Hver er okkar ytri ógn og hver er okkar innri ótti?

Hver er okkar ytri ógn og hver er okkar innri ótti?

Ég var orðin þvöl í höndunum svo ég herti takið um skammbyssuna. Ég miðaði eins og mér hafði verið kennt og skaut. Ég miðaði aftur og skaut í annað sinn.
25. janúar 2015
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég var orðin þvöl í höndunum svo ég herti takið um skammbyssuna. Ég miðaði eins og mér hafði verið kennt og skaut. Ég miðaði aftur og skaut í annað sinn.

Fréttamiðlarnir höfðu verið uppfullir af upplýsingum um stórhættulegan fanga sem hafði flúið úr fangelsi í nágrenni við okkur. Við fylgdumst með atburðarásinni í lókal fréttamiðlunum og einnig á CNN. Með hverju nýju myndskeiði frá þessum atburðum urðum við alltaf skelkaðri og skelkaðri. Borðar með nýjum upplýsingum runnu yfir skjáinn og vopnaðir lögreglumenn voru á hlaupum að reyna að handsama fangann á ný. Þeir vissu nokkurn veginn hvar hann var hverju sinni og fengum við að vita það einnig með fréttaskotum sjónvarpsstöðvana um leið og eitthvað sögulegt gerðist. Þess á milli var efnið endurtekið aftur og aftur. Þyrla sveimaði yfir og hundar voru notaðir til að rekja spor fangans. Hann nálgaðist hverfið okkar óðfluga.

Ég var 17 ára skiptinemi, staðsett í Oklahoma rétt fyrir utan Tulsa. Fóstri minn hafði dregið mig út á landareignina nálægt lækjarsprænu til þess að æfa miðið mitt. Þarna stóð ég með skammbyssu í fyrsta sinn í þvölum höndum mér og skaut á dósir sem hentust til er ég hitti þær. Mér fannst ekkert mál að skjóta þessar dósir, en að verja mig með byssunni ef fanginn kæmi inn á heimilið var allt annað mál. Ég var viss um að þetta væri mér ekki eðlislægt og ég taldi mig ekki geta varið mig með þessum hætti. Ég impraði á þessu við fóstra og reyndi að tala um fyrir honum. Að ég kæmi frá friðsælu landi og að ég væri ekki alin upp við byssumenningu. Ég fór svolítið hjá mér þegar hann horfði á mig skelkuðum svip. Hann sagði ekki neitt nema hvað hann sýndi mér hvar hann geymdi byssuna og skotin. Þarna var búið að undirbúa mig ef ógnvaldurinn kæmi inn á heimilið og ógnaði friðhelgi okkar.

Ég hef oft spurt mig, hver er okkar ytri ógn og hver er okkar innri ótti? Þegar fanginn slapp voru fréttamiðlarnir með beina útsendingu frá eltingaleiknum. Fylgst var með hverri hreyfingu og aðgerðum lögreglunnar. Ég sat og fylgdist með heilu og hálfu dagana og allan þann tíma potuðu fjölmiðlar í tilfinningar mínar og viðbrögð. Mennska fangans var af honum tekin og hann gerður að skrímsli og ógnvaldi sem myndi herja á okkur ef við brygðumst ekki við. Ég leyfði mínum innri ótta að vaxa og stýra mér. Fjarlægð mín við boðskap Krists varð alltaf meiri og meiri, og þegar ég stóð við lækjarsprænuna í biblíubeltinu í Oklahoma með skammbyssuna í höndunum og spurði mig, á ég í raun að gjalda illu með illu? Eða eins og stendur í lögmálinu í annarri Mósebók, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn? Er það ekki löngu úrelt lögmál?

Því Jesús snéri þessu lögmáli við í einni stórkostlegustu prédikun sinni og mestu ögrun kærleikans í Lúkasarguðspjalli (6.27-32). Þar sem hann biður okkur að elska óvini okkar, gera þeim gott sem hata okkur, blessa þá sem bölva okkur og biðja fyrir þeim er misþyrma okkur og svona heldur hann áfram að biðja okkur að elska ógeðfelldar manneskjur sem koma inn í lif okkar og ógna okkur. En ég spyr, er þetta virkikega mögulegt? Er Jesús í alvöru að biðja okkur að setja okkur í hættu og að elska fólk sem hefur gert hluti sem vekja andúð og hrylling?

Ég tel að Jesús sé að kenna okkur þarna að það sé hægt að fara fleiri leiðir en eina í samskiptum okkar við annað fólk. Að við getum mætt óvini okkar í kærleik og umburðarlyndi og jafnvel snúið vondri atburðarás í kærleiksríkan farveg. Undanfarnar vikur hefur tjáningafrelsi verið mikið í umræðunni og margir spyrja sig hver eru mörk tjáningafrelsis og húmors. Getum við gert grín að fólki eða minnihlutahópum sem hefur ekkert val um það hvernig það er af Guði gert? Ég efast ekki um það að Jesús hafi ekki haft húmor, en hafði hann niðrandi og meiðandi húmor? Eða þegar hann leiðbeindi fólki gerði hann það á kaldhæðinn og illkvittinn hátt? Jesús var uppreisnarseggur, já en hvað boðaði hann? Hann sagði okkur að elska náunga okkar og hann sagði okkur að elska óvini okkar. Jesús braut lög, já marga lagabálka sem leiddi til þess að hann var krossfestur, en braut hann gegn fólki eða siðferðisleg lög?

Í guðspjalli dagsins er fjallað um það þegar Jesús fer upp á fjall með Pétri, Jakobi og Jóhannesi. Hann ummyndast fyrir augum lærisveina sinna og klæði hans urðu fannhvít og skínandi. Í augnablik sést í almáttugan Krist þegar slæðu manneskjunnar er frá honum tekin. Þá áttar Pétur sig á því hver Jesús er í raun og veru og verður alveg agndofa. Því Messías á fyrstu öld gyðinga voru einhvers konar hernaðarkonungar sem leiddu her sinn til sigurs og frelsaði fólkið úr þrældómi, en Jesús var ekki svoleiðis Messías. Hann kom til að frelsa fólkið, en ekki með því að gerast konungur á jörðu niðri. Nei, hans messíanski tilgangur var að líða þjáningu og deyja á krossinum fyrir okkar sakir. Pétur skildi ekki þetta hlutverk Jesú, því hann vildi ná æðstu stöðum innan samfélagsins og verða mikils metinn embættismaður, en það að fylgja Jesú þýddi að Pétur þyrfti sjálfur að taka á sig þjáningar og jafnvel dauða. Þetta var Pétri mjög framandi og fylltist hann ótta að vita að ytri ógnanir gætu hvenær sem er deytt hann. En eigum við fyrir vikið að lifa í ótta og myrkri? Eða að gjalda illu með illu? Þannig ætlaði Pétur eitt sinn að verja Jesú er hann var handtekinn, en Jesús bað hann um að leggja vopn sitt niður. Hann vildi ekkert ofbeldi.

Fanginn sem ég sagði ykkur frá hér í upphafi náðist um nóttina í garði nágranna okkar. Við heyrðum í þyrlunni sveima yfir húsinu okkar og sáum fólk á hlaupum meðfram trjánum við landareign nágrannans. Óttinn og skelfingin náði tökum á okkur, endurtekin fréttaskot fjölmiðlana sveimuðu um í höfðum okkar og við létum sem minnst fyrir okkur fara innan verndandi veggja heimilisins. Ógnvaldurinn var fangaður og við gátum andað léttar og fundið til öryggis á ný. Ég hef oft hugsað til þess, hvað ef... hvað ef hann hefði komið inn á heimilið, hvað hefði ég gert?

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.