Gleðin í himnunum

Gleðin í himnunum

Segðu mér yfir hverju þú gleðst og ég veit, hver þú ert. Hjartað birtist í brosi þínu, sálin í hlátri þínum, innrætið í nautn þinni. Orð geta logið, orð geta hulið það, sem innifyrir býr. En augun koma upp um ánægju þína og segja til þín. Hvað vekur þér gleði, af hverju hefurðu yndi?

Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.

Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Hann sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn. Lúk. 15, 11-32

Í þremur samstæðum dæmisögum (Lúk. 15, 3-32) talar Jesús um gleði, gleði himinsins, gleði Guðs. Sagan um glataða soninn, sem svo er löngum nefnd, er síðust þeirra.

Segðu mér yfir hverju þú gleðst og ég veit, hver þú ert.

Hjartað birtist í brosi þínu, sálin í hlátri þínum, innrætið í nautn þinni. Orð geta logið, orð geta hulið það, sem innifyrir býr. En augun koma upp um ánægju þína og segja til þín. Hvað vekur þér gleði, af hverju hefurðu yndi?

Svarið við þessu myndi sýna, hver gerð þín er, hugarfar, hjartalag.

Hvernig er Guð?

Þú getur eins spurt: Hvað gleður Guð?

Svarið er hér: Hann gleðst, þegar vegvillt, særð og flekkuð mannssál nálgast hann, hann gleðst, þegar syndari snýr sér, hann gleðst, þegar ég, þegar þú hugsar til hans, leitar til hans, finnur hann, þiggur það að vera heima hjá honum. Þannig er Guð, Drottinn himnanna, almáttugur Guð.

I

Alltaf hafa menn gjört sér hugmyndir um Guð. Allir gjöra sér einhverjar hugmyndir um hann. Jafnvel þeir, sem segjast ekki trúa, að neinn Guð sé til, komast samt ekki hjá því að hugsa öðru hverju um valdið og máttinn á bak við heiminn og lífið. Og þeir komast vart hjá því að undrast þann ægimátt.

Þú varst einu sinni barn og kunnir ævintýri um konunga og dísir og öll dýrindi þeirra, hallir og kunnustu.

Og Guð var yfirmáta voldugur konungur og fjarska ríkur. Höllin hans greypt gimsteinum stjarnanna, skreytt bragandi norðurljósum, lýst sólunni sjálfri. Hvílíkt vald, hvílík tign og dýrð!

Þú brosir að hugmyndum barnsins. En hafirðu glatað hæfi­leik­anum til þess að undrast hátign og ríkidæmi þess Guðs, sem allt hefur gjört og öllu stýrir, þá hefurðu ekki vaxið, þá ertu orð­inn átakanlega smár.

Vér ættum oftar að hugsa um dýrð almáttugs skapara him­ins og jarðar og ægilegt veldi hans. Horfa í himinhvolfið, stjörn­um stráð, og minnast þess máttar, sem stýrir þessum stjarnaher. Hlusta á stormgný eða brimöldusog og hugleiða, hvílíkir kraftar það eru, sem hann hefur í taumi. Hlusta út í öræfakyrrð og hugsa um leyndardóm hans, sem hylst í öllu, er á bak við allt og ofar öllu. Lúta að litlu blómi og minnast þeirrar handar, sem óf slíkt skrúð.

Nú brosir nóttlaust, íslenskt vor. Leistu út í nótt? Sástu skýin í suðri, mettuð mildu frjóregni, gyrt gildum friðarboga annars vegar, stöfuð sólargeislum hins vegar? Sástu Flóann silfri sleginn og Akrafjall gulli, Esju búna öllum þeim litbrigðum, sem augað nær að greina? „Sá er hagur, sem það kunni að smíða“. Og það, sem þú megnar að greina, er ekki annað en öreindarblik af undri alheimsins. Vísindin geta veitt þér nokkurt hugboð um það, hve skammt skyn þitt nær og hvað undrið er margfalt miklu meira en sýnist.

En hvað vitum vér svo meira um völundinn mikla en það, hversu máttur hans er takmarkalaus og skapandi hugvit? Eru und­ur og dásemdir alheimsins annað en dægradvöl hulins ægi­mátt­ar í fjarlægum himni? Erum vér menn annað en skúm í útskotum glæstrar hallar, sem smiðurinn voldugi hefur reist og prýtt sér til afþreyingar í langri eilífð?

Vér ættum ekkert svar við þessum stóru spurningum, ef Guð hefði ekki gefið oss það, ef vér hefðum ekki átt einn vor á meðal, sem var sendur frá sjálfum Guði til þess að sýna oss, hvernig hann er. Einn, sem var ljómi Guðs dýrðar og ímynd veru hans, – ekki aðeins dulrætt, fjarlægt endurskin Guðs dýrðar og máttar, eins og náttúran, ekki tvírætt letur ósýnilegrar handar, heldur Orðið, hugur Guðs holdi klæddur, Guðs sonur, Jesús, góði hirðirinn.

Hann sagði oss frá gleði Guðs, sýndi oss gleði Guðs.

Vér vitum, yfir hverju Jesús gladdist sjálfur. Hann gladdist yfir skrúði jarðar, en einkum vegna þess, að hann gat bent á það til þess að minna á, að Guði er annt um mennina: Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, hví skylduð þér þá vera áhyggjufullir?

Hann naut þess að heyra fuglana syngja, en honum var ríkast í huga að segja frá því, að enginn þeirra félli til jarðar án þess að Guð fylgdist með þeim og að mennirnir væru samt dýrmætari í augum hans.

Og hinn mikli, djúpi fögnuður frelsarans var að sjá syndara nálgast sig, finna týndan, reisa fallinn. Unaður hans var að geta sagt: Syndir þínar eru fyrirgefnar. Þú skalt vera með mér í Paradís.

Hann sýndi oss Guð: Hver sem sér mig, sér föðurinn.

II

Þegar vér vitum, hvað það er, sem vekur einhverjum gleði, þá förum vér og nærri um það, hvað getur hryggt hann.

Gleðin, sem guðspjöllin tala um, birtist á bakgrunni mikillar áhyggju, mikillar hryggðar.

Það verður gleði í himnunum yfir einum syndara, sem snýr við.

En yfir þeim, sem snýr ekki við?

Sorg himnanna, harmur Guðs.

Má kveða svo að orði? Er Guð þá ekki sæll, hinn ríki, voldugi konungur alheimsins? Nei, ekki á meðan þú ert ekki sæll, ekki á meðan hann vantar þig, ekki á meðan hann, Guð þinn og faðir, er þér ekki annað en nafn, óljós grunur, reikul þrá – á meðan er Guð hryggur, hryggur yfir þér.

Það er fylgst með þér úr himnunum.

Mennina skiptir svo litlu, hvernig leið þín liggur, hver afdrif þín verða, hvernig líf þitt fer.

Það skiptir Guð svo miklu. Því að Guð elskar. Hann er hirðir­inn, sem finnst hann missa allt, ef hann missir einn. Hann er faðirinn, sem aldrei getur gleymt barninu, sem fór burt.

Hann getur skapað milljónir sólna í stað einnar, sem slokknar. Gæti hann ekki skapað þúsundir engla í stað eins manns, eins vesalings, eins syndara, sem villist, hrapar, tapast, ferst?

Hvað er ein manneskja? Fljót eru spor hennar að hverfa, hvar sem hún gekk, fljót er hún að gleymast. Það er enda orðið lítið handarvik að afmá milljónir á andartaki. Og heimurinn gengur sinn gang eftir sem áður.

Vér erum sem skuggar, er líða yfir veginn, sem fis, er fýkur fyrir skjáinn. Einu færra eða fleira, hverju skiptir það?

Það skiptir Guð.

Ég, skugginn, fisið, skúmið, minna en ekki neitt í mergð millj­ónanna, margfaldlega minna en ekki neitt í geimi stjarnanna, fyrir fáum árum ekki til, eftir fáein ár gleymdur, eins og ég hefði aldrei verið til —það er grátið yfir mér í himnunum, ef ég týnist, það er glaðst yfir mér í himnunum, ef ég finnst.

Það er svo margt óskiljanlegt í Biblíunni, segja menn, og því sé svo erfitt að trúa. Hér er það, sem mér finnst óskiljanlegt í Biblíunni, lengst frá því að vera skiljanlegt af öllu, sem ég hef kynnst. Og að geta orð­ið viss um þetta, það er ekki skilningsatriði, heldur það bless­aða undur Guðs, sem heitir trú. Sá, sem hefur fengið hugboð um, hvað í því undri felst af náð, er ekki framar að gera sig merkilegan á kostnað Biblíunnar og kirkjunnar. Hann er þakklátari en svo fyrir það að mega vita, að hið undursamlegasta er satt, að Guð er slíkur, sem Jesús Kristur birti hann, í orði sínu, lífi og dauða, að Jesús Kristur er slíkur, sem kirkjan hefur vitnað um hann í lærdómum sínum og boðskap.

III

Dæmisagan um glataða soninn þykir flestum fögur.

En henni var aldrei ætlað það eitt að njóta aðdáunar sakir fegurðar. Hún átti fyrst og fremst að gefa blindum sýn, láta þá sjá áhyggju Guðs og gleði, elsku Guðs, láta þá sjá sjálfa sig í sporum glataðs sonar, glataðs barns.

Menn þurfa ekki að hafa lent á glapstigum til þess, ekki að hafa setið að svínadrafi. Sagan var ekki aðeins sögð opinberum stórsyndurum. Hún var öllu fremur töluð til farisea og skrift­lærðra, manna, sem í ytra vammleysi og trúrækni voru langt fyrir ofan meðallag.

Jesús ætlaði öllum að sjá sjálfa sig sömu augum og hann sá þá. Hann sagðist vera kominn til þess að leita hins týnda og frelsa það. Hverra leitaði hann ekki? Hann leitaði allra, vildi frelsa alla. Allir voru týndir í augum hans, frávilltir. Vér sjáum mannkynið í mynd hinna tveggja bræðra.

Guð er faðirinn, vér börnin hans. Og vér höfum syndgað fyrir honum, vér erum sek við hann.

Þú mátt ekki gleyma því, að bræðurnir eru tveir í sögunni. Hún er ekki um einn glataðan son, heldur tvo.

Annar var alltaf heima. En stundum getur verið langt á milli þeirra, sem lifa undir sama þaki. Hann var heima, barn í föður­garði, ár eftir ár. Og færðist sífellt fjær föður sínum. Það sást, þegar faðirinn lifði mestu gleðistund lífs síns: Sonurinn átti enga hlutdeild í gleði hans, þvert á móti. Hann þarfnaðist þessar­ar blíðu en sáru áminningar: Sonur minn, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. Veistu ekki, hvers þú nýtur?

Hjá föður sínum og þó ekki hjá honum – lokaður, kaldur. Ekkert er sárara en að missa barnið sitt þannig.

Myndi Guð ekki eiga slík börn?

Heima – og þó ekki heima.

Ekki svallfengin börn, ekki léttúðug, ekki lostug, ekki óráð­vönd, jafnvel ekki dómsjúk, og þó svo langt frá því að lifa í vitundinni: Alltaf hjá Guði, þiggjandi allt úr hendi hans, honum skuldug um allt, þurfandi fyrirgefningar hans og náðar. Svo langt frá því að finna til þakklætis yfir því að vera til, eiga Guð að föður, eiga Krist að bróður. Því að Guð er þeim enginn veruleiki, þau eru í engu sambandi við hann, eiga enga hlutdeild í harmi hans, taka engan þátt í gleði hans.

Bræðurnir tveir eru bræður vorir.

Þeir eignuðust báðir úrslitastund, urðu báðir að gjöra sér ljóst, að um það var að tefla, hvort þeir ættu að lifa áfram í útlegð frá föður sínum, sinni útlegðinni hvor, eða hverfa til hans. Ann­ar vakn­aði við það, að hann var kominn í ógöngur. Hljóðlát áminn­ing um leynda synd stjakaði við hinum. Hvort tveggja gerist, þegar Guð er í föðurkærleika sínum að leita að oss, týndum börnum.

Nú lifum vér þessa náðarstund til þess að spurningin vakni hið innra með oss, bergmál af áhyggju föðurins: Hvar ertu, barnið mitt, hvar ertu staddur? Ertu á leiðinni heim? Ertu hjá mér þótt þú sért heima?

Eitt hef ég til marks, ef þessi spurning vaknar í alvöru: Á ég hlutdeild í hryggð og gleði Guðs? Er ég glaður yfir því, sem gleð­ur hann? Hef ég viðbjóð á því, sem hryggir hann? Er mér það gleði að verða öðrum til hjálpar, vita menn komast til trúar, vitna „um hans kærleik, um hans dæmi, um hans lífgun dauðum frá“? Jesús hefur sagt þér frá gleði Guðs. Hann sýndi þér einnig sorg hans. Krossinn er skuggsjá hennar. Sagan um glataða soninn birtir ekki sannleik sinn til fulls nema í skugga krossins. Þar sérðu gleggst, að sagan er einnig um þig. Og þú lofar Guð fyrir fullkomna soninn, sem gjörðist bróðir glataðra og fórnaði sér til þess að hjálpa þér heim.

Þessi prédikun birtist í bókinni Meðan þín náð. Ræður á helgum og hátíðum (Skálholtsútgáfan, Reykjavík 2006)