Hörmungar í sandinum

Hörmungar í sandinum

Hvert mannsbarn ætti að þekkja sönginn sem ómar í sunnudagskólanum um þann hyggna sem byggði hús á bjargi og þann heimska sem reisti sitt á sandi: „Og húsið á sandinum það féll!“ Í meðförum barnanna verður sagan kómísk og er undirstrikuð með kraftmiklu klappi þegar allt hrynur.

Hugsum um alþjóðlegt farþegaskip. Hvað kemur upp í hugann?

 

Langur tregi

 

Þrátt fyrir að þau tróni mörg yfir höfnum hér umhverfis landið þá er sennilegt að það fley sem okkur datt fyrst í hug, sé það sem lagði úr höfn frá Southampton á Englandi 1912 og hvílir nú á hafsbotni. Já, Titanic er frægast þeirra allra. Og afrekið, ef svo má segja, sem gerir þetta skip svo nafntogað er vitaskuld að skyldi sökkva þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar útgerðarmanna. Við munum það sem fer úrskeiðis. Þarf svo sem ekki að undra. Skynjun okkar verður ofurnæm þegar eitthvað er ólíkt því sem á að vera og við gleymum því seint þegar ógæfan dynur á okkur.

 

Þetta er alkunn staðreynd úr lífinu. Hannes Pétursson lýsir ögurstundu elskenda í ljóðinu „Hjá fljótinu“ frá árinu 1951 með þessum orðum:

 

,,Og armlög þeirra minntu á fyrsta fund

þó fölur beygur hægt um sviðið gengi

er laut hann höfði og sagði í sama mund:

Veistu hvað gleðin tefur tæpa stund

en treginn lengi."

 

Þarna festir skáldið í ljóðstafi þennan veruleika sem situr svo djúpt í sálinni. Harmleikurinn greipir sig inn í vitund okkar. Stórskáldin og sögubækurnar lýsa alls kyns harmi og stærstu umskiptin í lífi þjóða og einstaklinga eru oftar en ekki römmuð inn af mótlæti.

 

Tilgangur í hörmungum

 

Lýsing austurríska sálfræðingsins Viktors Frankl á vistinni í Auschwitz er í þessu sambandi áhrifarík. Hann segir frá henni í bókinni Leitin að tilgangi lífsins. Þar virti hann fyrir sér umhverfi sitt og meðbræður. En fyrst greindi hann aðstæður sínar.


Hafði hann ekki glatað öllu? Höfðu illmennin ekki rænt hann sérhverju því sem var honum dýrmætt? Hvar var fjölskyldan hans? Hann vissi ekki betur en að hún væri orðin að öskuryki sem liðaðist upp úr reykháfnum á brennsluofnunum. Hvar var frami hans? Hann sem áður hafði flutt fyrirlestra fyrir áhugasama nemendur í háskólanum í Vín stóð nú hnípinn á þessum ömurlegustu slóðum? Heimilið og allar eignir – komnar í eigu böðlanna sem höfðu líf hans í hendi sér.

 

Hvað átti hann eftir? Var eitthvað lengur, sannarlega hans?

 

Jú, hann átti hafsjó af minningum, ekki um skipbrot eða trega, heldur þvert á móti – hamingju og fegurð. Enginn gat rænt hann þeim – meðan hann dró andann. Hann átti líka valkosti jafnvel í þessu manngerða víti. Og það leiddi huga þessa næma greinanda að meðbræðrum sínum þarna í allri eymdinni.

 

Hvernig brugðust þeir við í þessum aðstæðum? Jú, flestir reyndu að láta lítið fyrir sér fara. Þeir þraukuðu dag frá degi, í þeirri von að þá gætu þeir lifað fram á næsta dag. Margir misstu vonina og móðinn. Bundu endi á líf sitt. Aðrir nýttu aflsmuni sína, hrifsuðu mat eða ábreiðu af öðrum föngum.

 

Já, þarna greindi hann annað það sem enginn hafði tekið frá honum: Valkostinn um það hvernig við komum fram við aðra.

 

Og hann lýsti því sem hvernig hann sat í svefnálmunni í myrkrinu þar sem meðfangar hans lágu og kveinkuðu sér undan harmi sínum og hlutskipti. Þá hóf hann upp raustina – og deildi með þeim þessari hugsun sem hann mótað. Harmleikurinn var sannarlega meiri en orð gætu lýst en mitt í myrkrinu leyndist þessi ljóstýra sem gæti þó breytt öllu.

 

Já, hver var þessi glæta? Það var sú breyta sem hann kenndi bókina við og gerði síðar að lykilþætti í kenningum sínum á sviði sálfræðinnar. Mikilvægast hverri manneskju hvort heldur er í gleði eða trega – er að eiga sér markmið. Tilgang. Það ætti að vera viðfangsefni hvers okkar að sinna því ævilanga verkefni sem bókin dregur heiti sitt af: Leitin að tilgangi lífsins.

 

Hörmungar í sandinum

 

Þessi kunni texti sem lesinn var hér í guðspjallinu fjallar um áföll í lífi fólks og viðbrögð við þeim. Húsin sem mennirnir tveir reisa eru greinilega áþekk. Í það minnsta er engum orðum eytt í að lýsa útliti þeirra og gerð. En undirstaðan er aftur á móti ólík. Hvert mannsbarn ætti að þekkja sönginn sem ómar í sunnudagskólanum um þann hyggna sem byggði hús á bjargi og þann heimska sem reisti sitt á sandi: „Og húsið á sandinum það féll!“ Í meðförum barnanna verður sagan kómísk og er undirstrikuð með kraftmiklu klappi þegar allt hrynur.

  

Dæmisagan fjallar um sömu þætti og skáldið Hannes og fræðimaðurinn Frankl lýsa, hvor á sinn hátt: Hörmungar sem mæta manneskjunni. Það er jú ekki fréttnæmt þegar allt er með felldu, ekki bærist hár á höfði og lífið gengur sinn vanagang. Þá sést hann ekki munurinn á þessum tveimur byggingum sem sagan lýsir.

 

En svo byrja lætin. Rigning með flóði og stormum dynur á þessum byggingum. Hér er sannarlega kveðið við kunnuglegan tón í hinni helgu bók. Já, þar er ekkert dregið undan í raunsæi getum við sagt á því sem kann að henda dauðlegt fólk á vegferð sinni frá vöggu til grafar.

 

Með þessu vísar Jesús til þeirra þrauta sem geta plagað okkur – og sitja í minni einstaklinga, þjóða og heimsbyggðar. Þar er af nægu að taka eins og rakið var hér framar.

 

Og já hvernig sem á málið er litið, þá erum við undir sömu sökina seld og allt það sem lifir og hefur lifað – hvort sem það er einvaldur sem ríkir yfir þjóðum eða vesæl jurt sem læðist upp úr moldinni og hendur okkar rífa upp án umhugsunar í tiltektinni í garðinum. Dauðinn mætir hvoru tveggju. Hið sama á við um okkur sem fæðumst inn í þennan heim og kynnumst svo ólíkum hliðum hans. Lífinu og fegurðinni, gleðinni og því sem byggir upp. En við fáum líka kynni af hinum dökku hliðum lífsins og stundum ná þær að yfirgnæfa það sem gott er. „Veistu hvað gleðin tefur tæpa stund/en treginn lengi“.

 

Undirstaðan

 

Kletturinn sem hyggni maðurinn reisti byggingu sína á, er í þessu samhengi, líf sem er ríkt að tilgangi og merkingu. Já, líf þar sem trúin fléttast í gegnum tilveruna. En þá komum við að öðru kunnuglegu stefi í hinni helgu bók, nefnilega harðri og óvæginni gagnrýni á trúarbrögð og trúarlíf fólks. Það er útlistað nánar í pistlinum þar sem Jóhannes skýrir hvað við er átt:

 

„Þið elskuðu, trúið ekki öllum sem segjast hafa andann, reynið þá heldur og komist að því hvort andinn sé frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn. Af þessu getið þið þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar að Jesús sé Kristur kominn sem maður, er frá Guði.“

 

Jóhannes leggur annað próf fyrir þá sem tala fjálglega um trú sína. Já, hann lýsir því svo að hver sá sem segist hafa trú í hjartanu en hatar náunga sinn fari með lygar og staðlausa stafi. Það er prófsteinninn sem þessi postuli setur fram og kallast þar á við dæmisögu Jesú. Tilgangurinn og kærleikurinn eru jú af sama meiði sprottnir. Hvort tveggja er leiðarljós sem vísar okkur veginn í gegnum lífið.


Heimurinn

 

„Falsspámennirnir eru af heiminum. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar og heimurinn hlýðir á þá.“

 

Hvað er átt við með þessum orðum? Jú, þetta sem Jóhannes kallar ,,heiminn“ er í raun allt það sem dregur okkur frá því að leita æðri gilda. Þessi orð eru sennilega þýðingarmeiri á okkar dögum en var þá. Er ekki sífellt haldið að okkur því erindi að allt snúist lífið um hægð og þægindi, dægradvöl og afþreyingu? Allt í kringum okkur birtist það erindi og við skynjum það ef til vill hversu fjarlægt það er að eiga sér tilgangsríkt líf sem stefnir á æðri leiðir.

 

Kvikmyndin fræga um Titanic dregur þetta einmitt fram. Ekki mátti spilla gleðinni, afneitunin var algjör og svo á einu augabragði var allt komið í óefni.

 

Kletturinn í frásögninni eru gildin okkar og viðmið sem halda, jafnvel þótt vart sé stætt í stormi og ólgusjó. Hann gefur okkur mælikvarða á það sem er áreiðanlegt, stöðugt. Hér er ekki spurt um menntun og djúpa þekkingu. Nei, hér er spurt um hugarfar, trúverðugleika og heilindi.

 

Erfiðleikar eru prófsteinn. Þetta greindi Viktor Frankl í bók sinni. Þeir draga fram kosti og galla fólks og samfélaga. Eiginleikar, góðir eða slæmir, koma sjaldan í ljós á meðan allt leikur í lyndi. Það er ekki fyrr en éljadrífan skellur á sem við skynjum það hvers eðlis það er sem við reiðum okkur á. Og það bjarg sem við viljum þá hafa undir fótum er einlæg trú og einlægur vilji til þess að hlúa að náunga okkar og samfélagi.