Íslamsfælni

Íslamsfælni

Múslímum hefur fjölgað nokkuð í nágrannalöndum okkar og lítillega hér á landi. Í dag eru tvö skráð trúfélög múslíma starfandi á Íslandi og a.m.k. tveir trúarhópar múslíma þess að auki með vísir að starfsemi á Íslandi. En umræðan um íslam á Íslandi er æði misjöfn.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
21. nóvember 2011

S8309146

Umræðan á Íslandi um íslam er æði misjöfn og ekki laust við að oft beri hún sterkan vott af íslamsfælni. Hér er Ísland ekki frábrugðið öðrum löndum. Greina má uppgang íslamsfælninnar sem framhald af því að einstaklingar tóku að réttlæta hryðjuverk með íslam. Samhliða þessu má sjá aukna ásókn í fjöltrúarlegt samtal við múslíma og tilraunir stöku stjórnmálaafla og einstaklinga til að nýta sér ótta kjósenda við íslam. Þá virðist það allt að því orðið tíska í Evrópu, að í hvert sinn sem einhver hópur múslíma vill byggja mosku, þá verður til hópur sem berst gegn byggingu mosku á viðkomandi stað. Hér er Ísland engin undantekning.

Við hliðina á hryðjuverkaárásinni á tvíburaturnana í BNA fyrir rúmum tíu árum, má nefna morðið á Theo van Gogh í Hollandi, hryðjuverk í Lundúnum og Madríd og viðbrögðin við birtingu skopmynda af spámanninum Múhameð sem dæmi um atburði sem hafa aukið neikvæðni í garð íslams. Þá virðist sem umræðan um veraldarhyggju og birtingarmynd hennar í Frakklandi, ásamt umræðunni um inngöngu Tyrklands í ESB hafi ekki auðveldað umræðuna. Einnig háir það víða samræðunni við múslíma að í hefðbundnum íslam er aðskilnaður hins trúarlega og hins pólitíska óþekktur. Litlu virðist skipta í þessu samhengi að t.d. í Þýskalandi gengst mikill meirihluti múslíma undir reglur lýðræðis og stjórnarskrár og telur sjaría-lög ekki æðri landslögum.

Engin ein skilgreining á íslamsfælni hefur hlotið almenna viðurkenningu og má líta svo á að viðleitnin til að draga úr henni innan vébanda ESB og Evrópuráðsins sé hluti af baráttu viðkomandi aðila gegn kynþáttafordómum og mismunun. Í þessu samhengi er vert að benda á starf þeirrar stofnunar ESB sem fer með málefni grunnréttinda fólks (1) sem og þeirrar nefndar Evrópuráðsins sem vinnur að greiningu og ábendingum á sama vettvangi (2). Líta ber á íslamsfælni, kynþáttafordóma og fælnina við hið framandi sem samtvinnaða heild í þessu samhengi. Báðar stofnanir hafa bent á alvarleikann sem felst í íslamsfælninni, múslímum sé sérstaklega hætt við að verða fyrir fordómum og kynþáttaglæpum. En bent hefur verið á að hér vanti tilfinnanlega trúverðug gögn, bæði um þá sem aðhyllast íslamstrú og viðhorf í þeirra garð.

Ein af þeim stofnunum sem hefur þó staðið sig vel í rannsóknum á viðhorfum í garð íslam er The Pew Research Center (3). Í rannsókn þeirra sem gerð var fyrr á þessu ári kemur m.a. fram að staðan hefur batnað síðan 2006. Viðhorfið í garð múslíma var neikvæðara þá en það er í dag. Ef horft er til Bretlands, Frakklands, Bandaríkjanna og Rússlands þá hefur meirihluti íbúa í þessum löndum jákvætt viðhorf í garð múslíma. Viðhorfið í garð múslíma hefur einnig orðið jákvæðara í Þýskalandi og á Spáni, en þó er enn aðeins 45% íbúa í Þýskalandi jákvæður í garð múslíma og aðeins 37% íbúa á Spáni.

Margar systurkirkjur okkar leggja ríka áherslu á samtalið og samskiptin við íslam. EKD í Þýskalandi hvetur til samtalsins í greinargerð frá árinu 2006. Þar er tekið fram að leita þurfi samtals við múslíma undir formerkjum kærleika svo að einnig sé unnt að tala um það sem aðskilji og það sem virðist óskiljanlegt, eins og t.d. sjaría-lög, staða kvenna og íslömsk viðhorf til trúskipta. Múslímar sem búa í vestrænu þjóðfélagi eru hvattir til að vera opnir fyrir uppbyggilegri gagnrýni viðvíkjandi eigin menningu og hefðum. Slíkt auðveldi aðlögun í þjóðfélagi sem vilji byggjast á sameiginlegum gildum íbúanna.

Minnt er á að hér hafi hin evangelíska kirkja líka orðið að læra að taka gagnrýni. Hún hafi lært að hlusta á aðra, hvað þeir hafi um kristni að segja. Í slíku samtali nái þó vægi mótaðilans aðeins sömu hæðum og eigin orð þegar báðum lánast að sýna gagnkvæma virðingu og víkjast ekki undan uppbyggilegri gagnrýni. Slík gagnrýni snúist ekki um að ráðast á trúarbrögð hins, heldur fyrst og fremst um samtal þar sem spurt er hvert geti verið uppbyggilegt framlag trúarbragðanna til samfélagsins.

Að mínu mati er baráttan gegn íslamsfælninni nauðsynlegri í dag en nokkru sinni fyrr. Ég get ekki betur séð en að sú ábending sem hefur komið fram víða um að á tímum hnattvæðingar þar sem alls konar hópar reyna að sameinast þvert á landamæri, hafi öfgahægrisinnuð öfl uppgötvað að þar sem erfitt sé að ná alþjóðlegri samstöðu um fjandsemi í garð útlendinga sé hentugt að sameinast í baráttunni gegn íslam. (4) --- (1) European Union Agency for Fundamental rights, FRA, vefur: http://fra.europa.eu

(2) European Commission against Racism and Intolerance, ECRI, vefur: http://www.coe.int/t/dghl/monitoring/ecri/default_en.asp

(3) The Pew Research Center, ný rannsókn: http://pewresearch.org/pubs/2066/muslims-westerners-christians-jews-islamic-extremism-september-11

(4) Sjá t.d. greiningu fréttamannanna Ernst Sittingar og Stefan Winkler: http://www.kleinezeitung.at/nachrichten/politik/wienwahl/2513731/europas-rechte-kampf-gegen-den-islam.story Ítarlegri grein höfundar um íslamsfælni ,,Myndir af íslam: Viðbrögð, vandi og viðleitni" er að finna í Glímunni 7 (2010), bls. 221-245. Mynd: Höfundur í heimsókn hjá Ahmadiyya múslímum í London ásamt Bjarna Randver Sigurvinssyni og dr. Pétri Péturssyni sumarið 2010. Lengst til vinstri á myndinni er dr. Khan, en hann er forstöðumaður (óskráðs) trúfélags Ahmadiyya múslíma á Íslandi.