Kinnroði

Kinnroði

Kinnroðinn er í orðum Páls postula settur í samband við þann hroka sem menn hafa sýnt á öllum tímum þegar sem þeir hafa talið sig höndla þekkinguna og vita allan sannleika.

Undir lok fimmta áratugarins stóð breska ríkisútvarpið fyrir rökræðum tveggja heimspekinga um trú og skynsemi. Annar þeirra, Frederick Copleston var jesúíti. Um það leyti birtist vísindahyggja í margvíslegri mynd og menn vildu ryðja því úr vegi sem talið var gamalt og úrelt, þar á meðal trúnni. Copleston tók virkan þátt í því þeim átökum. Andmælandi hans í þessum rökræðum var Bernard Russell, heimspekingurinn sem ritaði meðal annars bókina, Af hverju ég er ekki kristinn en hann var ötull talsmaður þeirrar afstöðu að ekki ætti fólk að binda trúss sitt við aðra þætti en þá sem mætti sannreyna með reynslu og rökum.

Ekkert upphaf, enginn skapari Samtalið var að vonum áhugavert og enn vitna menn í það þegar þessi mál ber á góma. Almennt er það álit fólks að Copleston hafi haft betur í þeim hluta sem varðaði samspil trúar og siðferðis. Honum hafi tekist að sýna fram á þau tengsl sem rikja þar á milli og er hann þar ekki í slæmum félagsskap. Sjálfur Immanuel Kant hafði haldið á lofti sambærilegum sjónarmiðum.

Russell á hinn bóginn þótti hafa yfirburði þegar kom að því sem hann kallaði mótsagnir á milli vísindalegrar hugsunar og hinnar trúarlegu. Og hverjar skyldu nú hafa verið helstu röksemdir hans í þeim efnum? Jú, hann þráspurði viðmælanda sinn hvernig það gæti farið saman að samþykkja hina viðurkenndu heimsmynd þess tíma, að alheimurinn ætti sér ekkert upphaf og svo hitt, að játa trú á skapara himins og jarðar. Copleston átti í mestu erfiðleikum með að bregðast við þessari gagnrýni. Hvernig má það líka vera að veruleiki, sem alltaf hefur verið til geti átt sér eitthvert slíkt upphaf eins og lýst er í sköpunarsögu Bibliunnar?

Já, þarna bar talsmaður guðleysis fram sýn sem á hans tíma þótti nútímaleg og í samræmi við alla þekkingu. Þá var það viðurkennt í heimi fræðanna að stjörnuhiminninn yfir höfðum okkar og allur efnisheimurinn væri í raun óbreytanlegur. Nú vitum við hins vegar betur, ekki satt? Nú blasir það við okkur að heimurinn er ekki eins og vísindin kenndu um miðja síðustu öld. Þá þekktu fræðimenn ekki hugtakið ,,miklahvell” sem kollvarpaði gamalli heimsmynd og opnaði nýjar gáttir og ógrynni nýrra spurninga. Já, nú vitum við betur og um leið blasir það við okkur að andmælendur guðstrúar báru fyrir sig sjónarmið sem voru í raun ógild og á okkar tímum má með réttu kallast úreld - í viðleitni sinni til að sýna fram á að heimsmynd trúarinnar sé, já einmitt - ógild og úreld.

Kinnroði

Í textum þessa fallega sunnudags er fjallað um viskuna og í raun takmörk hennar. Svo er það kinnroðinn. Þetta ber á góma í sömu andrá þar sem postulinn segir Guð hafa útvalið það sem heimurinn telur vera heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til að gera hinum volduga kinnroða.

Kinnroði verður, þegar líkaminn okkar bregst á einhvern hátt við áreiti svo að háræðarnar í andlitinu þenjast út. Við verðum rauð í framan og opinberum um leið líðan okkar - eða réttar sagt vanlíðan. Ástand þetta er um leið eitt af þeim sviðum tilverunnar sem vísindamenn eiga erfitt með að útskýra. Engin frændsystkini okkar í dýraríkinu sýna viðlíka hegðun og vandi er að sjá hvernig þróunin hefur látið okkur skipta svo litum eins og við gerum þegar við verðum vandræðaleg. Hann er þar í góðum félagskap sjálfs miklahvells sem stendur jú handan alls þess sem okkur er unnt að fjalla um og skýra.

Kinnroðinn er í orðum Páls postula settur í samband við þann hroka sem menn hafa sýnt á öllum tímum þegar sem þeir hafa talið sig höndla þekkinguna og vita allan sannleika. Páll varar við slíkri afstöðu. Hann bendir á að gagnvart Guði erum við öll jöfn og það sýnir Guð með því að hampa stundum því sem í mannlegu samfélagi er talið óæðra og láta hið vitra og volduga finna fyrir vanmætti sínum.

Á þeim tíma þegar samtal Coplestons og Russells fór fram spáðu margir því að dagar trúarinnar væru senn á enda. Slíkar spár heyrast enn á okkar dögum. Vissulega hafa orðið viðamiklar breytingar í átt til afhelgunar, en margt hefur farið á annan veg en menn grunaði. Maðurinn hefur ekki fundið hugsun sinni og tilgangsleit nýjan farveg svo að hin vísindalega hugsun næði ein að sinna því öllu.

Raunin er sú að í dag aðhyllast fleiri einstaklingar kristna trú, en var um miðja síðusu öld. Og trúin er viðurkennd sem farvegur fyrir göfugustu hvatir mannsins. Í forsetakosningum í Bandaríkjunum nú fyrir fáum árum, þegar Obama var endurkjörinn, var það þýðingarmikið stef að trúin væri góð og farsæl leið til að geta lifað góðu lífi. Ósennilegt er að slík sjónarmið hefðu heyrst á sjöunda áratugnum þegar önnur sjónarmið voru uppi.

Eftir hryðjuverkin 11. september kom svo fram sú gagnrýni á trúarbrögðin að þau leiddu af sér ofbeldi og aðrar hörmungar. Richard Dawkins, einn ötulasti talsmaður trúleysis líkti því að boða trúi í hinu opinbera rými, við að fylla göturnar af hlöðnum skotvopnum og sagði fólk ekki skyldu vera undrandi þótt þær væru notaðar.

Rétt er að trúin hefur skapað vandamál. Því fer þó fjarri að unnt sé að þrengja sjónarhornið svo að trúin ein hafi leitt til slíkra ódæðisverka. Mikilvægt er að skoða alla myndina, margt annað mótaði huga þeirra sem þar voru að verki. Trúin gerir raunar miklu meira gagn en hitt. Rannsóknir benda til að tengsl trúar og velferðar, hamingju og langlífis eru til staðar. Opinbert trúleysi olli líka ótrúlegum skapa í þeim ríkjum sem það var boðað, á 20. öld. Andófið gegn því sem öfgamenn kölluðu ,,prestasiðferði” leiddi í Þýskalandi nazismans til gengdarlausra ofsókna í garð minnihlutahópa. Sú saga er okkur vel kunn. Ljóst má vera að þessi gagnrýni stenst enga skoðun.

Þvert á móti höfum við fordæmi Krists sem rauf vítahring ofbeldis og boðaði fyrirgefningu í stað hefndar. Hann ögraði fylgjendum sínum og hvatti þá til að sinna lítilmagna og þeim sem var ofríki beittur. Og hann kallaði manninn til fylgdar við sig í tilgangsríkri leit að sannindum sem ekki breytast í rás kynslóðanna heldur eru sígild. ,,Lát hina dauðu jarða sína dauðu”, segir hann í guðspjalli dagsins, ,,en far þú og boða Guðs ríki.” Já, látum ekki hið forgengilega blinda okkur í leit okkar að tilgangi og æðri sannindum.

Trúin er öflug

Kristin trú er öflug og þar er ekki allt sem sýnist. Hún var barin niður í Austantjaldslöndum en eitt af því sem hafði mest áhrif á hrun alræðisríkjanna þar eystra var starfið í kirkjunum. Fólk kom þar saman og bað bæna, listamenn og pólitískir hugsjónamenn fengu að tjá sig. Þetta varð vísir að því þegar múrar hrundu. Með sama hætti voru það kirkjur babtista í Bandaríkjunum þar sem kveikjan varð að frelsisbaráttu blökkumanna undir forystu séra Martin Luther King.

Tökum spám af yfirvofandi andláti trúarbragðanna með miklum fyrirvara. Látum ekki hugfallast þótt boðaður sé endir kristinnar trúar. Aflið sem býr í trúinni er mikið og mótvægið mun hafa áhrif.

Trúin vinnur ekki á sömu sviðum og vísindin. Hún er af öðrum toga runnin. Hún er ekki sett fram í nafni síbreytilegra kenninga. Hún viðurkennir að heimurinn er og verður okkur leyndardómur. Við gægjumst inn í hugskot Guðs og reynum þar að ráða í hinar dularfullu rúnir er þar birtast. En um leið og ein ráðgáta er leyst, birtast okkur fleiri gátur sem þarf að ráða í. Þetta er starf vísindanna og á þeirri endalausu vegferð birta þau okkur margvíslega heimsmynd, margvíslegar kenningar og hugmyndir. Allt er það dásamlegt. En vísindamenn, hugsuðir og heimspekingar, hvort sem er í háskólum eða á kaffistofum, eða á internetinu, ættu að fara varlega í sakirnar þegar þeir reyna að ónýta heilu trúarkerfin á grundvelli nýjustu rannsókna.

Kinnroðinn verður á hinn bóginn þegar menn fara út fyrir sitt svið, láta glepjast af glýjunni sem því fylgir að vera í öndvegissæti í samfélaginu, hafa þar spámannlegt hlutverk og fella dóma sem í raun ekki standast skoðun. Í tilviki Russells og Coplestons beitti talsmaður vísindahyggju fyrir sig heimsmynd sem stenst í dag enga skoðun. Hugmyndir trúmannsins um heiminn voru í raun sannari en þær sem Russell hélt á lofti. Með sama hætti skulum við gjalda varhug við yfirlýsingum óvina trúarinnar sem óma hátt þessa dagana einnig. Kristin trú mun lifa áfram og hún mun sem fyrr byggja upp einstaklinga og samfélag í öllum litbrigðum sínum og fjölbreytni.