Kall eftir konu

Kall eftir konu

Það skiptir miklu máli hvernig einstaklingur situr í biskupssæti. Í umræðum um næstu biskupa hef ég gjarnan hrópað: Ég kýs konu!

kall-eftir-konu-5

Það eru tvennar biskupskosningar framundan. Margt er skrafað af því tilefni. Sumir rita greinar eða pistla. Aðrir bæta við ummælum. Einstaka gera jafnvel hvorutveggja. Það er vel því miklu máli skiptir hvernig einstaklingur situr í biskupssæti að kjöri loknu. Í ummælum við slíkar greinar hef ég gjarnan hrópað: Ég kýs konu!

Nýverið bað góður vinur mig að velja eitt hlutverk biskups sem væri öðru mikilvægara. Eftir nokkra umhugsun svaraði ég því til að þar tæki ég undir orð dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, sem skrifaði nýverið hér á trú.is að hlutverk kirkjunnar væri:

Að koma inntaki fagnaðarerindisins um Krist skýrt á framfæri í orði og verki. Það getur hún einungis gert í gegnum samræðu við samtímann, samræðu sem biskup Íslands á að hvetja til og styðja.#
Þannig vil ég sjá biskup sem á samtal við samtímann. Þarf það að vera karl? Á það að vera kona? Það má vera að það sé orðum ofaukið að Djákninn á Glerá setji orð á blað um biskupskjör, enda margt skeggrætt um þau mál í gegnum tíðina. Um karl vs. konu spurninguna skrifaði dr. Arnfríður Guðmundsdóttir hér á trú.is fyrir tæpu ári:
Í kosningum til biskups Íslands árið 1997 og vígslubiskups á Hólum árið 2003 heyrðust […] raddir sem sögðu að íslenska kirkjan væri ekki tilbúin til þess að velja konu í embætti biskups. Einnig voru einhverjir sem bentu á að kyn ætti ekki að ráða því hver yrði valinn, aðeins ætti að velja hæfasta einstaklinginn.#
Ég vil trúa því að umræðan í dag sé komin lengra. Íslenskt samfélag kallar nú konur til sífellt fleiri ábyrgðastarfa og innan kirkjunnar eru margar mjög hæfar prestvígðar konur. Þó er mjög forvitnilegt að skoða umræðuna. Flesta pistla um þetta efni hér á trú.is hefur dr. Hjalti Hugason skrifað. Í einum nýlegasta pistlinum segir hann meðal annars:
[Biskup er] sá sem öðrum fremur túlkar afstöðu kirkjunnar í ýmsum málum í samtali hennar við samfélagið. Það er þess vegna sem þjóðin hlustar á og ræðir um orð biskups t.d. á helgum og hátíðum. [...] Rödd biskups lætur […] hærra í eyrum fólks en annarra þjóna kirkjunnar.#
Hér er ég hjartanlega sammála Hjalta. Þess ber þó að geta að í þessu atriði tel ég að sé einn helsti veikleiki biskupsembættisins fólginn og mikilvægt að stefnt verði að því að hér sé þriggja manna biskupsteymi og á ég þá við teymi þriggja jafnrétthárra biskupa.* En sú umræða þarf að bíða seinni tíma, nú gildir að kjósa biskupa í núverandi kerfi. Þetta þarf ég að brýna fyrir sjálfum mér: Þegar ég kýs einstakling í embætti biskups Þjóðkirkjunnar, er ég um leið að kjósa rödd kirkjunnar.

En hvernig rödd? Ein þeirra sem einnig hafa tekið til máls er sr. Svanhildur Blöndal og þykir mér hún ná að fanga hugsanir margra um biskupskosningarnar þegar hún segir:

Ég get ekki neitað því að mér finnast það vera sterk skilaboð til samtímans að við því embætti taki kona en það á eftir að koma í ljós hvort svo verði.#
Ég er sammála Svanhildi að það eru sterk skilaboð fólgin í því hvern við kjósum til biskups. Myndin sem mun birtast í fjölmiðlum af biskupsvígslunni verða fyrstu skilaboðin. Ég viðurkenni fúslega að á slíkri mynd vil ég sjá biskupsvígðar konur, því það væri flott auglýsing fyrir kirkjuna.

En er ég að kjósa konu, bara til þess að við eigum flott PR-efni, getum birt myndir af konu sem biskupi? Nokkrum dögum áður en pistill Svanhildar birtist hafði sr. Guðrún í Grafarvogi velt þessu með kyn biskups fyrir sér. Þar sagði hún meðal annars:

Ég er ein þeirra [sem mun] heldur velja karl sem setur jafnréttismál á oddinn (feminista) en konu sem ekki mun vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla í kirkjunni.#
Fyrst þegar ég las þessi orð Guðrúnar var ég á engan hátt sammála þeim. Mín sýn var sú að mikilvægt væri fyrir börn og ungmenni þessa lands að alast upp við það að kirkjan ætti konur og karla í biskupshlutverkum. Ekki skipti öllu hvaða stefnu þau hefðu í málefnum kirkjunnar, því slík umræða snérist aðeins um áherslur, ekki um meginstefnur þar sem kosið væri úr hópi tiltölulega einsleitrar prestastéttar þar sem eiginlega allir prestar hafa numið við einu og sömu guðfræðideildina.

Það þurfti nokkuð til áður en ég náði að losa mig við þessa einfeldni. Ég átti að vita betur, en þurfti samt að setjast niður og lesa orðaskakið sem hefur farið á milli vígðra þjóna kirkjunnar á opinberum vettvangi um guðfræðileg og samfélagsleg álitamál. Að þeim lestri loknum var minni mitt ferskara og ég gat sagt með sannfæringu í röddinni við sjálfan mig: ,,Prestarnir í þjóðkirkjunni eru engan veginn einsleitur hópur.“

Nýverið ritaði svo sr. Óskar á Selfossi skemmtilegan pistil þar sem hann benti meðal annars á að:

Biskup þarf að tala skýrri röddu þegar kemur að viðfangsefnum sem snúa að jafnrétti og félagslegu réttlæti.#
Með orðum sínum ítrekaði Óskar það sem þegar hefur verið margsagt hvað jafnréttið varðar, en minna hefur borið á ákalli um að biskup láti til sín taka hvað félagslegt réttlæti varðar. Þykir mér það jú löngum hafa verið stefna þjóðkirkjunnar að gagnrýna ríkisstjórnir og sveitafélög helst ekki þegar þau standa sig ekki gagnvart þeim sem sökum félagslegrar stöðu sinnar þyrftu á frekari stuðningi að halda. Þetta orðar dr. Sigurður Árni Þórðarson mjög vel þar sem hann segir:
Jesús Kristur leysti álög og stóð alltaf með þolendum. Kirkja hans á alltaf að berjast fyrir að þau fái notið réttlætis.#
Mál er að ég setji punkt eftir þessum hugrenningum mínum um kall eftir konu í biskupsembætti. En að lokum þetta:

Hér áður fyrr kom fólk gjarnan á hestbaki til kirkju. Ef kona sat hestinn eins og allir gera í dag, þ.e. klofvega, þá var talað um að hún sæti sem karl væri, þ.e. á karlveg. Þetta átti sérstaklega við um efnaminni konur sem létu sér nægja reiðþófann (teppi úr þæfðri ull) einan sem reiðver. Auk þess að vera mjúkur og þægilegur bæði fyrir mann og dýr, má telja að helsti kostur reiðþófans hafi verið sá að ekki var úr háum söðli að detta. Í upphafi þessa pistils benti ég á að miklu máli skipti hvernig einstaklingur sæti í biskupssæti. Svar mitt er: Hann eða hún þarf að sitja eins og alþýða fólks. Við hin þurfum að læra að kalla eftir skoðunum og verklagi, ekki eftir karli eða konu. ---

* Um þrjá biskupa sýnist sitt hverjum, og umræðan þar ekki ný á nálinni eins og Hulda Guðmundsdóttir bendir réttilega á í pistli hér á trú.is fyrir réttu ári síðan. Þar segir hún m.a.: ,, Í þau rúmu 100 ár sem liðin eru frá því að lög um vígslubiskupa voru fyrst samþykkt hafa þrisvar komið fram tillögur á alþingi, en mun oftar á kirkjuþingi, um breytingu á biskupsdæmi Íslands. Yfirleitt hafa tillögurnar hnigið að því að biskupsdæmin yrðu þrjú og biskupar þrír með fullu biskupsvaldi (árin 1958, 1964, 1966, 1982 og 1984).”# Sl. haust skrifaði sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson svo: ,, Það er fagur draumur að hér verði þrír sjálfstæðir biskupar en ekkert hefur enn sýnt okkur hvernig hann eigi að komast niður úr skýjunum á plan veruleikans...”# Í pistli frá svipuðum tíma gekk Hjalti Hugason lengra og spurði: ,, hvort ekki megi spara í yfirstjórn þjóðkirkjunnar með því að fækka biskupum hennar um tvo.”# Þessi umræða kemur semsagt alltaf öðru hvoru upp á yfirborðið. Þannig ítrekaði dr. Pétur Pétursson afstöðu sína í þessu máli haustið 2008, en þar sagði hann m.a. telja nauðsynlegt: ,, að styrkja stöðu biskupafundar og fá biskupunum á Hólum og í Skálholti eiginleg biskupsdæmi.”#