Hver þjónusta ætti að hvíla í bæn

Hver þjónusta ætti að hvíla í bæn

Í bæn sjáum við okkur í samhengi annarra. Það er reiknað með okkur í ráðsályktun Guðs. Ekki bara til einhverra verka, heldur sem verkamenn í að græða brotinn heim og til að veita okkur vonarríka framtíð, okkur og samfélaginu öllu til blessunar.

Í dag er hinn almenni bænadaguri. Textar dagsins, sem lesnir hafa verið bæði úr Gamla og Nýja testamenntinu, fjalla allir um bæn. Hvað er bæn? Já, hvað er bæn? Eða eigum við heldur spyrja hvað hefur hún að segja? Hvaða þýðingu hefur hún fyrir þann er iðkar hana?

Vitur fræðimaður sagði eitt sinn. „Því meira sem ég hef lært og reynt, því betur sé ég hvað ég veit lítið.“

Sama mætti segja um bænina. Því eitt er víst að bæninni verður ekki gerð full skil með orðunum einum saman. Bæn er ekki bara orðin ein af vörum manns. Bæn er miklu, miklu meira en það. Bæn er meðal annars reynsla, upplifun, traust, faðmur, samfylgd, samtal og samfélag. Bæn er andvarp til Guðs.

Víða í heilagri ritningu erum við hvött til bænaiðkunar, hvött til að leggja okkur sjálf og allt okkar í hans faðm í bæn. Við erum hvött til þrautseigju í bæninni, að gefast ekki upp. Þar er líka sagt að við megum koma með allt fram fyrir Hann. Ekkert er Honum óviðkomandi, ekkert er of stórt og ekkert of smátt. Við megum koma með sorg, vonbrigði, sársauka, óöryggi, reiði til Hans. Já allt, líka gleði, sigra og drauma. Ekki nóg með það að við séum hvött til að biðja heldur er okkur gefið fyrirheit, fyrirheit um bænheyrslu, „Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður“. Biðjið og þér munuð öðlast svo fögnuður yðar verði fullkominn.“

Í bæn sjáum við okkur í samhengi annarra, við erum hluti af stærra samhengi, Guðs góðu sköpun. Og þar með hluti af sístæðri sköpun hans og fagnaðarerindi Jesú Krists. Það er reiknað með okkur í ráðsályktun Guðs. Ekki bara til einhverra verka, heldur sem verkamenn í að græða brotinn heim og til að veita okkur vonarríka framtíð, okkur og samfélaginu öllu til blessunar.

Bæn er því þátttaka, gagnkvæm þátttaka. Eða eins og Dr. Sigurbjörn Einarsson biskup orðar það í einum af sálmum sínum

Þú, mikli Guð, ert með oss á jörðu, Miskun þín nær en geisli á kinn. Eins og vér finnum andvara morguns, Eins skynjar hjartað kærleik þinn

Í dagsins iðu, götunnar glaumi, greinum vér þig með ljós þitt og frið. Hvar sem ein bæn er beðin í hljóði beygir þú kné við mannsins hlið.

Hvar sem er unnið hugur þinn starfar, hús vor og tæki eru þín verk. Þú vilt vér teljum vort það sem gefur viskan þín rík og höndin sterk.

Með iðkun bænar eignumst við samhljóm við vilja Guðs. „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ Sjálfur Jesús sagði „Faðir, en verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“

Bænin verður mest gefandi með daglegri iðkun. Í inngangsorðum að einni bænabóka sinna varpar Sigurbjörn Einarsson biskup fram spurningunni „Hvers vegna að biðja?“ og hann segir: ,,Það má eins spyrja: Hvers vegna að yrða á fólk? Hvers vegna að blanda geði við aðra menn? Hvers vegna að varpa orðum á vin eða ástvin? Hví ekki þegja þegar þú kemur heim úr vinnunni? Af hverju að sinna neinum yfirleitt nema sjálfum sér? Hugsun, mál og heyrn höfum við þegið af því að við erum ekki ein í heiminum og er ekki ætlað að lifa í einangrun. Það má því segja að það sé fjarstæða að ganga um eins og maður sé einn í heiminum, að aðrir séu ekki til. Hvað þá að umgangast Guð eins og að hann sé ekki til.”

Við getum líkt bæninni við samfélag, þar sem tveir einstaklingar tengjast, orðin stundun svo mörg en á öðrum tíma þarf svo fá orð, svo að jafnvel verður þögnin allt sem þarf sem skiptir máli. Þögnin verður þá svo innihaldsrík, svo dýrmæt. Móðir Teresa var einhverju sinni spurð af blaðamanni hvort hún eyddi löngum stundum í bæn. Hún svaraði játandi. Og hvað segirðu við Guð? Spurði blaðamaðurinn. Ekkert svaraði hún. Og hvað segir Guð við þá við þig? Ekkert svaraði Móðir Teresa. Hér sjáum við þetta djúpa og merkingarríka samband sem er hverri manneskju svo mikilvægt.

Fyrir mér er Guð lifandi raunveruleg staðreynd. Hann er skapari minn og lausnari og minn besti vinur. Vinasamband vill maður rækta, hjónabandið, fjölskylduböndin vill maður rækta. En hvað gefur maður inn í það samband. Er ég til staðar? Tala ég? Hlusta ég? Tek ég þátt? Legg ég eitthvað til málanna. Eg einn veit og þó, Guð reyndar líka hversu oft ég hef brugðist í að rækta þetta samband hvort heldur við vini og fjölskyldu og hvað þá Guð. En alltaf hef ég mátt koma aftur, biðjast fyrirgefningar og reyna að gera betur. Fyrirgefningin er nefnilega djásnið í mannlífinu, svo ég noti orð Gunnars Hersveins. Hún er grundvallaratriði í öllum mannlegum samskiptum. Bænin hefur verið mér mikilvægur þáttur í ferli fyrirgefningar og svo hef ég fundið svo mikla sálgæslu, stuðning og leiðsögn í bæninni.

Það er mér óendanlega dýrmætt að mega og geta talað við Guð líkt og hann standi við hlið mér eða sitji í bílnum með mér. Það er svo margt sem við komum inn á þá. Ekki síður er mikilvægt að vita af honum við hlið mér í öllum mínum aðstæðum. Aðstæðum sem mér finnst ég vart ráða við. Stundum á ég engin orð, kann ekki að orða bænina. Þá er svo gott að geta sagt, Drottinn þú veist, þú þekkir aðstæður, hjálpa þú mér. Þetta á ekki síst við þegar maður mætir eigin sjúkdómi, sjúkdómum ástvina og vina eða þeirra sem sækja sálgæslu hjá manni. Hvar er Guð þá? Hver er ég þá sem ástvinur eða sem sálgætir. Í þessum aðstæðum hefur æðruleysið verið eitt mikilvægasta bænasvar Guðs, ásamt því að umvefja mann einstöku fagfólki sem annast mann og þéttum hópi einstaklinga sem bera mann uppi í fyrirbæn. Það get ég seint fullþakkað og ég treysti á góðan Guð þar.

Jesús sagði berið hvers annars byrðar. Fyrirbænin er einn þátta þeirrar þjónustu að bera hvers annars byrðar. Það er yndislegt að vita það og finna það að maður hvíli í fyrirbæn einhvers annars. Að eiga slíkan vin í trúnni, í bæninni, að geta haft samband hvor við annan eftir aðstæðum og beðið um fyrirbæn vegna einhverra sérstakra aðstæðna eða verkefna, svo dæmi sé tekið. Æðruleysi er ein af stóru bænasvörunum. Að sjá hvernig Guð gefur einstaklingum æðruleysi inn í svo erfiðar aðstæður, er undravert og um leið ekki síður þakkarvert.

Dag í senn, eitt andartak í einu eilíf náð þín, faðir, gefur mér. Mun ég þurfa þá að hvíða neinu Þegar Guð minn fyrir öllu sér? Hann sem miðlar mér af gæsku sinni Minna daga skammti af sæld og þraut, sér til þess að færa leið ég finni fyrir skrefið hvert á lífs míns braut.

Hann, sem er mér allar stundir nærri, á við hverjum vanda svar og ráð, máttur hans er allri hugsun hærri, heilög elska, viska föðurnáð. Morgundagsins þörf ég þekki eigi, það er nóg að Drotttinn segir mér: Náðin mín skal nægja hverjum degi, nú í dag ég styð og hjálpa þér.

Einn af stóru þáttum bænar er þakklætið. Bænin er dýrmætur farvegur fyrir þakklætið. Gunnar Hersveinn segir í bók sinni Gæfuspor, ,,þakklætið er afar mikilvægt í mannlegum samskiptum.” Og áfram heldur Gunnar. ,,Það er gæfulegt að finna til þakklætis fyrir það sem við höfum, heppni okkar og góðsemi annarra, og kunna að þakka. Þakklæti er innri upplifun og ytri tjáning.”

Við erum rík af bænar- og þakkarsálmum, gildir þá einu hvort við leitum í Biblíuna eða sálmaarfinn okkar. Sálmarnir eins og fanga breidd mannlegra tilfinninga og hjálpa manni að orða líðan og tilfinningar og stuðning í hinu orðlausa. Það hefur verið dýrmæt reynsla fyrir mig að sjá hvernig bænavers sem einstaklingar hafa lært sem ung börn, hafa fengið nánast í vöggugjöf eru styrkur og öryggi þegar aldurinn færist yfir. Svo ég tali nú ekki um ef heilsan brestur og eigin bjargráðum fækkar og óöryggið sækir mann heim.

Orð Jesú, „ég er með þér alla daga, enginn skal slíta þá úr hendi minni“ er svar hans við bæn, þar sem óttinn, óöryggið og hræðslan vilja ná yfirhöndinni. Við þurfum ekki að óttast, bugast undan áhyggjum, „verið ekki hugsjúk um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði, með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú“ (Fil. 4.6-7) Guð er eins og maki eða vinur er stendur við hlið manns. Hvenær sem maður vill getur maður yrt á Hann, átt samtal við Hann eða þagað með Honum og notið nærverunnar. Það er líka afar mikilvægt að eiga áningarstað bænar, það er að segja frátekin tíma og stað. Við getum beðið í einrúmi og við getum beðið í samfélagi og verið samhuga í bæninni, eins og talað er um í ritningunni.

Hvernig svarar Guð? Hann svarar: Já, nei, eða bíddu ... er kannski betra að gera þetta á annan hátt. Það er ótrúlega spennandi að sjá hvernig Guð svarar, hvernig Guð leiðir. Það er til lítil saga af trúaðri stúlku sem bað Guð um að gefa sér hjól. Hún sagði öllum í fjölskyldunni frá bæn sinni. Frændi hennar sem ekki trúði á Guð stríddi henni og sagði að hún fengi ekkert bænasvar. Stúlkan bað og bað um hjól en ekkert bólaði á hjólinu. Þegar frændi hennar kom næst í heimsókn nokkru seinna spurði hann stúlkuna hvort hjólið væri komið. Nei svaraði stúlkan. Ég sagði þér það, Guð svarar ekki bænum, sagði frændi hennar hróðugur. Jú víst, hann hefur svarað, sagði hún. Nú, hvar er hjólið? Guð sagði nei.

Já Guð svarar, já, nei, bíddu, Hann svarar eins og er okkur og samfélagi okkar fyrir bestu. Það er áhugavert að skoða bænir Jesú og annarra einstaklinga í biblíunni sem og bænir/tjáningu sálmaskáldanna. Þar er margt að læra. Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja með því að kenna þeim Faðir vor bænina. Sú bæn hefur fylgd mannkyninu allar götur síðan og á eftir að gera, enda einstök bæn. En Jesú kenndi lærisveinum sínum ekki að biðja bara með því að kenna þeim eina bæn. Þeir voru með honum alla daga, jafnvel allan sólarhringinn, og þekktu nokkuð vel bænalíf Jesú. Síðast en ekki síst kenndi Jesús þeim að biðja með þvi að leiða þá inn í bænina, hvetja til bænar. ,,Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upplokið vera.” Jesús sagði líka „hvern þann sem til mín kemur mun ég ekki burtu reka.”

Hver þjónusta, hver vitnisburður ætti að byrja með bæn, hvíla í bæn. Já hvað er bæn? Hún er eitthvað svo stórt og mikið að orð vart duga, en samt svo nálæg manni, greipuð í vitund og hjarta manns svo að það þarf ekki einu sinni orð. Við sem þekkjum bænalíf vitum hversu mikils virði það er fyrir okkur að eiga Guð að í bæninni. Það er ómetanlegt að eiga þetta samfélag við Guð. Hlúum að því og keppum eftir því að eiga náið og persónulegt samfélag við Guð.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.