Afstaða bernskunnar

Afstaða bernskunnar

Jesús var sannarlega ekki nútímamaður og viðvörun hins franska sagnfræðings á því við um lestur á guðspjöllum Nýja testamentisins en það er engin tilviljun að afstaða Jesú til barna, sem gengur þvert á samtíma sinn og menningu, rímar við vestræna hugsun um réttindi barna. Vestrænar hugmyndir um börn og barnæsku byggja á kristnum grunni og róttæk afstaða Jesú til bernskunnar hefur mótað hugmyndir okkar á þann hátt að við teljum hana sjálfsagða í dag.

Í guðspjalli dagsins birtist Jesús okkur sem 12 ára unglingur og þessi frásögn er eina barnæskufrásögn Nýja testamentisins, að utanskildu jólaguðspjallinu. Sagan er að mörgu leiti dýrmæt en hún birtir með áþreifanlegum hætti bernsku Jesú og foreldrakærleika Maríu og Jósefs. Fjölskyldan er á ferðalagi til höfuðborgarinnar yfir páska og þegar kemur að heimför kemur í ljós að Jesús er horfinn, án þess að segja foreldrum sínum hvert hann ætlaði. Foreldrarnir leita hans í ofvæni í þrjá daga og finna hann loks í musterinu þar sem hann sat meðal prestanna og guðfræðinganna að ræða trúmál. Reiði Maríu og Jósefs er þrunginn foreldrakærleik, þegar María spyr son sinn ,,Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin” og svar Jesú birtir skilningsleysi barns á hættum höfuðborgarinnar þegar hann svarar kotroskinn: ,,Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?”.

Guðspjallinu er að sjálfsögðu ætlað að sveipa barnæsku Jesú helgiljóma og undirstrika guðlegt feðerni hans og visku en þau samskipti foreldra og barns sem sagan birtir eru hinsvegar algjörlega trúverðug og kunnugleg. Guðspjallamaðurinn lýkur frásögninni á því að árétta að Jesús hafi verið þægt barn og að Jesús hafi þroskast að visku og vexti upp frá þessu.

Bernskan gegnir lykilhlutverki í boðskap Nýja testamentisins og í boðun Jesú: Ritsafnið hefst á því að Guð kemur í heiminn með fæðingu Jesú á hinum fyrstu jólum og Jesús bendir ítrekað í boðun sinni á börn og bernskuna sem lykilinn að því að skilja guðsríkið og öðlast leyndardóm lífshamingjunnar. Það er því eðlilegt að fylgjendur hans hafi verið forvitnir um bernsku Jesú og þó þessi frásögn standi ein í Nýja testamentinu eru varðveitt frá fyrstu öldum kristindómsins ein sjö rit sem helguð eru barnæsku hans og fjölskyldu. Fæst þessara rita varpa ljósi á hinn sögulega Jesú en öll bera þau vitni um mikilvægi bernskunnar í kristinni hugsun og innihalda margar skemmtilegar helgisagnir af bernskubrekum hans.

Nútímahugmyndir um bernsku eru okkur svo sjálfsagðar að það þykir nær óhugsandi að hugmyndir um börn hafi breyst mikið í gegnum aldirnar, en franski sagnfræðingurinn Philippe Ariés hefur varanlega kollvarpað þeirri hugmynd. Í byrjun sjöunda áratugarins gaf hann út bók (Centuries of Childhood: A Social history of Family Life, ensk þýðing 1962) sem skoðaði sögulegar heimildir um börn í gegnum aldirnar, með áherslu á miðaldir, og setti fram þá kenningu að hugmyndin um barnæsku væri nútímasköpun og félagslegt fyrirbæri. Fyrir lok miðalda hafi menn fyrst og fremst litið á börn sem ófullvaxta fullorðna og hafi ekki séð ástæðu til að vernda þau frá samfélagi fullorðinna á sama hátt og nútíminn gerir. Félags- og hugvísindafólk hefur tekist á um kenningu Ariés allar götur síðan en eftir stendur sú viðvörun að ekki er hægt að yfirfæra nútímahugmyndir yfir á forna tíma.

Í trúarhugsun Gamla testamentisins eru barneignir álitnar blessun Guðs og eilífa lífið byggir á getunni til að eignast afkomendur og viðhalda styrk ættarinnar. Getan til að eignast börn er því gríðarlega mikilvæg í gyðinglegri hugsun og margar af dramatískustu sögum Biblíunnar fjalla um erfiðleika tengdum barnseignum eða vafamál er varða faðerni barna. Í spekibókmenntum Gamla testamentisins er fjallað um börn fyrst og fremst út frá uppeldisfræðilegu sjónarmiði og þau eru hvött til að gefa gaum að þeim sem fullorðin eru. ,,Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja” segir í Orðskviðum og kallast á við fimmta boðorðið um að heiðra föður sinn og móður. Öldungurinn hefur í hugsun spekibókmennta sérstöðu vegna lífsreynslu sinnar og hinum yngri ber að læra af reynslu hans til að farnast vel í lífinu.

Á tímum Jesú höfðu íbúar Rómverveldis nokkuð þverstæðukennda mynd af börnum. Annarsvegar voru börn þeim mikilvæg, forn bréf bera þess vitni að Foreldrar hafi elskað og metið börn sín og rómverskir hugsuðir voru meðvitaðir um mikilvægi þeirra sem erfingjar hins rómverska hernaðarhagkerfis. Hinsvegar var barnæska litin neikvæðum augum, sem ófullkomið ástand sem þurfti að vaxa upp úr sem fyrst, markmiðið var að verða fullveðja frjálsborinn rómverskur ríkisborgari en því náðu raunar einungis karlar af efri stéttum. Börn voru því álitin af lægri stétt og höfðu ekki réttindi í Rómarveldi, frekar en þrælar og ógiftar konar, og þegar börn sættu ofbeldi eða voru seld, gefin eða borin út voru engin viðurlög við því.

Sú mynd sem Jesús dregur upp af börnum og mikilvægi barna er því nokkuð frábrugðin hefðbundnum hugmyndum síns tíma. Börn koma víða fyrir í boðun hans og Jesús kollvarpar í reynd hugmyndum gyðingdóms í afstöðu sinni til barna, í stað þess að krefja börn um það að læra af þeim sem fullorðin eru krefur hann hina fullorðnu um að læra af börnum. Í þekktri frásögn þegar lærisveinar Jesú ætla að halda börnum frá honum tekur hann þau í faðm og segir ,,Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki.” (Mk 10.14) Líkt og í allri boðun hans eru það hinir smáu sem hafa augu til að greina guðsríkið og börn í valdleysi sínu og varnarleysi sjá guðsríkið á hátt sem fullorðnir geta ekki öllu jafna. Leiðin inn í ríki Guðs felst í boðun Jesú alltaf í því að leggja af, völdum, stolti, vitsmunahroka, hégómagirnd eða hverju því sem hindrar okkur í að upplifa auðmýkt í afstöðu okkar.

,,Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.” (Mk 10.15) Börn eru hvergi í gyðinglegri hefð gerð að fyrirmyndum fullorðinna og það eru engar þekktar hliðstæður í gyðinglegum ritum við þá hugsun að börn standi fullorðnum framar í umgengni við hið heilaga. Sú hugmynd gengur gegn grunnhugmyndum gyðingdóms um lögmálshlýðni sem forsendu þess að nálgast Guð en hún byggir á því að þekkja og skilja vilja Guðs. Í augum Rómverja er sú hugmynd ekki bara óhugsandi, hún er beinlínis móðgandi, og það þótti sérlega ljótt að vera líkt við barn eða kallaður barnalegur á einhvern hátt. Afstaða Jesú gagnvart bernskunni er því ögrandi og til þess fallin að vekja upp sterk viðbrögð hjá þeim sem á hlýddu.

Lærisveinar Jesú áttu í vanda með þessa afstöðu Jesú og það sést meðal annars á því að Jesús reiðist þeim í þessari sögu, en Jesús reiðist einungis tvisvar í frásögnum guðspjallanna. Í Matteusarguðspjalli er sagt frá því að lærisveinarnir hafi spurt Jesú hver sé mestur í himnaríki og þá ítrekar hann afstöðu sína; þar segir: ,,Jesús kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra og sagði: „Sannlega segi ég yður: Þér komist aldrei í himnaríki nema þér snúið við og verðið eins og börn. Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér.” (Mt. 18.2-5). Í þeirri list að varðveita einlægni og sakleysi bernskunnar fram á fullorðinsár er fólginn lykillinn að guðsríkinu með öllum þeim fyrirheitum sem því fylgir og sú mynd að í hverju barni sé fólgið frelsarinn sjálfur er yfirlýsing á mannréttindum barna og helgi bernskunnar.

Jesús var sannarlega ekki nútímamaður og viðvörun hins franska sagnfræðings á því við um lestur á guðspjöllum Nýja testamentisins en það er engin tilviljun að afstaða Jesú til barna, sem gengur þvert á samtíma sinn og menningu, rímar við vestræna hugsun um réttindi barna. Sýn hans og trú á helgi manneskjunnar og sú afstaða kristinnar trúar að börn eigi meðfæddan rétt til að mega lifa og þroskast hefur alið af sér mannréttindahugsjónir. Vestrænar hugmyndir um börn og barnæsku byggja á kristnum grunni og róttæk afstaða Jesú til bernskunnar hefur mótað hugmyndir okkar á þann hátt að við teljum hana sjálfsagða í dag. Bernskuna ber að vernda.

Árið 2005 gekk Þjóðkirkjan til liðs við Forsætisráðuneytið og Velferðarsjóð barna í átaki í uppeldismálum sem ber heitið Verndum bernskuna og gaf út í því samhengi 10 heilræði sem varða öll þau er vilja börnum heilt. Þau eru að: 1) Leyfa barninu að vera barn; 2) Þora að axla ábyrgð sem uppalendur; 3) Viðurkenna barnið eins og það er; 4) Vera til staðar fyrir barnið; 5) Muna að rækta okkur sjálf; 6) Hlífa barninu fyrir ónauðsynlegu áreiti; 7) Setja foreldrahlutverkið í forgang; 8) Veita frelsi - en setja mörk; 9) Vera barninu mikilvæg og loks að 10) Vernda bernskuna.

Þessi heilræði og þær útskýringar sem fylgja eru vönduð og viska þeirra varðar okkur sem fullorðin eru og sjáum mikilvægi þess að vernda bernsku okkar.

Guðspjall dagsins fjallar um bernskuna og spyr: Hvernig barn var Jesús? Svarið er samtímis hversdagslegt og hlaðið merkingu. Jesús var barn, sem líkt og öll börn þurfti vernd og umönnun og átti það til að valda foreldrum sínum áhyggjum, en samtímis einstök opinberun á eðli Guðs. Spurningin leiddi af sér fjölbreytt bókmenntaform bernskuguðspjalla og mótar til þessa dags afstöðu okkar til bernskunnar.