Eldgosið á Fimmvörðuhálsi og boðun Maríu

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi og boðun Maríu

Hér er fjallað um eldgosið á Fimmvörðuhálsi sem varð í nótt, en það er hluti af hugleiðingu um það hvernig aðdragandi og spádómar geta verið komnir fram en samt kemur atburðurinn á óvart þegar hann gerist.

En í sjötta mánuði sendi Guð Gabríel engil til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs en mærin hét María. Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“

En María varð hrædd við þessi orð og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða.“

Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“

Og engillinn sagði við hana: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni og þetta er sjötti mánuður hennar sem kölluð var óbyrja en Guði er enginn hlutur um megn.“

Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni.Lúkas 1.26-38

Hér er fjallað um eldgosið á Fimmvörðuhálsi sem varð í nótt, en það er hluti af hugleiðingu um það hvernig aðdragandi og spádómar geta verið komnir fram en samt kemur atburðurinn á óvart þegar hann gerist. Þannig voru hugmyndir manna ólíkar því sem varð við komu Drottins í þennan heim, en boðunardagurinn er táknrænn fyrir allt sem gerðist skömmu áður en Frelsarinn fæddist sem lítið barn við lágan stall í stað þess að birtast sem herkonungur. Meðal þess er mynd Jóhannesar skírara sem morgunroðans er vék af himinboganum þegar birta dagsins fyllti loftið. Bæn okkar er bæn Maríu og svar hennar til engilsins: "Verði mér eftir orðum þínum." Þetta er undrunardagur.

Það er með sérstakri andakt að þjóðfáninn okkar er dreginn að húni á degi þessum, þegar gýs í nágrenninu hér austur á Fimmvörðuhálsi. Rauði krossinn innstur í þessu helga tákni okkar, er tákn eldsins úr iðrum jarðar og hvítur er ísinn þar næstur í kring. Jöklarnir þekja þann litinn og eru auk þess allt í kringum þetta hraungos. Mildi að eldsumbrotin eru að þessu sinni ekki undir jökulhettunni og þar með flóð á næsta leyti. Það er líka þakkarvert að vel tókst til með rýminguna og við biðjum á þessari stundu fyrir því að engan saki og ekkert fari forgörðum með búfénað eða hús og landkosti hinna blómlegu sveita undir Fjöllunum, í Fljótshlíðinni né víðar. Stillingin er ríkjandi hjá þessari æðrulaus þjóð, sem yfirleitt sýnir sig best í umbrotum náttúrunnar. Við erum sífellt að nöldra eða nagast í einhverju alla jafna og eigum það til að vera algjörlega óþolandi í samskiptum hvert við annað þegar lítið er að gerast annað en eitthvert bankavesen eða stjórnmálaspjall. Þegar gýs úr iðrum jarðar og eldstrókarnir spýtast upp í tilkomumiklum gusum er ekki svo óviðeigandi að tárast ögn og finna vanmátt sinn gagnvart huldum kröftum jarðarinnar. Hér er alvöru frétt – ein af fáum í langan tíma. Og unga fólkið á Fésbókinni segir Sjúkkat og Kúl, en hinir eldri segja Já sæll. Ástæða þess að ég geri þessi tíðindi hér að umræðuefni í prédikun sunnudagsins, er að svo virðist sem við höfum bæði verið undir það búin að frétta af eldgosi og samt kom það okkur á óvart. Það kom okkur að óvörum að það skyldi gjósa í Fimmvörðuhálsi en ekki undir jöklinum, enda hefur ekki gosið á þessum stað í þúsundir ára. Hljómar það nokkuð kunnuglega í eyrum Eyjamanna sem muna hvað sagt hafði verið um virkni Helgafells. Fjöldi skjálfta hefur borið með sér blæbrigði aðdragandans að meiri tíðindum – miklum fréttum. Boð hafa farið á undan en samt kemur þetta á óvart eins og alltaf við mikla atburði. Það minnir okkur líka á hvað það eru miklir kraftar í veröldinni sem maðurinn hefur hvorki tök á né gæti sjálfur nokkru sinni leyst úr læðingi eða framkallað. Enginn maður getur látið gjósa. Það hefur sennilega ekki verið komist nær því en þegar menn sturtuðu sápunni í Geysi til að hafa áhrif á gosvirknina í þeim fræga hver, en lengra er ekki hægt að seilast. Maðurinn getur ekkert gert, hvorki til að flýta né seinka framvindunni. Lengst hefur þó líklega verið náð í veröldinni á þeirri braut með áhrifum á hraunrennsli úr eldfjöllum er Eyjamenn tóku til við að kæla niður hraunið hér á kantinum '73. En við ættum að beygja okkur í lotningu gagnvart því að lengra verður ekki seilst inn á krafta jarðarinnar. Það hefur sannarlega verið minnt á það nýlega með risastórum jarðskjálftanum úti í Chile og eyðileggingunni á Haití, að maðurinn má sín lítils þegar þessir miklu kraftar losna úr læðingi. Því er það að hann helgar sig undir vernd og nærveru þess Guðs er stendur að baki allri þessari náttúru og veruleika jarðar, hafs og himins – og þá líka veruleika mannsins. Aðdragandi stórtíðinda er ekki alltaf mikill. Þó minnumst við þess einmitt í dag er einn fyrsti vottur þess að spádómar Gamla testamentis voru að rætast og brjótast fram í mannkynssögunni með skilum og stórum táknum. Við minnumst boðunar Maríu svona um það bil níu mánuðum fyrir jól, 25. mars. Hann er að venju haldinn fimmta sunnudag í föstu og það er einmitt þess vegna, vegna þeirra miklu tíðinda sem dagurinn felur í sér, að við syngjum dýrðarsöng og lofum Guð hástöfum þótt enn sé fasta. Liturinn er blár, því það er litur Maríu meyjar, enda kemur það heim og saman við myndirnar hér í Landakirkju af Maríu, með bláa slá bæði á altarismyndinni og við kross sonar síns hér við hlið Jóhannesar, hins elskaða lærisveins. Aðdragandinn var sá að stöðugt hafði því verið spáð að frelsari mannkyns væri að koma fram. Fjöldi smáskjálfta fundust svo er nær dró. Má þar nefna undrið með son þeirra Elísabetar og Sakaría, en hún var komin sex mánuði á leið meðgöngunnar með Jóhannes skírara þegar boðun Maríu á sér stað, enda var hann fyrirrennari, eða undanfari. Hann ruddi veg réttlætis og uppgjörs svo að fagnaðarerindið mætti renna fram þann farveg óheft og mikilfenglegt. Hann vék og hinn óx. Og svo gerist þetta undur sem enginn maður gæti nokkru sinni hafa framkallað í náttúrunni eða í sögunni. Fram kemur Frelsari mannkyns sem er sonur Guðs, og í því flest það einkum að Guð gerðist maður og bjó með mönnum. Jóhannes var eins og morgunroðinn, sem hvarf svo af sviði himinbogans er birta dagsins fyllti loftið. Það mætti einnig nota líkingar þessa morguns, því aðeins árla morguns sáu menn eldbjarma eldgossins við jökulrendurnar en sá eldbjarmi hvarf er birta dagsins fyllti loftið. Þótt menn hefðu öldum saman vænst þess að frelsarinn, eilífðarkonungurinn, friðarhöfðinginn, kæmi fram á vettvangi sögunnar var enginn alveg við því búinn. Og mikið hljótum við að skilja tár Maríu meyjar, er hún gerir sér grein fyrir því hvert hlutverk hennar á að verða í þessu mikla máttarverki Drottins. Hún lýsir sig ambátt hans og beygir kné sín gagnvart almætti hans og frammi fyrir veldisstóli hins mikla Guðs. Hún sér þetta allt í ljósi hjálpræðissögunnar sem hún þekkti. Hún var eins og jarðvísindamaðurinn sem gjörþekkir jarðsöguna og er við því búinn að gegna kallinu þegar stundin er runnin upp. Þó verður hann venjulega að viðurkenna fyrir alþjóð að þetta hafi ekki verið alveg eins og hann bjóst við. Allir væntu komu Drottins og væntu frelsunar, en enginn vissi nákæmlega hvernig það myndi verða eða hvar það bæri uppá. Það reyndist vera háð ráðsályktun Drottins og hann kaus að láta það ekki gerast nema í mildi og koma fram í einkalífi og í litlu þorpi við lágan stall. Margir höfðu ímyndað sér að hinn mikli konungur mannkyns kæmi fram með þrumugný herafla síns og mætti til leiks við hæstu hallir landsins helga og frægustu musterishæð veraldar á fjöllunum Móría og Síon í Jerúsalem. Nei, við lágan stall. Og það kom einnig á óvart að það var lítið og saklaust barn. Allt var það svo ótrúlegt að það er með ólíkindum að María skyldi átta sig á þessu og stöðu sinni og svo þeirri ógn sem hlaut að skapast af þessum atburðum öllum, sem voru að eiga sér stað í hennar lífi, en þó umfram allt í lífi jarðarbúa allra. Það er þess vegna mikill undrunardagur í dag, en um leið er það dagur staðfestingar. Tími væntinga og aðdraganda víkur fyrir upplýsingum um það sem er þegar komið fram. Og svar Maríu er svar okkar allra: "Önd mín miklar Drottinn, og minn andi minn gleðst í Guði, Frelsara mínum." Viðbrögð Maríu eru okkur nær en nokkru sinni þegar eitthvað það gerist sem er handan okkar valda, en þá segjum við auðmjúk í smæð okkar: "verði mér eftir orðum þínum." En þá getum við vænst þess að vera blessuð í krafti heilags anda eftir orðum meistarans, Jesú Krists, þess er ríkir svo sannarlega.