Í sama sigurliði og Sigurliði

Í sama sigurliði og Sigurliði

Hann var ráðsherra, fyrirmenni, maður metorða og stórrar ábyrgðar. Nikódemus hét hann, sem merkir sigur fólksins, Sigurliði á íslensku. Hann var andvaka yfir örlögum sínum. Öll höfum við verði andvaka enda þótt við séum hvorki ráðsherrar, ráðherrar eða í æðstu stöðum samfélagsins.

Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga. Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum.

Jesús svaraði honum: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.

Nikódemus segir við hann: Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst? Jesús svaraði: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi.Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju. Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur.

Þá spurði Nikódemus: Hvernig má þetta verða?

Jesús svaraði honum: Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist ekki þetta? Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum. Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, er ég ræði við yður um hin himnesku? Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn. Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn,. svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum. Jóh. 3.1-15

Hefur þú áhyggjur? Varstu andvaka í nótt? Hverjar eru áhyggjur fólks nú á dögum? Fyrrverandi ritstjóri DV segir í viðtali í Blaðinu í gær að hann sé „alltaf nagaður af sjálfsásökunum . . . “ (Blaðið 10. júní 2006) Og væntanlega er það vegna glímunnar við það hvort hann hafi gengið of langt sem ritstjóri. Við þekkjum sögu þess blaðs sem eigendur hljóta að hafa haft áhyggjur af þegar gróðinn minnkaði. Þannig er það nú í heimi viðskiptanna. Peningum fylgja áhyggjur. En líklega var það þjóðin sem hafði mestar áhyggjur af framgöngu blaðsins enda þótt þar hafi stundum átt sér nauðsynleg afhjúpun. Fjölmiðlar skipta gríðarlega miklu máli í samfélaginu. Þeir lifa eða deyja eftir afstöðu til þess sem er siðlegt og boðlegt mannlegu samfélagi.

Hverjar eru áhyggjur fólks nú á dögum? Höfum við áhyggjur af börnum okkar? Framtíðinni? Ellinni? Afkomu? Óttumst við styrjaldir? Náttúruhamfarir? Hvað óttumst við? Ég álít að skilgreining á áhyggjum Íslendingar gæti gefið okkur innsýn í sálarlíf þjóðarinnar. Einföld leit á vefnum sýnir til að mynda að Íslendingar óttast um fiskistofnanna, að jafnvægi í lífríkinu raskist, að loftslagsbreytingar verði of miklar. Þeir óttast líka vaxandi tíðni afbrota og ofbeldis, vaxandi fjölda útlendinga í landinu og nú upp á síðkastið, hrun efnahagslífsins sem líkja má við háhýsi sem margir óttast að standi á ótraustum undirstöðum. Gagnrýni af öðrum heimi

Hvað þurfum við, kristnir vesturlandabúar, að óttast? Margir óttast vaxandi áhrif islamstrúar í heiminum. Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var greint frá skoðunum islamskra kvenna á aðstæðum sínum og velferð. Þær segjast ekki kúgaðar, hafa ekkert á móti höfuðblæjunni en vilja fá fullan kosningarrétt. Þær óttast öfgamenn innan sinnar trúar, spillingu og litla einingu islamskra ríkja. En svo tjá þær sig um Vesturlönd og segja

„Helstu gallana . . . vera siðferðileg[a] úrkynjun, fjöllyndi og klám, sem væri niðurlægjandi fyrir konur.“

Eru Vesturlönd á hraðri leið til glötunar? Fer fyrir þeim eins og Rómaveldi forðum að þau molni innan frá, hrynji inn í sjálf sig, sökum siðferðilegrar hnignunar? Getur verið að burðarvirki samfélaga um allan heim sé einmitt heilbrigð siðferðisvitund? Hvernig er burðarvirkið í íslensku samfélagi? Hvernig er járnabindingin, steypan, að ekki sé talað um grunninn? Á hvaða leið er Ísland? Uppskiptin miklu

Í dag er sjómannadagurinn. Ég ólst upp við að hann væri mikill hátíðisdagur. Nær allir voru spariklæddir og gengu um götur með barmmerki í fánalitunum. Ungir menn hrifust af krafti sjómanna og létu sig dreyma um að feta í fótspor þeirra, eignast bát og hefja útgerð. Þeir gömlu góðu dagar eru horfnir, því kerfinu var breytt, auðlindin gefin fáum útvöldum. Þar með hófst uppskipting íslenskra auðlinda og eigna sem er þyrnir í augum margra Íslendinga. Við syngjum sjómannasálm hér á eftir og þar segir m.a. Föðurland vort hálft er hafið. Eruð þau orð ekki úrelt? Ritstjóri Morgunblaðsins hefur áhyggjur af uppkaupum og lésskiptingu landsins gæða, auðlinda og auðæfa ef marka má eina af forystugreinum blaðsins í liðinni viku. Athyglisverð grein.

Í stjórnmálum leika menn matador og póker á vöktum og yfir þá ná engin vökulög fremur en sjómenn í byrjun liðinnar aldar. Daga og nætur eru menn að, drifnir áfram af gróðavon og völdum. Hverjar eru áhyggjur þeirra? Að fá aldrei nóg? Að verða aldrei saddir? Ég veit það ekki en talandi um allar þessar áhyggjur þá spyr ég hvort ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af hinstu örlögum okkar? Hvað verður um okkur? Maður með réttar áhyggjur

Hann var ráðsherra, fyrirmenni, maður metorða og stórrar ábyrgðar. Nikódemus hét hann, sem merkir sigur fólksins, Sigurliði á íslensku. Hann var andvaka yfir örlögum sínum. Öll höfum við verði andvaka enda þótt við séum hvorki ráðsherrar, ráðherrar eða í æðstu stöðum samfélagsins. Lífið hlýtur að halda samvisku okkar vakandi og spyrjandi. Efinn er aflvaki þroska og framfara. Nikódemus hafði séð og heyrt til Jesú og vissi að hann hafði erindi við heiminn. Og hann ávarpar Jesú með tignarheitinu rabbí og segist vita að hann sé lærifaðir kominn frá Guði því táknin sem hann hefur gert sanni það. Og Jesús fer að tala um barnsfæðingar eins og hann sé ljósmóðir eða fæðingarlæknir og vísar til þess að menn verði að fæðast aftur. Og þá fyrst verður Nikódemus hissa. Hann verður eitt spurningamerki í framan. Þarf ég að fæðast að nýju, hugsar hann. Er eitthvað vit í þessi svari? Ég er orðinn gamall maður og get ekki fæðst aftur, segir hann. En Jesús vissi hvað hann var að fara og hann talar um nýja fæðingu fyrir vatn og anda. Og svo fer hann að tala um andann og útskýra óútkýranleika hans. Andinn er eins og vindurinn sem enginn veit hvaðan kemur eða hvert fer. Andinn kemur við þar sem honum sýnist og hann getur breytt lífi fólks. Hefur hann breytt lífi þínu? Hvernig má það verða? Þannig spurði Nikódemus. Og Jesús minnir á að fólk sem skilur ekki einu sinni það sem hann sagði um málefni þessa heims geti varla skilið orð hans um hina komandi veröld, um himininn. Hann endar svo ræðu sína í þessu guðspjalli sem við heyrðum í dag með því að vísa til höggormsins í eyðimörkinni sem hafinn var upp svo að fólk gæti litið til hans sem tákns og trúað á að Guð væri með þeim í eyðimerkurgöngunni. Á sama hátt verður Mannsonurinn upp hafinn „svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum.“ Þar vísar hann til eigin krossdauða. Krossin á kórgafli kirkjunnar er upphafið sigurtákn.

Og hér lýkur guðspjalli dagsins en það heldur áfram hjá Jóhannesi því næsta vers er ekkert annað en kjarni allrar Biblíunnar:

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“

Hér liggur gátan grafin. Hér er svarið við hinstu áhyggjum okkar allra. Við erum elskuð, við erum hólpin, í það minnsta og að svo miklu leyti sem við lifum í elskunni, í ljósinu, því Jesús endar samtal sitt við ráðsherrann með þessum orðum:

„Sá sem trúir á hann, dæmist ekki. Sá sem trúir ekki, er þegar dæmdur, því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina. En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð.“

Getum við sofið rótt? Verðum við áfram andvaka? Já, við hljótum að verða það vegna þess að haf áhyggjanna verður seint þurrkað upp og lífið er ekki kyrrstætt, það heldur stöðugt áfram og meðan við tórum er efinn að störfum. En vonandi knýr hann okkur til hans sem hefur svörin eins og hann knúði Nikódemus til Jesú um miðja nótt. Í sama sigurliði og Sigurliði

Hver verða örlög Íslands? Hver verða örlög Vesturlanda? Heimsins? Hver verað örlög okkar, mín og þín? Eitt er víst, trúin boðar okkur að lífið sé í hendi hans sem er þríeinn Guð: faðir, sonur og heilagur andi. Á þrenningarhátíð minnumst við þess að Guð er undursamlegur leyndardómur sem við skiljum aldrei til fulls en getum reynt að skilja með táknmáli og líkingum. Erlendur prédikari lýsti þrenningunni þannig: Sólin sem lýsir er tákn um Guð föður. Hún sendir geisla sína til jarðar. Geislarnir eru tákn sonarins. Áhrif þess að sólin skín og sendir geisla sína til jarðar eru ljós og ylur. Andinn lýsir og vermir.

Hverjar eru áhyggjur okkar? Hverjar eru áhyggjur heimsins? Einu áhyggjur okkar ættu að snúast um það hvort við séum í hendi Guðs eða ekki, hvort við séum að vinna verk Guðs á jörðu af heilindum og óeigingjörnum hætti. Við erum kölluð til að hafa áhrif á þenna heim, að bera hinum æðsta vitni með lífi okkar og gjörðum.

Veröldin getur ekki látið eins og engin lög séu í þessum heimi, að allt sé leyfilegt, að allt sé hægt að framkvæma undir merkjum markaðarins, neyslunnar, frelsisins. Ótakmarkað frelsi leiðir af sér helsi.

Eina von heimsins er að andi Guðs vinni sitt ljósmóðurverk á vegvilltu fólki og gefi því nýja sýn á veruleikann. Einmitt það skorti Nikódemus. Hann þurfti nýja sýn, augu hans þurftu að opnast svo hann gæti séð tilgang lífsins, innsta kjarna hans, sem er Guð í eilífri elsku.

Veröldin er ekki tilgangslaus og köld, jörðin ekki knöttur sem óræð öfl sparka á milli sín, veröldin er ekki leiksoppur óræðra afla, heldur vettvangur Guðs sem elskar og vill að við lærum að elska, elska lífið. Og það getum við einungis gert með því að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf.

Sé þetta sýn okkar þá hefur andinn blásið og unnið sitt endurnýjandi verk. Lifum í þeirri trú og vissu og þá höfum við ekkert að óttast. Þannig verður nafnið Nikódemus að yfirskrift yfir okkur. Þá verðum við það sem öll keppnislið á HM 2006 þrá innst í hjarta sér, Nikódemus, sigurlið á vegi ljóssins.