börn á öðrum stöðum og á öðrum tímum hafa íklæðst á hátíðarstundum lífs síns. Og tilfinningin um hátíðina sem er á næsta leiti, lýsti úr svip þeirra þegar þau kunngjörðu boðskap jólanna. Drottinn er í nánd, og ein gjöf kallar fram ný bros og nýjan fögnuð.

Gjöf, sem er gefin af heilum hug smitar út frá sér og kallar fram fleiri gjafir, sem gagnast einhverjum öðrum; bros, tíma, kærleik, peninga. Allar gjafir eru mikils virði honum sem elskar glaðan gjafara og lofaði mest eyri ekkjunnar. Allar gjafir eru dýrmætar, hver svo sem gefur og hver svo sem umbúnaðurinn er. Fimm hundruð kall öryrkjans er engu minna virði og orgel auðmannsins á mælikvarða eilífðarinnar. Því skulum við gleðjast og þakka allar gjafir jafnt. Þökkum Drottni sem gefur hjartanu ljúflyndi og góða umgengni við náungann og biðjum Guð að efla þennan hæfileika í okkar eigin fari, því að það eru svo mörg góð málefni sem þarfnast þess að við gefum þeim gaum. Á köldum vetrardegi er nærtækt að hugsa til fólksins í Kasmírhéraði í Pakistan, sem býr við ömurlegar aðstæður eftir jarðskjálftann í haust. Þau þarfnast hjálpar umheimsins og allt það sem við getum látið af hendi rakna til þeirra með disknum “Hjálpum þeim” og með öðrum leiðum, kemur í góðar þarfir. Sömuleiðis minni ég á söfnunarátak Hjálparstarfsins, “Skrúfum frá krananum” þar sem safnað er fyrir vatnsverkefnum af ýmsu tagi í þróunarlöndum. Ég bið ykkur öll um að skrúfa frá ljúflyndi og lækjum hins lifandi vatns á þessari aðventu. Ég kem líka auga á nokkra meðlimi taflfélagsins Hrókurinn hér í kirkjunni í dag, en Hrókurinn er nýkominn úr Grænlandsferð þar sem þeir kenndu krökkum á austur-Grænlandi að tefla og gáfu þeim töfl. Þeir sóttu okkur hér í Grafarholti heim í vor og kenndu um 70 börnum að tefla, svo að við eigum þeim margt að þakka. Það er svo margt hægt að gera til að gleðja náungann, ef sköpunargleðin fær að leika lausum hala.

III.

Líður að jólum og þessi nánd jólanna smitar út frá sér í þessari messu. Við höfum blandað saman jólasálmum og aðventusálmum í messunni, við gátum bara ekki stillt okkur. Það er eins og jólin kalli til okkar innan úr framtíð næstu daga, eða eins og lok lyftist af potti, vegna þess að grauturinn flæðir upp úr af gleði. Guðspjall dagsins flæðir líka til okkar í bland við jólaboðskapinn. Það er tekið úr fyrsta kafla Jóhannesar, þar sem jólaboðskapurinn um orðið sem varð hold hefur hljómað. Allt í einu er sjónarhorninu skipt frá hinum kosmísku atburðum um Orðið, yfir til manns sem kom til að segja öðrum frá Orðinu, mann sem leit á það sem sitt heilaga hlutverk að opna leiðir fyrir Krist. Þessi maður var Jóhannes og samkvæmt Jóhannesarguðspjalli er hann fyrsti maðurinn til að vitna um Jesú sem Krist. Hann var spurður að því hver og hvað hann væri og hvers vegna hann væri að skíra fólk upp úr ánni Jórdan. Jóhannes neitar því að vera spámaður. Hann lýsir sjálfum sér sem rödd hrópanda í eyðimörk, sem vegagerðarmanni, sem greiðir Drottni veg. Og í stað þess að útlista eigið skírnarritúal beinir hann sjónum viðmælenda sinna að þeim sem hann kom til að vitna um. Jóhannes skírari fékk orð fyrir það að tala tæpitungulaust og boða Guð sinn án þess að óttast um afleiðingarnar. Hann dó fyrir málstaðinn sem hann trúði á, galt með lífi sínu fyrir þá mannkosti að vera hugrakkur og segja hug sinn og trúa á réttlætið. Jóhannes skírari fer ekki vel í vasa og um hann fer nokkuð hryssingslegur andblær. Og því er það, sem að okkur kristnum mönnum er hollt að finna kuflinn hans strjúkast við okkur á endaspretti aðventunnar, þegar búið er að vefja Jesúbarnið sykursætum og innihaldslitlum umbúðum, þegar jólahátíðin og umstangið kringum hana verður um of lituð af lögmáli markaðarins, þegar okkur finnst erfitt að hlusta eftir fótataki fagnaðarboðans, þegar gleðin kemur seint og ljúflyndið og gjafmildin er víðs fjarri. Jóhannes stendur þarna eins og blátt skilti með stjörnu og vísar okkur veginn til Betlehem, til Orðsins sem bjó með oss fullur náðar og sannleika. Börnin í kringum okkur eru annað slíkt skilti. Þau eru á köflum á yfirsnúningi af spenningi. Þau hlakka til frís og pakka og góðs matar. En mest hlakka þau til jólanna vegna þess að þau hlakka til jólanna. Og þannig er hin sanna gleði. Hún gleðst yfir að gleðjast og annað ekki. Þess vegna er gott að standa nálægt börnum þegar hátíðin er á næsta leiti. Börnin rata á staði sem fullorðna fólkið gleymir. Það er gott að vera hjá þeim, jafnvel þótt þau kalli prestinn sinn Grýlu. Eða einmitt vegna þess.

Leiðin til Betlehem…Fylgið stjörnunni. Þegar við rekumst á þessi skilti og meðtökum boðskap þeirra, þá veitist okkur allt hitt að auki, gleðin, ljúflyndið, gjafmildin, gleðin yfir því sem við njótum, áhyggjuleysið, bænin, friðurinn sem er æðri öllum skilningi.

Megi það allt hlotnast ykkur á þessari aðventu.

Mig langar til að enda þessa prédikun á jólakveðju meðhjálparans okkar, Sigurjóns Ara Sigurjónssonar til Grafarholtssafnaðar 2005.

Megi dýrðleg Drottins mund, daga alla, hverja stund, leiða þig um lífsins braut, í ljósi hans, mót hverri þraut, svo glitri í gleði sérhvert tár. Gleðileg jól og farsælt ár.

Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.