Söfnum minningum um jólin

Söfnum minningum um jólin

Manstu þegar við krakkarnir vorum lítil og við bökuðum saman smákökur og ég var alltaf að stelast til að borða deigið? Manstu þegar við vorum saman að skreyta jólatréð og það vantaði eina peru og við vorum allt kvöldið að finna út úr því hvaða pera það var sem var biluð?
fullname - andlitsmynd Sjöfn Mueller Þór
13. desember 2005
Flokkar

Það er komin aðventa enn á ný. Það er kominn tími til að taka til, þrífa, baka og skreyta. Við gerum eins mikið og tími er til, við þeysumst suður í búðir, við kaupum gjafir og allt það sem nauðsynlegt er að eiga fyrir jólin. Þessu stússi okkar fylgir jafnan stress og áhyggjur.

Náum við að gera allt sem gera þarf? Höfum við nægan tíma, eigum við fyrir þessu öllu saman. Og svo eru það jólakortin, úff, næst þetta allt saman. Börnin eru byrjuð að spyrja hvort ekki eigi að fara að skreyta heimilið. En til þess að geta skreytt, þarf að þrífa og til þess að geta þrifið þarf að taka til og til þess að geta tekið til þarf tíma.

Það er ekkert gaman að undirbúa jólin ef það er gert í stressi. Og það er ekkert gaman að gefa gjafir ef það veldur áhyggjum. Það er erfitt að finna gjafir sem okkur finnst passa fyrir þau sem okkkur þykir vænt um í samfélagi þar sem allir eiga allt. Og það er erfitt að finna tíma til þess að búa til jólagjafir í samfélagi þar sem fólk vinnur 50 stunda vinnuviku. Jólagjafirnar geta því orðið stórt vandamál sem okkur getur þótt erfitt að leysa.

Þegar þannig er komið fyrir okkur að okkur finnst jólagjafirnar vandamál, er gott að muna eftir því að fallegustu gjafirnar sem við gefum eru þær sem koma frá hjartanu. Það skiptir ekki máli hvernig þær líta út og hvað þær kosta, heldur skiptir máli að gjöfin sé gefin í gleði og einlægni. Það er ekkert gaman að taka á móti gjöf ef maður veit að gjöfin olli áhyggjum og vandræðum. Sælla er að gefa en þiggja, er líka máltæki sem vert er að hafa í huga. Ef staðan er orðin sú að það er ekkert gaman að gefa, þá verðum við að endurskoða málin alvarlega.

Mitt í öllum þessum áhyggjum eru svo börnin okkar. Þau finna líka fyrir áhyggjum. Þau vita oft betur en okkur grunar hvernig okkur hinum fullorðnu líður. Þau hafa áhyggjur ef við höfum áhyggjur. Þau hafa jafnvel áhyggjur af hlutum sem okkur grunar ekki að þau hafi. Til dæmis er ekkert óalgengt að þau hafi áhyggjur af því að það sé ekki til peningur fyrir mat eða gjöfum. Mikilvægasta gjöfin sem við gefum börnunum er tími. Við þurfum ef til vill að fórna einhverju til þess að geta gefið þeim tíma en með því að gefa þeim tíma erum við að búa til eitthvað sem er svo dýrmætt fyrir okkur. Við erum að búa til minningar. Ekkert í heiminum er dýrmætara en góðar minningar. Við getum eignast alls kyns dót og drasl, keypt okkur allt sem okkur langar í fyrir peninga en ein minning af góðri stund með þeim sem okkur þykir vænt um er dýrmætari en allt sem peningar geta keypt.

Manstu þegar við krakkarnir vorum lítil og við bökuðum saman smákökur og ég var alltaf að stelast til að borða deigið? Manstu þegar við vorum saman að skreyta jólatréð og það vantaði eina peru og við vorum allt kvöldið að finna út úr því hvaða pera það var sem var biluð? Manstu þegar við vorum búin að þrífa allt og skreyta og þá kom hundurinn inn blautur á fótunum og við þurftum að skúra allt aftur. Manstu eftir því þegar við föndruðum jólasveina saman? Bestu minningarnar eru af einhverju sem við gerðum fyrir jólin með þeim sem okkur þykir vænst um.

Við skulum safna eins mörgum góðum minningum og við getum á þessari aðventu og á þessum jólum. Þessar minningar munu svo lifa áfram með börnunum okkar þegar þau halda sín jól, ef til vill munu þau læra það af okkur að taka sér tíma með sínum börnum og búa þanning til fleiri góðar minningar um aðventuna og jólin.

Við verðum að hlúa að börnunum og fjölskyldunni nú á þessum tíma. Börnin geta svo auðveldlega týnst í öllu umstanginu. Stressið getur breyst í streitu sem svo brýst úr í gremju til fjölskyldunnar og þá snúast jólin og aðventan upp í andhverfu sína.

Við viljum öll eiga gleðilega aðventu og til þess að geta það þurfum við kannski að láta smáatriðin fjúka út í veður og vind og einbeita okkur að því sem skiptir reglulega máli. Og við getum áreiðanlega verið sammála um það þegar öllu er á botninn hvolft að það eru okkar nánustu sem skipta mestu og jafnvel öllu máli.