Ást, rómantík og ferðalög

Ást, rómantík og ferðalög

Hver þekkir það ekki að hafa látið sig dreyma um að fara í ferðalag með honum eða henni. Fá að kynnast betur. Ótrufluð. Fá að eiga næði saman. Áhyggjur hversdagsins víðs fjarri. Sum okkar þrá líka að fá að vera ein. Í huganum drögum við upp mynd af litlum fjallakofa, fallegu hótelherbergi eða sólarströnd.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
29. nóvember 2010

S8309377

Ferðalög eru margskonar. Í sum þeirra leggjum við upp með allt okkar hafurtask, önnur eru til þess fallin að við ferðumst með lítinn farangur. Kannski er það öll fjölskyldan sem nýtir hvert horn í fjölskyldubílnum til að koma öllum farangrinum fyrir og svo er lagt af stað, allir með í för. Önnur ferðalög eru meira í huganum. Við horfum á dvd disk eða lesum góða bók og látum hugann svífa, hverfum í draumaheim þess ferðalags sem um er rætt eða búum til okkar eigið ferðalag, jafnvel í þveröfuga átt við söguþráðinn.

Hver þekkir það ekki að hafa látið sig dreyma um að fara í ferðalag með honum eða henni. Fá að kynnast betur. Ótrufluð. Fá að eiga næði saman. Áhyggjur hversdagsins víðs fjarri. Sum okkar þrá líka að fá að vera ein. Í huganum drögum við upp mynd af litlum fjallakofa, fallegu hótelherbergi eða sólarströnd. Ímyndum okkur staði þar sem við getum horfið í kyrrðina eða mannhafið. Þrár okkar í þessar áttir eru jafn persónubundnar og sú hryggð sem fyllir stundum hjörtu okkar yfir glötuðu stundunum.

Það eru þessar glötuðu stundir sem hafa stundum haldið fyrir mér vöku. Ég hef spurt sjálfan mig hvar við hjónin hefðum farið út af sporinu. Svör þeirra sem hafa sagt mér að á einhverjum tímapunkti verði hjónabandið hversdagslegt hafa ekki dugað mér. Ég vil meira, ég þrái ástina, hamingjuna, rómantíkina sem við áttum þegar við gengum í hjónaband fyrir hartnær 20 árum. Ég vil vinna í hjónabandinu.

Þar sem ég var að leita eftir verkfæri til að vinna með kom hún eins og kölluð upp í hendur mér. Bókin Ást fyrir lífið eftir Stephen og Alex Kendrick sem hefur farið sigurför víða, meðal annars í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Mér þótti sem ég hefði dottið í lukkupott þegar ég var beðinn að snara bókinni á íslensku. Þessi bók er engin skáldsaga. Hún er enginn fræðibók heldur en hún fær heilasellurnar til að snúast og hjartað til að slá örar. Þetta er bókin sem líf mitt var að leita að. Hún er hjónabandsbók. Ætluð einstaklingum sem vilja bæta sambúð og hjónabönd, vilja vinna í samskiptum við aðra og eigin viðhorfi.

Lesanda bókarinnar er boðið í ferðalag. Brottfarastaðurinn er eigið hjarta. Áfangastaðurinn er betra hjónaband. Millilent er á fjölda viðkomustaða, bæði í djúpum dölum tilfinninganna og hæstu hæðum rómantíkurinnar. Þetta er óvissuferð og þau sem í hana leggja eru hvött til þess að skrá ferðasöguna hjá sér auk þess sem hvatt er til þess að ýmiss verkefni séu leyst á leiðinni.

Þú átt þitt hjónaband, þína sambúð. Hvaða vinnu leggur þú í þá eign þína?