Bjarga þú!

Bjarga þú!

Þetta merkir það að í baráttunni gegn hinu illa notar Guð vald kærleikans. Það getur virst sem vanmáttur, vöntun og andstæða alls sem við venjulega köllum vald. Þó hefur það reynst vera öflugra en annað það sem kallast vald í veröldinni.

Matt 14.22-33

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen.

Þær földu sig í tunnum og kössum í hestvagninum, nunnurnar 12 sem flúðu frá klaustrinu í Nimbschen í Þýskalandi aðfaranótt páska árið 1523. Í dag er afmælisdagur einnar þeirra, Katarínu sem síðar giftist munknum og siðbótarmanninum Marteini Lúther. Þessi afmælisdagur hennar markar upphaf hátíðarhalda hér á landi er standa munu yfir allt þetta ár vegna 5 alda minningar siðbótar Lúthers.

Lítið hefur verið fjallað um konur í sambandi við siðbótina en á síðustu árum hefur áhugi vaknað á að rannsaka þann þátt. Katarína hefur verið nefnd formóðir allra prestsfrúa, en eiginkonur presta í lúterskri kirkju hafa gegnt mikilvægu hlutverki í sögu kirkjunnar. Á prestsheimilunum voru rekin mennta- og menningarsetur um aldir, sérstaklega áður en þéttbýli fór að myndast og skólaskylda komst á.

Það hefur komið fyrrum nunninni vel að hafa lært ýmislegt gagnlegt í klaustrinu sem hún dvaldi í frá barnæsku. Heimili Lúthersfjölskyldunnar var mannmargt, börn þeirra og fósturbörn, stúdentar og fræðimenn sem þyrsti í fróðleik frá húsbóndanum. Hér var nýlunda á ferð því prestar, munkar og nunnur höfðu ekki stofnað til hjónabands fyrr. Eflaust hefur hlutverkaskipan samtímans ráðið miklu um verkaskiptingu á þessu heimili eins og annars staðar. Þó má finna heimildir um það að manninum hafi einnig verið falið það hlutverk að „skipta um bleyjur á börnunum og sinna þeim og öðru á allan hátt ef svo ber undir — og vera stoltur af. Nágrannarnir kunni kannski að hafa gaman af því að horfa á húsbóndann hengja út bleyjur: „Látum þá hlæja" segir Lúther.

Lúther lagði mikla áherslu á að almenningur gæti lesi orð Guðs á sínu tungumáli og þýddi Biblíuna á þýsku eins og kunnugt er. Sú þýðing hafði mikil áhrif á þýska tungu og þróun hennar eins og þýðing Biblíunnar á íslenska tungu hafði hér á landi.

Í dag hefur verið lesið úr nýjustu þýðingu Biblíunnar sem kom út á því herrans ári 2007. Guðspjallið segir frá merkilegu atviki sem átti sér stað á Galileuvatni þar sem lærisveinarnir voru í báti. Jesús fór að biðjast fyrir í einrúmi og kom að því loknu gangandi á vatninu til félaga sinna. Lærisveinarnir urðu hræddir þegar þeir sáu hann koma en hann sagði við þá: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“ Kunnuglegt stef um að við þurfum ekki að hræðast. Í síðari hluta guðspjallsins gekk Pétur lærisveinn á vatninu en sökk þegar hræðslan bugaði hann og hann hrópaði: „Drottinn, bjarga þú mér!“ Í lok guðspjallsins er trúarjátning lærisveinanna: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“

Þetta er ekki eina frásagan í guðspjöllunum sem segir frá hræddum lærisveinum á úfnu vatni. Lærisveinum sem binda vonir við meistara sinn sem þarna hefur máttinn til að ganga á vatninu. Vonin er það síðasta sem yfirgefur okkur. Vonin lýsir trúnni og traustinu sem býr innra með okkur. Vatnið kemur líka oft við sögu í Biblíunni. Oftar en ekki er það tákn um mátt óreiðunnar. Þegar Jesús gengur á vatninu er óreiðunni haldið í skefjum. Hann hefur máttinn til þess. Hann getur komið reglu á óregluna. Hann getur ráðið við það sem flækir og ruglar líf okkar.

Pétur er tákn okkar allra. Hann verður hræddur og vanmáttugur. Það er skiljanlegt í þeim sérstöku aðstæðum sem hann er í. Hann er eins og fleiri, vill fá sannanir fyrir hlutunum, vill skilja og reyna. Hann fer að efast um eigin getu til að ganga á vatninu og er við það að sökkva þegar Jesús réttir honum höndina. Þetta er þekkt í heimi mannanna. Trúin er veik, efinn sækir á, vonin dofnar og traustið þverr, þá hverfur hugrekkið.

Útrétt hönd Jesú er sterk mynd sem sýnir okkur hvað trú er. Það er gott að finna útrétta hjálparhönd á lífsins leið en útrétt hönd frelsarans er líka mikilvæg.

Undanfarna daga hefur þjóðin rétt út hendur sínar og þreifað í sorg sinni eftir upplýsingum og huggun vegna hins hörmulega hvarfs og dauða Birnu Brjánsdóttur. Harmur foreldra hennar, bróður, fjölskyldu og vina er þó mestur. Við samhryggjumst þeim og biðjum Guð að vitja þeirra og gefa þeim styrk og huggun. Hendur okkar eru framlengdur armur Guðs hér í heimi, hans verkfæri til að minna okkur á trúnna, vonina og kærleikann sem hann gefur og á að verka í lífi okkar.

Þeir voru á báti lærisveinarnir í guðspjallinu. Undanfarnar vikur hafa starfsbræður þeirra og systur ekki stýrt sínum fleyum á haf út. Verkfall sjómanna hefur staðið um langa hríð. Fiskvinnslufólk í landi hefur ekki vinnu af þeim sökum. Umsvif ýmissa fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn hafa minnkað. Verkfall einnar stéttar hefur mikil áhrif á þjóðfélagið allt. Það fer ekki sögum af því að fiskimennirnir sem kallaðir voru í upphafi til að veiða menn færu í verkfall en víst er að meistari þeirra hvatti til réttlætis og jafnréttis í öllum stéttum. Megi verkfallið leysast farsællega fyrir báða aðila, sjómenn og viðsemjendur þeirra og það sem fyrst. Jesús gekk á vatninu og bauð Pétri að gera slíkt hið sama. Munurinn á þeim var þó sá að Pétur tók að sökkva þegar hann fór að efast um getu sína og hræðsla yfirtók huga hans. „Sannarlega ert þú sonur Guðs“ sögðu lærisveinarnir um Jesú. Margir hafa spurt í gegnum aldirnar hver er Jesús, hver er Guð, hvernig er Guð, hvað er Guð. Guðsmynd manna mótast mjög af þeim fyrirmyndum sem við höfum í lífinu. Í rannsókn kom fram að þær myndir sem fólkið sem rætt var við dróg upp af Guði áttu sér allar fyrirmyndir í fólkinu sem þau ólust upp með. Af foreldrum og nánustu fjölskyldumeðlimum birtist mynd af ljúfri persónu Guðs, sem var kærleiksríkur Guð á himnum og góður. Og hin heilaga þrenning átti sér einnig jarðneskar fyrirmyndir í fjölskyldunni. Sá Guð sem er yfir og allt um kring á sér samfélagslegar fyrirmyndir í samferðamönnunum. Þau sem höfðu sótt sunnudagaskóla sáu Guð fyrir sér í persónu Jesú, sem þau kynntust í gegnum Biblíusögurnar.

Oft er spurt um Guð hvort hann geti verið almáttugur því heimurinn er fullur af illsku og því sem meiðir og deyðir. Þegar sagt er að Guð sé almáttugur þá er ekki átt við að Guð geti allt. Guð getur ekki látið 2 + 2 verða 7. Guð getur ekki látið rangt verða rétt. Guð er heldur ekki stórveldi sem neytir aflsmunar. Guð gaf manninum frelsi til að velja og hafna og þvingar ekki manninn til að hlýða sér. Þess í stað notar Guð vald kærleikans. Það sjáum við greinilegast þegar við mætum Jesú sem sýnir okkur Guð. Hann hafnar því valdi sem þeir sem vilja ráða á jörðinni keppast um. Hann sér í gegnum það og bendir á að ríki hans er ekki af þessum heimi. Guð afhjúpaði vald sitt á Golgata. Þegar Jesús var negldur á krossinn sögðu menn við hann: „Ef þú ert sonur Guðs stíðgðu þá niður af krossinum!“

En Jesús sýndi ekki vald Guðs á þann hátt. Hann gerði það á annan hátt. Hann fyrirgaf: „Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra!“ sagði hann á krossinum.

Þarna birtist annars konar vald. Þjáður og píndur maður sýndi þarna fram á vald kærleikans. Hann greip ekki til hatursins og hóf að formæla böðlum sínum. Þess í stað fyrirgaf hann þeim.

Þetta merkir það að í baráttunni gegn hinu illa notar Guð vald kærleikans. Það getur virst sem vanmáttur, vöntun og andstæða alls sem við venjulega köllum vald. Þó hefur það reynst vera öflugra en annað það sem kallast vald í veröldinni.

Undanfarna daga höfum við fylgst með valdsins mönnum, þeim sem halda uppi lögum og reglu í þessu landi. Lögreglan hefur gengið fram í því valdi sem hún hefur og á að hafa til að rannsaka mál. En fyrst og fremst hefur lögreglan gengið fram í valdi kærleikans og sýnt okkur öllum að hún vinnur með okkur og fyrir okkur. Grímur Grímsson og félagar hafa aukið traust okkar á lögreglunni og fyrir það og alla þeirra vinnu og framgöngu ber að þakka.

Lúther sat löngum stundum og rannsakaði Ritninguna. Þar fann hann svörin við spurningu sínum um Guð, trúna og lífið. Við hlið hans stóð afmælisbarn dagsins Katarína sem þekkti vel þá blessuðu bók, sem geymir sögurnar um Guð og mann og heim. Megi minningarárið 2017 um siðbót Lúthers gefa okkur hugrekki, kjark og vit til að bæta kirkju okkar og samfélag, Guði til dýrðar og okkur til farsældar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.