Kraftaverkagöngur

Kraftaverkagöngur

Þessar kraftaverkagöngur er okkur hugstæðar og ekki verður hjá því komist að bera þær saman við göngu Krists á vatninu.

Atburður sá sem við heyrðum af í guðspjalli dagins er með þeim þekktari í Biblíusögunni. Flestir þeir sem á annað borð hafa einhverjar spurnir haft af Jesú frá Nazaret ættu að kannast við frásögnina af því þegar hann gekk á vatni. Svo mjög, reyndar, að til er eðlutegund ein í Suður Ameríku sem kennd er við Jesú Krist. Hvað skyldi búa að baki þeirri nafngift? Jú, hún kann á einhvern undraverðan hátt að stikla eftir yfirborði vatnsins, svo það ber ekki á öðru en að hún geti leikið það eftir að ganga á vatni. Það þarf ekki meira til! Það vekur athygli sem er óvenjulegt, stendur upp úr. Og svo sannarlega á það við um þessa sögu sem við hlýddum á hér.

Kraftaverkasögur

Þegar við hugleiðum guðspjöll og aðrar frásagnir Biblíunnar er von að við spyrjum okkur: hvers vegna? Hvað veldur því að þessi tiltekni atburður rataði á síður Ritningarinnar, af hverju vilja skrásetjararnir, sem í þessu er guðspjallamaðurinn Mattheus, deila því með okkur að frelsarinn hafi þarna getað sigrast á lögmálum náttúru og eðlisþyngdar og stikað eftir vatninu?

Kraftaverkasögur fylgja ákveðnu mynstri. Jafnan hefjast þær á því að það er einhver ógn eða vandamál sem sækir að og ráðaleysi þeirra sem ættu að geta brugðist við.

Jesús knúði lærisveinana til að fara um borð í bátinn frá fólkinu sem hann sendi heim til sín að nýju. Sjálfur fór hann afsíðis upp á fjallið til að biðjast fyrir að nýju. Báturinn sem lærisveinarnir voru á, var þarna mitt í öldurótinu. Sagan minnir á frásögnina í áttunda kafla þessa sama guðspjalls þegar brotsjórinn gekk yfir bátinn og Jesús svaf. Nú var hann ekki með þeim um borð. En hann birtist á vatninu eins og vofa og hann kynnti sig með sérstökum hætti.

Áheyrendur Mattheusar voru gyðingar og þegar Jesús svaraði spurningu lærisveinana, með orðunum: „Það er ég” þá var það í raun orðið sem þeir notuðu yfir Jahve. Merkingin er í raun sú sama: „Ég er”. Og þeir hafa vafalítið séð hann í hlutverki Móse er hann upp á fjallið og bar ábyrgð á hópnum sem, rétt eins og í eyðmerkurgöngu Ísraelsmanna.

Hér er það efi og sálarangist lærisveinsins Péturs sem kraftaverkið hverfist um. Hann mætir Jesú úti á vatninu í mótbyrnum en svo fyllist hann örvæntingu og þá tekur hann að sökkva. „Trúlitli maður, hví efaðist þú?” Spyr Jesús og við getum hvert og eitt svarað fyrir hönd Péturs: „Það brýtur öll lögmál eðlisfræði og efnisheims að menn geti gengið á vatni – tja nema það sé frosið”. Þess vegna efaðist ég.

Við þurfum ekki að vera uppi á 21. öldinni til að taka undir með efasemdum Péturs og draga það stórlega í efa að nokkurn tímann hafi slíkur atburður átt sér stað. Þetta er furða og fjarstæða í augum allra manna á öllum tímum.

Og þá verður boðskapur Biblíunnar til okkar í dag sá að trúin flytur fjöll og flytur fólk jafnvel eftir yfirborði vatns. Jesús sendir okkur þann boðskap að láta ekki hugfallast. Gefast ekki upp á raunum okkar og mótlæti hvernig sem aðstæðurnar kunna að vera. En sú túlkun nær aðeins þó ekki að fanga nema hluta þess boðskapar sem okkur er hér fluttur.

Ekkert í heiminum stöðugt

Áheyrendur á fyrstu öld voru líklegir til að staðnæmast við þætti sem við kynnum að leiða hjá okkur. Hafið er sjálf óreiðan, óskapnaðurinn í hinu biblíulega samhengi. Hinn biblíutrúi Jón Vídalín reri sem ungur maður út frá Vestmannaeyjum og hann lýsir hafinu með þessum orðum:

Sjórinn er ein óstöðug höfuðskepna. Þegar hann er sem blíðastur veit ekki fyrri til á stundum en hann umhverfist nærri í augnarbliki og rís fjöllunum hærra. Svo er og ekkert í heiminum staðfast.

Hér er hættan allt um kring og við sjáum að lærisveinunum er stefnt beint í mótbyrinn. Þetta er mótlætið sem átti eftir að bíða þeirra og auðvitað okkar allra. Jesús kallar á lærisveinana en hann beinir þeim ekki frá storminum heldur þvert á móti, hann sendir þá út í bátana.

Vanmáttur þeirra er alger en kraftaverkin gerast. Þótt þessar kraftaverkafrásagnir leiði til góðra lykta stendur engu að síður eftir í huga okkar sú staðreynd að þarna eru hrakningamenn á ferð. Já, hvert er erindið? Er ekki ólgandi hafið allt um kring, sjálf illskan, óréttlætið og hörmungar þessa heims?

Boðskapurinn hlýtur að vera sá, að Drottinn hlífir sínum ekki við þessum veruleika. Við erum ekki numin á brott úr föllnum heimi þjáninga og böls. Skelfilegir atburðir henda að sönnu saklaust fólk, í öllu því óréttlæti sem mætir okkur stundum í lífinu.

Við þekkjum þennan vanmátt sjálf og undanfarið hefur hann sannarlega minnt á sig. Myndin af Birnu Brjánsdóttur er greypt í hjarta okkar og áköll okkar hafa engu um það breytt þeirri atburðarrás sem orðin var. Já, ekkert er í heiminum staðfast.

Kraftaverkin leysa ekki úr hverjum vanda. Þá eru þau ekki kraftaverk. En slík kraftaverk eiga sér stað með öðrum hætti en við mögulega gætum átt von á.

Kraftaverkagöngur

Ganga Jesú á vatninu minnir mögulega á aðrar kraftaverkagöngur sem standa okkur miklu nær í tíma. Við höfum fylgst með því ósérhlífna og kærleiksríka fólki sem skipar björgunarsveitir þessa lands halda í leiðangur eftir leiðangur í leit að henni Birnu. Vonin var aldrei mikil og eftir því sem leið á þann tíma sem hennar var saknað fundum við það á okkur að litlar sem engar líkur væru á að hún fyndist á lífi.

En kraftaverkagangan hélt þó áfram. Þúsundur kílómetra voru arkaðir í gegnum hraun og ófærur, í fjörum, vaðið var út í vötn, kafað undir yfirborð sjávar, flogið um loftin. Kom aldrei annað til greina en að halda leitinni áfram. Og svo þegar hún fannst var sorgin að sönnu þrúgandi og vanmátturinn alger gagnvart því sem ekki varð breytt. En í myrkrinu skein þó það ljós sem á sér upptök í kærleiksríkum hjörtum.

Og í gær söfnuðust þúsundir saman í miðbænum í annarri göngu sem að sönnu miðlaði þeim krafti sem við trúum að sé hverju böli yfirsterkari – sjálfum kærleikanum.

Þessar kraftaverkagöngur er okkur hugstæðar og ekki verður hjá því komist að bera þær saman við göngu Krists á vatninu. Stormana þekkjum við bæði af völdum náttúru og manna. Það er eins og hér sé áminning til okkar dauðlegra manna að láta ekki bugast þegar þeir berja á okkur svo að okkur verður vart stætt. Nú eða þegar við finnum hvernig við, eins og sökkvum ofan í kalt djúpið, sliguð undan áhyggjum, sorg, ótta og finnst sem þar sé engin betri fótfesta á þeim stað sem við stöndum en á yfirborði vatnsins sem umlykur okkur á alla kanta.

Þá stendur eftir sá sannleikur sem talar til okkar í gegnum allar furður þær sem Ritningin hefur að geyma, að valið er að endingu okkar. Dimman eða ljósið, óttinn eða kjarkurinn, vonleysið eða vonin – við þurfum alltaf að velja. Það er erindi okkar og ef val okkar byggir á trú, von og kærleika, þá höfum við að sönnu valið góða kostinn.

Þess vegna tala orðin, sem Kristur mælti til Péturs, til okkar í dag. Ekki óttast, við sem höfum svo litla trú. Haldið áfram göngu þinni í ölduróti lífsins og ver staðföst. Tilgangur kristins manns er ekki sá að finna þá leið sem hlífir honum við heiminum í allri sinni grimmd. Nei, hann sigrar illt með góðu og með því verður líf okkar allra á köflu kraftaverkaganga sem stendur ofar hverju því böli sem við okkur blasir.