Ár hryðjuverka

Ár hryðjuverka

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
31. desember 2001
Flokkar

Guðspjall: Jóh. 14: 27

Það er gömul málvenja að tala um að viðburður hafi átt sér stað á því Herrans ári. Um er að ræða þýðingu á latneska orðasambandinu “anno Domini”. Merkingin er kunn. Miðað er við fæðingu Krists, Drottins vors og herra. Í dag er gamlársdagur. Í kvöld lýkur einu “Herrans ári”. Að svo búnu gengur annað “Herrans ár” í garð.

Meðal guðspjalla gamárskvölds er að finna 27. versið í 14. kafla Jóhannesarguðspjalls sem ég las áðan. Þar farast frelsaranum orð á þessa leið: “Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist”.

Þegar litið er um öxl við áramót, skiptir miklu að friður ríki í hugskotinu um það sem liðið er. Áramót verða einstaklingum raunar á stundum tilefni uppgjörs er tekið getur til margra ára, jafnvel ævinnar allrar fram til þess tíma. Þeim mun brýnna er að sáttargjörð eigi sér stað við hjartarætur um viðburði, menn og söguþráðinn í heild.

Þess konar lífssátt snýst í ríkum mæli um það að hlutaðeigandi nái sáttum við sjálfan sig, að hinum ýmsu þáttum persónuleikans lánist að viðurkenna hver annan. Ert þú sáttur við þann nafna þinn sem gjörði þetta eða hitt snemma árs eða jafnvel í fyrra. Um það snýst málið, - meðal annars.

Í árslok lætur Jesús okkur eftir frið,- fyrir umsýslan kirkju sinnar. “Minn frið gef ég yður”, segir Drottinn. Sá friður verður hið innra með þér þegar þú tekur á móti honum og lætur hann verka á þig hið innra. Frelsarinn býðst til að taka það allt á sig sem þér mistókst á árinu. Hinn krossfesti hefur friðþægt, þ.e. bætt fyrir syndir þínar. Upprisinn sest hann við hjartarætur kristins manns og gefur honum kost á samfélagi við sig í stað átaka milli hinna ýmsu hliða persónuleikans. “Verið í mér”, segir hann, “þá verð ég í yður”.

Það er ekki laust við að átök hafi átt sér stað innra með okkur á árinu sem er að líða, einkum á seinni helmingi þess. Fyrir tilstilli sjónvarpsins horfðum við á í beinni útsendingu þegar farþegaþotum var flogið á turnana tvo í New York borg og á fleiri staði. Þetta var svo óraunverulegt í fyrstu. Mér fannst ég vera að horfa á hasarmynd með Bruce Willis. Síendurtekin myndskeiðin festust í huga manns og brátt fyltist maður hryllingi og reiði í garð þeirra sem úthelltu saklausu blóði á þennan yfirvegaða og skipulagða hátt. Ég hugsaði um aðstandendur þeirra sem þar létust, börnin, makana, foreldrana. Ég hugsaði um slökkviliðsmennina og lögreglumennina sem létust þar við skyldustörf og vandamenn þeirra. Hluti af mínum persónuleika kallaði á grimmilega hefnd í garð þeirra sem bera ábyrgð á þessum hryðjuverkum. Um kvöldið var útvarpsviðtal við forseta Íslands sem sagði minnir mig að í hefndinni væri ekkert skjól. Biskup Íslands tók þess orð upp næsta dag og sagði að það væri hins vegar skjól í trúnni. Þá hugsaði ég með mér að mörg grimmileg grimmdarverk hefðu verið framin í nafni trúarinnar, jafnvel í nafni Jesú Krists, fyrr og síðar. Örskamma stund vissi ég varla í hvorn fótinn ég átti að stíga en ákvað að binda sem fyrr traust mitt við friðarhöfðingjann sjálfan, Jesú Krist. Minn frið gef ég yður segir Kristur við okkur á þessum tímamótum. Friður jólanna er ekki kyrrstaða eða köld upphafning. Friður jólanna er frjósamur og gjöfull eins og allt sem Kristur gefur okkur. Þegar mennirnir treysta eingöngu á sitt eigið hyggjuvit þegar þeir vilja gera eitthvað í nafni trúarinnar þá geta þeir gert afdrifarík mistök eins og sannaðist á dögum krossferðanna þegar kristnir menn ætluðu að snúa múslimum til kristni í austurlöndum nær með öllum ráðum og frömdu þar glæpi gegn mannkyni eins og nú er sagt um stríðsglæpamenn.

Bandaríkjaforseti sagði fljótlega eftir hryðjuverkaárásina að hryðjuverkamennirnir yrðu svældir út úr grenjum sínum í Afganistan. Þá hugsaði ég með mér að þeir myndu aldrei ná leiðtoga hryðjuverkamannanna. Sú hefur verið raunin til þessa. Hann hefur ekki fundist enn þrátt fyrir allan hernaðinn sem kostað hefur að sögn rúmlega fjögur þúsund almenna borgara lífið, börn og konur og bændur í Afganistan og ómælda fjármuni sem hefði verið betur varið til að brauðfæða hungrað fólk í þessum heimi og hjálpa því að verða sjálfsbjarga.

Ógnarstjórn Talíbananna hefur verið komið frá völdum en ég hef spurt mig að því hvort ekki hefði verið hægt að koma henni frá með öðrum ráðum en vopnavaldi. Samningaviðræður um framsal hryðjuverkaleiðtogans voru árangurslausar en þær voru ekki þrautreyndar að mínum dómi.

Að hans sögn beindust hryðjuverkin að Bandaríkjamönnum um heiminn vegna stuðnings þeirra í garð Ísraelsmanna sem hafa drepið saklausa múslimska palestínumenn. Og þeim myndi linna þegar Bandaríkjamenn létu af stuðningi við Ísraelsmenn.

Nú ber svo við að deilur Ísraela og Palestínumanna hafa stigmagnast og hundruðir manna hafa látist í innbyrðis átökum þeirra og gagnkvæmt hatur ríkir og börnin eru alin upp við þetta hatur. Bandaríkjamenn standa fastir við sinn keip og láta ekki af stuðningi við Ísraelsmenn. Þó hafa þeir hvatt báða aðila til að setjast að samningaborði og útkljá málin með þeim hætti sem er auðvitað réttast í stöðunni.

Ég óttast mest ef múslimar í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs snúist allir sem einn á sveif með trúbræðrum sínum í Palestínu. Þá getur púðurtunnan sprungið með vofveiflegri afleiðingum en stríð milli Indlands og Pakistans getur leitt af sér sem virðist vera í uppsiglingu. Þar eru á ferð tvö kjarnorkuveldi en ég á bágt með að trúa því að þau noti þær sprengjur til annars en að ógna nágrönnum sínum.

Stundum finnst mér að Sameinuðu þjóðirnar gætu beitt meiri þrýstingi þegar heimsbyggðin stendur frammi fyrir vandamálum sem þessu. Það mætti kalla öryggisþingið oftar saman til að ræða þessi mál og finna lausn sem deiluaðilar geta sætt sig við.

Hið jákvæða sem hefur komið út úr þessum atburðum er að þjóðir heimsins virðast flestar hafa þjappað sér saman gegn hryðjuverkum í heiminum. Og hópar sem áðu stóðu fyrir hryðjuverkum hafa eyðilagt vopnabúr sín eins og t.d. IRA á Írlandi. Ráðamenn þjóða hafa fengið ótvíræð skilaboð

frá almenningi í ríkjum heimsins að hryðjuverk verði ekki liðin.

Það er auðvelt fyrir mig að tala um þessa hluti og vega þá og meta úr fjarlægð í ljósi fjölmiðlafrétta. Það er annað að vera á vettvangi sem heimamaður, alinn upp við aðrar hefðir, trú og siði, lög og reglur en þær sem við þekkjum hér á landi og í hinum vestræna heimi og höfum alist upp við.

Þrátt fyrir að eilítið víkingablóð renni í æðum okkar íslendinga þá höfum við ekki viljað standa í erjum og vopnaskaki við frændur okkar Færeyinga eða aðrar góðar þjóðir norrænar upp á síðkastið eða síðan á sturlungaöld. Það kann að breytast nú þegar þeir verða ríkir af olíunni á næstu áratugum og við förum að öfunda þá af öllu ríkidæminu. Eða hvað?

Nei, ég trúi ekki öðru en að við viljum halda frið við menn og Guð hverju nafni sem þeir nefnast og hvaða trú sem þeir aðhyllast.

Það er mjög erfitt að snúa múslima til kristinnar trúar. Það er ekki á mannlegu valdi heldur Guðs segi ég. Þess vegna skulum við leitast við að halda frið við múslima með því að kynna okkur út á hvað islam gengur svo að við vitum betur hver sé munurinn á kristinni trú og islam. Fordómar í þeirra garð verða til fyrir þekkingarleysi á trúarbrögðum þeirra. Orðið islam merkir undirgefni. Af fréttum að dæma þá brjóta þessi hryðjuverk gegn boðskap Kóransins, helgirits múslima og hryðjuverkamennirnir og aðrir öfgamenn koma því óorði á aðra múslima sem vilja lifa í friði og sátt við fólk sem tilheyrir öðrum menningarheimum.

Eins og svo oft áður þá tel ég að það sé mikilvægt að fá deiluaðila til að setjast að samningaborði hverju nafni sem

þeir nefnast í ljósi friðar, réttlætis og mannúðar þar sem þúsundum lífa saklausra borgara hefur verið fórnað.Þá er jafnframt brýnt að hjálpa börnum í heiminum að afla sér menntunar. Við mennirnir höfum þessa þörf að trúa á æðri mátt hverju nafni sem hann nefnist. Við nefnum þennan æðri mátt Guð í daglegu tali sem við trúum á. En trúir Guð á manninn, á mig og þig? Erum við sannir ráðsmenn hans í þessum heimi? Hvernig höfum við farið með auðæfi jarðarinnar, í lofti, láði sem legi? Hvað þurfum við að gera til þess að geta umborið hvort annað á þessari jarðarkringlu? Við þurfum að setjast niður og ræða málin og sameinast um það sem við getum verið sammála um og haft annað fyrir okkur sjálf og látið Guð um afganginn. Hann hefur öll ráð í sinni hendi. Við þurfum íbúar þessarar jarðar að hugsa á veraldarvísu, að hugsa um hvaða afleiðingar gjörðir okkar hafa á þennan heim sem við byggjum. Ef okkur öllum auðnast það þá verður þessi heimur friðvænlegri og mannvænlegri fyrir vikið.

Á gamlárskvöld og nýársdag gefur kirkjan okkur einnig kost á að heyra orð Lúkasarguðspjalls 13:6-9. Þar segir Jesús dæmisögu af manni sem átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Maðurinn kom og leitaði ávaxtar á trénu og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn. “Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?” En víngarðsmaðurinn sagði við eiganda fíkjutrésins. “Herra, lát

það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera það beri ávöxt síðar. Annars skaltu höggva það upp”.

Þessi dæmisaga þarfnast engra útskýringa. Í einfaldleik sínum er hún miklu markvísari en nokkur útlegging.

Það er hollt fyrir okkur hér í sókninni að líta til með trénu sem við höfum leitast við að hlú að í gegnum árin. Styrkur stofn þess er runninn úr jarðvegi reynslunnar og greinarnar á trénu minna á stoðkerfi þessa samfélags, kirkjustarfið, atvinnumálin, heilbrigðismálin, og félags og skólaþjónustuna. Við þurfum öðru hverju að grafa um þetta tré og bera að því áburð til þess að það beri ávöxt. Ef við gerum það ekki þá visnar tréð og deyr og íbúarnir flytja á brott.

En við getum verið sjálfum okkur verst að þessu leyti. Í stað þess að snúa bökum saman og nýta samtakamáttinn til uppbyggingar þá hef ég orðið var við það að sóknarbörn hafa snúist gegn hvort öðru í því skyni að brjóta niður það sem byggt hefur verið upp með illu umtali sem oft á rætur sínar í öfund í garð þeirra sem vegnar vel í samfélagi okkar. Í stað þess að hrósa og klappa á bakið, uppörva og hvetja þá hafa ýmsir fengið blautan klút framan í sig Að þessu leyti er okkur öllum vandi á höndum, einstaklingum, fyrirtækjum og bæjaryfirvöldum að láta ekki stundarhagsmuni eða fyrirgreiðslupólitík hlaupa með okkur í gönur.

Nokkrir hafa komið að máli við mig og talað um það að unga fólkið hyggist sækja í burtu vegna þess að það sé ekki næga atvinnu að fá.

Ef unnt yrði að fá fiskiskip til þess að landa afla sínum hér á Húsavík þá myndi það hafa margfeldisáhrif í samfélagi okkar því að ýmsir hefðu tekjur af því að þjónusta skipin. Hvernig stendur á því að það borgar sig að landa aflanum á Grundarfirði og keyra hann alla leið hingað til vinnslu? Ég tel

að betur væri komið fyrir t.d. fiskiðjusamlaginu ef aðrir ættu þar meirihluta en stórfyrirtæki sem stunda ekki útgerð í eigin nafni.

Í jörðu eigum við húsvíkingar geysimikla auðlind á Þeystareykjasvæðinu sem þarf að beisla og nýta í okkar þágu. Uppi eru hugmyndir um stórfellt eldi á hlýsjávarfisk sem ÚA hefur áhuga á að standa fyrir hér á Húsavík. Þá eru uppi hugmyndir um að reisa rússneska súrálsverksmiðju og nýta þá jarðvarmann til orkuöflunar. Þá er í bígerð að koma upp kítin verksmiðju þar sem unnið yrði hráefni úr rækjuskel. Mér líst nú betur á það heldur en að virkja fallvötnin og eyðileggja hálendi Íslands eins og ráðamenn ætla sér markvisst að gera á næstu árum. Það væri nær að fullnýta Kröflusvæðið og Þeystareyki og fleiri háhitasvæði á landinu og nýta jarðvarmann til að knýja stóru verksmiðjurnar á landsbyggðinni. Þá myndum við hlífa stórum landssvæðum við náttúruspjöllum. En það er ekki hlustað á þá sem fara með mat á umhverfisáhrifum í þessu landi. Hér er um að ræða pólitískar ákvarðanir að sögn til að tryggja efnahagslegan stöðugleika í þessu landi hvað svo sem það þýðir nú.

Þessar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu á Húsavík og nágrenni eru athyglisverðar og verður fróðlegt að fylgjast með hvað gerist í þessum málaflokki á næstunni. En mér finnst að við eigum húsvíkingar að vera vongóðir á raunastund þegar kaupfélagið er farið og mjólkursamlagið. Við verðum að horfa fram á veginn og taka því sem fyrir okkur ber í Jesú nafni og treysta því að hann muni vaka yfir þessu byggðarlagi og stoðkerfum þessa samfélags. Við höfum svo sannarlega mikið að þakka Guði fyrir þegar allt kemur til alls. Hann hefur t.d. haldið almáttugri verndarhendi sinni yfir þeim sem héðan hafa róið árum saman.

Þess vegna hvet ég ykkur mæður og feður, foreldra til að styrkja grundvöllinn sem við viljum að börnin okkar standi á sem er frelsarinn Jesús Kristur. Það gerum við með því að leiða börnin okkar til kirkjunnar svo að þau fái uppeldi á þeim vettvangi. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Ekkert veganesti er dýrmætara fyrir börnin en að eignast trú á frelsarann feta í fótspor hans með bæn og beiðni ásamt þakkargjörð. Ég hvet ykkur til þess að nota bænabókina sem sóknarnefndin gaf hverju heimili í fyrra. Ýmislegt bendir til þess að hún sé notuð reglulega sem mjög ánægjulegt.

Kirkjan heilsar nýju ári í nafni Drottins síns og frelsara, Jesú Krists, leggur komandi tíma í hendur hins upprisna. Nafn Jesú eru stikurnar við veginn sem okkur er ætlað að aka á útmánuðum. Sama nafn andar í blómskrúði og fossaföllum næsta sumars. Alls staðar er hann- Jesús. Þegar húmar að nýjum vetri lesum við nafn hans í stjörnum himinsins.

Hið óvenjulega við fæðingu Jesú var ekki það að vaggan hans var jata í gripahúsi heldur hitt að með honum hefst nýr kafli í heimssögunni og hann sjálfur markar þar dýpri spor og stærri breytingu en nokkur annar hefur gert. Taka menn eftir því? Vilt þú taka eftir því? Tími Guðs er kominn. Ríki Krists er veruleiki. Nýir möguleikar, Nýtt viðhorf. Nýtt ljós, Nýtt líf. Kristur getur gerbreytt öllu hjá okkur. Þú veist þetta. Þess vegna geturðu byrjað að biðja hann í dag. Byrjað í dag að lifa samkvæmt þessu nýja sem hann vill gefa þér. Og vita skaltu að hann lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Þess vegna skulum við biðja hann að gefa áðurnefndu trénu næringu til þess að stoðkerfi þess fái vaxið og dafnað og borið ríkulegan ávöxt í samfélagslegu tilliti.

Megi friður Guðs ríkja í hjörtum okkar nú þegar við horfum til baka yfir liðið ár og þegar við horfum fram til nýs árs.

Guð gefi okkur svo gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni. Amen