Við jötuna

Við jötuna

Við megum sitja við jötuna, horfa á barnið Jesú, dást að því, hverfa inn í þann heim sem það mótar. Hann hefur áhrif á sögu mannkyns og sögu okkar. Við skulum leyfa ljósinu hans að lýsa okkur og móta okkur og samfélag okkar.

„En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.“ Lúk 2.1-14

Biðjum með orðum Guðmundar Guðmundssonar skólaskálds:

Ó, gef mér barnsins glaða jólahug, við geisla ljósadýrðar vært er sofnar. Þá hefur sál mín sig til þín á flug, og sérhvert ský á himni mínum rofnar. Amen.

Við sitjum við vöggu nýfædds barns. Horfum á það, dáumst að þessu lífi sem hefur fetað dimman fæðingarveginn inn í ljós lífsins og heimsins. Við virðum það fyrir okkur, hugsum um framtíð þess, hlustum á andardrátt þess og horfum á litla brjóstkassann lyftast upp með reglulegu millibili í takt við andardráttinn. Lífið sem hefur þroskast og dafnað í móðurkviði er nú tilbúið til að fæðast í þennan heim, sem er í senn fullur af kærleika og grimmd. Foreldrarnir geta tekið undir spádómsorð Jesaja: „Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn“. Orðin, sem rifjuð eru upp á jóladag í hinu undurfagra hátíðartóni séra Bjarna Þorsteinssonar.

Í kvöld höldum við hátíð vegna fæðingar drengsins hennar Maríu. Við fæðingu hans voru ekki send smáskilaboð með farsímanum, eða á fésbókinni, eða hringt til að láta vita af fæðingu hans. Fréttin um hana barst með einstæðum hætti. Hún barst ekki fyrst til fjölskyldunnar heldur hirða sem gættu hjarðar á Betlehemsvöllum. Boðin bárust frá himnum, á dimmri nóttu og allt varð skínandi bjart. Engillinn flutti gleðiboðskap. „Yður er í dag frelsari fæddur“ Þeim, fátækum hirðunum, sem ekki voru mikils metnir í samfélagi mannanna, bárust boðin fyrst af öllum. Þeir voru valdir fyrstu gestirnir á fæðingardeildinni til að sjá barnið sem borið var. Fæðingardeildin var reyndar ekki hvítmáluð og sótthreinsuð heldur gripahús. Þegar hirðarnir komu þar inn og litu í jötuna, vöggu barnsins, fundur þeir bæði Guð og mann.

Við þekkjum þessa sögu sem Lúkas læknir skráði á myndrænan hátt og tengdi veraldarsögunni, þegar Ágústus var keisari og Kýreníus landstjóri á Sýrlandi. Söguna sem sögð er um allan hinn kristna heim á þessum jólum eins og öðrum. Boðskapinn sem ætlaður er öllum mönnum í öllum löndum. Þér er frelsari fæddur. Barnið er þitt. Barnið hennar Maríu er líka þitt. Okkar allra.

Þetta er boðskapur jólanna. „Yður er í dag frelsari fæddur“. Líf og daglegir hagir breytast þegar lítið barn bætist í fjölskylduna. Á sama hátt breytir barnið hennar Maríu, Jesús, Guðs sonurinn, lífi þeirra er gera hann að sínu barni. Þannig fæðist hann okkur og breytir sýn okkar á lífið og tilveruna. Jesúbarnsins beið mikið hlutverk. Hann kom í heiminn til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn og láta þjáða lausa. Hann, boðskapur hans og líf umbreytir og bætir. Sendir ljós inn í dimman heim og tilveru, vinnur gegn óréttlæti og bendir okkur á friðarveg. Hann bendir okkur á möguleika þegar við erum ráðþrota. Á leiðir þegar við erum villt vegar. Hann bendir á leið kærleikans og vonarinnar þegar myrkur og hatur setjast að í sál okkar eða umhverfi.

Á jólum er okkur fluttur gleðiboðskapur. Gleði engilsins var mikil þegar hann flutt hirðunum boðin. Englakór tók undir gleðina og lofaði Guð eins og við gerum í kirkjum landsins á jólum sem endranær. Söngur og önnur tónlist er ómissandi þáttur á gleðistundum. „Kirkjan ómar öll“ orti Stefán frá Hvítadal og við syngjum á helgri hátíð við lag Sigvalda Kaldalóns. Gleðin er okkar. Guð gefi að við finnum hana í okkur og lífi okkar, því hin sanna gleði kemur innan frá eins og trúin. Trúna á barnið Jesú, hinn upprisna Jesú og frelsara okkar megum við meðtaka og leyfa henni að búa í hjörtum okkar. Gjafir jólanna eru tákn þeirrar gjafar er okkur er gefin í barninu Jesú og í trúnni á hann. Við höfum tekið upp jólagjafirnar í kvöld og séð innihaldið í pökkunum og skynjað þann góða hug er býr að baki þeim. Á sama hátt megum við taka við hinni einu sönnu jólagjöf, barninu Jesú, leggja hann við brjóst okkar og faðma. Finna fyrir návist hans og vita að héðan í frá verður allt breytt. Þegar við tökum á móti barninu finnum við ylinn og lífið og gleðina yfir því að barn er í heiminn borið.

Við erum ekki öll stödd á sama stað á lífsins vegi. Vegurinn getur verið beinn og breiður, sléttur eða holóttur og blautur. En hvar svo sem við erum stödd á lífsins leið megum við vera þess fullviss að frelsarinn gengur með okkur, leiðir okkur, varðar veginn og lýsir okkur leið. Þau báru ljósið inn í salinn litlu börnin af Fífuborg á jólafundi Korpúlfa í Grafarvogi nýverið um leið og þau sungu um jólin. Með rauðu húfurnar á höfðinu gengu þau upp á pallinn þar sem kór eldri borgara beið þeirra líka með rauðar húfur. Þau sungu saman, kynslóðirnar tvær um jólin og færðu þau inn í hjörtu okkar og huga. Áhuginn og gleðin skein úr augum þeirra allra.

„Yður er í dag frelsari fæddur“. Guðs sonurinn er í heiminn borinn. Drottinn er hjá okkur. „Hann, sem er mér allar stundir nærri, á við hverjum vanda svar og ráð“ er kominn í þennan heim til að frelsa okkur frá því er eyðir og deyðir til þess sem lýsir og vermir. Til þess sem við þráum og leitum. Frá óra í sál og heimi til innri friðar og sáttar. Hann hjálpar okkur að halda í vonina, vonina um betra líf, vonina um betri heim, vonina um öryggi, frið og tilgangsríkt líf. Því að sá Guð er kom til okkar í barninu Jesú er með okkur í dag og alla daga og máttur hans er að verki í veröld okkar. Í því felst hin kristna von.

Við þurfum svo sannarlega á boðskap vonarinnar að halda í fallvöltum heimi. Heimi sem býr ekki alltaf við réttlæti og frið. Heimi þar sem ójöfnuður ríkir og ofbeldi viðgengst. Margar spurningar koma upp í huga okkar sem við fáum ekki alltaf svör við.

Hvers vegna er til dæmis fólk tilbúið til að berjast fyrir málstað eða frelsi eða að láta lífið fyrir málstaðinn? Hvers vegna ríkir ófriður í heiminum? Óréttlæti er sennilega orsök hvers kyns ófriðar og þess vegna eru svona margir tilbúnir til að berjast gegn því, jafnvel með ofbeldisfullum ráðum. Það eru mörg orðin sem koma fyrir í jólaboðskapnum og í kristinni trú, sem eru hlaðin djúpri merkingu. Miklu dýpri en við skynjum dags daglega. Friður er eitt, réttlæti annað, fyrirgefning og kærleikur koma einnig við sögu. Og við eigum erfitt með að skilja þessi hugtök oft á tíðum. Til dæmis kærleikann, því stundum virðist okkur hann birtast í andstæðu sinni.

Við skiljum ekki alltaf kærleikann sem býr handan við hornið eða jafnvel fyrir framan okkur. Guð kom í þennan heim til að við mættum njóta hans og þess kærleika sem hann stendur fyrir. Sá kærleikur leitar ekki síns eigin og fellur aldrei úr gildi. Jólin eru oft nefnd hátíð ljóss og friðar og jafnvel þar sem styrjaldir hafa geisað hefur verið gert hlé á árásum og ofbeldi á sjálfan jóladaginn.

En mitt í þessum ófriði og óréttlæti, hatri, myrkri og ótta er ástandið truflað með ofsabirtu, orðum og söng. Fátækir hirðar, sem sitja í náttmyrkrinu sjá mikið ljós, heyra himnesk boð og englasöng. Þegar ég var lítil hélt ég að englasöngurinn væri eins og hátíðartónið hans sr. Bjarna Þorsteinssonar, sem ævinlega er sungið á hátíðum í flestum kirkjum landsins. Það er svo undurfallegt og við skulum því njóta þess að hlusta á það hér í kvöld og syngja það með kórnum eða í hljóði og gerast beinir þátttakendur í þeim englakór, sem flutti boðin himnesku í þennan heim um fæðingu frelsarans. Þannig fá þeir mæst heimarnir tveir, okkar og Guðs og sameinast í hjarta okkar, sem lifum hér í heimi en þiggjum allar bestu gjafir þessa lífs frá þeim heimi sem Guð ræður ríkjum. Því Guð er með okkur, Immanúel, Guð með oss. Hann er kominn í þennan heim, lifir hér og elskar okkur meira en nokkur mannlegur máttur getur elskað. Hann hafnar okkur aldrei, jafnvel þó við höfnum honum og hann gleymir okkur aldrei, jafnvel þó við gleymum honum. Hann mætir okkur hverju og einu í okkar aðstæðum. Hann mætir þeim sem hafa næga atvinnu, þeim sem hafa enga atvinnu, þeim sem velta fyrir sér framtíðinni, þeim sem þakka fyrir líf sitt og lán, þeim sem hafa brotið allar brýr að baki sér, þeim sem hafa misst og syrgja. Við megum öll koma til hans, heyra boðskap engilsins, heyra hinar himnesku hirðsveitir lofa Guð og boða frið. Þann frið sem er æðri öllum skilningi og lætur okkur finna jafnvægi á öllum sviðum lífs okkar og tilveru.

Við megum sitja við jötuna, horfa á barnið Jesú, dást að því, hverfa inn í þann heim sem það mótar. Hann hefur áhrif á sögu mannkyns og sögu okkar. Við skulum leyfa ljósinu hans að lýsa okkur og móta okkur og samfélag okkar. Megi boðskapur hans halda áfram að heyrast og vera meðtekinn. Megi söngur hinna himnesku herskara óma og verða að veruleika í lífi okkar og samfélagi. „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum“. Sameinumst um hið heilaga, gleðjumst og fögnum komu frelsarans því að „yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs“.

Gleðileg jól í Jesú nafni.