Hver dæmir leikinn?

Hver dæmir leikinn?

Hvenær kemur Kristur? Sumir telja sig geta reiknað út þann dag og aðrir segja að hann komi aldrei. Báðir þessir hópar hafa rangt fyrir sér. . .

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Manstu hvað tíminn var lengi að líða á bernsku- og unglingsárunum þegar þú varst að bíða eftir því að verða eldri, bíða eftir fermingunni, bílprófinu eða öðrum áfanga í lífinu? Þá leið tíminn eins og seigfljótandi hraun en nú er engu líkara en hann sé sjúkrabíll í útkalli.

Tíminn er furðulegt fyrirbrigði. Enda þótt hann sé mælanlegur og stærðir hans þekktar, þ.e.a.s. tíminn sem á grísku er kronos, hinn mælanlegi tími, getur afstaða okkar gert sömu tímaeiningu ýmist langa eða stutta.

Jesús talaði um endalok og endurkomu Mannssonarins og það kemur víða fram í Nýja textamentinu. Guðspjall dagsins er á þeim nótum. Hann talar í dag um reiðubúna þjóninn sem er alltaf á tánum og lætur ekki deigan síga, veit hvað til síns friðar heyrir og er þess albúinn að mæta hverjum degi, hverri stund, hverju andartaki. Hann er ávallt viðbúinn, eins og skátarnir sem nú fagna 100 ára afmæli hreyfingar sinnar með stórmóti á Bretlandseyjum.

En svo er það hinn þjónninn sem er kærulaus og lemur samstarfsfólk sitt, dettur í það og lætur sem ábyrgð hans sé engin. Hans bíða hræðileg örlög. Það er engin tæpitunga sem Jesús mælir á í guðspjalli dagsins. Það er afgerandi boðskapur. Og hann talaði gjarnan þannig til þess að skerpa boðskap sinn.

Já, hinn kærulausi þjónn.

Og nú er verslunarmannahelgin og loksins fær verslunarfólk frí á mogun, vonandi flest í landinu. Verslunarmen eru kannski sú stétt sem mest er þrælkuð í landinu. Eru þá verslunareigendur hinn kærulausi þjónn eða erum við hinn kærulausi þjónn sem alltaf þarf að vera að versla, alltaf þarf að fara í búðir og leyfir verslunarfólki aldrei að hvílast. Látum það nú liggja á milli hluta.

Þetta er ein af þessum afgerandi sögum þar sem skörp skil eru milli feigs og ófeigs. Er lífið þannig? Verður okkur skipt upp í hópa trúrra og ótrúrra þjóna, erum við annað hvort sauðir eða hafrar, hólpin eða glötuð? Ekki er það að sjá á þjóðfélaginu að það sé þjakað af áhyggjum um örlög sín, allra síst nú um verslunarmannahelgina! Páll postuli ræðir ítarlega um upprisutrúna í Fyrra Korintubréfi, 15. kafla, og segir þar m.a.: „Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!“ (I Kor 15.32) Þetta vers gæti hugsanlega verið yfirskrift einhverra sem nú sækja útihátíðir! Er kristindómurinn þar með á móti allri lífsgleði og glaumi? Nei, öðru nær, en hann boðar hófsemi og sókn í það sem gefur sanna gleði og lífsfyllingu. Eru ekki flestar hátíðir ársins kristnar að inntaki og uppruna? Kristin trú hefur síður en svo á móti lífsgleði. Líf Jesú í öllum þeim veislum sem hann sótti segir okkur að lífið eigi að vera skemmtilegt enda þótt það sé einnig blandað alvöru og yfirvegun. Og meira að segja Páll postuli sem sumir telja hafa verið íhaldskurf og afturhaldssegg, sem aldrei skemmti sér, sagði þó á einum stað: „Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt, en ekki byggir allt upp.“ (I Kor 10.23) Og þannig setur hann ábyrðina á manninn og við veðum sjálf að vinna úr því. Lífið er þá, samkvæmt þessum vangaveltum og tilvitnunum í helga bók, eins konar jafnvægislist, sem felst í því að njóta og gleðjast innan vissra marka, gera sér glaðan dag og leika sér, en vera sér þess ávallt meðvitandi, að hvert og eitt okkar er ábyrgt fyrir lífi sínu, sem tekur enda í fyllingu tímans, þegar við verðum að mæta skapara okkar á efsta degi.

Gott og vel, kunnum við að segja. Við vitum að eitt sinn verða allir menn að deyja. Ekkert er eins öruggt í lífinu og sú staðreynd. Og flestir lifandi menn hafa líklega einhverja vitund um að dauðinn hafi í sér fólgið einhvers konar uppgjör. En hvernig eigum við þá að skilja endurkomu Krists? Hver er húsbóndinn í guðspjalli dagsins sem kemur óvænt og vitjar síns heima?

Menn hafa skipst á skoðunum um það í fjölmiðlum hvort Jesús hafi verið dómsdagsspámaður. Víst er að hann talaði oft um endalok. Hann talaði um komu Mannssonarins í mætti og dýrð, enda þótt ekki liggi fyrir í beinum orðum að hann kenni sjálfan sig við Mannssoninn. Frumkirkjan gerði það hins vegar og leit svo á, eins og kirkjan gerir enn, að Kristur sé sá sem kemur og gerir allt upp. Allar, hinar stóru, kristnu, kirkjudeildir taka undir hina postullegu trúarjátningu og segja að hann muni koma aftur „að dæma lifendur og dauða.“

Drottinstign Krists hefur í sér fólgna vídd endaloka þessa heims og dregur fram í dagsljósið að heimurinn byltir sér enn og brýst um í spennunni milli þess sem er og þess sem fyrirheit trúarinnar um framtíðina fela í sér. Dýrð Krists og eymd heimsins mynda skarpar andstæður. Vonin um nýjan heim, vonin sem fæddist á páskum hefur ekki enn raungerst í sögunni. Vonin um nýtt mannkyn og nýjan heim bíður enn framtíðarinnar þegar sigur Krists yfir óvinum hans – synd, dauða og djöfli – verður að veruleika í fyllingu sinni. Frumkristnin tjáði þessa von um lokasigur í tákninu um endurkomu hins upprisna Drottins til þess að uppfylla ríki Guðs sem Jesús boðaði á jarðvistardögum sínum. Myndin af Jesú sem kemur í skýjum himinsins eins og hann yfirgaf jörðina forðum í uppstigningu sinni, ber ekki að taka bókstaflega. Samt sem áður vísar þetta tákn og líking til þess að veröldin þurfi að horfast í augu við dóm og að hinn jarðneski Jesús sé opinberun hins endanlega staðals og viðmiða sem heimurinn verði dæmdur eftir. Og takið vel eftir þessu. Það verður allt borið saman við líf Jesú Krists. Hann er staðallinn. Enginn kemst undan því að verða dæmdur, veginn og metinn, í samanburði við það líf sem Jesús birti í kærleiksþjónustu sinni. Vonin um endurkomu Krists í dýrð er okkur dagskýr áminning um að lífinu sé stefnt til dóms og endanlegrar ábyrðar. Jesús er sá Drottinn sem dæmir í umboði Guðs. Hins vegar mæta kristnir menn þessum dómi í von – við mætum þessum dómi í von - hvað þá sjálfa varðar og veröldina alla því hinn endanlegi dómari er enginn annar en Jesús, sem birti hinn algjöra kærleika og miskunn Guðs. Ef við spyrjum hvers vegna Jesús sé hinn endanlegi dómari, er svarið fólgið í því að hann hafi verið kjarni eða essence þess sem felst í því að vera sönn manneskja. Fullkominn maður og fullkominn Guð. Mannkynið verður ekki dæmt eftir framandi lögum sem eiga ekkert skylt við mennsku þessa heims. Jesús er endanleg birtingarmynd innsta eðlis mannkyns framtíðarinnar. Endurkomu Krists í dýrð er beðið í þeirri von að þá verði mennska mannkyns og uppfylling vona heimsins að veruleika þegar allt mætir dómi og þeirri eilífð þar sem Guð er og verður allt í öllu.

Húsbóndinn kemur og hann hefur í hendi sér sveig réttlætisins, sigurkórónu þá, sem við vorum minnt á við ferminguna með orðunum: Vertu trú/r allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu.

Það er sterk áhersla í trú Mótmælenda, ábyrgð kristinna manna á lífinu, ábyrgð og ráðsmennskuvitund. Sálmurinn sem við sungum hér áðan eftir Jón Helgason, biskup, ber þessari trú einmitt vott. Það hefur stundum verið talað um að Mótmælendur hafi náð svo langt í efnahagslegu tilliti og skapað svo mikla velsæld vegna þessarar djúpu ábyrgðar sem kirkjan hefur boðað svo lengi. Og félagsfræðingar og heimsfrægir fræðimenn hafa talað um þetta siðferði Mótmælenda eða vinnusiðfræði Mótmælenda.

Við erum kölluð til þess að vera trú, bera ábyrgð á lífinu, ábyrgð á náunga okkar. Og það er einmitt það sem við þurfu að kalla fram í meira mæli í þjóðfélaginu í dag. Ég er ekki einn um það að finnast margt vera eins og að molna í sundur, eins og að grunnurinn og grunngildin séu komin á flot og að þjóðfélagið stefni á hættubraut. Hvernig getum við tekið í taumana? Hvernig getum við boðað kristna trú sem trú vonar og gleði og hamingju? Hvernig getum við komið því til skila að hið sanna líf er fólgið í því að vera ábyrg manneskja og njóta lífsins í jafnvægi?

Hvenær kemur Kristur? Sumir telja sig geta reiknað út þann dag og aðrir segja að hann komi aldrei. Báðir þessir hópar hafa rangt fyrir sér. Hann kemur aftur! Við vitum ekki daginn né stundina. Guð einn veit hvenær, Guð sem er kærleiksríkur, miskunnsamur og fullkomlega réttlátur. Þess vegna bíðum við óttalaus í trú og í eftirvæntingu hinnar sælu vonar um að hann komi aftur og fullkomni ríki sitt.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju:

Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú, Drottni vorum og frelsara. Amen.

Stuðst við I. Howard Marshall, Braaten/Jenson og Regin Prenter.