Lifandi kirkja

Lifandi kirkja

Lifandi kirkja er þess vegna aldrei og á aldrei að vera kyrrstæð, hún fylgir andanum sem blæs þar sem hann vill og söfnuðurinn heyrir þyt hans, án þess að vita hvaðan hann kemur eða hvert hann fer.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
20. nóvember 2011
Flokkar

Ég vil byrja á því að óska ykkur, kæri söfnuður Akureyrarkirkju, til hamingju með kirkjuna ykkar, sem hefur þjónað söfnuðnum núna samfleytt í 71 ár. Það er mörg minningin sem þetta fallega guðshús geymir, minningar um þjónustu við fólk sem hefur komið til kirkjunnar ár eftir ár til að leita huggunar, vonar og trúar á mikilvægum og stórum stundum í lífi sínu. Þessi kirkja iðar af lífi dag frá degi, hér hljómar barnahlátur í bland við fallega flutta tónlist. Hér heyrast reglulega hlaup og ærslagangur í unglingum í æskulýðsstarfinu, en einnig má finna hér kyrrð og frið og jafnvel ilm af reykelsi, þegar fólk kemur til kirkjunnar til að bera fram fyrirbænarefni sín frammi fyrir Guði.

Það er stórkostlegt að fá að vera hluti af kirkju sem lifir á þennan hátt og finna starfið vaxa og dafna og gleðina sem hér ríkir, þrátt fyrir að sorgin eigi sinn vettvang hér innandyra á sama hátt og gleðin. Þær systur eru víst óaðskiljanlegar, sorgin og gleðin og marka líf okkar allra á einhvern hátt.

Það er hlutverk kirkjunnnar að horfa fram á við, horfa á lífið og vonina og miðla áfram þeim boðskap að lífið muni alltaf sækja fram, þó að um stundarsakir allt geti virst vonlaust. Kirkjan miðlar stöðugri hreyfingu, hún lifir og hrærist á meðal fólks og þegar við erum trú því hlutverki, boðum við sannan gleði- og vonarboðskap.

Það er við hæfi á Kirkjudegi sem er jafnframt síðasti dagur kirkjuársins en næsta sunnudag hefst nýtt kirkjuár, þegar aðventan gengur í garð, að íhuga hlutverk kirkjunnar gagnvart söfnuði sínum. Gamlársdagur kirkjunnar er í dag og eins og svo oft á áramótum er gott að líta til baka og skoða hvort að við séum á réttri leið í lífinu, hvort að það sé eitthvað sem við getum gert betur eða styrkt það enn frekar sem við gerum vel.

Kirkjan er ekki undanþegin þessari sjálfskoðun, kirkjuna getur rekið langt af leið og stundum þarf að endurstilla kompásinn og koma henni á réttan kjöl á ný. Kirkjan kann að virðast full af lífi en það er ekki víst að hún miðli því lífi samkvæmt raunverulegum skilningi þess orðs.

Hún getur verið lifandi dáin, en það gerist þegar hún hefur hætt að reyna, hefur staðnað, finnur ekki til lengur með náunganum, orðin ónæm fyrir óréttlæti og erfiðum aðstæðum fólks. Þegar samúðin og samlíðanin hverfa, þá er hjartað dáið. Hjarta kirkjunnar verður að slá í takt við fólkið sem til hennar sækir. Hjartað verður að skynja og skilja ólíkar þarfir og átta sig á því að grundvallarboðunin snýr að veruleika sem er einn og óskiptur og allir, sama hvaðan þeir koma eiga aðild að þeim veruleika. Við getum ekki steypt allar manneskjur í sama mót og gert ráð fyrir að við séum öll eins.

Fjölbreytileikinn liggur þétt upp við hjarta kirkjunnar og skilaboð Jesú eru þau að hann sé að finna meðal þeirra sem lifa á jaðri samfélagsins, ekki vegna þess að það fólk sé réttlátara en annað fólk, heldur vegna þess að sem hópur, hjálpa þau okkur að sjá og finna þegar réttlætið nær fram að ganga og allir eru teknir með.

Jesús leggur fyrir okkur þetta hlutverk kirkjunnar í guðspjöllunum, þau eru leiðarvísir að því hvernig við mótum kirkju sem er sönn og trúverðug. Allt hans líf er vegur að sannleikanum og því lífi sem okkur er ætlað að lifa og öðlast ef við erum tilbúin að heyra raust hans, trúa honum og fylgja honum.

Lifandi kirkja er aldrei kyrrstæð, hún nemur aldrei staðar, fullviss um að hún hafi endanlega komist að sannleikanum. Lifandi kirkja byggir aldrei tilvist sína á valdakerfum, þar sem ákveðnir einstaklingar njóta forréttinda umfram aðra. Manneskjur í forréttindastöðum geta ekki leyst ágreining ef til hans kemur, nema með því að gefa eftir eða deila valdi. Gefa eftir hluta af sínum forréttindum til að samfélagið verði heilt.

Samfélag kirkjunnar verður aldrei byggt upp á þeirri kröfu að við verðum öll eins, heldur á því að við erum öll ólík. Það er ekki kynþátturinn, kynið, aldurinn eða kynhneigðin sem aðgreinir okkur heldur afneitun okkar á því að gangast við þessum fjölbreytileika og afleiðingar þeirrar afneitunar á það fólk sem fyrir henni verður.

Kirkjan verður aldrei byggð upp á grundvelli stjórnmála eða valdakerfa. Ef hún byggir líf sitt á þeim grunni, visnar hún og deyr, af því að eðli hennar er ekki valdbeiting, heldur er hún lífgefandi. Hún er oss kristnum móðir, af því að hún gefur okkur líf sem til hennar koma. Hún nærir okkur líkt og móðir nærir hvítvoðung sinn fyrstu mánuði ævinnar og hún umlykur veru okkar alla. Kærleikur hennar er umvefjandi, mildur og blíður. Hún lítur til okkar með ástaraugum, án allrar dómhörku. Eðli hennar er ekki að dæma, heldur fyrirgefa, ekki að hata heldur elska, ekki að reka frá, heldur laða að.

Lifandi, brennandi kærleikur getur aldrei rúmast í fyrirframgefnu móti, skoðana og kenninga. Það er eðli hans að leita út fyrir sig og halda áfram. Þegar stöðnun ríkir höfum við gerst sek um að ramma kærleikann inn í fastmótaða kenningu, gert hann raddlausan og þar með komið á kyrrstöðu í boðun sem í upphafi var á sífelldri hreyfingu.

Lifandi kirkja er þess vegna aldrei og á aldrei að vera kyrrstæð, hún fylgir andanum sem blæs þar sem hann vill og söfnuðurinn heyrir þyt hans, án þess að vita hvaðan hann kemur eða hvert hann fer.

Hlutverk safnaðarins er að hlusta, halda vöku sinni og vera tilbúinn til að fylgja andanum á ferð sinni í gegnum mannlega tilvist. Það er ekki hlutverk safnaðarins að reyna að fanga andann og loka hann inni til varðveislu líkt og safngrip í glerkassa á þjóðminjasafni. Andinn er ekki til minningar um það sem var, hann er til staðar og leitar þess sem er og verður, hann er brennandi og hann beinir okkur áfram til lífsins, sem vonar, elskar og sigrar allt.

Hlutverk okkar sem kristins fólks er að elta andann óhrædd. Það er fyrir marga ekki auðvelt verkefni, af því að lífið markar okkur öll á einhvern hátt. Við eigum öll okkar styrkleika og veikleika. Stundum í lífinu erum við sterk, á öðrum tímum getum við verið veik. Að hafa óbilandi trú í gegnum allt, sama hvað bjátar á er verkefni sem getur tekið allt lífið að þróast, vaxa og dafna. Stundum tekst það ekki, en öllu skiptir er að hafa reynt. Það er ekkert óeðlilegt við það að upp komi tímar þar sem við efumst um allt og alla og þar er trúin og kirkjan ekki undanskilin.

Ljóðskáldið Aðalsteinn Ásberg yrkir svo í ljóðabók sinni Hjartaborg:

Hvernig get ég verið sannfærður, Alla daga, allar nætur Um að þú sért upprisinn Munað orð þín á krossinum Skilið merkinguna til fulls.

Ég geng fram hjá tómri gröfinni Og undrast manna mest

Í sömu andrá ertu kominn Máttug hönd þín á herðum mér Og þótt ég sjái þig ekki berum augum Koma orðin óhikað fram á varir mínar „Herra, þú hefur aldrei yfirgefið mig“.

Efinn er fylgifiskur trúarinnar, það er mannlegt að efast og í raun ekkert auðveldara í nútímasamfélagi en að efast, þegar öll spjót beinast að þeim sem trúa.

Á tímamótum sem þessum, þegar við erum að skilja við enn eitt kirkjuárið og um leið við tökum á móti jólaföstunni með allan sinn vonarboðskap, birtu og yl, er gott að íhuga sína trú og stöðu sína gagnvart þeirri kirkju sem þú tilheyrir. Þú getur fundið sjálfur hvað það merkir fyrir þig að vera lærisveinn Jesú. Hvernig þú fylgir kalli hans best. Sameinast þú Jesú í áhyggjum hans af fátækt og óréttlæti og leitastu við að taka þátt í því verkefni að gera alla hluti heila. Hvernig þjónar þú þínum söfnuði best. Höfum í huga að erindi kirkjunnar getur aldrei verið einkamál af því að það er eðli þess boðskapar sem henni hefur verið falinn að leita út á við og dreifa sér sem víðast. Allar tilraunir til að ýta kirkjunni út af opinberu sviði mannlegs lífs eru því dæmdar til að mistakast.

Kirkjan er ein tegund mannlegs samfélags og lifir í veruleikanum sem slík en hún verður að vera trúverðug og lifa í ljósi þess réttlætisboðskapar sem hún er grundvölluð á. Réttlæti sem reisir við og gerir alla hluti nýja. Það er hlutverk okkar allra að viðhalda þessum anda, við getum öll haft áhrif og hvert og eitt okkar skiptir máli í því verkefni sem kirkjunni hefur verið falið, að miðla og boða líf sem heldur áfram út yfir gröf og dauða.

Við skulum því halda fast í þá góðu tilfinningu sem við finnum saman hér í dag, þegar við fögnum og gleðjumst með kirkjunni okkar, Akureyrarkirkju. Samkenndin er máttug og þegar við finnum hana og styrkjum er ekkert dýrmætara. Megi kirkjan ykkar vera það skjól sem þið þurfið og hún miðla ykkur þeim lífsboðskap sem henni hefur verið falinn. Megi hún aldrei staðna heldur vera á sífelldri hreyfingu, með brennandi hjarta sem slær í takt við þann söfnuð sem til hennar leitar. Megi gleðin, söngurinn, lífsandinn, kærleikurinn og huggunin fylgja starfi Akureyrarkirkju áfram og vera sýnilegt söfnuðnum öllum, til heilla og blessunar. Þetta er ykkar kirkja, ykkar klettur en án ykkar væri kirkjan ekki það sem hún er. Hún lifir af því að söfnuðurinn er ekki kyrrstæður heldur á sífelldri hreyfingu á eftir andnum sem blæs þar sem hann vill, en við vitum ekki hvaðan hann kemur eða hvert hann fer en:

Í sömu andrá er hann kominn Máttug hönd hans á herðum mér Og þótt ég sjái hann ekki berum augum Koma orðin óhikað fram á varir mínar „Herra, þú hefur aldrei yfirgefið mig“.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir, alda, Amen!